Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 372 . mál.


912. Nefndarálitum frv. til l. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið og fengið á fundi til sín Eirík Tómasson prófessor, Magnús Pétursson og Gunnar Björnsson frá fjármálaráðuneyti, Birgi Guðjónsson, formann samninganefndar ríkisins, Mörthu Á. Hjálmarsdóttur, Elnu Katrínu Jónsdóttur, Birgi Björn Sigurjónsson og Gunnar Ármannsson frá Bandalagi háskólamanna, Sólveigu Bachmann og Júlíus Smára frá Stéttarfélagi lögfræðinga í ríkisþjónustu, Baldur Pétursson og Margréti Hauksdóttur frá Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Hjalta Hugason, Oddnýju G. Sverrisdóttur og Snjólf Ólafsson frá Félagi háskólakennara, Eddu Sóleyju Óskarsdóttur frá Meinatæknafélagi Íslands, Jóhönnu Kristjánsdóttur frá Stéttarfélagi sjúkraþjálfara, Einar Kjartansson frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Ástu Möller frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Brynju R. Guðmundsdóttur frá Félagi tækniskólakennara, Sjöfn Ingólfsdóttur, Rannveigu Sigurðardóttur og Gest Jónsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Eirík Jónsson og Ingiberg Elíasson frá Kennarasambandi Íslands, Friðbert Traustason frá Sambandi íslenskra bankamanna, Jónas Magnússon, Baldvin Einarsson, Jóhannes Jensson og Óskar Bjartmarz frá Landssambandi lögreglumanna, Kristínu Þórarinsdóttur og Samúel Inga Þórisson frá Tollvarðafélagi Íslands, Kristínu Á. Guðmundsdóttur og Gunnar Gunnarsson frá Sjúkraliðafélagi Íslands, Allan Vagn Magnússon og Markús Sigurbjörnsson frá Dómarafélagi Íslands, Geir Waage frá Prestafélagi Íslands, Sveinbjörn Björnsson, rektor Háskóla Íslands, Þórarin V. Þórarinsson og Hrafnhildi Stefánsdóttir frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Björn Grétar Sveinsson, Þórunni Sveinbjörnsdóttur og Ástráð Haraldsson frá Alþýðusambandi Íslands. Þá fékk nefndin einnig sendar umsagnar um málið frá Bandalagi háskólamanna, Stéttarfélagi lögfræðinga í ríkisþjónustu, Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagi háskólakennara, Kennarafélagi KHÍ, Stéttarfélagi sjúkraþjálfara, Meinatæknafélagi Íslands, Félagi tækniskólakennara, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Stéttarfélagi sálfræðinga á Íslandi, Félagi fréttamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Sjúkraliðafélagi Íslands, Starfsmannafélagi ríkisstofnana, Starfsmannafélagi Selfosskaupstaðar, Starfsmannafélagi Vestmannaeyjabæjar, Félagi opinberra starfsmanna í Húnavatnssýslum, Félagi opinberra starfsmanna á Suðurlandi, Starfsmannafélagi Akureyrarbæjar, Starfsmannafélagi Dala- og Snæfellsnessýslu, Félagi opinberra starfsmanna á Austurlandi, Starfsmannafélagi Borgarbyggðar, Starfsmannafélagi Sauðárkróks, Félagi starfsmanna Stjórnarráðsins, Starfsmannafélagi Akraness, Félagi íslenskra símamanna, Starfsmannafélagi Kópavogs, Félagi flugmálastarfsmanna ríkisins, Póstmannafélagi Íslands, Félagi íslenskra leikskólakennara, Starfsmannafélagi Ólafsfjarðar, Starfsmannafélagi Seltjarnarness, Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, Starfsmannafélagi Sjónvarpsins, Félagi opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Starfsmannafélagi Húsavíkur, Starfsmannafélagi Siglufjarðarkaupstaðar, Tollvarðafélagi Íslands, Landssambandi lögreglumanna, Landssambandi slökkviliðsmanna, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra bankamanna, Alþýðusambandi Íslands, Félagi starfsmanna Alþingis og Starfsmannafélagi Ríkisendurskoðunar, Dómarafélagi Íslands, Prestafélagi Íslands, Háskóla Íslands, skrifstofu jafnréttismála, Vinnumálasambandinu og Eyþingi.
    Frumvarpið er tillaga ríkisstjórnarinnar að heildarlöggjöf um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Í I. hluta frumvarpsins eru almenn ákvæði, þ.e. um gildissvið þeirra, hvaða skilyrði verði að vera uppfyllt til að hægt sé að veita starf og um réttindi starfsmanna ríkisins og skyldur.
    Í II. hluta eru sérstök ákvæði um embættismenn, þ.e. skipun þeirra, lausn frá embætti og sérstakar skyldur.
    Í III. hluta eru ákvæði um aðra starfsmenn ríkisins en embættismenn og þar er greint frá lagaákvæðum um ráðningu og starfslok og sérstök réttindi.
    Í IV. hluta eru önnur ákvæði, þ.e. ýmis sérákvæði, gildistökuákvæði og ákvæði til bráðabirgða.
    Rökstuðningur ríkisstjórnarinnar í greinargerð er helst sá að með þessu frumvarpi eigi að
—    marka nýja starfsmannastefnu ríkisins og
—    auka valddreifingu og sveigjanleika í starfsmannahaldi, auk þess sem
—    launakerfið sé einfaldað og
—    jafnrétti aukið.
Einnig er því markmiði lýst í greinargerðinni að ríkið og stofnanir þess verði fyrsta flokks vinnuveitendur.
    Þótt markmiðin séu háleit er langt frá því að efnisatriði frumvarpsins nái yfir þau eða feli í sér í nútímalega löggjöf á þessu sviði. Frumvarpið er samið einhliða af embættismönnum ríkisvaldsins, en stéttarfélög sem málið varðar fengu hvorki að koma að samningu frumvarpsins né var þeim gefinn kostur á að koma með ábendingar þegar frumvarpið var í vinnslu. Þetta er mjög ámælisvert þegar verið er að fjalla um atriði sem varða samskipti ríkisvalds og starfsmanna þess.
    Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru frá 1954 eða meira en 40 ára gömul. Því er ljóst, þótt nauðsyn sé á að endurskoða lögin, að það er vandmeðfarið verk sem útheimtir samvinnu þeirra aðila sem málið varðar. Þótt réttur löggjafans til lagasetningar sé ótvíræður hefur það ekki gerst áður að lagt sé fram frumvarp til laga sem kveði á um skipulag á opinberum vinnumarkaði og unnið án samráðs við stéttarfélög starfsmanna.
    Frumvarpið skiptir starfsmönnum ríkisins í tvo meginflokka, þ.e. embættismenn, sem eiga að vera tiltölulega fáir, og aðra almenna starfsmenn. Þess ber að geta að lögin ná til allra starfsmanna ríkisins, einnig þótt þeir séu í verkalýðsfélögum sem teljast til hins almenna vinnumarkaðar.
    Með frumvarpinu eru gerðar breytingar á efnisatriðum sem tengjast kjarasamningum opinberra starfsmanna. Það eru mjög ámælisverð vinnubrögð að löggjafinn breyti einhliða ákvæðum kjarasamninga. Helst má nefna tvö atriði sem ótvírætt rýra núverandi samninga starfsmanna ríkisins, þ.e. ákvæði um það sem nefnt hefur verið biðlaunaréttur og
æviráðning. Biðlaun eru skert í þessu frumvarpi og biðlaunaréttur felldur niður hjá nýjum starfsmönnum. „Æviráðning“ er afnumin, þ.e. gert er ráð fyrir gagnkvæmum uppsagnarfresti almennra starfsmanna og embættismenn skulu ráðnir tímabundið til fimm ára. Bæði þessi atriði eru í kjarasamningum og móta meðal annars launakjör starfsmanna ríkisins.
    Geta má þess í sambandi við „æviráðningu“ að fjölmargir starfsmenn ríkisins hafa hingað til sætt sig við lægri laun vegna þess að ekki hefur verið gagnkvæmur uppsagnarfrestur. Þessi réttur er einhliða afnuminn hjá nýjum starfsmönnum án þess að þeim sé gefinn kostur á að sætta sig við gagnkvæman uppsagnarfrest eða takmarkaðan ráðningartíma gegn betri kjörum eins og þekkist á almennum markaði. Vitaskuld er það eins og blaut tuska framan í starfsmenn ríkisins þegar með einhliða ákvörðun er tekinn af mönnum réttur sem hingað til hefur verið metinn til launa og menn fá ekki tækifæri til að takast á um málið í kjarasamningum.
    Með frumvarpinu er veikt staða ýmissa réttinda svo sem
—    veikindaréttar,
—    fæðingarorlofs og
—    málskotsréttar.
Hafa þarf í huga að löggjöf um skipulag á vinnumarkaði markar umgjörð kjarasamninga sem hefur vitaskuld áhrif þegar tekist er á um kaup og kjör í almennum kjarasamningum. Því er mjög ámælisvert af hálfu ríkisstjórnarinnar að breyta samningsumgjörðinni einhliða.
    Minni hluti nefndarinnar mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum að ríkisvaldið beiti meiri hluta sínum á Alþingi til að breyta einhliða ákvæðum kjarasamninga í stað þess að taka þau efnisatriði upp við samningagerð og finna þá lausn sem heppileg getur talist. Þannig á að gefa starfsmönnum kost á að fara fram á hærri laun í kjarasamningum ef réttindi verða minnkuð. Réttindi opinberra starfsmanna vinnast ýmist í áföngum, þ.e. ávinnsla, eða þau eru áunnin. Með ávinnslu er átt við rétt til að halda áfram að byggja ofan á réttindi, sbr. lífeyrisréttindi. Ljóst er að ekki er heimilt að raska áunnum réttindum án bóta, enda getur verið um brot á stjórnarskrá að ræða. Afnám biðlaunaréttar er dæmi um slíkt.
    Rétt er að minna á yfirlýsingar forsætisráðherra um flutning á grunnskólum til sveitarfélaga, þ.e. að ekki yrðu skert áunnin réttindi né þau sem starfsmenn mættu vænta í framtíðinni í tengslum við lífeyrissjóðsmál. Engar slíkar yfirlýsingar hafa verið gefnar varðandi þetta frumvarp og er m.a. í ýmsu gengið á ávinnslurétt opinberra starfsmanna. Minni hlutinn mótmælir þessu og bendir á misræmi milli yfirlýsinga og gerða ríkisstjórnarinnar.
    Grundvallaratriði í þessu sambandi er að frjáls samningsréttur er í landinu sem hefur verið virtur um áratuga skeið. Með þessu frumvarpi og öðru frumvarpi, sem einnig liggur fyrir þinginu, um stéttarfélög og vinnudeilur, er hins vegar vegið harkalega að þeirri grundvallarreglu stjórnskipunar okkar.
    Hafa ber skýrt í huga að laun eru almennt lægri hjá starfsmönnum ríkisins en hjá starfsmönnum á hinum almenna vinnumarkaði og hefur svo verið um langt skeið. Á móti hafa starfsmenn ríkisins búið við meira starfssöryggi sem m.a. markast af þeim lögum sem hér er verið að fella úr gildi. Sú aðferðafræði að breyta þessu einhliða með löggjöf gengur þvert á allar venjur í samskiptum vinnuveitanda og starfsmanna hans og er að mati ýmissa lögfræðinga talin brjóta í bága við alþjóðasamninga sem Íslendingar eru aðilar að.
    Einnig eru í frumvarpinu gerðar róttækar breytingar á réttarstöðu ýmissa starfsmanna ríkisins þar sem margir þeirra eru gerðir að embættismönnum og þar með tekinn af þeim samnings- og verkfallsréttur. Það mál hefði vitaskuld þurft að ræða ítarlega við stéttarfélögin og taka upp í kjarasamningum.
    Frumvarpið bindur í lög fjölmörg atriði sem eru gerólík því sem gerist á almennum vinnumarkaði, þótt markmið frumvarpshöfunda sé að líkja sem mest eftir aðstæðum þar. Hér má nefna ákvæði um skyldu til yfirvinnu, uppsagnir við langvarandi veikindi, framlengingu á uppsagnarfresti og engar stjórnir að baki forstöðumönnum auk annarra atriða.
