Ferill 331. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 331 . mál.


997. Nefndarálitum frv. til l. um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar.

Frá minni hluta samgöngunefndar.    Frumvarpið er óvandað og í mörgum tilvikum vekur það ýmsar spurningar. Ef tilgangur þess og nýrrar löggjafar um póst- og símamál er að mæta örri þróun tækninnar og breyttum viðhorfum í þessum efnum hefur það mistekist. Í frumvarpinu örlar lítt á nýrri og frjórri hugsun eða stefnumörkun, litlar sem engar tilraunir eru gerðar til að varpa ljósi á framtíðarþróun þessara mála og hlutverk Pósts og síma hf. í þeim efnum. Þá er ekki heldur að finna nauðsynlega stefnumörkun í fylgifrumvörpum, hvorki í frumvarpi til breytinga á fjarskiptalögum né frumvarpi til breytinga á póstlögum. Ákvörðun um það eitt að hlutafélagavæða þetta þjónustufyrirtæki og veita samgönguráðherra altækt umboð til að þróa mál áfram að eigin geðþótta, sem er meginefni frumvarpsins, er ekki viðunandi svar við áleitnum spurningum um framtíðarfyrirkomulag þessarar grunnþjónustu hér á landi. Þar við bætist að mistekist hefur að gefa starfsmönnum fyrirtækisins, um 2.500 einstaklingum, fullnægjandi svör við grundvallarspurningum er varða framtíð þeirra og réttarstöðu hjá nýjum vinnuveitanda.
Enn fremur hefur verið kastað til höndum varðandi lagatæknilegan undirbúning málsins eins og breytingartillögur meiri hlutans bera með sér. Í ljós kom einfaldlega að dagsetningar og fyrirkomulag formbreytingarinnar gátu ekki gengið upp á þeim forsendum sem frumvarpið gerði ráð fyrir. Þess vegna varð meiri hluti nefndarinnar að leggja fram breytingartillögur við frumvarpið sem m.a. fresta áformaðri formbreytingu um nokkra mánuði.
    Aðeins verða tilgreind nokkur álitamál sem nauðsynlegt er að ræða mun betur og fá gleggri mynd af áður en frumvarpið verður afgreitt.

Hlutafélagavæðing.

    Um það er ekki deilt að þróun fjarskiptamála hefur verið ákaflega hröð hin síðari ár. Þá eru fyrirsjáanlegar veigamiklar breytingar í Evrópu í fjarskiptamálum og snerta þær breytingar Ísland eins og önnur ríki. 1. janúar 1998 skulu afnumin öll sérréttindi símastofnana og opnað verður fyrir fulla samkeppni á grunnnetinu. Í því ljósi er nauðsynlegt að skoða stöðu Póst- og símamálastofnunar. Þær breytingar hafa hins vegar ekkert að gera með stöðu póstþjónustunnar í landinu né heldur kalla þær sjálfkrafa á það að stofnuninni verði breytt í hlutafélag. Því til viðbótar svarar frumvarpið heldur engu um það hvernig hlutafélagið Póstur og sími ætlar að mæta og laga sig að breyttum veruleika í upphafi ársins 1998. Boðuð hefur verið ný heildarlöggjöf um fjarskiptamál sem væntanlega mun að einhverju leyti taka á þeim málum. Frumvarpið um Póst og síma hf. gerir það ekki.
    Sé það markmið út af fyrir sig að efla sjálfstæði Pósts og síma og skilja þann rekstur með einhverjum hætti frá rekstri ríkisins, taka fyrirtækið út af fjárlögum og minnka bein og óbein afskipti löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins af rekstri þess eru ýmsar leiðir færar að því markmiði. Svo virðist sem ríkisstjórnin sjái enga aðra leið en að breyta ríkisstofnunum í hlutafélög. Fræðilega hefði t.d. komið til greina að gera fyrirtækið að sjálfseignarstofnun, sbr. lög um ýmsa fjárfestingarsjóði ríkisins og ríkisbanka, þar sem tekið hefði verið fram hvert stofnfé ætti að vera.
    Ekki er gert ráð fyrir að skipta fyrirtækinu upp í tiltekin svið, tvö eða fleiri, svo sem símasvið og póstsvið. Þó er nefnt að slíkt komi til álita síðar meir. Raunar er fullyrt í greinargerð með frumvarpinu að með tilliti til breyttra aðstæðna á Evrópska efnahagssvæðinu megi reikna með að ekki verði komist hjá því að taka þennan þátt til endurskoðunar áður en langt um líður. Enda er gert ráð fyrir þeim möguleika í 2. gr. frumvarpsins.
    Að mati minni hlutans er hér komið aftan að málinu. Það hlýtur að vera hlutverk Alþingis að ákveða hvernig mikilvægar þjónustugreinar, eins og póstþjónusta og símaþjónusta, eru skipulagðar en skila ekki auðu og veita samgönguráðherra takmarkalaust umboð til að skipta fyrirtækinu upp í eins margar þjónustueiningar og honum sýnist. Minni hlutanum þykir að minnsta kosti nauðsynlegt að Alþingi fái tækifæri til þess að fylgjast með þróun þessara mála og lágmarkskrafa væri að stjórn fyrirtækisins yrði þá kjörin af Alþingi.

