Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 415 . mál.


1058. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 23. maí.)



1. gr.


    Við 5. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Samninganefnd eða fyrirsvarsmaður, sem kemur fram fyrir hönd samningsaðila við gerð kjarasamnings, hefur umboð til þess að setja fram tillögur að samningi, taka þátt í samningaviðræðum og undirrita kjarasamning fyrir hönd hlutaðeigandi félags eða samtaka. Samninganefnd er heimilt að fela sameiginlegri samninganefnd fleiri félaga eða sambanda umboð sitt til samningsgerðar að hluta eða að öllu leyti. Þá er samninganefnd heimilt að kveða á um sameiginlega atkvæðagreiðslu félagsmanna hlutaðeigandi félaga eftir því sem nefndin kann að ákveða hverju sinni eða um kann að semjast með kjarasamningi.
    Þegar kjarasamningur hefur verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila gildir hann frá undirskriftardegi sé ekki á annan veg samið, nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meiri hluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungs þátttöku samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá innan fjögurra vikna frá undirritun. Fari fram almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla meðal félagsmanna um gerðan kjarasamning gildir niðurstaða hennar óháð þátttöku. Nú tekur kjarasamningur einungis til hluta félagsmanna eða starfsmanna fyrirtækis og er þá heimilt að ákveða í samningnum að þeir einir séu atkvæðisbærir um hann, enda komi þar skýrt fram hvernig staðið verði að atkvæðagreiðslu.     Standi fleiri en tvö stéttarfélög að gerð kjarasamnings, vinnustaðarsamnings, fyrir félagsmenn á sama vinnustað skal hann borinn sameiginlega undir atkvæði allra félagsmanna sem hann tekur til og ræður meiri hluti niðurstöðu. Um gildistöku og afgreiðslu vinnustaðarsamnings fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum 2. mgr.
    Skylt er samningsaðilum að stuðla að því að félagsmenn þeirra virði gerða kjarasamninga.

2. gr.


    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Ófélagsbundnir atvinnurekendur og launamenn utan stéttarfélaga bera einir ábyrgð á samningsrofum af sinni hálfu. Nú er ekki sýnt fram á aðild samningsaðila að aðgerðum sem jafna má til vinnustöðvunar og ber félagsmaður þá sjálfur ábyrgð á þátttöku sinni í þeim.

3. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Þegar félag atvinnurekenda eða stéttarfélag ætlar að hefja vinnustöðvun er hún því aðeins heimil að ákvörðun um hana hafi verið tekin við almenna leynilega atkvæðagreiðslu með þátttöku a.m.k. fimmtungs atkvæðisbærra félagsmanna samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá og að tillagan hafi notið stuðnings meiri hluta greiddra atkvæða. Heimilt er að viðhafa almenna leynilega póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um tillögu um vinnustöðvun og gildir niðurstaða hennar þá óháð þátttöku.
    Nú er vinnustöðvun einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað og er þá heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðum þeirra sem henni er ætlað að taka til. Þarf þá fimmtungur atkvæðisbærra að taka þátt í atkvæðagreiðslu og meiri hluti þeirra að styðja tillögu um vinnustöðvun.
    Í tillögu um vinnustöðvun skal koma skýrt fram til hverra henni er einkum ætlað að taka og hvenær vinnustöðvun er ætlað að koma til framkvæmda. Þá er það skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara.
    Samninganefnd eða til þess bærum fyrirsvarsmönnum samningsaðila er jafnan heimilt að aflýsa vinnustöðvun. Sömu aðilum er heimilt að fresta boðaðri vinnustöðvun, einu sinni eða oftar, um allt að 28 sólarhringa samtals án samþykkis gagnaðila, enda sé frestunin kynnt honum með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara. Þó er jafnan heimilt að fresta boðaðri vinnustöðvun og yfirstandandi vinnustöðvun með samþykki beggja aðila.

4. gr.

    Við lögin bætist ný grein er verður 19. gr. laganna og orðast svo:
    Vinnustöðvanir í skilningi laga þessara eru verkbönn atvinnurekenda og verkföll þegar launamenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði. Sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu atvinnurekenda eða launamanna sem jafna má til vinnustöðvunar.