    Í umsögnum sem efnahags- og viðskiptanefnd hafa borist um frumvarpið leggjast öll stéttarfélög gegn ákvæðum þess. Ekki er að finna eina einustu jákvæða umsögn um það nema stuðningur er við það hjá samtökum vinnuveitenda.

Vegið að rótum stéttarfélaganna.
    Í frumvarpinu er vegið mjög harkalega að grundvelli stéttarfélaganna, þ.e. með ákvæðum í 47. gr. frumvarpsins. Þar segir að kjósi starfsmaður að standa utan stéttarfélags skuli hann njóta sömu launa og launakjara og samið hefur verið um í kjarasamningum fyrir sambærileg störf. Starfsmaðurinn þarf ekki að greiða gjald til stéttarfélags eins og verið hefur og kveðið er á um í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Fjármálaráðherra skal ákveða laun og launakjör þeirra starfsmanna sem standa utan stéttarfélaga ef starf það sem hlutaðeigandi gegnir fellur ekki innan samningssviðs einhvers ákveðins félags.
    Þarna er opnaður möguleiki á því að starfsmenn geti staðið utan stéttarfélaga og taki mið af kjarasamningum viðkomandi stéttarfélags án þess að taka nokkurn fjárhagslegan þátt í kostnaði við samningsgerð. Þessir einstaklingar geta byggt á sjálfstæðum launasamningi við vinnuveitanda. Hér er farið út á þá braut að kjarasamningsgerð verði gerð á einstaklingsbundnum grunni án aðildar stéttarfélags. Þetta er gróft brot á því fyrirkomulagi sem ríkt hefur hér um áratuga skeið, að samningsréttur og félagafrelsi launþega við kjarasamningsgerð hefur ótvírætt verið tryggt.
    Hér er bersýnilega ætlunin að opna möguleika á því að brjóta niður stéttarfélögin sem þann aðila sem fer með kjarasamninga. Í 7. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna er kveðið á um starfsmenn utan stéttarfélaga. Um sérlög er að ræða sem ganga lengra en heildarlöggjöfin. Bersýnilegt er þó ef þessar tvær greinar eru lesnar saman að þarna skapast réttaróvissa og vegið er mjög harkalega að rótum félagafrelsis og stéttarfélaga, enda má benda á að félagafrelsi er tryggt í stjórnarskrá.
    Með þessu frumvarpi er:
—    brotið gegn eðlilegum samræðuvettvangi sem undirbúningi fyrir lagasmíð,
—    gripið einhliða inn í kjarasamninga og
—    vegið að rótum skipulags stéttarfélaga á opinberum markaði.
    Stefna ríkisstjórnarinnar, sem endurspeglast í frumvarpinu, hefur ekkert með nútímalega stjórnarhætti að gera heldur er löggjöfin einungis sett til að þrengja möguleika starfsmanna til að koma að samningum um réttindi og kjör með skipulögðum hætti.

Gengið á rétt starfsmanna.
—    Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið skýrt á um að frumvarpið taki ekki til starfsmanna hlutafélaga eða annarra félaga þótt þau séu að öllu leyti í eigu ríkisins og þau taka ekki heldur til starfsmanna stofnana sem eru að einhverju eða öllu leyti í eigu annarra en ríkisins þótt þær séu reknar fyrir framlög frá ríkinu. Þetta ákvæði þýðir m.a. að verði rekstrarformi ríkisstofnana breytt í hlutafélagsform hverfi allir starfsmenn þeirra félaga sjálfkrafa úr lagaumgjörð um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um þá starfsmenn munu gilda lög um stéttarfélög og vinnudeilur.
—    Í frumvarpinu er skertur möguleiki starfsmanna til að tala máli sínu og skjóta ákvörðun yfirmanns til æðra stjórnsýslustigs. Með þessari útfærslu eru ákvæði nýsettra stjórnsýslulaga gerð óvirk. Þetta er mjög alvarlegt og minni hlutinn mótmælir þessum vinnubrögðum og þeirri fyrirætlun að þrengja að eðlilegum lýðræðislegum rétti starfsmanna sem hefur verið tryggður með sérstökum hætti í öðrum lögum.
—    Þess má geta að starfsmanni verður samkvæmt frumvarpinu skylt að vinna yfirvinnu, en engin slík ákvæði gilda um almenna markaðinn sem frumvarpshöfundar bera sig saman við. Hér er um að ræða íþyngjandi ákvæði fyrir starfsmenn ríkisins án þess að gefinn sé kostur á að taka þau mál upp í kjarasamningum. Ef menn telja rétt að hafa slík íþyngjandi ákvæði á það að endurspeglast í hærri launum.
—    Ámælisvert er að í frumvarpinu er kveðið á um að verði um langvarandi veikindi starfsmanns að ræða sé skylt að leysa hann frá störfum. Þetta ákvæði lýsir vel hugsunarhætti frumvarpshöfunda, þ.e. að ganga skuli á rétt starfsmanna alls staðar þar sem kostur er.
—    Áberandi er í frumvarpinu að fjármálaráðuneytið sankar að sér eins miklum völdum og hægt er í stjórnsýslu ríkisins með útfærslu einstakra greina þess í stað þess að byggja upp fagráðuneytin sem hina eðlilegu eftirlitsaðila.
—    Einnig er ámælisvert að í frumvarpinu er kveðið á um vald til að framlengja uppsagnarfrest í allt að sex mánuði ef margir leita lausnar samtímis. Þetta ákvæði þekkist ekki á almennum vinnumarkaði og hefði vitaskuld átt að taka það upp í kjarasamningum. Ef menn telja nauðsyn á að hafa slíkt ákvæði vegna sérstöðu ýmissa starfa á vegum ríkisins á það jafnframt að koma fram í hærri launum.
—    Sömuleiðis er frumvarpinu mjög ábótavant að því leyti að ekki er tekið á kjarasamningsferli hjá ríkinu. Kjarasamningar á vegum ríkisins fara þannig fram að ein miðstýrð nefnd, samninganefnd ríkisins, sem starfar á vegum fjármálaráðuneytisins, gerir alla kjarasamninga við ríkisstarfsmenn. Engin tilraun er gerð í frumvarpinu til að brjóta þessa miðstýringu á bak aftur og stokka upp það launakerfi sem opinberir starfsmenn búa við nú.
