Ferill 86. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 86 . mál.


1016. Nefndarálit



um frv. til l. um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund til viðræðna Þórunni J. Hafstein, skrifstofustjóra í menntamálaráðuneyti, Sigurð Reyni Pétursson, formann höfundaréttarnefndar, Helgu Waage og Jóhannes Steingrímsson frá Félagi tölvunarfræðinga, Pál Hjaltason frá Sambandi íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja, Jóhann Gunnarsson, deildarstjóra hjá Hagsýslu ríkisins, Ásgeir Einarsson og Jónu Björk Helgadóttur, lögfræðinga hjá Samkeppnisstofnun, Gunnar Guðmundsson og Björn Theodór Árnason frá Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda og frá endurskoðunarnefnd höfundalaga Knút Bruun, Ragnar Aðalsteinsson og Eirík Tómasson. Þá studdist nefndin við umsagnir sem bárust á 119. löggjafarþingi frá Hagþenki, Félagi tölvunarfræðinga, Rithöfundasambandi Íslands, Höfundaréttarfélagi Íslands, Félagi bókasafnsfræðinga, Félagi íslenskra bókaútgefenda, Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Verslunarráði Íslands, STEF og Samtökum kvikmyndaleikstjóra.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að í 1. gr. frumvarpsins verði heimilað, án sérstaks leyfis forritshöfundar, að skoða, rannsaka eða prófa forrit í því skyni að kanna virkni þess og hugmyndir og sjónarmið sem einstakir þættir forritsins hvíla á. Í frumvarpstextanum nær heimildin aðeins til þess að kanna þær hugmyndir og sjónarmið sem einstakir þættir forritsins hvíla á. Tekið skal fram að slík skoðun forrits er því aðeins heimil að hún tengist réttmætum afnotum rétthafa forrits.
    Þá hefur nefndin skoðað sérstaklega þau ákvæði 10. gr. frumvarpsins sem fjalla um þóknun fyrir afnot af hljóðriti. Meiri hlutinn telur að túlka beri greinina á þann veg að hún girði ekki fyrir það að fleiri en ein innheimtusamtök framleiðenda og listflytjenda geti gert kröfu til endurgjalds samkvæmt greininni og sé heimilt að setja gjaldskrá um þóknun fyrir flutning efnis af hljóðritum utan útvarps að fengnu samþykki menntamálaráðuneytis.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Á eftir orðunum „í því skyni að kanna“ í 1. efnismgr. 1. gr. komi: virkni þess og.

    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að gera grein fyrir afstöðu sinni við umræður um málið og flytja eða fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma.

Alþingi, 20. maí 1996.



Sigríður A. Þórðardóttir,

Hjálmar Árnason.

Sigríður Jóhannesdóttir.


form., frsm.



Tómas Ingi Olrich.

Árni Johnsen.

Ólafur Örn Haraldsson.



Guðný Guðbjörnsdóttir,

Arnbjörg Sveinsdóttir.


með fyrirvara.