5. gr.

    Á eftir 19. gr. laganna kemur nýr kafli, III. kafli, Um sáttastörf í vinnudeilum, með 18 nýjum greinum, svohljóðandi:


    a. (20. gr.)
    Félagsmálaráðherra skipar ríkissáttasemjara til fimm ára í senn. Hann skal vera íslenskur ríkisborgari, fjár síns ráðandi og hafa óflekkað mannorð. Þess skal gætt að afstaða hans sé slík að telja megi hann óvilhallan í málum launafólks og atvinnurekenda.
    Félagsmálaráðherra skipar einnig vararíkissáttasemjara til fjögurra ára í senn og skal hann fullnægja sömu skilyrðum og ríkissáttasemjari.
    Vararíkissáttasemjari tekur við störfum ríkissáttasemjara þegar hann er forfallaður og er honum til aðstoðar þegar þörf krefur.
    Ríkissáttasemjari getur skipað aðstoðarsáttasemjara til að aðstoða sig við lausn vinnudeilu eða vinna sjálfstætt að lausn einstakrar vinnudeilu. Það er borgaraleg skylda að taka að sér aðstoðarsáttasemjarastarf.
    Ef sýnt þykir að vinnudeila hafi mjög alvarlegar afleiðingar getur ríkisstjórnin skipað sérstaka sáttanefnd til að vinna að lausn deilunnar. Skal samráð haft við ríkissáttasemjara og deiluaðila áður en sáttanefnd er skipuð.
    Vararíkissáttasemjari, aðstoðarsáttasemjari og sáttanefndarmenn hafa réttindi og bera skyldur ríkissáttasemjara þegar þeir eru að störfum.
    Laun ríkissáttasemjara skulu ákveðin á sama hátt og laun ráðherra og hæstaréttardómara. Félagsmálaráðherra ákveður laun vararíkissáttasemjara og aðstoðarsáttasemjara og þóknun sáttanefndarmanna.

    b. (21. gr.)
    Skrifstofa ríkissáttasemjara er í Reykjavík og ræður hann til hennar starfsfólk eftir þörfum og í samræmi við heimildir.
    
    c. (22. gr.)
    Ríkissáttasemjari annast sáttastörf í vinnudeilum milli launafólks og félaga þess annars vegar og atvinnurekenda og félaga þeirra hins vegar.
    Hann skal fylgjast með ástandi og horfum í atvinnulífi og á vinnumarkaði um allt land. Hann skal fylgjast með þróun kjaramála og atriðum sem valdið gætu ágreiningi í samskiptum samtaka atvinnurekenda og stéttarfélaga.
    Ríkissáttasemjari skal halda skrá yfir gildandi kjarasamninga og er samtökum launafólks og atvinnurekenda, svo og ófélagsbundnum atvinnurekendum, skylt að senda honum samrit allra kjarasamninga sem þeir gera jafnskjótt og þeir hafa verið undirritaðir. Breytingar á áður gildandi kjarasamningum skulu sendar með sama hætti. Sömu aðilar skulu einnig senda sáttasemjara samrit allra kauptaxta og kjaraákvæða sem út eru gefin á grundvelli gildandi kjarasamninga.
    Samningsaðilar skulu enn fremur senda ríkissáttasemjara samrit af uppsögn kjarasamninga, svo og kröfugerð, jafnskjótt og hún er send gagnaðila.


    d. (23. gr.)
    Atvinnurekendur eða samtök þeirra og stéttarfélög skulu gera áætlun um skipulag viðræðna um endurnýjun kjarasamnings. Samningsaðilum er heimilt að veita landssamböndum eða heildarsamtökum sérstakt umboð til að gera viðræðuáætlun fyrir sína hönd ef slíkt umboð leiðir ekki af lögmætum samþykktum sambanda eða samtaka samningsaðila. Viðræðuáætlun, undirrituð af báðum samningsaðilum, skal þegar í stað send ríkissáttasemjara.
    Viðræðuáætlun skal gerð í síðasta lagi tíu vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus. Ef samningsaðilar hafa þá ekki gert viðræðuáætlun skal sáttasemjari gefa út viðræðuáætlun fyrir þá samningsaðila í síðasta lagi átta vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus og skal sáttasemjari þá taka mið af öðrum viðræðuáætlunum sem hafa þegar verið gerðar.

