Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 519 . mál.


1078. Nefndarálit



við frv. til l. um fiskveiðar utan efnahagslögsögu Íslands.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Kolbeinsson og Arnór Halldórsson frá sjávarútvegsráðuneyti, Tómas H. Heiðar frá utanríkisráðuneyti, Gunnar G. Schram prófessor, Kristján Ragnarsson og Jóhann A. Jónsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Arnar Sigurmundsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Jón Steindór Halldórsson og Ingólf Sverrisson frá Samtökum iðnaðarins, Kristján Loftsson, Guðmund Jónsson, Jón Guðmundsson og Guðmund Þórðarson frá Útvegsmannafélagi Hafnarfjarðar. Þá fundaði nefndin einnig með Félagi úthafsútgerða þar sem m.a. voru mættir Snorri Snorrason og Pétur Einarsson og létu þeir nefndinni í té skriflegar athugasemdir við málið. Þá fékk nefndin senda sameiginlega umsögn frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Sjómannasambandi Íslands.
    Þegar hafa náðst samningar við grannríki um veiðar á tveimur mikilvægum íslenskum deilistofnum, karfa á Reykjaneshrygg annars vegar og norsk-íslenska síldarstofninum hins vegar. Fyrirséð er að úthluta þurfi varanlegum veiðiheimildum úr þessum stofnum í náinni framtíð og er nauðsynlegt að grundvöllur að slíkri úthlutun liggi fyrir hið fyrsta. Einnig er brýnt vegna kostnaðarsams eftirlits sem nú fer fram með veiðum skipa á Flæmingjagrunni að lögfesta heimild til að innheimta þann kostnað sem af hlýst af þeim útgerðum sem þær veiðar stunda. Í þessu sambandi má m.a. vísa í umsögn fjármálaráðuneytis með frumvarpinu um að verulegur kostnaður falli á ríkissjóð vegna eftirlits með þessum veiðum nái frumvarpið ekki fram að ganga.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Tillögurnar eru eftirfarandi:
    Við 3. gr. Lögð er til orðalagsbreyting á ákvæðinu þar sem fram kom á fundi nefndarinnar að til þess að fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum Íslands væri nægilegt að lögfest yrði heimild fyrir ráðherra til setningar nauðsynlegra reglna.
    Við 4. gr. Lögð er til orðalagsbreyting á niðurlagsákvæði 2. mgr. til þess að gera ljóst að leyfisveiting samkvæmt greininni verði einungis háð þeim skilyrðum sem fram koma í lögum um veiðar í efnahagslögsögu Íslands, nr. 13/1992, og í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991. Þannig er t.d. ekki gert ráð fyrir að ákvæði um úreldingu í lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, eigi við í þessu sambandi.
    Við 5. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að orðunum „íslenskum deilistofnum“ verði skotið inn í texta 1. mgr. til að festa það hugtak frekar í sessi yfir stofna sem fyrirfinnast

Prentað upp.

        bæði innan og utan íslensku lögsögunnar, hvort sem er á úthafinu eða í lögsögu grannríkja. Í öðru lagi er lagt til að heimild ráðherra til skerðingar skv. 3. mgr. sé að hámarki 15% í stað 20% eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Í þriðja lagi er lagt til að heimild ráðherra til að úthluta sérstaklega til þeirra skipa sem hófu veiðar úr viðkomandi stofnum verði rýmkuð úr 3% í 5% af því sem til ráðstöfunar er.
    Við 6. gr. Lagt er til að heimild ráðherra til skerðingar skv. 3. mgr. sé að hámarki 7% í stað 10% eins og frumvarpið gerir ráð fyrir þannig að síður verði dregið úr hvata fyrir útgerðir að reyna fyrir sér á fjarlægum miðum.
    Við 8. gr. Lagðar eru til nokkrar breytingar á greininni. Markmiðið með þeim er að kostnaður útgerða vegna veiðieftirlits verði sem mest fyrirsjáanlegur. Í stað þess að veiðieftirlitsgjaldið miðist við tiltekið hámark af áætluðu aflaverðmæti, svo sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, er lagt til að gjaldið skiptist annars vegar í fast ákveðið gjald á hvert aflakíló og hins vegar daggjald er taki mið af hlutfalli skipa með eftirlitsmenn um borð.
    Við ákvæði til bráðabirgða. Tillögu um breytingar á því ákvæði leiðir af framangreindri breytingartillögu við 8. gr. frumvarpsins.
    Steingrímur J. Sigfússon skrifar undir nefndaráliti þetta með fyrirvara sem lýtur að því að æskilegt hefði verið að lengri tími hefði gefist til að fjalla um málið auk fyrirvara um einstaka efnisþætti málsins. Þá ritar Guðmundur Hallvarðsson einnig undir með fyrirvara sem lýtur að athugasemdum sem fram komu í sameiginlegri umsögn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Sjómannasambands Íslands.

Alþingi, 24. maí 1996.



Steingrímur J. Sigfússon,

Árni R. Árnason,

Stefán Guðmundsson.


form., með fyrirvara.

frsm.



Einar Oddur Kristjánsson.

Hjálmar Árnason.

Guðmundur Hallvarðsson.


með fyrirvara.



Hjálmar Jónsson.