Ferill 297. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 297 . mál.


927. Nefndarálitum frv. til l. um fjárreiður ríkisins.

Frá sérnefnd.    Nefndin hefur farið ítarlega yfir frumvarpið og fengið á fund til sín fulltrúa úr ríkisreikningsnefnd, þá Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda, Magnús Pétursson, ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneyti, Gunnar H. Hall ríkisbókara, Markús Möller, deildarstjóra í Seðlabanka Íslands, Eyjólf Sverrisson, forstöðumann hjá Þjóðhagsstofnun, og Hallgrím Snorrason hagstofustjóra. Einnig mætti á fund nefndarinnar Lárus Ögmundsson, lögfræðingur Ríkisendurskoðunar, og Þórhallur Arason, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneyti. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna, Félagi löggiltra endurskoðenda, Ríkisendurskoðun og Verslunarráði Íslands.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Í þeim felst:
    Lagt er til að ákvæði 2. gr. verði samræmt 3. gr. enda hefur verið litið svo á að lögaðilar, sem ríkið á að hálfu, teljist til ríkisaðila. Þá er einnig lagt til að æðsta stjórn ríkisins verði talin sérstaklega upp í ákvæðinu. Leiðir þetta einnig til breytinga á 3., 13., 20. og 24. gr.
    Lögð er til breyting á 8. gr., um A-hluta ríkisreiknings, svo að ekki leiki vafi á að yfirlit yfir samninga vegna rekstrar og framkvæmda sem fela í sér fjárhagsskuldbindingar sé birt í skýringum með ríkisreikningi. Nefndin telur orðalagið „Samningar sem fela í sér fjárskuldbindingar“ ekki nægilega skýrt í þessu sambandi.
    Lagt er til að hægt verði að gera kröfu um ítarlegri upplýsingar í D- og E-hluta ríkisreiknings en 17. gr. gerir ráð fyrir. Er það til samræmis við þær kröfur sem gerðar eru í 16. gr. til B- og C-hluta ríkisreikningsins.
    Í 20. gr. er gert ráð fyrir að stofnanir, sem falla undir A-hluta ríkisreiknings, skuli senda ársreikning og eignaskrá til ríkisbókhalds, viðkomandi ráðuneytis og Ríkisendurskoðunar. Alþingi og stofnanir þess hafa að mati nefndarinnar sérstöðu í þessu sambandi og er því lagt til að þeim verði ætlað að senda ársreikning og eignaskrá til ríkisbókhalds.
    Lagt er til að til viðbótar þeim upplýsingum sem fjármálaráðherra er skv. 28. gr. gert að birta samhliða framlagningu fjárlagafrumvarps komi upplýsingar um greiðslubyrði lána.
    Lagt er til að gerðar séu auknar kröfur til ráðherra um samráð áður en mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Þannig er í fyrsta lagi lögð til sú breyting á 30. gr. að hlutaðeigandi ráðherrum verði, auk kröfu um samþykki fjármálaráðherra, gert skylt að hafa samráð við fjárlaganefnd Alþingis áður en gerðir eru verksamningar eða samningar um rekstrarverkefni til lengri tíma en eins árs. Í öðru lagi er lagt til að fjármálaráðherra verði skylt að hafa samráð við hlutaðeigandi ráðherra og fjárlaganefnd Alþingis áður en hann innir af hendi greiðslu úr ríkissjóði skv. 33. gr. vegna ófyrirséðra atvika, án heimildar í fjárlögum. Loks er áréttað að forstöðumenn ríkisstofnana sem falla undir A-hluta ríkisreiknings skuli leita samþykkis þess ráðherra sem þeir heyra undir, sem og fjármálaráðherra, áður en tekin er ákvörðun um að geyma ónotaðar fjárveitingar í lok reikningsárs eða draga skuldir frá fyrra ári frá fjárveitingum ársins, sbr. 37. gr.
    Lögð er til sú breyting á 46. gr. að með ríkisreikningi fylgi jafnframt skýringar á frávikum milli fjárlaga og ríkisreiknings í einstökum atriðum.
    Lagðar eru til orðalagsbreytingar á 7., 9., 16., 22., 44., 48. og 50. gr.
    Loks er lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar 1997, en láðst hafði að setja gildistökuákvæði inn í frumvarpstextann.
    Á fundum nefndarinnar kom fram vilji til að gera nánari grein fyrir nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi ber að nefna 15. gr. frumvarpsins. Samkvæmt þeirri grein skulu ríkisstofnanir í A-hluta halda og uppfæra árlega sérstaka eignaskrá þar sem færðar verði inn allar eigur ríkisins sem ekki eru taldar upp í efnahagsreikningi. Nefndin leggur áherslu á að slík skrá liggi fyrir þegar á þessu ári. Í öðru lagi komu fram hugmyndir í nefndinni varðandi færslu vaxta og verðbóta í reikningsskilum, þ.e. um að færa alla vexti til gjalda án leiðréttingar vegna verðþátta. Í skýrslu ríkisreikningsnefndar um málið kemur fram að nefndin hafi velt fyrir sér hvort rétt væri að huga að því að beita sömu reglum í reikningsskilum ríkissjóðs og almennt tíðkast erlendis. Niðurstaðan hafi orðið sú að ríkið ætti ekki að gera tillögur um breytingar á þessu stigi. Ekki eru hér lagðar til breytingar hvað þetta varðar, en þó er full ástæða fyrir ríkisreikningsnefnd að fylgjast náið með þróun mála í þessu efni á næstu missirum. Loks var mikið rætt um hina svokölluðu heimildargrein fjárlaga, þ.e. núverandi 6. gr. fjárlaga (verður 7. gr. samkvæmt frumvarpi), þar sem veittar eru ýmsar heimildir, m.a. til eftirgjafar gjalda, ráðstöfunar og fasteignakaupa. Nefndin leggur áherslu á að um slíkar heimildir eigi það sama við og um önnur ákvæði fjárlagafrumvarps, þ.e. að þær gildi aðeins út fjárlagaárið. Brýnt er að í reglugerð, sem í 51. gr. er gert ráð fyrir að fjármálaráðherra setji um nánari framkvæmd laganna, sé skýrt kveðið á um hvaða efnisþættir komi til álita í slíkum heimildargreinum og um meðferð þeirra.

Alþingi, 6. maí 1996.Sturla Böðvarsson,

Jón Kristjánsson.

Ágúst Einarsson.


form., frsm.Sighvatur Björgvinsson.

Kristinn H. Gunnarsson.

Pétur H. Blöndal.Kristín Ástgeirsdóttir.

Árni M. Mathiesen.

Vilhjálmur Egilsson.Ísólfur Gylfi Pálmason.

Gunnlaugur M. Sigmundsson.