Ferill 94. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 94 . mál.


882. Nefndarálitum frv. til. l. um framhaldsskóla.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hörð Lárusson, deildarstjóra í menntamálaráðuneyti, Elnu Katrínu Jónsdóttur, Hjördísi Þorgeirsdóttur, Birgi Björn Sigurjónsson og Danfríði Skarphéðinsdóttur frá Hinu íslenska kennarafélagi, Eirík Jónsson og Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur frá Kennarafélagi Íslands, Þórð Kristinsson og Guðmund G. Haraldsson frá kennslumálanefnd Háskóla Íslands, Ingvar Ásmundsson, Örlyg Karlsson og Oddnýju G. Harðardóttur frá Sambandi iðnmenntaskóla, Kristján Bersa Ólafsson og Þorstein Þorsteinsson frá Félagi áfangaskóla, Margréti Friðriksdóttur og Sigurð Sigursveinsson frá Skólameistarafélagi Íslands, Harald Sumarliðason, Örn Jóhannsson, Atla Ólafsson, Jón Albert Kristinsson og Inga Boga Bogason frá Samtökum iðnaðarins, Þórð Skúlason og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Snorra Konráðsson frá Menningar- og fræðslusambandi alþýðu, Brján Jónsson og Hallfríði Einarsdóttur frá Iðnnemasambandi Íslands, Sigurð Orra Jónsson og Snævar Sigurðsson frá Félagi framhaldsskólanema og Þröst Sigurðsson frá Bandalagi íslenskra sérskólanema. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Félagi kennara í bókiðngreinum, Menntaskólanum við Hamrahlíð, Framhaldsskólanum Laugum, Fjölbrautaskólanum við Ármúla, Fræðsluskrifstofu Reykjavíkurumdæmis, Bandalagi íslenskra sérskólanema, Húsmæðraskóla Reykjavíkur, Menntaskólanum við Sund, Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, Öryrkjabandalagi Íslands, Íþróttakennarafélagi Íslands, Sambandi iðnmenntaskóla, Félagi áfangaskóla, Félagi dönskukennara, Félagi íslenskra sérkennara, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Menntaskólanum í Reykjavík, Menntaskólanum á Akureyri, Félagi sögukennara, Vélskóla Íslands, Tannsmiðaskóla Íslands, Þroskahjálp, Félagi tölvukennara, Samtökum kennara í viðskipta- og hagfræðigreinum, Félagi félagsfræðikennara á framhaldsskólastigi, Hinu íslenska kennarafélagi og Kennarasambandi Íslands, kennurum Menntaskólans við Hamrahlíð, kennurum Menntaskólans í Kópavogi, Skólameistarafélagi Íslands, Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu, Fjölbrautaskóla Vesturlands, Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna, Félagi framhaldsskólanema, Félagi raungreinakennara, Iðnskólanum í Hafnarfirði, kennurum Kvennaskólans í Reykjavík, Iðnnemasambandi Íslands, Kvennaskólanum í Reykjavík, nemendaráði Kvennaskólans í Reykjavík, Skólanefnd Iðnskólans í Reykjavík, Kennarafélagi Fjölbrautaskólans í Breiðholti, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Samtökum líffræðikennara, Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum, Bændaskólanum á Hvanneyri, Nemendafélagi öldungadeildar Menntaskólans við Hamrahlíð, Félagi háskólakennara, kennurum Menntaskólans við Sund, kennurum Menntaskólans á Egilsstöðum, Samtökum iðnaðarins, kennurum Fjölbrautaskóla Vesturlands, Alþýðusambandi Íslands, Félagi norsku- og sænskukennara, kennurum Menntaskólans á Laugarvatni, skólanefnd Skógaskóla, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Menntaskólanum að Laugarvatni, kennslumálanefnd Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, rektor Menntaskólans við Sund, Bandalagi íslenskra sérskólanema og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