—    Það er mat langflestra sem um það mál hafa fjallað að launakerfið sé ónýtt og þurfi algerrar endurnýjunar við. Hið ónýta launakerfi lýsir sér m.a. í að það er ógagnsætt, greiðslur fyrir óunna yfirvinnu eru algengar, enginn hvati er byggður inn í kerfið, það tekur ekki mið af ólíkum aðstæðum innan ríkiskerfisins, mælir ekki mismunandi álag starfsmanna og er flókið, miðstýrt og svifaseint samningaferli, í því að erfitt er að leiðrétta rangfærslur og í lítilli aðlögunarhæfni að breyttum aðstæðum. Ekkert er fjallað um bætt og betra launakerfi í þessu frumvarpi. Það hefði verið til bóta ef vald til kjarasamninga hefði verið fært betur út til fagráðuneyta eða einstakra stofnana með skipulögðum hætti þar sem starfsmannaráð og stéttarfélög hefðu getað mætt viðræðunefndum ríkisvaldsins á jafnréttisgrundvelli.
—    Frumvarpið eykur vald vinnuveitandans mikið miðað við hinn almenna vinnumarkað og þykir vald vinnuveitenda þar þó vera verulegt. Þannig stríðir það gegn öllum venjum sem eiga að ríkja í samskiptum vinnuveitenda og starfsmanna.
—    Í frumvarpinu skortir algerlega stefnumótun hvað snertir samningsstöðu stéttarfélaga við ríkisvaldið og stofnanir þess. Það felur í sér lélegri ráðningarfestu en verið hefur. Það vantar algerlega farveg ef deilur verða milli forstöðumanns og starfsmanna einstakra stofnana. Þetta frumvarp gengur raunverulega út á það að geðþóttavald forstöðumanna ráði ríkjum í opinberri stjórnsýslu.
—    Frumvarpið ber öll merki þess að hagsmunir ríkisvaldsins sem vinnuveitanda ganga eins og rauður þráður í gegnum það. Það gengur á réttindi starfsmanna og möguleika þeirra til að hafa áhrif á sitt starfsumhverfi. Þetta er siðlaus lagasetning og í andstöðu við nútímastjórnarhætti miðað við hvernig fyrirtækjarekstur og opinber stjórnsýsla hefur þróast í nágrannalöndunum.
—    Í frumvarpið vantar algjörlega ákvæði um starfsmannaráð í einstökum stofnunum. Það vantar í það ákvæði um skyldu til samráðs og samstarfs við stéttarfélög eða samtök þeirra þegar kemur að ákvörðunum sem varða starfsmenn sjálfa, svo sem um setningu reglna við yfirborganir. Hafa ber í huga að ríkisstarfsmenn eru 25 þúsund talsins og vitaskuld er mjög mikilvægt að gætt sé eðlilegs samráðs í stjórnsýslunni.
—    Frumvarpið er allt of hrátt til að hægt sé að vinna eftir því af nokkru viti. Ítrekaðar ábendingar, bæði minni hlutans og forsvarsmanna stéttarfélaga, um að málið yrði skoðað betur voru hundsaðar. Meiri hlutinn afgreiddi málið löngu áður en það var tilbúið til frekari þinglegrar afgreiðslu.
—    Í frumvarpinu ríkir mikil óvissa um réttarstöðu ýmissa stétta. Þannig má geta þess að stöðu lögreglumanna, tollvarða og fangavarða er breytt verulega í frumvarpinu og í breytingartillögum meiri hlutans. Ekki hefur verið haft eðlilegt samráð við stéttarfélögin og nauðsynleg umræða hefur ekki farið fram meðal félagsmanna þeirra. Einnig má geta þess að réttarstaða presta og prófasta, en um þá gildir sérstaða í íslenskum rétti, hefur ekki verið skoðuð vandlega.
—    Ýmislegt bendir til þess að athuga hefði þurft betur fyrirkomulag á réttarstöðu prófessora og annarra starfsmanna Háskóla Íslands, en ljóst er að fyrirkomulag kjarasamninga á þeim vettvangi gerir það að verkum að ekki er hægt með einhliða hætti að kveða á um breytingar án þess að það sé rætt ítarlega við kjarasamningagerð.
—    Í nefndinni var rætt m.a. um að skipa þyrfti einstökum stofnunum og fyrirtækjum ríkisins stjórnir þar sem það á við til að forstöðumenn með hið aukna vald sitt lytu virku eftirliti. Ekki var neitt tillit tekið til þessara ábendinga þannig að miðstýringarvaldið er látið ná fram að ganga með tillögum meiri hlutans.
—    Ekki er tekið á þeirri staðreynd að fjölmargir starfsmenn ríkisins eru með „æviráðningu“, þ.e. ekki með gagnkvæman uppsagnarfrest. Þessir menn munu starfa við hlið nýrra starfsmanna ríkisins sem eru með gagnkvæman uppsagnarfrest eða tímabundna ráðningu. Engin tilraun er gerð til að reyna að fella þessi tvö ólíku kerfi saman, t.d. á þann hátt að þeir sem væru með „æviráðningu“ á eldri kjörum gætu átt þess kost að fara inn í hið nýja réttarkerfi og þá á hærri launum gegn því að afsala sér æviráðningunni. Engin ákvæði eru í frumvarpinu um slíkan feril.
—    Einnig hefur verið bent á að til bóta væri ef forstöðumenn stofnana og fyrirtækja og æðstu embættismenn gerðu nánar grein fyrir starfsemi sinna stofnana, t.d. gagnvart viðkomandi þingnefnd þegar það á við. Enginn slíkur ferill er í frumvarpinu né gert ráð fyrir honum í greinargerð eða í breytingartillögum meiri hlutans.
—    Vafasamt er að takmarka auglýsingar á lausum stöðum hjá ríkinu eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
—    Gerð er alvarleg athugasemd við það að heimilt verður að framlengja stöður yfirmanna ríkisins án auglýsinga þannig að í reynd getur verið um að ræða framlengingu á ráðningu óhæfra yfirmanna í ríkisþjónustu um mörg ár án þess að neitt virkt eftirlit sé með starfseminni.
—    Lögfesta hefði átt með skilmerkilegum hætti að reglur fjármálaráðherra um yfirborgunarvald forstöðumanns yrðu settar í samráði við stéttarfélög og/eða starfsmannaráð einstakra stofnana. Þetta eftirlitslausa vald, sem ætlunin er að lögfesta, er mikill galli á frumvarpinu.
