Ferill 366. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 366 . mál.


934. Nefndarálitum frv. til l. um náttúruvernd.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá umhverfisráðuneyti Ingimar Sigurðsson skrifstofustjóra og Guðjón Ólaf Jónsson, aðstoðarmann ráðherra, frá Náttúruverndarráði Arnþór Garðarsson formann og Aðalheiði Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra, frá Ferðamálaráði Íslands Magnús Oddsson ferðamálastjóra, frá Landvernd Svanhildi Skaftadóttur og Auði Sveinsdóttur, frá Félagi íslenskra ferðaskrifstofa Kjartan Lárusson og Sigurjón Hafsteinsson, frá Ferðafélagi Íslands Pál Sigurðsson forseta og Kristján M. Baldursson framkvæmdastjóra og frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga Hólmfríði Sigurðardóttur og Jóhann Þórsson. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Skipulagi ríksins, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Náttúruverndarráði, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Landvarðafélagi Íslands, Landgræðslu ríkisins, Ferðafélagi Íslands, Ferðamálaráði, Bændasamtökum Íslands og Landvernd.
    Frumvarpið felur í sér verulegar breytingar á stjórn náttúruverndarmála og nokkrar breytingar á efnisatriðum laga um náttúruvernd. Nauðsynlegt er að gera breytingar þessar nú þar sem miklar breytingar hafa orðið á undanförnum árum á skipan náttúruverndarmála í stjórnkerfinu og miðar frumvarpið að því að laga stjórn náttúruverndarmála að stofnun umhverfisráðuneytis. Meiri hluti nefndarinnar fagnar áætlaðri heildarendurskoðun laganna og bendir á nauðsyn þess að um þessi mál gildi skýrar og heildstæðar reglur.
    Þá vill meiri hlutinn benda á nauðsyn þess að Náttúruverndarráði verði séð fyrir starfsaðstöðu, en ekki þykja efni til að kveða sérstaklega á um það í lögum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Helstu efnisbreytingar eru eftirfarandi:
    Lögð er til breyting á 6. gr. er snýr að þjónstugjöldum. Lagt er til að ekki verði kveðið á um þjónustugjöld í samningum um umsjón náttúruverndarsvæða heldur sé rekstraraðilum heimilt að ákveða þau án íhlutunar Náttúruverndar ríkisins.
    Lögð er til breyting á 7. gr. er lýtur að hæfisskilyrðum sem þjóðgarðsverðir skulu uppfylla. Leggur nefndin til að þjóðgarðsverðir hafi sérþekkingu og reynslu sem nýtist þeim í starfi, en að ekki sé skilyrði að þeir búi yfir sérþekkingu á náttúrufræðum.
    Lagt er til að við 12. gr. bætist ákvæði er kveður á um að Náttúruverndarráð veiti Náttúruvernd ríkisins faglega ráðgjöf.
    Við 16. gr. er lögð til breyting er snýr að takmörkun umferðar og lokun svæða í verndarskyni. Lagt er til að Náttúruvernd ríksins skuli gera úttekt á ástandi svæða í óbyggðum og gefa umhverfisráðherra skýrslu þar sem fram komi niðurstöður úttektarinnar. Þannig skal koma fram í skýrslunni hvaða svæði eru í hættu og hvar geti komið til lokana. Almenningur skal eiga greiðan aðgang að skýrslunni þannig að fólk geti kynnt sér hvaða svæðum eða hlutum svæða standi til að takmarka umferð um eða loka á komandi ári. Þó er gert ráð fyrir að heimilt verði að loka svæðum þótt þess sé ekki getið í skýrslunni ef brýna nauðsyn ber til og ljóst er að ekki var fyrirsjáanlegt að hausti að loka þyrfti svæðinu eða takmarka umferð um það.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 35. gr. Þannig er í samræmi við breytingartillögu við 6. gr. lagt til að rekstraraðila náttúruverndarsvæðis, hvort sem það er Náttúruvernd ríkisins eða aðilar sem stofnunin hefur falið umsjón svæðanna, verði heimilt að ákveða gjald fyrir veitta þjónustu. Enn fremur er gert ráð fyrir að sömu aðilar geti ákveðið gjald fyrir aðgang að svæðinu ef þar hafa orðið spjöll af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum. Tekjum af aðgangseyri skal verja til eftirlits, lagfæringar eða uppbyggingar á því svæði sem þeirra var aflað eða á aðkomu að svæðinu. Þá er lagt til að við 35. gr. bætist ný málsgrein þar sem kveðið er á um að Náttúruvernd ríkisins skuli birta skrá yfir gjaldtöku allra rekstraraðila náttúruverndarsvæða fyrir næsta ár með opinberri auglýsingu. Skal auglýsingin birtast eigi síðar en í september ár hvert. Slíka gjaldskrá er heimilt að kæra til umhverfisráðherra á grundvelli stjórnsýslulaga. Loks er lagt til að ráðherra verði heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins í reglugerð.

Alþingi, 8. maí 1996.Ólafur Örn Haraldsson,

Árni M. Mathiesen.

Gísli S. Einarsson,


form., frsm.

með fyrirvara.Ísólfur Gylfi Pálmason.

Einar Oddur Kristjánsson.

Arnbjörg Sveinsdóttir.Katrín Fjeldsted.