    Frumvarp til laga um framhaldsskóla felur í sér ýmsar breytingar frá núgildandi lögum. Helstu breytingarnar snúa að skýrari námsuppbyggingu í framhaldsskólum og breyttum áherslum í námsframboði. Þannig er lögð megináhersla á starfsnám í frumvarpinu og stefnt að því að efla og fjölga starfsnámsbrautum og opna leiðir til stúdentsprófs fyrir nemendur sem ljúka starfsnámi og námi frá sérskólum. Þá eru í frumvarpinu ákvæði sem miða að því að auka frumkvæði og ábyrgð skóla á mótun innra starfs. Felast nýmæli þessi í ákvæðum um skólanámskrá sem unnin skal af starfsfólki skóla og ákvæðum um reglulegt sjálfsmat starfsfólks skóla á starfsháttum skóla sem stuðla á að stöðugri endurskoðun á innra starfi skóla. Einnig felur frumvarpið í sér hvata til nýbreytnistarfa í skólum því að gert er ráð fyrir að stofnaður verði sérstakur þróunarsjóður fyrir framhaldsskóla þar sem skólar geti sótt um styrki og loks er í frumvarpinu að finna heimild til að gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs. Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að allar námsbrautir framhaldsskóla verði skipulagðar í samræmi við lokamarkmið náms og lögð er aukin áhersla á tengsl framhaldsskóla og atvinnulífs, en mjög mikilvægt er að treysta þau tengsl. Þá er einnig lögð áhersla á mikilvægi þess að starfsnám verði eftirsótt, ekki síst af góðu námsfólki.
     Í flestum nágrannalöndum okkar ljúka nemendur stúdentsprófi fyrr en hér. Byggist það m.a. á betri nýtingu tíma nemenda og því að lengri tíma er varið til skólahalds hvert ár. Mjög mikilvægt er að íslenskt menntakerfi sé í takt við menntakerfi annarra vestrænna landa og að ungt fólk hérlendis hefji ekki sérhæft nám seinna en jafnaldrar þess í nágrannalöndunum. Meiri hluti menntamálanefndar leggur áherslu á að unnið verði markvisst að því að nemendur eigi kost á að ljúka framhaldsskólanámi fyrr en nú er og hafin verði skipulagning á þriggja ára bóknámsbrautum til stúdentsprófs, en í frumvarpinu er sá möguleiki fyrir hendi að ráðherra geti heimilað einstökum skólum að skipuleggja bóknámsbrautir til stúdentsprófs sem þriggja ára nám.
    Vegna athugasemda sem komu fram í umsögnum um 13. gr. frumvarpsins, sem fjallar um heilsuvernd í framhaldsskólum, er rétt að árétta að samkvæmt frumvarpinu skulu heilsugæslustöðvar sinna heilsuvernd í skólum. Enn fremur má benda á að samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, er ljóst að það er þeirra verkefni. Meiri hluti menntamálanefndar telur ljóst að heilsugæslustöðvum beri ekki að krefja framhaldsskóla um sérstakar greiðslur fyrir heilsuverndarþjónustu þeirra við skóla.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að lágmarksfjöldi kennsludaga verði 145 í stað 150 daga eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Breyting þessi er lögð til vegna ábendinga frá ýmsum skólum um að lögfesting á að kennsludagar skuli að lágmarki vera 150 geti þrengt mjög að skipulagi skólastarfsins og veiti of lítið svigrúm til prófahalds, úrvinnslu prófa og brautskráningar.
    Lagt er til að reglugerðarheimild í 6. gr. vegna skipunar skólanefnda sérskóla verði gerð skýrari þannig að ljóst sé að gert er ráð fyrir þeim möguleika að settar verði sérreglur um skipan skólanefnda sérskóla. Reglugerðarheimild 6. gr. er þó einungis ætlað að ná til skipunar skólanefnda. Í 7. gr. er aftur á móti fjallað um hlutverk skólanefnda og í 4. mgr. er mælt fyrir um að ráðherra skuli setja nánari reglur um störf skólanefnda, en það á við bæði í sérskólum og framhaldsskólum.