    e. (24. gr.)
    Samningsaðilar geta hvenær sem er eftir útgáfu viðræðuáætlunar óskað milligöngu sáttasemjara eða aðstoðar hans og skal hann þá þegar beita sér fyrir því að samningaumleitanir fari fram í samræmi við viðræðuáætlun. Samningsaðilar skulu gefa sáttasemjara kost á að fylgjast með vinnudeilu og samningaumleitunum hvenær sem hann óskar þess.
    Ef slitnar upp úr samningaviðræðum aðila eða annar hvor þeirra telur vonlítið um árangur af frekari samningaumleitunum getur hvor þeirra um sig eða báðir sameiginlega vísað deilunni til sáttasemjara. Þegar sáttasemjari hefur fengið tilkynningu þess efnis er honum skylt að kveðja aðila eða umboðsmenn þeirra til fundar svo skjótt sem kostur er og halda síðan áfram sáttaumleitunum meðan von er til þess að þær beri árangur.
    Sáttasemjari tekur enn fremur við stjórn viðræðna eftir því sem ákveðið hefur verið í viðræðuáætlun. Honum er þó jafnan heimilt að fresta formlegri sáttameðferð og beina því til samningsaðila að þeir láti reyna á samkomulagsmöguleika í beinum viðræðum sín á milli telji hann það líklegra til árangurs. Ríkissáttasemjara er ávallt heimilt að taka í sínar hendur stjórn samningaviðræðna ef hann telur það heppilegt.
    Ef tilkynning berst um vinnustöðvun skv. 16. gr. er sáttasemjara skylt að annast sáttastörf með deiluaðilum og stýra viðræðum þeirra.

    f. (25. gr.)
    Samningsaðilum er skylt að sækja eða láta sækja samningafund sem sáttasemjari kveður þá til.
    Sáttafundi skal halda fyrir luktum dyrum.
    Á sáttafundi skal leggja fram eftirrit þeirra skjala sem farið hafa milli aðila í deilunni, enda hafi þau ekki verið send ríkissáttasemjara áður.
    Bannað er að skýra frá eða leiða vitni um umræður á sáttafundum og tillögur sem fram kunna að hafa verið bornar nema með samþykki beggja samningsaðila.

    g. (26. gr.)
    Sáttasemjari getur krafið aðila vinnudeilu um hverjar þær skýrslur og skýringar sem hann telur nauðsynlegar til að leysa vinnudeilur. Hann getur krafið allar opinberar stofnanir um þær upplýsingar og skýrslur sem hann telur þörf á. Með öll slík gögn skal fara sem trúnaðarmál ef þess er óskað.

    h. (27. gr.)
    Ef samningaumleitanir sáttasemjara bera ekki árangur er honum heimilt að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu. Miðlunartillögu skal leggja fyrir félög eða félagasambönd launafólks og atvinnurekenda eða einstakan atvinnurekanda, eigi hann í vinnudeilu, til samþykkis eða synjunar. Sáttasemjara ber að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann ber fram miðlunartillögu.
    Ef ágreiningur snertir aðeins ákveðna félagsdeild eða starfsgrein innan félags eða félagasambands eða tiltekið fyrirtæki getur sáttasemjari ákveðið að atkvæðagreiðsla taki eingöngu til deildarinnar eða starfsgreinarinnar eða fyrirtækisins.

