Ferill 389. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 389 . mál.


1050. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna sameiningar Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í Bændasamtök Íslands.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Höskuldsson, skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu, Jóhannes Torfason formann og Jón Guðbjörnsson framkvæmdastjóra Framleiðnisjóðs, Svein Runólfsson landgræðslustjóra og Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands.
    Nefndin fékk sendar umsagnir um frumvarpið frá búnaðarþingi 1996, Neytendasamtökunum, Landgræðslu ríkisins og Bændasamtökum Íslands.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
    Lagt er til að 3. gr. frumvarpsins um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar af Skeiðaáveitunni o.fl. verði felld brott og þau lög síðan felld úr gildi í 34. gr. frumvarpsins. Ástæða þessa er að starfsemi Skeiðaáveitunnar er aflögð fyrir nokkrum áratugum.
    Lagðar eru til þær breytingar á 9. gr. frumvarpsins að tekið verði upp aftur ákvæði í lögum um landgræðslu um að ráðherra skipi landgræðslustjóra þar sem ekki stóð til að breyta þeirri skipan. Þá er lagt til að samvinnu við landnýtingarráðunaut Bændasamtaka Íslands verði haldið áfram en í frumvarpinu var gert ráð fyrir að slík samvinna félli niður.
    Þá er lögð til sú breyting á 10. gr. frumvarpsins að Bændasamtök Íslands tilnefni fjóra menn í tilraunaráð Rannsóknastofnunar landbúnaðarins í stað tveggja áður og skuli tveir þeirra vera landsráðunautar.
    Loks er lögð til breyting á 11. gr. frumvarpsins. Með breytingunni er gert ráð fyrir að í stað þess að Rannsóknarráð Íslands tilnefni einn mann í stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins verði það ráðherra byggðamála sem það geri. Ástæða þessa er sú að óeðlilegt þykir að Rannsóknarráð skipi þennan fulltrúa þar sem oft er um sameiginlega fjármögnun ráðsins og sjóðsins að ræða á rannsóknar- og þróunarverkefnum.
    Nefndin ræddi ákvæði 19. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að tilvísun í Búnaðarfélag Íslands í 2. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt verði felld brott. Nefndin afréð að breyta ekki þessu ákvæði frumvarpsins, en hins vegar er vakin athygli á 6. tölul. sömu greinar í lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem gerir ráð fyrir að félög, sjóðir og stofnanir, sbr. 5. tölul. 2. gr., sem ekki reka atvinnu, greiði hvorki tekjuskatt né eignarskatt. Stéttarfélög hafa verið talin falla undir ákvæði 6. tölul.

Alþingi, 22. maí 1996.



Guðni Ágústsson,

Egill Jónsson.

Magnús Stefánsson.


form., frsm.



Guðjón Guðmundsson.

Árni M. Mathiesen.

Hjálmar Jónsson.



Ágúst Einarsson.

Lúðvík Bergvinsson.

Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.