    Lagt er til að nokkur breyting verði gerð á ákvæði 2. mgr. 7. gr. sem fjallar um innritunar- og efnisgjöld. Nauðsynlegt þykir að reglur um innheimtu gjaldanna séu skýrar og byggist tillagan á svipuðum viðmiðunum og kveðið er á um í viðmiðunarreglum menntamálaráðuneytisins settum á grundvelli 33. gr. núgildandi laga um framhaldsskóla. Lagt er til að lögfestar verði viðmiðanir við útreikning upphæðar gjaldanna og ítrekað mikilvægi þess að við endanlega ákvörðun upphæðar framangreindra gjalda beri að hafa hliðsjón af því meginsjónarmiði að þau séu ekki hærri en sá kostnaður sem almennt hlýst af því að veita umrædda þjónustu. Gerir tillagan ráð fyrir því að heitið innritunargjald nái til þeirra gjalda sem hingað til hafa verið nefnd pappírsgjöld, efnisgjöld eða staðfestingargjöld. Af innheimtum innritunargjöldum er gert ráð fyrir að skóli greiði kostnað af ýmiss konar þjónustu við nemendur, svo sem útgáfu námsvísis, gerð stundaskráa, tilkynninga, dreifibréfa og annarra pappírsgagna sem dreift er innan skólans. Heppilegt þykir að lögfesta hámarksgjald. Lagt er til að heimild til hækkunar gjalds fyrir innritun utan auglýstra skrásetningartíma verði lögfest. Efnisgjöld eru nú innheimt í skólum sem annast iðnfræðslu og aðra kennslu sem krefst verulegrar efnisnotkunar umfram það sem gerist og gengur í hefðbundnu bóklegu námi. Efniskostnaður er mjög mismunandi, ekki einvörðungu milli námsbrauta heldur einnig milli námsára. Gerð er tillaga líkt og um innritunargjöld að lögfest verði hámarksgjald. Á grundvelli tillögunnar verður að halda sérgreindum í bókhaldi skóla þeim kostnaðarþáttum sem innritunargjöldum, ásamt efnisgjöldum, er ætlað að mæta. Loks er gerð tillaga um breytingu á orðalagi í frumvarpinu þannig að í stað orðanna „við innritun í framhaldsskóla“ komi „við upphaf námsannar eða skólaárs“ en ekki mun hafa verið ætlunin með frumvarpinu að hverfa frá þeirri tilhögun sem nú er að gjöld nemenda séu innheimt í upphafi námsannar eða skólaárs.
                  Í þessu sambandi er vert að taka skýrt fram að ætlunin er að gjöld til nemendasjóða séu umfram það 6.000 kr. hámark innritunargjalda sem lagt er til að lögbundið verði, enda er fjallað sérstaklega um gjöld til nemendasjóða í 2. mgr. 10. gr. Loks er rétt að árétta þann skilning meiri hluta nefndarinnar að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 10. gr. geti nemendafélög falið skóla að sjá um innheimtu gjalda til nemendasjóða, samhliða innheimtu skóla á innritunargjöldum.
    Lagt er til að reglugerðarheimild verði bætt við 9. gr. Er þetta lagt til í ljósi þess að nauðsynlegt þykir að starfssvið kennarafunda sé skýrt og afdráttarlaust. Þykir fara best á því að útfæra starfssvið fundanna nánar í reglugerð, líkt og gert er á grundvelli gildandi laga.
    Breytingum þeim, sem lagðar eru til á 11. gr., má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar til samræmis við frumvarp til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem nú er til meðferðar á Alþingi. Felast breytingartillögurnar í því að skólameistari verði skipaður í embætti en ekki ráðinn eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Þar sem skólameistarar teljast til forstöðumanna ríkisstofnana þykir rétt að leggja til að þeir komi að stöðu sinni með tímabundinni skipun eins og aðrir forstöðumenn ríkisstofnana. Þá er lagt til að felld verði brott ákvæði um tímabundna ráðningu aðstoðarskólameistara, deildarstjóra, og áfangastjóra í samræmi við þá meginreglu sem kemur fram í frumvarpi til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að ráðning starfsmanna skuli almennt vera ótímabundin.
                  Þá er lagt til að bætt verði við 11. gr. ákvæði um hvernig fara skuli með ráðningu kennara sem ekki hafa réttindi til kennslu við framhaldsskóla. Er tillagan í samræmi við ákvæði núgildandi laga um framhaldsskóla og ljóst að um slík tilvik gilda ákvæði laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.
