Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 252 . mál.


983. Nefndarálit



um frv. til l. um spilliefnagjald.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá umhverfisráðuneytinu Ingimar Sigurðsson skrifstofustjóra og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur deildarstjóra, Ólaf Pétursson frá Hollustuvernd ríkisins, Óskar Maríusson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Jón Steindór Valdimarsson og Ólaf Kjartansson frá Samtökum iðnaðarins, Kristján Þórarinsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Ögmund Einarsson frá Sorpu, Jón Guðmundsson og Tryggva Þórðarson frá Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa og Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Vinnumálasambandinu, Eyþingi, Sorpeyðingarstöð Suðurnesja, Náttúruverndarráði, Landvernd, Endurvinnslunni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Neytendasamtökunum, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Sorpeyðingu Eyjafjarðar, Hollustuvernd ríkisins, Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Verslunarráði Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Samtökum fiskvinnslustöðva, Sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Sorpeyðingu höfuðborgarsvæðisins, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi og Samtökum sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi.
    Frumvarpið fjallar um spilliefnagjald, þ.e. sérstakt gjald á vörur sem geta orðið að spilliefnum. Hugtakið spilliefni er skilgreint í mengunarvarnareglugerð, nr. 48/1994, sem hvers kyns sérstakur úrgangur (hættulegur úrgangur) sem inniheldur efni sem skráð eru í viðauka 4 eða 19 eða er mengaður af þeim, á þann hátt, í slíku magni eða af slíkum styrkleika að það stofni heilsu manna eða umhverfi í hættu. Ítarlegar reglur um meðferð spilliefna er að finna í íslenskri löggjöf og er frumvarpinu ekki á neinn hátt ætlað að hrófla við þeim. Þá er frumvarpinu heldur ekki ætlað að breyta skyldum varðandi spilliefni sem nú hvíla á sveitarfélögum og olíufélögum samkvæmt sveitarstjórnarlögum og lögum um varnir gegn mengun sjávar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Hér verður gerð grein fyrir helstu efnisbreytingum sem lagðar eru til:
    Í fyrsta lagi er lagt til að skýrt verði kveðið á um það í 1. gr. laganna að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn mála þeirra er frumvarpið fjallar um.
    Nefndin telur mikilvægt að helstu sjónarmið atvinnulífsins og almennings eigi greiðan aðgang að spilliefnanefndinni og verði það best tryggt með nefndarskipaninni. Til að þessu markmiði verði náð þykir nauðsynlegt að fjölga nefndarmönnum um einn. Því er lagt til að ráðherra skipi tvo nefndarmenn í stað eins áður.
    Nefndin leggur til þá breytingu á 4. gr. að ráðherra skuli staðfesta samninga sem gerðir eru á grundvelli ákvæðisins að fengnum umsögnum spilliefnanefndar og Hollustuverndar ríkisins.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 7. gr. Lúta þær að því hvernig framkvæmd innheimtu spilliefnagjalds skal háttað. Þá er lagt til að bætt verði við frumvarpið ákvæði sem hefur að geyma reglur um viðurlög.
    Einnig er lagt til að bætt verði við frumvarpið ákvæði um að lögin skuli endurskoða innan fimm ára frá gildistöku. Er sú tillaga gerð í ljósi þess að hér er um að ræða nýja gjaldtöku sem þarf að endurskoða í ljósi reynslunnar innan nokkurra ára. Þá er lagt til að ákvæði það sem mælir fyrir um skipan spilliefnanefndar skuli endurskoða að tveimur árum liðnum frá gildistöku laganna. Er tillagan lögð fram þar sem um nýja skipan er að ræða sem rétt þykir að meta að fenginni reynslu.
    Loks er lögð til breyting varðandi gildistöku og framkvæmd laganna. Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi en komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 1997. Tímann fram að áramótum á að nota til undirbúnings og þannig er lagt til að spilliefnanefnd verði skipuð strax og lögin hafa öðlast gildi og skal nefndin hefja undirbúning að framkvæmd laganna.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að gera grein fyrir afstöðu sinni við umræður um málið og flytja eða fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma.
    Ásta R. Jóhannesdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk því sem fram kemur í áliti þessu.

Alþingi, 15. maí 1996.



Ólafur Örn Haraldsson,

Árni M. Mathiesen.

Gísli S. Einarsson.


form., frsm.



Tómas Ingi Olrich.

Ísólfur Gylfi Pálmason.

Kristín Halldórsdóttir.



Hjörleifur Guttormsson,

Katrín Fjeldsted.


með fyrirvara.