Ferill 483. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 483 . mál.


835. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Til iðnaðar telst öll starfsemi sem fellur undir atvinnugreinanúmer sem upp eru talin í viðauka við lög þessi.
    Undanþegin gjaldinu eru fyrirtæki sem að öllu leyti eru í eign opinberra aðila, svo og fyrirtæki sem stofnuð eru samkvæmt sérstökum lögum til að vera eign opinberra aðila að verulegu leyti nema annars sé getið í þeim lögum.

2. gr.

    Við lögin bætist nýr viðauki sem verður hluti af lögum þessum og orðast svo:

Viðauki.


    Til iðnaðar skv. 1. mgr. 2. gr. skulu teljast eftirtaldar atvinnugreinar samkvæmt Íslenskri atvinnugreinaflokkun, ÍSAT 95:
    10     Kolanám og móvinnsla.
    11     Vinnsla á hráolíu, jarðgasi o.fl.
    12     Nám á úran- og þórínmálmgrýti.
    13     Málmnám og málmvinnsla.
    14     Nám og vinnsla annarra hráefna úr jörðu.
     Úr 15     Matvæla- og drykkjarvöruiðnaður:
    15.20.8     Lagmetisiðja og framleiðsla sjávarrétta.
    15.3     Vinnsla ávaxta og grænmetis.
    15.43     Framleiðsla smjörlíkis og svipaðrar feiti til manneldis.
    15.6     Framleiðsla á kornvöru, mjölva og mjölvavöru.
    15.7     Fóðurframleiðsla.
    15.8     Annar matvælaiðnaður.
    15.9     Drykkjarvöruiðnaður.
    16     Tóbaksiðnaður.
    17     Textíliðnaður.
    18     Fataiðnaður; sútun og litun loðskinna.
    19     Leðuriðnaður.
    20     Trjáiðnaður.
    21     Pappírsiðnaður.
    22     Útgáfustarfsemi og prentiðnaður. Þó ekki 22.31, fjölföldun hljóðritaðs
         efnis og 22.32, fjölföldun myndefnis.
    23     Framleiðsla á koxi, olíuvörum og kjarnorkueldsneyti.
    24     Efnaiðnaður.
    25     Gúmmí- og plastvöruframleiðsla.
    26     Gler-, leir- og steinefnaiðnaður.
    27     Framleiðsla málma.
    28     Málmsmíði og viðgerðir.
    29     Vélsmíði og vélaviðgerðir.
    30     Framleiðsla á skrifstofuvélum og tölvum.
    31     Framleiðsla og viðgerðir annarra ótalinna rafmagnsvéla og tækja.
    32     Framleiðsla og viðgerðir fjarskiptabúnaðar og tækja.
    33     Framleiðsla og viðhald á lækningatækjum, mæli- og rannsóknartækjum,          úrum o.fl.
    34     Framleiðsla vélknúinna ökutækja annarra en vélhjóla.
    35     Framleiðsla annarra farartækja.
    36     Húsgagnaiðnaður, skartgripasmíði, hljóðfærasmíði, sportvörugerð,
         leikfangagerð og annar ótalinn iðnaður.
    37     Endurvinnsla.
    45     Byggingastarfsemi og mannvirkjagerð.
     Úr 50     Sala, viðhald og viðgerðir á bílum o.fl.; bensínstöðvar:
    50.2     Bílaviðgerðir og viðhald; hjólbarðaviðgerðir.
    52.7     Viðgerðir á hlutum til einkanota og heimilisnota.
    72     Tölvur og tölvuþjónusta.
     Úr 74     Önnur viðskipti og sérhæfð þjónusta:
    74.81     Ljósmyndaþjónusta.
     Úr 93     Önnur persónuleg þjónustustarfsemi:
    93.02     Hárgreiðslu- og snyrtistofur.

3. gr.


    Lög þessi öðlast gildi nú þegar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í núgildandi lögum um iðnaðarmálagjald er um skilgreiningu á iðnaði vísað til atvinnugreinaflokkunar Hagstofu Íslands frá 1970. Ný flokkun, Íslensk atvinnugreinaflokkun, eða ÍSAT 95, hefur tekið gildi og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda (nr. 620/1994).
    Með hliðsjón af þessu þykir rétt að breyta lögum um iðnaðarmálagjald þannig að vísað verði til ÍSAT 95 í stað gömlu atvinnugreinaflokkunarinnar. Ekki er ætlunin að gera breytingar á gjaldskyldu einstakra aðila en þó hafa tilteknir flokkar verið felldir niður þar sem vafi hefur leikið á túlkun með tilliti til eldri flokkunar.
    Í ljósi þess að hinir nýju flokkar ÍSAT 95 eru ekki í öllum tilvikum í samræmi við eldri atvinnugreinaflokkun og upptalning atvinnugreinaflokka er nokkuð viðamikil er lagt til að kveðið verði á um sérstakan viðauka við lögin, sem verði hluti af þeim, þar sem viðkomandi atvinnugreinaflokkar eru taldir upp með nánari tilgreiningu þegar það á við, einkum ef viðkomandi flokkur á ekki við nema að hluta.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að um einstaka atvinnugreinaflokka verði vísað til sérstaks viðauka við lögin. Þá verði felldur brott 2. tölul. 2. mgr. 2. gr. sem fjallar um undanþágu vegna tiltekinna þátta fiskiðnaðar og landbúnaðar. Ákvæðið er óþarft þar sem tilsvarandi atvinnugreinaflokkar ÍSAT 95 eru ekki tilgreindir í viðaukanum og heyra því ekki undir gjaldskyldu samkvæmt lögunum. Lögð skal áhersla á að breytingum á tilvísunum er ekki ætlað að hafa í för með sér breytingar á gjaldskyldu einstakra aðila.

Um 2. gr.


    Lagt er til að við lögin bætist sérstakur viðauki þar sem viðkomandi atvinnugreinanúmer eru talin upp. Í þeim tilvikum sem tilgreint atvinnugreinarnúmer á ekki að öllu leyti við er sérstaklega tilgreint í hvaða atriðum það er. Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting


á lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að stofn iðnaðarmálagjalds verði skilgreindur með tilvísun í atvinnugreinaflokkun ÍSAT 95 sem tekið hefur gildi og kemur í stað fyrri atvinnugreinaflokkunar Hagstofu Íslands frá 1970. Hin nýja skilgreining er ekki að öllu leyti í samræmi við þá eldri. Í örfáum minni háttar tilvikum fellur gjaldskylda niður og engin starfsemi er gerð gjaldskyld sem ekki var það áður. Ekki er talið að þessi breyting valdi kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.