—    Einnig hefði verið nauðsynlegt að takmarka möguleika forstöðumanna ríkisins á að framselja vald sitt þannig að ótvírætt væri hvar það vald lægi.
—    Takmarkanir á rétti embættismanna til að starfa að málefnum sem tengjast kjaramálum eru síður en svo til bóta og vega harkalega að stjórnarskrárvörðum mannréttindum einstaklingsins um málfrelsi.

Aukið vald forstöðumanna.
    Eitt af meginatriðum frumvarpsins, og það sem frumvarpshöfundar lofa hvað mest, er að forstöðumönnum ríkisstofnana er falið meira vald í stjórnsýslunni, þar á meðal til að ákvarða viðbótarlaun til einstakra starfsmanna sem sýnt hafa sérstaka hæfni í starfi. Ekki er í frumvarpinu á neinn hátt lýst með hvaða hætti skuli gera þetta og þrátt fyrir ítrekaðar óskir minni hlutans um að fá reglur sem ætlunin er að vinna eftir hefur ekkert slíkt verið lagt fram í nefndinni. Það er bersýnilegt að engar slíkar reglur eru til. Með þessu ákvæði er forstöðumönnum falið mikið vald til eftirlitslausra launaákvarðana og geta þeir hyglað einstökum starfsmönnum án nokkurra afskipta, t.d. af hálfu stéttarfélaganna.
    Ein röksemd frumvarpshöfunda er að slíkt fyrirkomulag svari til þess sem er á almennum markaði. Hér er um mikinn misskilning að ræða. Á almennum markaði hefur framkvæmdastjóri fyrirtækis vissulega vald og möguleika til að gera sjálfstæða launasamninga við undirmenn sína og það þekkist mjög víða. Framkvæmdastjórar í fyrirtækjum á almennum markaði eru hins vegar bundnir af stjórnarsamþykktum og verða í flestum fyrirtækjum að standa reikningsskil gerða sinna gagnvart stjórn síns fyrirtækis. Hún þarf síðan að svara fyrir rekstur fyrirtækisins á árlegum aðalfundi eða hluthafafundum. Hér er því um a.m.k. tvö virk stjórnstig að ræða hjá framkvæmdastjóra fyrirtækis á hinum almenna markaði miðað við forstöðumenn hjá ríkinu.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að forstöðumaður geti beitt þessu valdi sínu í samræmi við miðstýrðar reglur fjármálaráðuneytis en hafi þó mikið vald til sjálfstæðra launaákvarðana gagnvart einstökum starfsmönnum, en formlegur yfirmaður forstöðumanns er viðkomandi fagráðherra. Vitað er að í ríkisrekstrinum eru fjölmargir forstöðumenn tiltölulega sjálfstæðir þannig að húsbóndavald ráðherra, sem er þar að auki pólitískur, virkar alls ekki í reynd. Þannig er samanburður við almennan markað varðandi hið aukna vald forstöðumanna alls ekki á rökum reistur.
    Ákvæðið um útfærslu á viðbótarlaunum miðar að því, eins og fleiri ákvæði, að brjóta niður möguleika stéttarfélaganna til að hafa áhrif á samninga um kaup og kjör félagsmanna sinna. Þetta er vitaskuld alvarleg íhlutun í samningafrelsið og þann feril sem hefur verið hér um áratuga skeið.
    Vitaskuld hefði komið til greina, ef lögfesta á þetta frumvarp með svona miklu valdi forstöðumanna, að gerð hefði verið gagnskör að því að segja upp öllum forstöðumönnum ríkisins og auglýsa stöður þeirra lausar til umsóknar og endurráða í stöðurnar fyrri forstöðumenn eða aðra og reyna að stokka ríkisreksturinn þannig upp ef menn hefðu talið þörf á. Í stað þess eru forstöðumönnum og æðstu yfirmönnum ríkisins tryggðar ýmsar réttarbætur sem almennum starfsmönnum eru bannaðar.
    Einnig má geta þess að forstöðumenn ríkisins og yfirmenn ríkisstofnana eru margir ekki í stakk búnir til þess að taka við því aukna valdi sem frumvarpið veitir þeim. Engin tilraun er til þess gerð í frumvarpinu, hvorki í greinum þess né í greinargerð, að lýsa því hvað eigi að gera ef ýmsir núverandi forstöðumenn reynast ekki færir um að fara vel með það viðbótarvald sem þeir fá samkvæmt því.

Gamaldags aðferðafræði við stjórnun.

    Í frumvarpinu, bæði í greinargerð og í einstökum frumvarpsgreinum sem varða stjórnunarstíl í opinberum rekstri, er gamaldags hugmyndafræði sem hefur runnið sitt skeið á enda. Þessi hugmyndafræði, sem felur í sér áherslu á boðvald forstöðumanna og yfirmanna og mjög miðstýrða ákvarðanatöku í einstökum stofnunum, hefur alls staðar orðið að víkja fyrir
—    meiri valddreifingu,
—    samráði og
—    samstöðu milli forsvarsmanna, starfsfólks og samtaka þeirra.
Á síðustu árum hafa orðið miklar framfarir í stjórnun erlendis, bæði í fyrirtækjum og á opinberum vettvangi, sem miða að því að dreifa valdi og ákvarðanatöku á árangursríkan hátt þannig að starfsemi einstakra stofnana sé sjálfstæð og inn í hana fléttist sem flestir aðilar sem að stofnuninni koma. Þessi hugmyndafræði fær enga fótfestu í frumvarpinu. Í nágrannalöndum okkar og á almennum markaði hérlendis er sífellt reynt að tengja starfsmenn inn í lýðræðislegan ákvarðanaferil í starfi sínu, ásamt stjórnendum, frekar en að setja upp miðstýrt boðvald gagnvart undirmönnum eins og gert er í frumvarpinu. Einn alvarlegasti galli frumvarpsins er að ekki er fundinn farvegur fyrir nútímalega stjórnunarhætti.
