Ferill 249. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 249 . mál.


924. Nefndarálit



um frv. til l. um umgengni um auðlindir sjávar.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Kolbeinsson og Snorra Rúnar Pálmason frá sjávarútvegsráðuneyti, Árna Múla Jónasson frá Fiskistofu, Kristján Þórarinsson frá LÍÚ og Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands sem báðir áttu sæti í nefndinni er samdi frumvarpið, Grétar Má Jónsson, Sæmund Halldórsson og Örn Einarsson frá skipstjóra- og stýrimannafélaginu Vísi og Ingólf Karlsson, Dag Brynjólfsson, Friðrik Magnússon, Hermann Ólafsson og Jón Sigurðsson, allt útgerðarmenn netabáta. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Fiskmarkaði Vestmannaeyja, Hafnarsjóði Þorlákshafnar, Íslenskum sjávarafurðum hf., Landssambandi smábátaeigenda, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Náttúruverndarráði, Samtökum fiskvinnslustöðva, Sigurði Gunnarssyni, Sjómannasambandi Íslands, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Verkamannasambandi Íslands og Vélstjórafélagi Íslands. Nefndinni bárust einnig áskoranir um að fella brott tiltekna grein frumvarpsins frá eigendum og áhöfnum vertíðarbáta.
    Frumvarpið er samið af samstarfsnefnd um bætta umgengni um auðlindir sjávar sem ráðherra skipaði árið 1994.
    Nefndin leggur til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Heiti frumvarpsins verði breytt þannig að heiti laganna verði: Lög um umgengni um nytjastofna sjávar.
    Að óheimilt verði að varpa fyrir borð fiskhlutum sem til falla við verkun eða vinnslu nema með heimild ráðherra. Ákvæði 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins veitir að mati nefndarinnar of víðtækar undanþágur frá meginreglu 1. mgr. 2. gr., um að skylt sé að hirða og koma með að landi allan afla.
    Þar sem mikil andstaða kom fram hjá mörgum umsagnaraðilum við ákvæði 3. gr. og ekki er að mati nefndarinnar til staðar fullnægjandi rökstuðningur fyrir því að takmarka veiðar þess hluta bátaflotans sem greinin fjallar um umfram aðra er lagt til að hún verði felld brott.
    Lögð er til breyting á síðari málsgrein 4. gr. sem fjallar um að skip verði að hafa aflaheimildir sem líklegt sé að dugi fyrir afla í veiðiferð. Miklar umræður urðu um þetta atriði í nefndinni og allt sem lýtur að því að fiski er fleygt í sjóinn. Voru nefndarmenn þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að skoða möguleika á breytingum sem dregið gætu úr úrkasti og var m.a. rætt um hugmyndir um að heimila einhverja löndun meðafla umfram kvóta. Komu fram tillögur um það efni í nefndinni. Nefndin telur ekki að svo stöddu liggja fyrir nægilegar upplýsingar um umfang vandans sem við er að glíma né hafa komið fram tillögur til úrbóta sem samstaða gæti tekist um. Sjávarútvegsnefnd leggur því til að samstarfsnefndin skoði þetta mál áfram og mun hún fylgjast með því starfi.
    Ákvæði 7. gr. verði rýmkað þannig að þeim sem stunda róðra frá afskekktum stöðum verði heimilt að landa þótt höfnin sé ekki viðurkennd af sjávarútvegsráðuneyti sem löndunarhöfn. Nefndin lítur svo á að skilyrði 2. mgr. 7. gr. um að vigtun skuli framkvæmd af löggiltum vigtunarmanni eigi ekki við í þessum tilvikum.
    Orðalag 11. gr. verði fært til betri vegar.
    Afdráttarlaust orðalag 1. málsl. 12. gr., um að starfsmenn hafnarvoga skuli sannreyna að uppgefin tegund vigtaðs afla sé rétt, verði mildað. Þykir ákvæðið eins og það stendur óþarflega strangt og geta leitt til töluverðs viðbótarkostnaðar fyrir hafnir.
    Orðalag 15. gr. verði lagfært.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum, sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 6. maí 1996.



Steingrímur J. Sigfússon,

Árni R. Árnason.

Stefán Guðmundsson.


form., frsm.



Sighvatur Björgvinsson,

Einar Oddur Kristjánsson,

Hjálmar Árnason.


með fyrirvara.

með fyrirvara.



Guðmundur Hallvarðsson.

Svanfríður Jónasdóttir,

Vilhjálmur Egilsson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.