Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 372 . mál.


1056. Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur tekið málið aftur til umfjöllunar að lokinni 2. umræðu og fengið á sinn fund Eirík Tómasson prófessor, Gunnar Björnsson frá fjármálaráðuneyti, Birgi Björn Sigurjónsson frá BHM, Rannveigu Sigurðardóttur frá BSRB, Eirík Jónsson frá Kennarasambandi Íslands, Friðbert Traustason frá Sambandi íslenskra bankamanna og Þórunni Sveinbjörnsdóttur frá ASÍ. Þá óskaði nefndin jafnframt eftir lögfræðilegum álitum frá Andra Árnasyni hrl., Láru V. Júlíusdóttur hdl. og Tryggva Gunnarssyni hrl. og gerðu þau grein fyrir álitum sínum á fundi með nefndinni.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á frumvarpinu til viðbótar þeim breytingum sem gerðar voru við 2. umræðu. Þessar breytingar eiga að nokkru leyti rót sína að rekja til þess að líklegt er nú að fyrirliggjandi frumvarp til breytinga á sérákvæðum í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins muni ekki ná fram að ganga á þessu þingi. Öðrum breytingum er ætlað að koma til móts við ábendingar og athugasemdir frá samtökum opinberra starfsmanna og framangreindum lögmönnum.
    Breytingartillögurnar er að finna á sérstöku þingskjali, en hér á eftir fylgir rökstuðningur með þeim.
    Við 2. gr. Gerð er tillaga um breytingu á orðalagi 2. mgr. til samræmis við breytingu þá sem gerð var á 1. mgr. við 2. umræðu um frumvarpið.
    Við 5. gr. Í frumvarpinu hefur verið gengið út frá því að það fari eftir ákvæðum í öðrum lögum hvort skipað verði eða ráðið í einstök störf hjá ríkinu. Með tilliti til þeirrar breytingar sem lögð er til á 22. gr. er eðlilegt að þessu verði breytt.
    Við 9. gr. Lögð er til sú breyting á 2. mgr. að starfsmaður geti kosið að segja upp starfi sínu ef hann sættir sig ekki við breytingu á viðbótarlaunum. Tryggt er að hann hafi nokkurt svigrúm til þessa og haldi jafnframt óbreyttum launakjörum á uppsagnartímanum ef breytingin er honum í óhag.
    Við 19. gr. Tillagan er sama efnis og gerð er grein fyrir hér að framan við 9. gr.
    Við 22. gr. Þar sem fyrrgreint frumvarp um breytingu á sérákvæðum í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins mun að öllum líkindum ekki ná fram að ganga áður en frumvarp þetta tekur gildi sem lög er óhjákvæmilegt að telja embættismenn upp með tæmandi hætti og lýtur breytingin að þessu. Til álita kom að taka háskólaprófessora upp í 22. gr. en frá því var horfið að þessu sinni, m.a. vegna þess að sett hefur verið á stofn nefnd á vegum Háskóla Íslands sem ætlað er að samræma viðhorf háskólans og háskólakennara til þess hvort prófessorar eigi framvegis að vera embættismenn. Kemur það mál til kasta Alþingis þegar fjallað verður um breytingu á starfsmannaákvæðum í háskólalögum sem ráðgerð er í frumvarpinu um breytingu á sérákvæðum í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, svo og ýmis önnur mál er varða réttindi og skyldur einstakra starfsstétta.
    Við 28. gr. Þessi breyting er eðlileg eftir að breytt var skilgreiningu á hugtakinu „föst laun“ í 10. gr. við 2. umræðu um frumvarpið.
    Við 29. gr. Með þeirri breytingu sem lögð er til á greininni er tryggt að embættismaður verði ekki látinn víkja úr embætti fyrir fullt og allt, jafnvel þótt eðlilegt hafi verið að víkja honum úr embætti um stundarsakir ef síðar kemur í ljós að ávirðingar þær, er honum voru gefnar að sök, hafa ekki reynst vera fyrir hendi.
    Við 34. gr. Lagt er til að ákvæðinu verði breytt þannig, í samræmi við skýringu á 14. gr. laga nr. 38/1954, að embættismaður haldi ekki aðeins föstum launum fyrir dagvinnu á biðlaunatímanum, heldur einnig öðrum launakjörum er embættinu hafa fylgt.
    Við 35. gr. Breytingin er sú sama og gerð er grein fyrir hér að framan við 34. gr.
    Við 37. gr. Bent hefur verið á að það geti verið mjög ósanngjarnt í garð starfsmanns ef honum er fyrst tilkynnt um framlengingu á uppsagnarfresti við lok hans. Þess vegna er lagt til að framlengingu verði að tilkynna svo fljótt sem verða má og eigi síðar en þegar sex vikur eru eftir af hinum upphaflega uppsagnarfresti.
    Við 40. gr. Í athugasemdum þeirra lögmanna er veittu nefndinni álit um málið kom fram að orðalagið „stuðla að“ í greininni mætti túlka ansi rúmt og er því lagt til að þau orð falli brott úr greininni.
    Við 46. gr. Fyrri breytingin er gerð vegna athugasemda við ákvæði 2. mgr. og þrengir gildissvið þess. Síðari breytingin er sama efnis og gerð er grein fyrir hér að framan við 37. gr.
    Við 47. gr. Gerð er tillaga um að 2. mgr. verði felld brott vegna þess að ákvæði svipaðs efnis er að finna í lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og er eðlilegt að það verði tekið til athugunar m.a. í ljósi nýs félagafrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar í tengslum við heildarendurskoðun á þeim lögum.
    Við 56. gr. Breyting sú, sem lagt er til að gerð verði á 2. mgr. 22. gr. laga nr. 94/1986, er í samræmi við framkomna athugasemd. Breytingarnar, sem hér er að öðru leyti gert ráð fyrir, eru þær sömu og gerðar voru við 2. umræðu um frumvarpið á þingskjali 887, að því frátöldu að 4. tölul. b-liðar hefur verið breytt lítillega til samræmis við aðrar breytingar sem gerðar voru við 2. umræðu um frumvarpið.
    Við ákvæði til bráðabirgða. Í a-lið er lagt til að 5. mgr. verði breytt þannig að þeir núverandi ríkisstarfsmenn sem rétt eiga á biðlaunum fái bætur í samræmi við þá skýringu á 14. gr. laga nr. 38/1954 að starfsmenn haldi ekki aðeins föstum launum fyrir dagvinnu á biðlaunatímanum heldur einnig öðrum föstum launum er starfinu hafa fylgt. Í b-lið er gerð tillaga um þrjú ný ákvæði til bráðabirgða sem aðeins er ætlað að gilda meðan sérákvæðum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna í öðrum lögum hefur ekki verið breytt til samræmis við ákvæði frumvarpsins. Þannig er ekkert því til fyrirstöðu að frumvarpið taki gildi sem lög, óháð dreifðum sérákvæðum í öðrum lögum.

Alþingi, 23. maí 1996.Einar Oddur Kristjánsson,

Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Pétur H. Blöndal.


frsm.Valgerður Sverrisdóttir.

Sólveig Pétursdóttir.

Arnbjörg Sveinsdóttir.