                  Einnig er lögð til breyting á 5. mgr. 11. gr. þar sem í frumvarpinu er kveðið á um að menntamálaráðherra setji skólameisturum, kennurum og öðrum starfsmönnum skóla erindisbréf. Í frumvarpi því sem nú liggur fyrir Alþingi, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er að finna almennar reglur um heimild veitingarvaldshafa til að setja starfsmanni erindisbréf. Einnig er samkvæmt frumvarpinu lögð sú skylda á ráðherra að setja forstöðumönnum stofnana erindisbréf um markmið og áhersluatriði í rekstri stofnunar og verkefni sem ætlast er til að stofnunin sinni. Því þykir eðlilegra að fela ráðherra að setja í reglugerð ákvæði um starfssvið skólameistara, kennara og annarra starfsmanna þar sem fram koma helstu atriði í starfslýsingu starfsfólks skóla. Vert er þó að taka fram að þarna yrði ekki um tæmandi talningu á verkefnum að ræða heldur eins konar ramma að starfslýsingu.
                  Loks er rétt að benda í þessu sambandi á þær breytingar sem lagðar eru til á 47. og 48. gr. frumvarpsins, en þar er kveðið á um að gildistöku 11. gr. skuli frestað þar til réttindi ríkisstarfsmanna til æviráðningar hafa verið afnumin.
    Lögð er til breyting á 16. gr. þar sem meiri hluti menntamálanefndar telur nauðsynlegt að skýrt sé kveðið á um að þeir sem lokið hafa prófi frá starfsnámsbrautum eigi kost á viðbótarnámi til undirbúnings náms á háskólastigi.
    Lagt er til að bætt verði við 21. gr. ákvæði um að í aðalnámskrá skuli vera almennar reglur um meðferð ágreiningsmála sem kunna að rísa í skólum. Gert er ráð fyrir að slíkar reglur næðu til þess hvernig taka skuli á agabrotum, hver eigi úrskurðarvald í deilumálum og hvert skjóta megi úrskurðum skólameistara.
    Lögð er til sú breyting á 22. gr. að skólanefnd skuli afla umsagnar almenns kennarafundar áður en nefndin samþykkir skólanámskrá, en frumvarpið gerir ráð fyrir að skólanefnd þurfi að samþykkja skólanámskrá áður en skólar geta hafið störf á grundvelli hennar. Þá er rétt að ítreka að þrátt fyrir ákvæði greinarinnar um að skólanefnd skuli fylgjast með framkvæmd skólanámskrár er ekki gert ráð fyrir að skólanefndarmenn fari sjálfir með framkvæmd eftirlitsins, þannig að þeir fylgist með kennslu, heldur leiti þeir upplýsinga um starf skóla hjá skólameistara og starfsfólki skóla.
    Lögð er til breyting á 30. gr. er miðar að því að tryggt verði að ráðgjafarnefndir við skóla geti átt frumkvæði hvað varðar þróun starfsnáms.
    Lögð er til breyting á ákvæðum 37. gr. um notkun heimavistarhúsnæðis utan skólatíma þar sem eðlilegt þykir að skólanefnd staðfesti samning um slíka notkun og beri lokaábyrgð á samningsgerðinni. Má í þessu sambandi vísa til 43. gr. þar sem segir að skólanefnd setji almennar reglur um ráðstöfun skólahúsnæðis utan reglulegs skólatíma.
    Lagðar eru til breytingar á 47. og 48. gr. með hliðsjón af meðferð Alþingis á frumvarpi til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem miða að því að fyllsta samræmis sé gætt og það tryggt að sömu grundvallarreglur gildi um alla starfsmenn ríkisins. Þá er lagt til að lög um Stýrimannaskólann í Reykjavík og lög um vélstjórnarnám verði felld úr gildi þar sem gert er ráð fyrir að um slíkt nám fari eftir lögum um framhaldsskóla.
    Loks er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða III sem miðar að því að stytta gildistíma undanþágu til að undirgangast sveinspróf í löggiltri iðngrein án undangengins skólanáms úr fjórum árum í tvö.

Alþingi, 30. apríl 1996.Sigríður A. Þórðardóttir,

Hjálmar Árnason.

Tómas Ingi Olrich.


form., frsm.Ólafur Örn Haraldsson.

Arnbjörg Sveinsdóttir.

Árni Johnsen.