Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 252 . mál.


1017. Frumvarp til laga



um spilliefnagjald.

(Eftir 2. umr., 21. maí.)



I. KAFLI

Markmið, gildissvið o.fl.

1. gr.

    Markmið laga þessara er að koma í veg fyrir mengun af völdum spilliefna með því að skapa hagræn skilyrði fyrir söfnun, meðhöndlun og viðunandi endurnýtingu eða eyðingu þeirra.
    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi fjalla um.
    Til þess að standa straum af kostnaði við söfnun, móttöku, meðhöndlun, endurnýtingu eða eyðingu spilliefna, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum, er heimilt að leggja sérstakt gjald, spilliefnagjald, á vörur sem geta orðið að spilliefnum.

2. gr.

    Með vörum sem geta orðið að spilliefnum er í lögum þessum átt við vörur, efni og umbúðir þeirra sem haft geta mengandi eða óæskileg áhrif á umhverfi, sbr. 6. gr. Þessi skilgreining á við hvort sem efnin eru hrein eða hluti af öðrum efnum eða vörum.

3. gr.

    Umhverfisráðherra skipar spilliefnanefnd til fjögurra ára í senn. Í nefndinni eiga sæti sjö menn: einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn af Vinnuveitendasambandi Íslands, einn af Samtökum iðnaðarins, einn af Alþýðusambandi Íslands og einn eftir sameiginlegri tilnefningu Samtaka fiskvinnslustöðva og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Ráðherra skipar tvo nefndarmenn án tilnefningar, annan þeirra formann. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir með sama hætti.
    Spilliefnanefnd fer með stjórn spilliefnagjalds.

4. gr.

    Spilliefnanefnd skal gera áætlun um hvernig best verði staðið að söfnun, móttöku, meðhöndlun, endurnýtingu og eyðingu spilliefna. Nefndin skal hafa náið samráð við sérfræðinga og hagsmunaaðila um skilgreiningu markmiða hvað einstök viðfangsefni varðar og um val á aðferðum til að ná settum markmiðum.
         Fyrirtækjum og atvinnugreinum er heimilt að semja um ráðstafanir til að fyrirbyggja mengun af völdum spilliefna, enda þjóni það markmiðum laganna. Er viðkomandi vara þá undanþegin gjaldtöku samkvæmt lögum þessum. Ráðherra skal staðfesta slíka samninga að fengnum umsögnum spilliefnanefndar og Hollustuverndar ríkisins.

II. KAFLI


Spilliefnagjald.


5. gr.


    Spilliefnagjald er gjald sem lagt er á vörur sem geta orðið að spilliefnum. Spilliefnagjald skal standa undir óhjákvæmilegum kostnaði af móttöku spilliefna, meðhöndlun þeirra, flutningi frá söfnunarstöðvum til eyðingarstöðva, endurnýtingu og eyðingu, enda hafi verið greitt sérstakt gjald af vörunum skv. 6. gr. Jafnframt skal spilliefnagjaldi varið til greiðslu kostnaðar við framkvæmd laga þessara.
    Spilliefnagjaldinu skal skipt í flokka, sbr. 2. mgr. 6. gr., og skal hver flokkur vera fjárhagslega sjálfstæður. Samkvæmt tillögum spilliefnanefndar skal umhverfisráðherra kveða nánar á um skiptinguna í reglugerð.
    Spilliefnanefnd semur við þar til bæran aðila um vörslu og ávöxtun gjaldsins. Ársreikningar skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun og birtir í B-deild Stjórnartíðinda.
    Í reglugerð, sem ráðherra setur samkvæmt tillögum spilliefnanefndar, skal kveða nánar á um hlutverk nefndarinnar, starfshætti og úthlutunarreglur.
    Spilliefnanefnd skal að jafnaði bjóða út framangreinda verkþætti til allt að fimm ára í senn. Á grundvelli útboðs skal nefndin semja um endurgjald vegna móttöku, söfnunar, flutnings og eyðingar og meðhöndlunar á spilliefnum. Þetta skal gert fyrir landið allt eða einstök landsvæði eða vegna framkvæmda einstakra verkþátta, eftir því sem henta þykir. Við gerð áætlana og samninga samkvæmt framanskráðu skal við það miðað að ná sem mestum árangri með sem minnstum tilkostnaði. Þar sem útboð tekst ekki skal spilliefnanefnd gera tillögur um upphæð gjalda.

III. KAFLI

Gjaldskyldar vörur.

6. gr.

    Gjaldskylda nær til allra vara sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar hér á landi. Við flokkun til gjaldskyldu samkvæmt lögum þessum skal fylgt flokkunarreglum tollalaga, nr. 55/1987, með áorðnum breytingum, og gilda ákvæði þeirra jafnframt um úrskurðarvald í ágreiningsmálum um tollflokkun vara.
    Spilliefnagjald skal lagt á neðangreinda vöruflokka:
    Olíuvörur:
         
    
    svartolía, allt að 0,1 kr. á hvert kg,
         
    
    önnur olía en brennsluolía, allt að 1,0 kr. á hvert kg.
    Lífræn leysiefni, klórbundin efnasambönd o.fl.:
         
    
    lífræn leysiefni, allt að 0,5 kr. á hvert kg,
         
    
    halógeneruð efnasambönd, allt að 900 kr. á hvert kg,
         
    
    ósoneyðandi efni, allt að 900 kr. á hvert kg,
         
    
    ísósyanöt, allt að 1,0 kr. á hvert kg.
    Málning og litarefni, allt að 2,0 kr. á hvert kg.
    Rafhlöður og rafgeymar:
         
