Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 530 . mál.


1027. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 36/1996, um breytingu á lögum um einkaleyfi, nr. 17/1991, með síðari breytingu, lögum um vörumerki, nr. 47/1968, með síðari breytingum, og lögum um hönnunarvernd, nr. 48/1993.

Frá iðnaðarnefnd.



1. gr.


    3. og 4. mgr. 31. gr. laganna orðast svo:
    Um umsóknir um einkaleyfi, sem lagðar voru inn fyrir 1. júní 1996, eiga við ákvæði 13. og 14. gr. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 17/1991 eins og þau voru fyrir gildistöku laga þessara.
    Ákvæði 24. gr. laga þessara taka ekki gildi fyrr en 2. janúar 1998.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarpið er flutt til þess að taka af allan vafa um að ákvæði einkaleyfalaga um útgáfu viðbótarvottorðs um vernd lyfja tekur ekki gildi fyrr en 2. janúar 1998 en við breytingar á frumvarpi að lögum hafði láðst við 2. umræðu að breyta tilvísun í 31. gr. til samræmis við aðrar breytingar á frumvarpinu og var það afgreitt þannig sem lög frá Alþingi.
    Þá er með frumvarpi þessu einnig tekinn af allur vafi um að með einkaleyfaumsóknir, sem berast fyrir gildistöku laga nr. 36/1996, skuli fara eftir ákvæðum 13. og 14. gr. og 2. mgr. 19. gr. einkaleyfalaganna eins og þau voru áður en þeim var breytt með lögum nr. 36/1996.