Ferill 510. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 510 . mál.


913. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



1. gr.


    Við 1. mgr. 33. gr. laganna bætist nýr stafliður, er verður g-liður, svohljóðandi: Að veita styrk til kaupa á næringarefnum og sérfæði sem lífsnauðsynlegt er vegna hamlaðrar líkamsstarfsemi.

2. gr.


    3. mgr. 33. gr. laganna orðast svo:
    Tryggingaráð setur reglur um greiðslu styrkja skv. a-, b- og g-liðum. Afla skal greiðsluheimildar frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir fram. Tryggingastofnun getur áskilið vottorð sérfræðings um nauðsyn hjálpartækis, þjálfunar, næringarefnis eða sérfæðis.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt þar sem nauðsynlegt er talið að lögfesta heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að veita styrki til kaupa á næringarefnum og sérfæði. Í lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, er ekki að finna heimild til slíkra greiðslna og hafa Tryggingastofnun ríkisins og tryggingaráð óskað eftir því við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að hann beiti sér fyrir lagabreytingu þessa efnis. Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur að ósk ráðherra ákveðið að flytja slíkt frumvarp.
    Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð gilda sérstakar reglur um styrki sem almannatryggingar veita til kaupa á sérfæði og næringu. Hér á landi hafa slíkar reglur ekki átt sér lagastoð en Tryggingastofnun ríkisins hefur leitast við að leysa vandann, m.a. á grundvelli heimildar til að veita hjálpartækjastyrki, innan reglna um örorkustyrki, uppbóta á lífeyri og umönnunarbætur. Slíkar lausnir eru ófullnægjandi og ná ekki til allra þeirra sem þörf hafa fyrir þá aðstoð sem hér um ræðir. Því er nauðsynlegt að kveða skýrt á um rétt til styrkveitinga vegna næringar og sérfæðis þannig að unnt sé að taka heildstætt á þeim málum og færa þau til samræmis við framkvæmd annars staðar á Norðurlöndum.
    Nokkrir hópar sjúklinga verja verulegum fjármunum til kaupa á lífsnauðsynlegri næringu eða sérfæði og hafa heilbrigðisstofnanir og fulltrúar einstakra sjúklingahópa óskað eftir því að Tryggingastofnun ríkisins taki þátt í þeim kostnaði. Um er að ræða kaup á næringu vegna efnaskiptagalla, næringu um slöngu, næringarviðbót vegna vannæringar og sérfæði, svo sem vegna ofnæmis, óþols, lifrarbilunar, nýrnabilunar eða efnaskiptagalla. Í þessu sambandi má sérstaklega nefna að á undanförnum árum hefur átt sér stað veruleg þróun á næringargjöf um slöngu fyrir sjúklinga sem dveljast í heimahúsum, tímabundið eða til langs tíma. Þörf fyrir þá aðstoð sem frumvarp þetta varðar er að öðru leyti afar mismunandi. Um getur verið að ræða tímabundna notkun þeirra sem útskrifaðir eru af heilbrigðisstofnun, einstaklinga með meðfædda efnaskiptagalla sem þurfa á sérfæði að halda frá fæðingu eða krabbameinssjúklinga eða aðra sem haldnir eru alvarlegum sjúkdómum og þurfa tímabundið á næringarviðbót að halda.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Við 1. mgr. 33. gr. laganna er bætt sérstakri heimild til að veita styrki til kaupa á næringarefnum og sérfæði sem er lífsnauðsynlegt vegna hamlaðrar líkamsstarfsemi. Undir heimildina fellur næring vegna efnaskiptagalla (PKU), næring um slöngu (sondumatur), næringarviðbót vegna vannæringar (næringardrykkur), sérfæði (próteinskert og glútensnautt sérfæði vegna ofnæmis, óþols, lifrarbilunar, nýrnabilunar eða efnaskiptagalla). Tryggingaráð setur nánari reglur um framkvæmd styrkveitinga skv. 3. mgr. 33. gr. laganna, sbr. 2. gr. frumvarps þessa.

Um 2. gr.


    Til samræmis við breytingu á 1. mgr. 33. gr. er bætt inn heimild til að setja reglur um styrkveitingar. Þá er rýmkuð heimild til að áskilja vottorð sérfræðings við mat á þörf styrkveitingar í 3. málsl. 3 mgr. 33. gr. þannig að hún nái til þeirra starfsmanna sem um mál fjalla hverju sinni en ekki einungis til tryggingayfirlæknis eins og nú er. Tryggingayfirlæknir getur eftir atvikum haft þetta hlutverk með höndum auk annarra starfsmanna stofnunarinnar.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.