    Vitaskuld er það markmið opinbers reksturs að ná árangri en til þess þarf að beita nýjustu þekkingu. Ýmislegt í starfsemi ríkisins er á samkeppnisvettvangi og þá þarf að laga sig að þeim leikreglum sem þar gilda. Það er hins vegar ekki gert í frumvarpinu heldur er miðstýringin í reynd látin gilda þegar kemur að því að finna stjórnunarlegum þáttum farveg. Mjög áberandi er sú miðstýringarárátta sem kemur m.a. fram í því að fjármálaráðuneytinu er falin framkvæmd á langflestum þáttum sem varða starfsmenn ríkisins. Í frumvarpinu er engin tilraun gerð til þess að tengja fagráðuneytin betur inn einstökum ákvörðunum á árangursríkan hátt, en slíkt væri miklu nær nútímastjórnarháttum en þetta frumvarp gerir ráð fyrir.
    Vald forstöðumanna í fyrirtækjum, bæði til ráðninga og sjálfstæðra viðbótarlaunaákvarðana er dæmi um vanhugsaða stjórnarhætti þar sem forstöðumanni er þar falið eftirlitslítið vald í stað þess að tengja það endurskipulagningu á ríkisrekstri.

Umsögn Lagastofnunar Háskóla Íslands.
    Félagsmálanefnd Alþingis leitaði álits Lagastofnunar á frumvarpi um stéttarfélög og vinnudeilur. Í þeirri álitsgerð koma fram ýmsar athugasemdir byggðar á alþjóðlegum samningum sem eiga einnig við um frumvarpið um réttindi og skyldur.
    Í álitsgerðinni segir á bls. 2: „Rétt er þó að taka fram að Alþjóðavinnumálastofnunin í Genf hefur lagt áherslu á mikilvægi reglulegs samráðs stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins til að tryggja frið í þjóðfélaginu, þar á meðal samráð við undirbúning löggjafar sem snertir þá.“ Einnig segir síðar í álitsgerðinni, á bls. 10: „Þó að réttur einstakra launþega til að stofna stéttarfélög séu mannréttindi hvers launþega og sá réttur verndi ekki þau stéttarfélög sem þegar eru til staðar er ljóst að bæði stjórnarskrá og alþjóðasáttmálar á þessu sviði gera ráð fyrir því að íhlutun ríkisvalds með lagasetningu um málefni stéttarfélaga sé mjög takmörkuð og hindri ekki lögmæta og eðlilega starfsemi stéttarfélaga. Þá er það einnig mjög mikilvæg hlutverk ríkisvaldsins að stuðla hverju sinni að því að friður ríki á vinnumarkaði án þess þó að grípa inn í starfsemi og baráttu stéttarfélaga.“
    Ljóst er af þessum tilvitnunum að frumvörp ríkisstjórnarinnar brjóta í bága við alþjóðlega samninga sem eru lagðir til grundvallar í álitsgerðinni. Það er a.m.k. ljóst að sú hugmyndafræði, sem liggur að baki frumvarpinu um réttindi og skyldur og frumvarpi um stéttarfélög og vinnudeilur, gengur þvert á það sem er talið eðlilegt í samskiptum vinnuveitenda og launþega eða í samskiptum ríkisvalds og launþega.
    Þetta eru alvarlegar athugasemdir sem styðja enn frekar þá kröfu að frumvörpin verði dregin til baka.

Umsagnir um frumvarpið og breytingartillögur meiri hlutans.
    Fjölmargar umsagnir bárust nefndinni, og voru þær nær allar á einn veg, þ.e. stéttarfélögin og verkalýðsfélögin lögðust hatramlega gegn frumvarpinu og kröfðust þess að það yrði dregið til baka. Fulltrúar minni hlutans í nefndinni, svo og aðrir stjórnarandstöðuþingmenn, taka eindregið undir þá kröfu, enda er frumvarpið inngrip í kjarasamninga, einhliða breyting á réttarstöðu, illa unnið og hefði þurft miklu lengri og betri aðdraganda; þegar setja á nýja löggjöf sem endurspegli nútímanlega starfsmannastefnu.
     Stuðningur við frumvarpið kom einungis frá vinnuveitendum á almennum markaði, en allir aðrir umsagnaraðilar lögðust gegn frumvarpinu og margir þeirra mjög harkalega. Umsagnir sem bárust nefndinni verða þingmönnum tiltækar við 2. umræðu um málið.
    Breytingartillögur meiri hlutans, sem bornar eru fram í 19 liðum á sérstöku þingskjali, eru flestar minni háttar breytingar á efni frumvarpsins. Tillögurnar breyta ekki grundvallaratriðum frumvarpsins.
    Fyrsta breytingartillaga meiri hlutans lýtur að því að fella brott orðin „svo sem minni háttar skrifstofustörf, störf samkvæmt námssamningi, ræstingastörf, sendilsstörf eða önnur svipuð störf“ í 2. mgr. 7. gr. Þetta orðalag hefur verið gagnrýnt af mjög mörgum, enda sýnir það lítilsvirðingu gagnvart tilteknum störfum hjá ríkisins. Engin efnisbreyting er gerð á greininni.
    Á 9. gr. frumvarpsins er gerð sú breyting að fjármálaráðherra getur breytt ákvörðunum um viðbótarlaun ef þær brjóta í bága við reglur og afnumið heimild einstakra forstöðumanna til að ákvarða starfsmönnum viðbótarlaun ef rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar er ekki í samræmi við fjárlög. Þessi breytingartillaga þýðir í reynd að fari stofnun fram úr fjárlögum eru forstöðumanni allar bjargir bannaðar við að veita viðbótarlaun. Eins og áður hefur verið bent á verður það gert samkvæmt reglum sem fjármálaráðherra setur, en ekki liggur fyrir hvers eðlis þessar reglur eru.
    Fjárlög hafa undanfarin ár verið þannig að ýmsar stofnanir hafa reglubundið farið fram úr þeim. Má þar nefna stofnanir innan heilbrigðiskerfisins. Samkvæmt þessari breytingartillögu meiri hlutans hefur fjármálaráðherra vald til að afturkalla viðbótarlaunagreiðslur forstöðumanns. Hér er enn og aftur miðstýring fjármálaráðuneytisins alls ráðandi. Oft er það ekki nema að hluta til á ábyrgð forstöðumanns hvort rekstur er samkvæmt fjárlögum, enda er það Alþingi sem setur fjárlög og gerir oft kröfur um tiltekna þjónustu. Oft eru teknar ákvarðanir af hálfu ríkisstjórnar sem gera forstöðumanni ókleift að halda sig innan ramma fjárlaga.
