Ferill 408. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 408 . mál.


1052. Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um fjarskipti, nr. 73 28. maí 1984, sbr. lög nr. 32 14. apríl 1993.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Ólafsson frá Fjarskiptaeftirlitinu, Sigurgeir H. Sigurgeirsson frá samgönguráðuneyti og Andra Árnason hrl.
    Frumvarpið var lagt fram sem fylgifrumvarp með frumvarpi til laga um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar, en gert er ráð fyrir að hlutafélagið taki til starfa 1. janúar 1997.
    Með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að ríkið afsali sér einkarétti á því að veita talsímaþjónustu en miðað við að samgönguráðherra geti falið sérstökum aðila að annast þá fjarskiptaþjónustu sem ríkið hefur einkarétt á og skal sá aðili nefnast rekstrarleyfishafi. Núgildandi fjarskiptalög gera ráð fyrir að opinberir aðilar annist framkvæmdir varðandi fjarskiptakerfið, viðhald þess og annað er því viðkemur. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að rekstrarleyfishafi taki að sér þessar framkvæmdir og að hann hafi þær skyldur og réttindi sem nauðsynleg eru til að rækja það hlutverk. Þá er lagt til að lögfest verði almenn takmörkun á bótaábyrgð rekstrarleyfishafa. Ábyrgðartakmörkunin nær eingöngu til meints tjóns sem rekja má til sambandsleysis, rofa á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptanetsins, eða mistaka við afgreiðslu símskeyta, hvort sem rekja má slíkt til línubilana, bilana í sambandastöðvum eða annarra ástæðna. Ákvæði um ábyrgðartakmörkun er að finna í reglugerð, en rétt þykir að veita henni ótvíræða lagastoð.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali og lúta að framangreindum atriðum, m.a. er miðað við að frumvarpið verði að lögum 1. janúar 1997. Þá leggur meiri hlutinn til að lögfest verði að eigi síðar en 1. júlí 1998 skuli notkunargjald fyrir talsímaþjónustu vera hið sama alls staðar á landinu og skuli innheimta sérstaks álags vegna langlínusamtala óheimil frá þeim tíma. Þessi breyting er talin möguleg með hliðsjón af tækniframförum og í ljósi þeirra. Rétt þykir að veita nokkurn aðlögunartíma svo að sem minnst röskun hljótist af.

Alþingi, 23. maí 1996.Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Stefán Guðmundsson.


form., frsm.Árni Johnsen.

Egill Jónsson.

Kristján Pálsson.