Ferill 331. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 331 . mál.


960. Nefndarálitum frv. til l. um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá samgönguráðuneyti Jón Birgi Jónsson ráðuneytisstjóra, Ármann Kr. Jónsson, aðstoðarmann ráðherra, og Sigurgeir Sigurgeirsson. Þá komu til fundar Ólafur Tómasson póst- og símamálastjóri, Guðmundur Björnsson, aðstoðarpóst- og símamálastjóri, Þuríður Einarsdóttir, Jón Ingi Sesarsson og Þorgeir Ingvarsson frá Póstmannafélagi Íslands, Ragnhildur Guðmundsdóttir og Einar Gústafsson frá Félagi íslenskra símamanna, Páll Jónsson og Anna Guðmundsdóttir frá Félagi háskólamenntaðra póst- og símamanna, Erlingur Tómasson, Helgi Gunnarsson og Valgeir Jónasson frá Félagi rafiðnaðarmanna, Jafet Ólafsson frá Samtökum veitenda fjarskiptaþjónustu, Birgir Ármannsson, lögfræðingur hjá Verslunarráði Íslands, og Sigurður Jónsson, Helgi Jónsson og Heimir Sigurðsson frá Interneti á Íslandi hf. Loks komu til fundar Sveinn Snorrason hrl., Gunnar Björnsson, deildarstjóri starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis, Stefán Már Stefánsson prófessor, Eiríkur Tómasson prófessor, Gestur Jónsson hrl. og Andri Árnason hrl.
    Nefndin fékk sendar umsagnir um frumvarpið frá Félagi íslenskra símamanna, Póstmannafélagi Íslands, Stéttarfélagi háskólamenntaðra starfsmanna Pósts og síma, Félagi rafeindavirkja hjá Pósti og síma, Samtökum veitenda fjarskiptaþjónustu, Neytendasamtökunum, Verslunarráði Íslands, Interneti á Íslandi hf. og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem fram koma á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagðar eru til breytingar á 4. gr. frumvarpsins. Annars vegar er lagt til að fellt verði niður ákvæði um að hlutafélagaskrá skuli tilkynnt endanlegt hlutafé félagsins jafnskjótt og niðurstaða matsnefndar skv. 5. gr. liggur fyrir. Ákvæðið á ekki við þar sem hlutafélagið hefur ekki verið stofnað 1. október 1996 þegar nefndin á að ljúka störfum. Hins vegar er lagt til að gefið skuli út eina hlutabréf félagsins við skráningu þess en ekki þegar nefndin hefur lokið störfum og gilda sömu rök um þá breytingu.
    Lagðar eru til breytingar á 5. gr. frumvarpsins um að niðurstöður nefndar sem endurmeta á eignir Póst- og símamálastofnunar skuli liggja fyrir í síðasta lagi 1. október 1996 í stað 1. júlí sama ár. Þá er gerð tillaga um til hvaða atriða skuli líta við mat á endanlegu stofnfé félagsins.
    Þá eru lagðar til breytingar á 7. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi eru tekin af tvímæli um að hlutafélagið Póstur og sími skuli taka til starfa 1. janúar 1997 en ekki fyrir 1. október 1996 eins og upphaflega var ráðgert. Heppilegast er talið að starfsemi hefjist um áramót þar sem formbreytingunni fylgja uppgjör. Enn fremur er talið heppilegt að lengja þann tíma til undirbúnings stofnun félagsins. Í öðru lagi er fellt niður ákvæði um að ráðherra skuli ákveða stofndag félagsins en ákvæði þess efnis er sett í ákvæði til bráðabirgða. Í þriðja lagi eru sett inn skýrari ákvæði um undirbúningsnefnd þá sem ráðherra skal skipa til að annast nauðsynlegar aðgerðir vegna breytingarinnar. Nefndinni skal heimilt að gera hvers kyns samninga sem eru nauðsynlegir til undirbúnings stofnun félagsins og fyrirhugaðri starfrækslu sem félagið verður síðan bundið af við stofnun þess.
    Þær breytingar, sem lagðar eru til á 8. gr. frumvarpsins, eru í fyrsta lagi að tekið verði fram að um rétt fastráðinna starfsmanna til biðlauna skuli farið eftir þeim lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem í gildi eru við gildistöku frumvarpsins. Í öðru lagi er lagt til að frestur sá, sem starfsmaður hefur til að taka eða hafna boði um sambærilega stöðu hjá Pósti og síma hf., verði lengdur úr tveimur vikum í sex. Í þriðja lagi er lagt til að fallið verði frá því að starfsmaður missi rétt sinn til biðlauna ef hann höfðar mál eins og gert var ráð fyrir í 3. mgr. Þess í stað er byggt á því að ef fastráðinn starfsmaður, þrátt fyrir að hlutaðeigandi taki sambærilegri stöðu hjá félaginu samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr., fær greidd biðlaun eða bætur fyrir missi biðlauna úr ríkissjóði vegna formbreytingarinnar falli sjálfkrafa niður biðlaunaréttur hans hjá félaginu. Hér er horft til þess að hlutaðeigandi hafi t.d. fengið bætur fyrir missi biðlauna samkvæmt dómi. Breytingin er sett fram til að koma í veg fyrir að menn geti átt tvöfaldan biðlaunarétt. Um önnur réttindi en biðlaunarétt fer síðan ýmist samkvæmt kjarasamningum eða almennum lögum. Um réttindi fastráðinna starfsmanna, sem hafa áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og hafa ráðist til starfa hjá félaginu með óskertum launum, gildir að þeir halda þeim réttindum sem upp eru talin í fyrrnefndu ákvæði, sbr. nánar 4. mgr. 8. gr. Þá er rétt að minna á ákvæði 2. gr. laga nr. 77/1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Í ákvæðinu segir að frá og með þeim degi er aðilaskipti, eins og hér um ræðir, fara fram skuli nýr eigandi takast á hendur réttindi og skyldur fyrri eiganda samkvæmt ráðningarsamningi og virða þau launakjör og starfsskilyrði sem samþykkt hafa verið í almennum kjarasamningi, með sömu skilmálum og giltu fyrir fyrri eiganda, þar til samningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.
    Lagðar eru til orðalagsbreytingar á 15. gr. frumvarpsins og að í stað þess að yfirtaka Pósts og síma hf. á eignum, réttindum og skuldbindingum Póst- og símamálastofnunar miðist við stofndag félagsins sé miðað við 1. janúar 1997 er félagið skal taka til starfa. Þá eru lagðar til breytingar á gildistökuákvæði 16. gr. og miðað við að lögin taki gildi 1. september 1996 í stað 15. júlí sama ár eins og upphaflega var ráðgert.
    Loks er lagt til að sett verði þrjú ákvæði til bráðabirgða. Í fyrsta lagi ákvæði um að í síðasta lagi 1. júlí 1996 skuli ráðherra skipa matsnefnd sem endurmeta skuli eignir stofnunarinnar o.fl. skv. 5. gr. Í öðru lagi að fyrir sama dag skuli ráðherra skipa undirbúningsnefnd skv. 2. mgr. 7. gr. og skuli hún taka til starfa þegar að lokinni skipun. Í þriðja lagi er ákvæði um að stofnfundur félagsins skuli haldinn eigi síðar en 27. desember 1996 og að ráðherra skuli þar skipa félaginu stjórn sem starfa skal fram að fyrsta aðalfundi þess.

Alþingi, 14. maí 1996.Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Stefán Guðmundsson.


form., frsm.Árni Johnsen.

Egill Jónsson.

Kristján Pálsson.