    Gerð er tillaga um breytingu á 10. gr. frumvarpsins, þ.e. að hugtakið „föst laun“ verði skilgreint sérstaklega. Hér er reynt að taka á svokallaðri reglu eftirmanns við lífeyrisgreiðslur, þ.e. að fyrrverandi starfsmaður geti ekki gert kröfu til viðbótarlauna sem eftirmaður hans í starfi hefur fengið. Þetta mál tengist endurskoðun á lífeyrismálum opinberra starfsmanna en það mál hefur verið saltað í bili. Ekki er augljóst, þrátt fyrir breytingartillöguna, að ákvæðið haldi gagnvart dómstólum þar sem það hefur verið talinn skýlaus réttur manns sem lætur af starfi að eftirlaun hans miðist við laun eftirmanns. Hér er enn eitt dæmið um óljósa afgreiðslu meiri hlutans.
    Gerð er tillaga um að upptalningu í 22. gr. frumvarpsins verði breytt nokkuð. Próföstum og prestum þjóðkirkjunnar hefur verið bætt í hóp embættismanna. Jafnframt verði starfsmenn lögreglu- og tollstjóraembætta gerðir að embættismönnum, þó þannig að samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans við 39. gr. skulu laun og launakjör lögreglumanna, tollvarða og fangavarða fara eftir kjarasamningi sem stéttarfélög eða samtök þeirra gera við ríkið. Hér er farið út á þá braut að taka út úr einn flokk embættismanna og veita honum rétt til samningsgerðar, en um þessar stéttir gildir að þær búa við takmarkaðan verkfallsrétt.
    Því er augljóst að samkvæmt frumvarpinu verða opinberir starfsmenn a.m.k. þrenns konar:
—    embættismenn án samningsréttar sem lúta Kjaradómi eða kjaranefnd,
—    sérstakir embættismenn, þ.e. lögregluþjónar, tollverðir og fangaverðir sem njóta réttinda embættismanna en hafa þar að auki samningsrétt, og
—    almennir starfsmenn sem eru með gagnkvæman uppsagnarfrest, samningsrétt og verkfallsrétt eftir öðrum lögum.
    Þessi breytingartillaga meiri hlutans um sérstaka embættismenn hefði þurft miklu meiri skoðunar við og væri vel hægt að ímynda sér að fleiri stéttir vildu komast í þann flokk sem hinar sérstöku öryggisstéttir eru settar í. Hugsanlega er hér um brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að ræða.
    Breytingartillaga, sem meiri hlutinn gerir er við 39. gr., kveður á um að laun og launakjör embættismanna skuli ákveðin af Kjaradómi og kjaranefnd, fyrir utan undantekningu gagnvart lögreglumönnum, tollvörðum og fangavörðum. Hér er formfest enn betur hið tvöfalda launakerfi frumvarpsins:
—    hin sérstaka lávarðadeild ríkisstarfsmanna, embættismenn sem njóta sérstakra réttinda, auk ívilnandi ákvæða hvað varðar störf Kjaradóms og kjaranefndar, og
—    almennir starfsmenn sem semja um kaup og kjör.
    Í breytingartillögu meiri hlutans við 56. gr. er kveðið skýrt á um að kjaranefnd skuli ákvarða laun fyrir dagvinnu, önnur starfskjör, hvaða aukastörf tilheyri aðalstarfi og hvað ber að launa sérstaklega. Síðan er búið til sérstakt ákvæði fyrir hæst launuðu menn ríkisins, þ.e. ráðuneytisstjóra og forstöðumenn stofnana, þess efnis að kjaranefnd er falið að ákvarða þeim laun fyrir venjubundið vinnuframlag og starfsskyldur umfram dagvinnu. Við þá ákvörðun getur nefndin tekið sérstakt tillit til hæfni sem nýtist í starfi og sérstaks álags sem starfinu fylgir. Hér er enn og aftur hyglað þeim sem best mega sín í opinberri þjónustu. Sérstakir trúnaðarmenn ráðherra eiga þannig að fá sérstaka meðferð í kjaranefnd og nefndinni er falið með lögum að verðlauna þá sérstaklega. Slík ákvæði eru ekki látin gilda fyrir almenna starfsmenn ríkisins.
    Við 44. gr. er gerð breytingartillaga sem kveður á um að skylt sé að veita áminningu, en ekki á að gefa starfsmanni tækifæri til að tjá sig um ástæður uppsagnar, svo sem ef uppsögn stafar af því að verið er að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnana. Þetta þýðir í reynd að forstöðumönnum er veitt fullkomið vald til að segja fólki upp án nokkurra skýringa. Hér er um að ræða alvarlega atlögu að starfsöryggi opinberra starfsmanna miðað við það sem áður var og undirstrikar enn frekar hentistefnuvald forstöðumanna.
    Að lokum er í breytingartillögum meiri hlutans gert ráð fyrir að sá frestur sem gildir um biðlaun verði færður í fyrra horf. Það ber að undirstrika varðandi biðlaunin að tekinn er biðlaunaréttur af nýjum starfsmönnum ríkisins. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að biðlaunaréttur verði felldur niður hjá núverandi starfsmönnum ríkisins ef um formbreytingu verður að ræða á ríkisstofnunum þrátt fyrir að það mál sé ótvírætt samningsatriði.
    Í heildina má segja að breytingartillögur meiri hlutans séu smávægilegar, orðalag snyrt og sniðnir af nokkrir agnúar. Breytingatillögurnar breyta í engu grundvallaratriðum frumvarpsins þannig að það verði ásættanlegra. Sama skoðun hefur komið fram af hálfu allra stéttarfélaga opinberra starfsmanna, svo og á almennum vinnumarkaði.

Lokaorð.
    Nefndin átti fundi með mörgum umsagnaraðilum og þar kom fram hörð andstaða við frumvarpið, auk þess sem skýrt kom í ljós að málin yrðu tekin upp af fullri hörku í næstu kjarasamningum. Því er augljóst að verði þetta frumvarp að lögum er búið að slíta í sundur friðinn milli ríkisvaldsins og starfsmanna þess. Fulltrúar stéttarfélaga drógu enga dul á það að yrði frumvarpið lögfest yrðu næstu kjarasamningar einstaklega erfiðir.
