Ferill 154. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 154 . mál.


824. Nefndarálitum frv. til l. um tæknifrjóvgun.

Frá 1. minni hluta allsherjarnefndar.    Allsherjarnefnd hefur fjallað ítarlega um málið í kjölfar þeirra fjölmörgu umsagna sem bárust til nefndarinnar. Umsagnaraðilar og viðræðuaðilar eru taldir upp í nefndaráliti meiri hlutans og vísast til þess varðandi þær upplýsingar.
    Eins og fram kom hjá undirritaðri við 1. umræðu fögnum við kvennalistakonur framkomnu frumvarpi um tæknifrjóvgun, enda má rekja tilurð þess til þingsályktunartillögu kvennalistakvenna frá árinu 1989 sem samþykkt var á Alþingi. Ályktunin hljóðaði svo:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja hið fyrsta fyrir Alþingi frumvarp til laga um tæknifrjóvganir, m.a. að því er varðar réttarstöðu og tryggingamál þeirra er hlut eiga að máli.“
    Án löggjafar hefur tæknisæðing verið framkvæmd hér á landi frá árinu 1980, glasafrjóvgun frá árinu 1991 og árið 1992 voru lögfestar með barnalögunum reglur um faðerni barna sem getin eru með tæknifrjóvgun. Í greinargerð með frumvarpinu eru færð rök fyrir því að rétt sé að sett verði lög um tæknifrjóvgun og skýrar línur markaðar um ýmis atriði er varða framkvæmdina sjálfa, skilyrði sem þeir sem fá heimild til meðferðar þurfi að uppfylla, réttarstöðu barns o.fl. Um þetta var nefndin sammála eins og um flest meginatriði frumvarpsins.
    Fyrst og fremst var tekist á um tvö atriði í nefndinni. Annað atriðið varðar það hvort kynfrumugjafi eða kynfrumuþiggjandi geti krafist nafnleyndar og um leið útilokað að það barn, sem verður til, geti fengið vitneskju um líffræðilegan uppruna sinn við 18 ára aldur eða ekki. Hitt ágreiningsatriðið varðar það hverjir eigi rétt á tæknifrjóvgun, hvort rétt sé að frumvarpið sé fyrst og fremst viðbragð við ófrjósemi og því réttlætanlegt að hvorki sé tekið sérstaklega á stöðu samkynhneigðra né einhleypra kvenna.
    Kvennahreyfingin úti um allan heim hefur fylgst grannt með hvernig mismunandi ríki hafa tekið á þeirri tækni sem gerir tæknifrjóvgun mögulega. Umdeildasta atriðið í þessu sambandi er svokölluð staðgöngumæðrun sem samkvæmt þessu frumvarpi er óheimil. Staðgöngumæðrun, sem skilgreind er í 1. gr. frumvarpsins, vekur upp mjög margar siðfræðilegar og lagalegar spurningar, m.a. um það hver teljist vera móðir viðkomandi barns. Ef til koma greiðslur í slíkum tilvikum er rætt um leigumæðrun sem að mati 1. minni hluta er eitt svívirðilegasta birtingarform kvennakúgunar sem hægt er að hugsa sér. Því ber að fagna því sérstaklega að ekki kom til tals að heimila staðgöngumæðrun við þessa lagasetningu. Að öðru leyti skal bent á tvö kvennapólitísk meginsjónarmið:
    Annað sjónarmiðið er að með því að gera tæknifrjóvgun aðgengilega vaxi oft þrýstingur á barnlaust fólk að eignast börn og því sé erfiðara en ella að velja eða sætta sig við barnleysi. Því eyði margir dýrmætum tíma og fjármunum í aðgerðir sem oft bera ekki árangur og vonbrigðin vegna barnleysis verði sárari en ella. Því er mælt með að við ráðgjöf sé ávallt athugað að allir aðilar, sem æskja tæknifrjóvgunar, geri það óþvingaðir; að sjálfræði einstaklinganna sé virt.
    Hitt sjónarmiðið er að þessa nýju tækni beri að nota til þess að gera sem flestum sem þess óska mögulegt að eignast börn. Í því samhengi er ófullnægjandi að líta á tæknifrjóvgun eingöngu sem viðbragð við læknisfræðilegri ófrjósemi því að það útilokar að tekið sé á ófrjósemi einhleypra kvenna og samkynhneigðra kvenna.