Heimild til sölu fyrirtækisins.
    Með vísan til stefnu núverandi ríkisstjórnar í hliðstæðum málum má ætla að hún muni fyrr en síðar freista þess að selja hlutafé sitt í fyrirtækinu og fyrirliggjandi frumvarp sé eingöngu skref í þá átt. Það er hins vegar óviðunandi að hafa slíkt í felum. Það er og álitamál hvort áskilnaðurinn um samþykki Alþingis haldi þegar allt kemur til alls. Orðrétt segir í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins um það atriði:
    „Við stofnun félagsins skal allt hlutafé þess vera í eigu íslenska ríkisins og skal sala þess óheimil án samþykkis Alþingis.“
    Við fyrstu sýn virðist þetta ákvæði skýrt og afdráttarlaust. Ef ákvæði 2. gr. frumvarpsins eru hins vegar skoðuð í beinu framhaldi vakna ýmsar spurningar. Þar segir m.a. að fyrirtækinu sé heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum og að félaginu sé heimilt að stofna nýtt félag eða félög sem alfarið verði í eigu þess til að annast ákveðna þætti í starfsemi þess. Í sama tilgangi geti hlutafélagið ákveðið skiptingu þess í samræmi við ákvæði 133. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995.
    Í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins segir:
    „Niðurlag 2. mgr. gerir ráð fyrir þeim möguleika að til þess geti komið að talið verði heppilegt og hagkvæmt að félaginu verði skipt milli tveggja félaga þar sem annað annaðist póstþjónustu en hitt fjarskiptaþjónustu.“ Í þessari sömu grein frumvarpsins er hlutafélaginu síðan einnig veitt heimild til að stofna til hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum og er þá m.a. átt við aðild hlutafélagsins að öðrum fyrirtækjum. Hér er um mjög víðtækar heimildir að ræða til handa ráðherra og stjórn hlutafélagsins. Þær vekja spurningar sem ekki hefur tekist að fá fullnægjandi svör við. Þær tengjast því t.d. hvort áskilnaðurinn um nauðsyn samþykkis Alþingis haldi komi til sölu ef um er að ræða dótturfyrirtæki Pósts og síma hf., hvernig fari um aðild hlutafélagsins að öðrum fyrirtækjum í því samhengi og hvort heimild Alþingis þurfi til sölu slíkra eignarhluta Pósts og síma í samrunafyrirtækjum? Þá vakna enn spurningar um hver verði réttarstaða starfsfólks í slíkum dóttur- og samrunafyrirtækjum? Í 8. gr. frumvarpsins er einkum fjallað um réttarstöðu starfsmanna. Þar segir hins vegar eingöngu að fastráðnir starfsmenn Pósts- og símamálastofnunar skuli eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi en ekkert er kveðið á um afleiðingar þess fyrir hag starfsmanna eða réttarstöðu þeirra komi til stofnunar dóttur- eða samrunafyrirtækja sem tækju yfir tiltekin verkefni sem Póst- og símamálastofnun hefur nú með höndum.