    Óskir minni hlutans um að málið yrði skoðað betur yfir sumarið voru hundsaðar. Ekki var hlustað á ráðleggingar minni hlutans um að ríkisstjórnin tæki út úr frumvarpinu þau nauðsynlegu pólitísku áhersluatriði sem hún teldi sig þurfa að koma fram á þessu þingi en frestaði málinu að öðru leyti.
    Augljóst er af öllum málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar í þessu máli að eitt aðalatriði frumvarpsins er að afnema biðlaunarétt. Ástæða þess að ríkisstjórnin leggur svo mikla áherslu á afnám þess réttar er fyrirhuguð hlutafjárvæðing ríkisstofnana. Hér ber hæst Póst og síma, en frumvarp um það efni er nú í meðförum Alþingis. Samkvæmt því frumvarpi fer um biðlaunarétt samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Verði þetta frumvarp að lögum, sem afnemur biðlaunaréttinn, þýðir það að starfsmenn Pósts og síma missa þann rétt, en gildistaka þess frumvarps er síðar en frumvarps um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.
    Afnám biðlaunaréttarins er einnig mikilvægt fyrir ríkisstjórnina vegna fyrirhugaðra breytinga á ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög en komið hefur fram í dómum að biðlaunaréttur telst lögverndaður réttur og hafa dómsmál unnist af því tilefni við formbreytingu ríkisstofnana. Hér er því um mjög alvarlegt mál að ræða og skýrir þetta m.a. hörku ríkisstjórnarinnar við að keyra málið í gegn með þeim hætti sem hún stefnir að.
    Við lokaafgreiðslu málsins í nefndinni gerði minni hlutinn kröfu til þess að fjármálaráðherra ásamt helstu starfsmönnum sínum kæmi á fund hennar til að fara yfir helstu atriði málsins áður en málið yrði afgreitt út úr nefndinni. Slíkt var eðlilegt og nauðsynlegt þar sem komið höfðu fram fjölmargar alvarlegar ábendingar um frumvarpið sem embættismenn voru ekki í stakk búnir til að svara, enda ber fjármálaráðherra hina pólitísku ábyrgð á málinu. Þrátt fyrir það að fjölmörg dæmi séu um að ráðherra komi fyrir þingnefnd og skýri sín þingmál neitaði fjármálaráðherra að koma fyrir efnahags- og viðskiptanefnd. Þess í stað var málið keyrt út úr nefndinni í andstöðu við minni hlutann. Sú afstaða lá auk þess fyrir frá samtökum launafólks að þetta frumvarp fæli í sér ávísun á mikil átök í næstu kjarasamningum.
     Bandormsfrumvarp, sem lagt er fram í tengslum við þetta frumvarp, og felur í sér breytingar á fjölmörgum sérlögum hefur ekki enn fengið umfjöllun á Alþingi. Það eru forkastanleg vinnubrögð að bandormurinn skuli ekki ræddur í tengslum við frumvarpið um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Framkoma ríkisstjórnarmeirihlutans við afgreiðslu málsins út úr nefndinni er með eindæmum og sýnir betur en margt annað þann hroka og ögrun sem einkennir ríkisstjórnina í samskiptum sínum við launafólk. Minni hlutinn greiddi atkvæði gegn því að málið yrði tekið út úr nefndinni. Málið yrði að skoða frekar auk þess sem rétt væri að ræða við fjármálaráðherra um einstaka þætti. Meiri hlutinn kaus að valta yfir sjónarmið minni hlutans og allrar launþegahreyfingarinnar daginn fyrir 1. maí sem lýsir betur en margt annað hvað ríkisstjórninni er algerlega sama um sjónarmið og hagsmuni launafólks í þessu máli.
    Minni hlutinn telur að áhersla ríkisstjórnarinnar í þessu máli sýni glöggt forgangsröðun hennar. Reynt er með öllum tiltækum ráðum og í skjóli mikils meiri hluta á Alþingi að kreppa að réttindum og skyldum opinberra starfsmanna og annarra launþega í þessu landi og gera þeim erfiðara fyrir að sækja rétt sinn og réttmæt kjör í næstu kjarasamningum.
    Augljóst er að ríkisstjórnin gengur hér erinda vinnuveitenda hvort sem um ríkisvald eða vinnuveitendur á almennum markaði er að ræða. Þessi stjórnarstefna er andstæð grundvallarhugmyndum minni hlutans um samráð og samstarf aðila í þjóðfélaginu. Það er því eðlilegt að þessu frumvarpi verði vísað frá. Frumvarpið, ásamt breytingartillögunum, felur í sér það alvarlega árás á réttindi og skyldur opinberra starfsmanna að ekki hafa önnur eins vinnubrögð sést í áratugi.
    Þessi mál á að leysa í samvinnu og finna endurskoðun laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eðlilegan farveg og tengja þau mál kjarasamningum, þar sem það á við. Í stað þess kýs ríkisstjórnin að efna til átaka við starfsmenn sína og kærir sig kollótta um afleiðingarnar.
    Sókn ríkisstjórnarinnar á þessum vettvangi endurspeglast ekki einungis í þessu frumvarpi heldur einnig í frumvarpi um stéttarfélög og vinnudeilur sem liggur fyrir Alþingi. Það er augsýnilegt að ríkisstjórnin leggur höfuðáherslu á það á sínu fyrsta starfsári að þrengja að launafólki, m.a.
—    hvað varðar stöðu þeirra á vinnumarkaði og
—    með niðurskurði á framlögum í fjárlögum til velferðar- og heilbrigðismála og
—    vaxandi ójöfnuði í skattkerfinu efnafólki í hag.
    Allt ber þetta að sama brunni. Ríkisstjórnin gætir hagsmuna hinna betur stöddu í þjóðfélaginu og gengur á rétt þeirra sem minna mega sín. Minni hlutinn mótmælir slíkum vinnubrögðum og mun berjast gegn þeim á Alþingi og annars staðar með öllum tiltækum ráðum.
    Minni hlutinn leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk þessu áliti.

Alþingi, 6. maí 1996.Ágúst Einarsson,

Jón Baldvin Hannibalsson.

Steingrímur J. Sigfússon.


frsm.