Ferill 441. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 441 . mál.


952. Nefndarálitvið frv. til l. um breyt. á tollalögum, nr. 55 30. mars 1987, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Sveinsson hdl., Indriða H. Þorláksson, Guðrúnu Ástu Sigurðardóttur og Bergþór Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Sigurgeir A. Jónsson ríkistollstjóra, Karl F. Garðarsson vararíkistollstjóra, Kristin Ólafsson tollgæslustjóra, Björn Hermannsson, tollstjóra í Reykjavík, Samúel Inga Þórisson og Kristínu Þórarinsdóttur frá Tollvarðafélagi Íslands, Ólaf A. Jónsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Hallgrím Gunnarsson frá Íslenskri verslun, Jakob Fal Garðarsson og Arnald F. Axfjörð frá EDI/ICEPRO, Árna Pétur Jónsson frá Tollvörugeymslunni – Zimsen og Stein Sveinsson frá Flutningsmiðluninni Jónum.
    Með lagafrumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum um yfirstjórn tollamála með því að ríkistollstjóra verði falin yfirstjórn allra þátta tollamála á landsvísu. Í samræmi við það er gert ráð fyrir að embætti tollgæslustjóra verði lagt niður. Þá er með frumvarpinu kveðið nánar á um réttaröryggi borgaranna gagnvart tollyfirvöldum og ákvæði um úrskurði og kæruleiðir gerð skýrari og einfaldari. Stefnt er að því að tollafgreiðsla verði öll tölvuvædd árið 2000 og eru með frumvarpinu gerðar breytingar á lögunum sem setja starfsreglur um samskipti tollyfirvalda og innflytjenda vegna þess. Þá eru gerðar ýmsar breytingar og lagfæringar á einstökum ákvæðum laganna til einföldunar og frekari skýrleika.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Í þeim felst:
    Við 1. gr. Lagt er til að við bætist skilgreining á leyndarkóðun og stafrænni undirskrift. Mun þetta hafa í för með sér öryggi fyrir þá sem skiptast á upplýsingum í gegnum tölvur og verður hægt að tryggja að upplýsingar, sem sendar eru um tölvur, komi ekki frá öðrum en þeim sem þær eiga að berast frá og ber ábyrgð á upplýsingunum.
    Við 6. gr. Lagðar eru til þrjár breytingar á greininni. Í fyrsta lagi sú breyting að aðili, sem tollafgreiðir vöru fyrir aðra, beri ekki skilyrðislaust ábyrgð á þeim upplýsingum sem hann sendir tollyfirvöldum. Ósanngjarnt þykir að umboðsaðili beri ábyrgð á röngum upplýsingum sem hann hefur ekki tök á að sannreyna. Er því lagt til að hann beri eingöngu ábyrgð ef hann vissi eða mátti vita að upplýsingarnar voru rangar eða ófullnægjandi. Í öðru lagi er lagt til að ákvæði um að tollstjórar geti boðið innflytjendum aðstoð við útfyllingu aðflutningsskýrslu gegn gjaldi verði fellt brott. Í þriðja lagi er lagt til að við bætist heimild fyrir ríkistollstjóra til að láta taka upp leyndarkóðun og stafræna undirskrift.


Prentað upp.

    Við 8. gr. Lögð er til sambærileg breyting og á 6. gr. hvað varðar upplýsingar í aðflutningsskýrslu.
    Við 12. gr. Lagt er til að þeirri skyldu verði bætt á tollyfirvöld að veita innflytjendum upplýsingar um kæruleiðir samkvæmt lögunum.
    Við 17. gr. Lagðar eru til nokkrar breytingar á greininni. Í fyrsta lagi er lagt til að skýrar verði kveðið á um að tollverðir við embætti ríkistollstjóra annist eftirlits- og rannsóknarstörf. Er það í samræmi við löggæsluheimildir tollvarða sem ekki verða faldar öðrum. Jafnframt er kveðið á um að aðrir starfsmenn embættisins geti starfað að eftirlits- og rannsóknarstörfum án þess þó að þeir geti farið með lögregluvald. Í öðru lagi er lagt til að hætt verði við að fella niður starfsemi tollskólans. Er það m.a. gert með hliðsjón af ábendingum umsagnaraðila um að ákvæði í kjarasamningum starfsmanna tollkerfisins byggist að nokkru á því að skólinn sé starfræktur. Í þriðja lagi er lagt til að sömu skilyrði gildi um ákvörðun ríkistollstjóra til að endurákvarða gjöld og þegar um er að ræða sambærilega ákvörðun tollstjóra. Í fjórða lagi er lagt til að sömu ákvæði gildi um embættisgengi tollstjórans í Reykjavík og gilda um skipun sýslumanna samkvæmt lögum nr. 92/1989. Í fimmta lagi er lögð til orðalagsbreyting á ákvæðinu þannig að skýrt sé kveðið á um hvaða starfsmenn tollstjórar ráða. Loks er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um að við skipun í ríkistollanefnd verði þess gætt að nefndarmenn séu hvorki háðir tollyfirvöldum né þeim sem samskipti hafa við tollyfirvöld.
    Við 24. gr. Lagt er til að fjármálaráðherra verði veitt sambærileg heimild til reksturs tollfrjálsra verslana í höfnum og hann hefur í sambandi við flugstöðvar.
    Við 25. gr. Lagt er til að frestur tollstjóra til að senda tilkynningu um hugsanlega endurákvörðun verði styttur. Miðar tillagan að því að innflytjandi hafi jafnan nægan tíma til andsvara ef tollyfirvöld telja vöru ekki rétt tollafgreidda.
    Við 26. gr. Lagt er til að ákvæði um málskot til ríkistollanefndar verði gert skýrara þannig að ljóst sé hvaða ágreiningsmálum verði skotið til nefndarinnar. Jafnframt er kærufresturinn lengdur úr 30 í 60 daga.
    Við 30. gr. Lagðar eru til breytingar á ákvæðinu sem miða að því að kveða á um að ekki verði heimilt að framselja tollgæsluvald, sem eingöngu tollyfirvöldum er falið, til einkaaðila. Eðlilegt þykir hins vegar að tollyfirvöldum verði heimilað að fela öðrum ákveðna þætti tollafgreiðslu eins og er nú.
    Við 37. gr. Lagðar eru til breytingar á refsiákvæði laganna.
    Við 39. gr. Lagt er til að sektarheimild verði lækkuð til samræmis við það sem gildir um sektargerðir lögreglu.

Alþingi, 13. maí 1996.Vilhjálmur Egilsson,

Ágúst Einarsson.

Gunnlaugur M. Sigmundsson.


form., frsm.Pétur H. Blöndal.

Steingrímur J. Sigfússon,

Einar Oddur Kristjánsson.


með fyrirvara.Valgerður Sverrisdóttir.

Jón Baldvin Hannibalsson.

Árni M. Mathiesen.