Réttarstaða starfsmanna.
    Réttarstaða starfsmanna samkvæmt frumvarpinu er ákaflega óviss. Ekki einasta er þar um að ræða tilvísun til skerðingarfrumvarps ríkisstjórnarinnar um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins varðandi biðlaunaréttinn heldur er ýmsum álitamálum látið ósvarað þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir minni hlutans til að tekin yrðu af öll tvímæli í því efni. Þess í stað hefur meiri hlutinn ákveðið að sópa slíkum álitamálum undir teppið og fela þau svokallaðri undirbúningsnefnd ráðherra sem samkvæmt frumvarpinu og breytingartillögum meiri hlutans mun fá víðtækt vald og algjört forræði í málefnum starfsmanna frá þeim tíma sem þetta frumvarp verður afgreitt frá Alþingi þar til hlutafélagið tekur til starfa. Minni hlutinn bendir á að vafasamt er í meira lagi að löggjafarsamkunda þjóðarinnar framselji vald sitt með jafnskýlausum hætti til þriggja manna nefndar sem fái þetta víðtæka vald um mál starfsmanna á næstu missirum.
    Viðræður fulltrúa samgönguráðuneytisins og Póst- og símamálastofnunar við fulltrúa tæplega 2.500 starfsmanna hafa verið takmarkaðar og ekki leitt til neinnar niðurstöðu. Mál starfsmanna eru því enn í lausu lofti hvað varðar ýmis grundvallarréttindi.
    Neikvæð afstaða til starfsmanna birtist einnig í 6. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um stjórn hlutafélagsins. Að áliti minni hlutans hefði verið eðlilegt að tryggja með einhverjum hætti hlut fulltrúa starfsmanna í stjórn þess. Að öðru leyti er vísað til ítarlegra umsagna og athugasemda starfsmanna og lögmanna þeirra um réttarstöðu starfsmanna.

Staða Póst- og símamálastofnunar.
    Póst- og símamálastofnun er stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Eigið fé þess er um 13 milljarðar kr. miðað við efnahagsreikning um síðustu áramót. Ótaldar eignir þess og viðskiptavild eru taldar í kringum 8 milljarðar kr. til viðbótar. Þegar síðan eru dregnar frá áætlaðar fyrirliggjandi lífeyrisskuldbindingar u.þ.b. 8 milljarðar kr. virðist heimanmundur þessa hlutafélags vera í kringum 13 milljarðar kr. Fyrirtækið greiðir tæplega 2.500 starfsmönnum u.þ.b. 3,8 milljarða kr. í laun á hverju ári og velta þess er rúmir 12 milljarðar kr. árlega. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1996 er hagnaður fyrirtækisins áætlaður 1.581.000 þús. kr. og hagnaður söludeildar þess 225.000 þús. kr. eða samtals 1.806.000 þús. kr. Ráð er fyrir því gert að í ríkissjóð renni alls 860 millj. kr. en jafnframt er miðað við að stofnunin sjálf standi undir greiðslum vegna lífeyrisuppbóta starfsmanna.
    Ljóst er að Póst- og símamálastofnun er mjög mikilvægt þjónustufyrirtæki og að mörgu leyti vel rekið, sbr. grein Bergþórs Halldórssonar verkfræðings hjá Pósti og síma í Mbl. 7. maí sl. um þróun gjaldskrármála. Það er til að mynda eftirtektarvert að gjaldskrá fyrirtækisins er tiltölulega lág þótt þar megi þó betur gera. Eðlilegt markmið er jafn réttur allra landsmanna í þeim efnum, með öðrum orðum ein gjaldskrá fyrir allt landið og flytur minni hlutinn breytingartillögu þar sem lagt er til að landið verði gert að einu gjaldsvæði áður en Póst- og símamálastofnun verður breytt í hlutafélag.