    Í þriðja lagi má benda á að þótt ákveðin kvenfrelsisrök mæli með því að sem flestir fái aðgang að tæknisæðingu eða glasafrjóvgun geti þessi réttur kvenna eða foreldra varla talist æðri en sú skoðun að þessi börn hafi eins og önnur börn þörf fyrir og rétt á að fá að vita um líffræðilegan uppruna sinn og rétt á þroskavænlegum uppeldisskilyrðum. Þó að hvorki barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna né mannréttindasáttmáli Evrópu verði túlkaðir þannig að barnið eigi skýlausan rétt á að vita um uppruna sinn er ljóst að a.m.k. í þeim síðarnefnda hefur þessari kröfu ekki verið hafnað. Í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands er bent á að frá 1987 hafi átt sér stað ákveðin réttarþróun á túlkun mannréttindasamnings Evrópu um skyldu stjórnvalda til að veita barni upplýsingar um líffræðilegan uppruna sinn.
    Í ljósi þessara meginviðhorfa sótti undirrituð mjög fast að 4. gr. frumvarpsins yrði breytt í þá veru að nafnleynd verði aflétt til að þau börn, sem verða til við tæknifrjóvgun, geti fengið upplýsingar um líffræðilegan uppruna sinn við 18 ára aldur. Helstu mótrökin, sem fram komu gegn því að heimila tæknifrjóvganir eingöngu ef nafnleynd er aflétt, voru þau að erfitt yrði að fá kynfrumur, einkum sæði, ef nafnleynd yrði aflétt. Í nefndinni náðist fram málamiðlun sem birtist í breytingartillögum meiri hlutans. 1. minni hluti getur sætt sig efnislega við þá málamiðlun í ljósi aðstæðna þó að æskilegra væri að aflétta nafnleynd alfarið ef það væri hægt án þess að tæknifrjóvganir legðust af. Orðalagið á breytingartillögu meiri hlutans miðast of mikið við gjafa kynfrumna í stað þiggjanda sem að mati 1. minni hluta á að vera sá sem ákveður hvort hann velur nafnleynd eftir faglega ráðgjöf.
    Fyrsti minni hluti leggur því til breytingu á 4. gr. þar sem uppröðun efnisgreina og orðalag breytir áherslum þannig að fyrst er rætt um þau tilvik þar sem nafnleynd er aflétt og lögð áhersla á að það er val kynfrumuþiggjandans sem ræður úrslitum um það hvort reynt verður að fá kynfrumur frá gjafa sem er tilbúinn að aflétta nafnleynd. Þessi lausn er að því leyti ófullnægjandi að það eru væntanlegir foreldrar sem hafa valið um það hvort barnið getur fengið upplýsingar um líffræðilegan uppruna sinn við 18 ára aldur, í stað þess að það verði opið val fyrir öll börn sem fæðast vegna tæknifrjóvgunar. Hin leiðin er að útiloka alfarið tæknifrjóvganir með nafnleynd. Ef fram kemur breytingartillaga í þá veru munu þingkonur Kvennalistans taka sjálfstæða afstöðu til hennar sem einstaklingar.
    Meginágreiningur 1. minni hluta og meiri hlutans varðar það hverjir eigi möguleika eða rétt á að fá tæknifrjóvgun og það hvort frumvarpið sé fyrst og fremst viðbragð við ófrjósemi og því réttlætanlegt að hvorki sé tekið sérstaklega á stöðu samkynhneigðra né einhleypra kvenna. 1. minni hluti telur óhjákvæmilegt að taka á þessu máli í heild sinni í löggjöf af þessu tagi og því þurfi að rökstyðja gaumgæfilega og mun betur en gert er í greinargerðinni hvers vegna samkynhneigðir og einhleypar konur fá eða fá ekki aðgang að tæknifrjóvgun. Annað geti verið brot á jafnræðisreglu.
    Með breytingartillögum á þingskjali 826 við 3. svo og 5. og 6. gr. frumvarpsins er mælt með því að tekið verði út það skilyrði a-liðar 3. gr. að tæknifrjóvgun sé takmörkuð við pör sem hafi búið saman í þrjú ár. Aðrar breytingartillögur eru tæknilegar orðalagsbreytingar vegna breytingar á a-lið 3. gr.
    Rökstuðningur fyrir þessari afstöðu kom fram í ýmsum umsögnum um frumvarpið en meiri hlutinn virtist ekki tilbúinn að ræða þau til hlítar. Við 1. umræðu um frumvarpið benti undirrituð á að það kæmi kannski ekki á óvart miðað við þá hefðbundnu skoðun að börn eigi bæði föður og móður að einhleypum konum væri ekki heimilt að fá tæknifrjóvgun samkvæmt frumvarpinu. Í reynd væru þó einstæðar mæður á Íslandi ekki skyldugar til að feðra börn sín. Því væri ekki sjálfgefið að hafa þennan hátt á og það þyrfti að athuga gaumgæfilega í nefndinni. Það að neita einhleypum konum um tæknifrjóvgun mætti einnig skoða sem mismunun gagnvart samkynhneigðum konum og enn eitt dæmið um skerta réttarstöðu þeirra. Þessi sjónarmið eru rökstudd mun ítarlegar í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands og í siðferðilegri álitsgerð um frumvarpið sem unnin var af Maríu Sigurjónsdóttur, lækni og heimspekingi, fyrir framkvæmdastjórn Ríkisspítala.