    
    rafhlöður, allt að 200 kr. á hvert kg,
         
    
    rafgeymar, allt að 60 kr. á hvert kg.
    Ljósmyndavörur: framköllunarvökvar og fixerar, allt að 300 kr. á hvert kg.
    Ýmsar aðrar efnavörur (kemískar vörur), allt að 5,0 kr. á hvert kg.
    Ráðherra skal samkvæmt tillögu spilliefnanefndar ákveða með reglugerð upphæð gjaldsins á vörur í vöruflokkum skv. 2. mgr. Nefndin skal miða tillögur sínar við áætlun um söfnun, endurnýtingu og eyðingu viðkomandi spilliefna á grundvelli útboða og verksamninga, svo og að tekjur og gjöld í hverjum flokki, sbr. 1. mgr., standist á. Samkvæmt tillögum spilliefnanefndar er ráðherra heimilt í reglugerð að undanþiggja einstakar vörur gjaldskyldu.

7. gr.

    Skylda til að greiða spilliefnagjald hvílir á þessum aðilum:
    Öllum þeim sem flytja til landsins vörur sem falla undir lög þessi hvort sem þær eru til eigin nota eða endursölu.
                  Spilliefnagjald af innfluttum gjaldskyldum vörum skal innheimt ásamt aðflutningsgjöldum.
                  Að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum um gjaldskyldu, álagningu, innheimtu, stöðvun tollafgreiðslu, veð, sektir, viðurlög og refsingar og aðra framkvæmd varðandi spilliefnagjald af innfluttum gjaldskyldum vörum skulu gilda eftir því sem við getur átt ákvæði tollalaga, nr. 55/1987, með síðari breytingum, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.
    Öllum sem framleiða vörur hérlendis sem falla undir lögin.
                  Spilliefnagjald af innlendum framleiðsluvörum reiknast við sölu eða afhendingu gjaldskyldrar vöru frá framleiðanda og skiptir þá ekki máli hvenær eða með hvaða hætti greiðsla kaupanda fer fram. Hvert uppgjörstímabil er einn mánuður. Spilliefnagjaldi af innlendri framleiðslu ásamt framleiðsluskýrslu í því formi sem spilliefnanefnd ákveður skal skila eigi síðar en á gjalddaga. Gjalddagi er fimmtándi dagur næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna sölu eða afhendingar á því tímabili. Beri gjalddaga upp á helgidag eða annan almennan frídag færist gjalddagi á næsta virkan dag þar á eftir.
                  Aðilum, sem keypt hafa hráefni eða efni til gjaldskyldrar framleiðslu sinnar og greitt af því spilliefnagjald, er heimilt að draga það frá við endanleg skil gjaldsins.

8. gr.


    Ef spilliefnagjald er ekki greitt á tilskildum tíma skal aðili sæta álagi til viðbótar spilliefnagjaldi. Sama gildir ef skýrslu skv. 2. tölul. 7. gr. hefur ekki verið skilað.
    Álag skv. 1. mgr. skal vera sem hér segir:
    1% á þá upphæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan virkan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.
    Sé spilliefnagjald ekki greitt innan eins mánaðar frá gjalddaga skal greiða af því dráttarvexti, sbr. vaxtalög, nr. 25/1987, með síðari breytingum.

9. gr.

    Fyrir spilliefni, sem verða til hjá einstaklingum og lögaðilum og ekki eru til komin vegna notkunar á vörum sem getið er í 6. gr., skal greiða gjald til móttökustöðva í samræmi við þann kostnað sem af eyðingunni hlýst.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

10. gr.

    Ráðherra skal samkvæmt tillögum spilliefnanefndar kveða á um í reglugerð með hvaða hætti spilliefnum skuli skilað til móttökustöðva, svo og um fyrirkomulag útboða skv. 5. gr. Í reglugerðinni skal birta skrá yfir vörur sem geta orðið að spilliefnum, tollskrárnúmer þeirra og heiti, sbr. 6. gr. Uppfylli umbúnaður og samsetning spilliefna ekki settar reglur er ráðherra heimilt, samkvæmt tillögum spilliefnanefndar, að ákveða með gjaldskrá sérstakt gjald í móttökustöðvum fyrir meðhöndlun eða undirbúning spilliefna fyrir endurnýtingu eða eyðingu þeirra.
    Jafnframt er ráðherra heimilt samkvæmt tillögum spilliefnanefndar að kveða á um greiðslur til aðila ef umbúnaður eða úrvinnsla spilliefna sem þeir skila er með þeim hætti að það spari kostnað á síðari stigum.

11. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál vegna slíkra brota skal farið að hætti opinberra mála.

12. gr.


    Endurskoða skal lög þessi innan fimm ára frá því að þau öðlast gildi. Þó skal endurskoða ákvæði 3. gr. að tveimur árum liðnum frá gildistöku laganna.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi en koma ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 1997.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir ákvæði 13. gr. skal skipa spilliefnanefnd svo fljótt sem því verður við komið eftir gildistöku laga þessara og skal hún hefja undirbúning við framkvæmd þeirra.
    Heimilt er þó að fresta álagningu gjalda samkvæmt einstökum töluliðum 6. gr. eftir því sem spilliefnanefnd leggur til. Stefnt skal að því að álagningu gjalda verði komið á í áföngum og að fullu í síðasta lagi árið 2000. Spilliefnanefnd skal fyrir 1. desember 1996 skila tillögum að áætlun um framkvæmd álagningar á einstaka vöruflokka til umhverfisráðherra.