    i. (28. gr.)
    Ef tvö eða fleiri félög eða félagasambönd eiga saman í deilu getur sáttasemjari í samráði við samninganefndir borið fram eina miðlunartillögu er taki til fleiri en eins deiluaðila eða þeirra allra. Atkvæðagreiðsla og talning atkvæða fer þá fram í sameiningu hjá öllum þeim félögum eða samböndum sem miðlunartillagan nær til þannig að sameiginlegt atkvæðamagn ræður úrslitum um samþykkt eða synjun.
    Sáttasemjara er einnig heimilt að efna til sameiginlegrar atkvæðagreiðslu þótt hann beri fram fleiri en eina miðlunartillögu, enda sé það gert samtímis. Gilda þá reglur 1. mgr. eftir því sem við á.
    Skilyrði þess að sáttasemjara sé heimilt að leggja fram miðlunartillögu, eina eða fleiri, samkvæmt þessari grein eru eftirfarandi:
    að viðræður hafi átt sér stað um framlagðar kröfur, þar á meðal sérmál, eða að leitað hafi verið árangurslaust eftir viðræðum í samræmi við viðræðuáætlun,
    að tíma, sem ætlaður er til viðræðna milli aðila án milligöngu sáttasemjara samkvæmt viðræðuáætlun, sé lokið án þess að samningar hafi tekist,
    að sáttasemjari hafi leitað sátta milli allra samningsaðila sem eiga í hlut og telji ekki horfur á samkomulagi þeirra í milli,
    að samningar hafi verið lausir um tíma þannig að samningsaðilum hafi gefist kostur á að þrýsta á um kröfur sínar,
    að aðilum vinnudeilu hafi gefist kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við hugmyndir sáttasemjara sem þeim hafa verið kynntar beint eða opinberlega um að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu.
Atkvæðagreiðsla samningsaðila á almennum vinnumarkaði og þeirra sem lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka til um sameiginlega miðlunartillögu skal fara fram með aðgreindum hætti. Niðurstaða hjá hvorum hópnum fyrir sig, óháð niðurstöðu hins, ræður úrslitum um samþykkt eða synjun.


    j. (29. gr.)
    Aðilar skulu eftir því sem við verður komið sjá um að atkvæðisbærir félagsmenn geti kynnt sér miðlunartillögu í heild. Sáttasemjara er heimilt að höfðu samráði við aðila vinnudeilu að draga fram meginatriði úr miðlunartillögu til þess að auðvelda félagsmönnum þeirra að kynna sér efni hennar og taka málefnalega afstöðu til tillögunnar og áhrifa hennar á hag þeirra og afkomu. Öðrum aðila vinnudeilu er heimilt að vinna útdrátt úr miðlunartillögu fyrir félagsmenn sína í samráði við sáttasemjara. Eigi má birta miðlunartillögu öðrum en þeim sem hlut eiga að máli án samþykkis sáttasemjara fyrr en greidd hafa verið atkvæði um hana.
    Miðlunartillaga skal borin undir atkvæði við atkvæðagreiðslu allra atkvæðisbærra aðila eins og sáttasemjari gekk frá henni og henni svarað játandi eða neitandi.
    Atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu skal fara fram á kjörfundi sem standi í fyrir fram ákveðinn tíma. Ríkissáttasemjari getur að höfðu samráði við aðila vinnudeilu ákveðið að atkvæðagreiðsla fari jafnframt fram utan kjörfundar á tilteknum stöðum eða svæðum. Í stað atkvæðagreiðslu innan og utan kjörfundar er ríkissáttasemjara heimilt að höfðu samráði við aðila vinnudeilu að ákveða að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fari fram með leynilegri almennri póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sem lokið skal innan fyrir fram ákveðins tíma. Ríkissáttasemjari gefur að höfðu samráði við aðila vinnudeilu nánari fyrirmæli um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu, svo sem hvenær og hvernig hún skuli fara fram. Atkvæðagreiðsla skal vera skrifleg og leynileg.
    
    k. (30. gr.)
    Jafnskjótt og atkvæðagreiðslu er lokið skulu atkvæði og kjörgögn afhent sáttasemjara. Talning atkvæða fer fram undir stjórn sáttasemjara og er hverjum aðila heimilt að hafa umboðsmann viðstaddan talninguna.

    l. (31. gr.)
    Miðlunartillaga telst felld í atkvæðagreiðslu ef meira en helmingur greiddra atkvæða er á móti henni og ef mótatkvæði eru fleiri en fjórðungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá. Þetta gildir jafnt um atkvæðagreiðslu á kjörfundi og póstatkvæðagreiðslu.

    m. (32. gr.)
    Sáttasemjarar geta borið fram miðlunartillögu eins oft og þeim þykir þurfa.