    Í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands segir að af greinargerð frumvarpsins „mætti ætla að það teldist andstætt viðurkenndum siðferðisreglum í íslensku samfélagi að heimila öðrum en konum í óvígðri sambúð eða hjúskap að njóta tæknifrjóvgunar og að barni verði ekki tryggð þroskavænleg skilyrði nema það alist upp með karli og konu sem eru samvistum. Þessar gefnu forsendur eru ekki rökstuddar og ástæða er til að setja spurningamerki við gildi þeirra“. Þá er bent á að engin trygging er fyrir varanleika sambúðar þó að hún hafi varað í þrjú ár og að rannsóknir bendi ótvírætt til að börn séu betur komin hjá umhyggjusömum einstæðum foreldrum en í slæmri sambúð. Þá er spurt, ef litið er á ófrjósemi sem „sjúkdóm“ eins og frumvarpið virðist gera, hvernig það megi vera að einn „sjúklingur“ geti fengið lækningu en annar ekki, þ.e. einhleyp ófrjósöm kona. Tekið er undir eftirfarandi niðurstöðu í sömu umsögn: „Það er engan veginn augljóst að útiloka eigi rétt einhleypra kvenna til tæknifrjóvgunar með öllu eins og gert er í frumvarpinu. Margvísleg rök hníga að því að einnig þær skuli eiga þessa kost að vissum skilyrðum uppfylltum.“ Með hliðsjón af fyrirhugaðri lagasetningu um staðfesta sambúð samkynhneigðra leggur Mannréttindaskrifstofa Íslands til að íhugað verði að breyta frumvarpinu þannig að það nái einnig til samkynhneigðra kvenna í varanlegri sambúð. „Með því móti er jafnræði með þeim sem líkt er ástatt um og tekið fullt tillit til stjórnarskrárbundins jafnræðis borgaranna án tillits til kynhneigðar.“ Við þetta vill undirrituð bæta að fjölmargar rannsóknir benda til að samkynhneigðir foreldrar séu alls ekki síðri uppalendur en aðrir foreldrar.
    Í álitsgerðinni frá framkvæmdastjórn Ríkisspítala er svipuð afstaða tekin til a-liðar 3. gr. frumvarpsins og stöðu einhleypra kvenna og samkynhneigðra gagnvart tæknifrjóvgun:
    „Raunverulega tel ég að aðalatriðið í sambandi við tæknifrjóvgun sé að reyna að tryggja að væntanlegir foreldrar séu hæfir foreldrar og ráði við það hlutverk tilfinningalega. Hvað varðar hæfi þá tel ég að kynhneigð foreldris skipti ekki máli fyrir hæfi þeirra sem foreldris. Reynsla, sem komin er af einstæðum foreldrum, bendir ekki til þess að þeir séu vanhæfari en tveir foreldrar til að ala upp börn sín þó svo að vissulega mætti gera betri rannsóknir á þessu. Þess vegna dreg ég í efa að ákvæði frumvarpsins hvað varðar samkynhneigðar og einstæðar konur séu réttmæt þó svo að ég bendi líka á nauðsyn rannsókna.“
    Með þeim breytingartillögum sem 1. minni hluti leggur til á þingskjali 826 er opnað fyrir möguleika fleiri til að fá tæknifrjóvgun, m.a. einhleypra kvenna og samkynhneigðra, svo framarlega sem skilyrðum b-, c- og d-liðar 3. gr. er fullnægt. Í því sambandi er það oft staðreynd að barn, sem á eitt foreldri, hefur óöruggara tengslanet en það sem á tvo, en svo þarf alls ekki að vera. Því er áhersla lögð á að þrátt fyrir þá opnun, sem hér er lögð til með breytingu á a-lið 3. gr., hljóta hagsmunir barnsins að vega þyngst ef hagsmunir stangast á. Að öðru leyti styður 1. minni hluti breytingartillögu meiri hlutans við 2. gr., þ.e. að boðið verði upp á ráðgjöf, svo og breytingartillögur við 11., 13., 14. og 15. gr.

Alþingi, 16. apríl 1996.Guðný Guðbjörnsdóttir.