Lokaorð.
    Það er áríðandi að standa vel og skilmerkilega að allri löggjöf um þetta mikilvæga þjónustufyrirtæki. Fyrirliggjandi frumvarp uppfyllir alls ekki þær lágmarkskröfur. Til viðbótar því sem áður hefur verið nefnt má benda á að þingmenn stjórnarflokkanna hafa í raun gefist upp á því að vinna frumvarpið. Þetta sést best þegar breytingartillögur meiri hlutans við 7. gr. eru skoðaðar. Þær fela í sér skipun þriggja manna nefndar sem annast skal undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna formbreytingarinnar. Þetta undirstrikar uppgjöf samgönguráðherra og raunar þingmeirihlutans gagnvart því verkefni að ljúka samningu frumvarpsins og ganga frá lausum endum. Óskilgreindum verkefnum er hlaðið á nefnd þriggja manna sem ráðherra skipar og henni falið alræðisvald með ígildi óafturkallanlegra löggerninga að vopni, m.a. hvað varðar réttindi starfsfólks eins og áður er nefnt. Nýta hefði átt tímann frá því að frumvarpið var lagt fram og raunar löngu áður til að ræða við starfsfólk og freista þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu um ýmis álitamál. Frá því að frumvarpið var lagt fram hafa engar eiginlegar viðræður átt sér stað milli ráðuneytisins og fulltrúa starfsmanna um að fækka álitaefnum og ágreiningsatriðum í frumvarpinu, væri þess nokkur kostur. Þetta hlýtur að teljast gagnrýnivert í meira lagi. Hins vegar hafa verið skipaðir viðræðuhópar til að safna upplýsingum sem að gagni geta komið í næstu kjarasamningum.
    Það er álit minni hlutans að eðlilegast hefði verið að fresta afgreiðslu málsins til haustsþings og freista þess í sumar að sníða af því verstu agnúana og undirbúa í nánu samstarfi við starfsmenn þá þætti sem að þeim snúa. Í því ljósi leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Það verði með öðrum orðum á valdi hennar og stjórnarmeirihlutans á þingi hvort og með hvaða hætti málið verður tekið upp aftur á haustþingi eða síðar þegar nauðsynlegri undirbúningsvinnu er lokið. Það er einasta skynsamlega lausnin á málinu eins og það blasir við í dag.
    Kristín Halldórsdóttir hefur setið fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 17. maí 1996.Guðmundur Árni Stefánsson,

Ragnar Arnalds.

Ásta R. Jóhannesdóttir.


frsm.
    Eftirtöldum fylgiskjölum er útbýtt með nefndarálitinu:
    Einkaréttur og fjarskipti, Bergþór Halldórsson verkfræðingur, Mbl. 7. maí 1996.
    Athugasemdir við fáeinar greinar í frumvarpinu vegna fundar með samgöngunefnd Alþingis, frá félagi rafeindavirkja hjá Pósti og síma.
    Nokkrar athugasemdir varðandi drög að frumvarpinu frá Félagi símamanna.
    Athugasemdir frá Póstmannafélagi Íslands um frumvarpið.
    Álitsgerð Láru V. Júlíusdóttur hdl., unnin fyrir Stéttarfélag verkfræðinga og Kjarafélag tæknifræðinga.
    Álitsgerð Gunnars Jónssonar hdl., unnin fyrir Félag íslenskra símamanna.
    Athugasemdir/spurningar Póstmannafélags Íslands um frumvarpið.
    Umsögn stéttarfélaga háskólamanna, sem starfa hjá Pósti og síma, um frumvarpið.