    n. (33. gr.)
    Ef sáttatilraunum í mikilvægri deilu er hætt án árangurs getur ríkissáttasemjari birt skýrslu um málið á þann hátt sem hann álítur heppilegastan til þess að almenningur fái rétta hugmynd um deiluna.

    o. (34. gr.)
    Ef annar hvor aðili vill samþykkja miðlunartillögu sáttasemjara eftir að sáttaumleitun hefur verið hætt án árangurs sendir hann sáttasemjara yfirlýsingu um það. Sáttasemjara ber þegar að láta gagnaðila vita um yfirlýsinguna. Vilji hann einnig fallast á miðlunartillöguna sér sáttasemjari um að aðilar gangi frá samningum sín á milli.

    p. (35. gr.)
    Nú hefur sáttaumleitunum sáttasemjara lokið án árangurs og ber honum þá að hefja þær á ný ef annar hvor aðili óskar þess eða hann telur það heppilegt. Þó ber honum ætíð að gera tilraun til sátta með aðilum innan 14 sólarhringa frá því hann hætti síðustu samningatilraunum sínum.

    q. (36. gr.)
    Sáttasemjarar skulu halda gerðabækur og skrá þar hvar og hvenær sáttafundir eru haldnir, nafn sáttasemjara og viðstaddra aðila eða fulltrúa þeirra. Geta skal framlagðra skjala og hins helsta sem fram fer.

    r. (37. gr.)
    Ríkissáttasemjari skal senda félagsmálaráðherra skýrslur um störf sín samkvæmt lögum þessum svo oft sem þurfa þykir og ekki sjaldnar en einu sinni á ári.

6. gr.

    39. gr. laganna orðast svo:
    Í dóminum eiga sæti fimm menn sem skipaðir eru til þriggja ára þannig: Einn af Vinnuveitendasambandi Íslands, annar af Alþýðusambandi Íslands, þriðji af félagsmálaráðherra úr hópi þriggja manna, sem Hæstiréttur tilnefnir, og tveir af Hæstarétti og sé annar þeirra sérstaklega tilnefndur til þess að vera forseti dómsins. Ef atvinnurekandi, sem er málsaðili, er ekki meðlimur í Vinnuveitendasambandi Íslands skal dómari sá, sem tilnefndur er af því, víkja sæti, en í staðinn tilnefnir atvinnurekandinn dómara í málinu og skal hann hafa gert það áður en hálfur stefnufrestur er liðinn, ella tilnefnir forseti dómsins dómarann. Sama á við þegar málsaðili er stéttarfélag eða samband stéttarfélaga utan heildarsamtaka launafólks gagnvart dómara, skipuðum af Alþýðusambandi Íslands.
    Sömu aðilar tilnefna varadómendur er taka sæti í forföllum aðaldómenda.
    Þegar mál þau, sem um ræðir í 2. mgr. 44. gr., koma til meðferðar í Félagsdómi skulu dómendur þeir, sem tilnefndir eru af Vinnuveitendasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands, víkja sæti, en í þeirra stað tilnefna stefnandi og stefndur hvor sinn mann úr hópi 18 manna sem tilnefndir eru í því skyni af Iðnsveinaráði Alþýðusambands Íslands og Samtökum iðnaðarins til þriggja ára í senn. Iðnsveinaráð ASÍ tilnefnir sex menn og Samtök iðnaðarins tólf menn. Nefnd samtök nefna með sama hætti jafnmarga varamenn. Nú tilnefnir aðili ekki dómara eða ekki næst samkomulag um tilnefninguna milli samaðila máls, og nefnir forseti Félagsdóms þá dómara í hans stað úr hópi sömu manna.

7. gr.

    Í stað orðsins „atvinnumálaráðherra“ í 1. málsl. 40. gr. og 1. mgr. 66. gr. laganna komi: félagsmálaráðherra.

8. gr.

    Við 70. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Ábyrgð skv. 2. mgr. 8. gr. varðar þó ekki sektum.

9. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði III. kafla laganna, 20.–37. gr., gilda eftir því sem við á um opinbera starfsmenn sem lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna ná til.
    Jafnframt falla úr gildi lög nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum.
    Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og gefa þau út svo breytt.