Ferill 437. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 437 . mál.


1094. Nefndarálit



um frv. til l. breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Í frumvarpinu er í ýmsum atriðum komið til móts við þá gagnrýni sem höfð var uppi vorið 1995 þegar lagt var til atlögu við banndagakerfið og stækkun smábátaflotans. Það hefði betur verið gert fyrr því sú mikla aflaaukning sem orðið hefur hjá smábátum, og nú er reynt að bregðast við, stafar fyrst og fremst af fjölgun nýrra báta í kerfinu sem var í raun opið; báta sem róa með línu, jafnvel á vöktum; báta sem stundum eru kallaðir hraðfiskibátar. Sú fjölgun smábáta og auking á afla hefur ekki komið þeim stöðum sérstaklega til góða sem byggja að verulegu leyti allt sitt á smábátaútgerð. Þar var útgerð og verður vonandi áfram og þurfti ekki fjárfestingarævintýri síðustu ára til þess.
    Þessir staðir munu hins vegar líða fyrir aðhaldsaðgerðirnar og niðurskurðinn sem látinn er ganga jafnt yfir alla. Segja má að það að halda kerfinu opnu á undanförnum árum og hvetja þannig til þeirrar þróunar sem orðið hefur bitni á þeim sem síst skyldi þegar að því kemur að blaðinu verður snúið við.
    Breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem leiða til flutnings á veiðiheimildum geta bæði haft áhrif á búsetuþróunina í landinu og samsetningu fiskveiðiflotans. Sú þróun, sem orðið hefur varðandi fjölgun krókabáta og síaukna hlutdeild þeirra í heildarþorskaflanum, er lýsandi dæmi um þetta. Í ljós kemur að hlutdeild krókabáta í heildarþorskaflanum hefur aukist frá því að vera 5,6% almanaksárið 1991 í rúmlega 20% á síðasta almanaksári. Þetta gerist vegna þess stjórnkerfis sem smábátarnir hafa búið við. Hagsmunaárekstrar í sjávarútvegi verða auðvitað vegna þess að tekist er á um gríðarmikil verðmæti. Ef skoðuð eru verðmæti þeirrar aflahlutdeildar í þorski, sem smábátar hafa verið að fá með stoð í lögum og reglugerðum á undanförnum árum, auk þess að mega veiða aðrar tegundir frjálst, sést best hvílíkir hagsmunir eru á ferðinni. Ef miðað er við árið 1991 þegar aflahlutdeild krókabáta var 5,6% í þorski gæfi sú hlutdeild nú 8.600 tonn ef hlutdeildin hefði verið föst eins og aðrir hafa búið við, en ekki 21.500 tonn eins og miðað er við og stendur til að lögleiða krókabátum til handa, þ.e. aflahlutdeild upp á 13,9%. Mismunurinn á því sem hlutdeildin árið 1991 hefði gefið í ár, ef smábátakerfið hefði ekki verið opið, og þeim 21.500 tonnum sem nú er miðað við er tæp 13 þúsund tonn. Ef verðgildi þessa afla er reiknað miðað við gangverð á varanlegum aflaheimildum í þorski, því hér er ríkisvaldið að úthluta varanlegum aflaheimildum, er hér um 6,5 milljarða kr. að ræða.
    Nefndarmenn í sjávarútvegsnefnd og aðrir alþingismenn hljóta að spyrja sjálfa sig um réttmæti þess að afhenda, með hverri ákvörðun sem tekin er um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða, einstaklingum eða fyrirtækjum mikil verðmæti í formi veiðiheimilda sem þeir síðan geta komið í verð strax næsta dag ef þeim býður svo við að horfa.
    Ef litið er til einstakra ákvæða frumvarpsins er fyrst til þess að taka að þrátt fyrir mjög hertar endurnýjunarreglur frá sl. vori verður mönnum gert kleift að endurnýja báta sína án skerðingar verði þeir fyrir sjótjóni.
    Ákveðið er að hafa áfram sóknarkerfi fyrir hluta flotans og er til bóta að róðrardagakerfi verði þá komið á án ákveðinna tímabila og menn geti sjálfir ráðið því hvenær þeir nýta róðrardaga sína. Þá er það jákvætt að aftur skuli vera hægt að velja um kerfi, hvort menn vilja vera á þorskaflahámarki eða kjósa róðrardaga, og þá ekki síður hitt að greint skuli á milli þess hvort þeir hyggjast stunda veiðar bæði með línu og handfærum eða einungis með handfærum. Þannig er viðurkenndur sá munur sem er á veiðigetu þessara veiðarfæra.
    Eftir að lögunum var breytt sl. vor stóð valið á milli þorskaflahámarks og viðbótarbanndaga. Þá kom í ljós að mun fleiri völdu þorskaflahámarkið en búist var við. Nú má reikna með að enn fleiri kjósi það. Jafnvel þótt róðrardagakerfið batni og þeir sem veiða með handfærum geti eftir þessa lagabreytingu verið öruggari með sína stöðu er það augljóst að þorskaflahámarkshópurinn kemur afar vel út úr því sem hér er lagt til. Á grundvelli gildandi laga er þetta eini hópurinn sem fær úr Seljavallasjóðnum, þ.e. situr einn að 500 lestunum sem eru til ráðstöfunar hjá Byggðastofnun. Nú kemur inn ákvæði um að þeir megi selja frá sér hámarkið, þó aðeins innan hópsins, og að til þeirra megi flytja aflamark í þorski úr hinu kerfinu, þ.e. aflamarkskerfinu. Ef frumvarpið verður að lögum má flytja aflamark frá aflamarksbátum og togurum til krókabáta innan árs, en ekki í hina áttina. Þannig má segja að undirstrikuð sé sú áhersla sem fram kemur í samkomulagi ráðherra og Landssambands smábátaeigenda að ýta frekar undir það að æ stærri hluti þorskaflans verði veiddur af æ smærri bátum á sóknarmarki. Það er auðvitað ákveðin pólitík og væri æskilegt að hún væri studd betri efnahagslegum rökum en þegar hafa komið fram.
    Stjórnkerfi veiðanna ræður fiskveiðiarðinum og því er mikilvægt fyrir Íslendinga sem nýta auðlindina sem undirstöðu velferðar og búsetu að vandað sé til verka þegar ákvarðað er hvaða stjórnkerfi er notað og að þær breytingar sem ráðist er í verði ekki til að rýra lífskjör þjóðarinnar. Við yfirferð nefndarinnar hefur ekkert nýtt komið fram sem styður þá stefnu sem fylgt er í frumvarpinu heldur sýnir reynslan þvert á móti að bátar á aflahámarki gera mun meiri verðmæti úr hverju þorsktonni sem þeim er úthlutað en þeir bátar sem eru á sóknarmarki. Sú spurning hlýtur því að vera áleitin af hverju ekki er brugðist við því og þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á sókn krókabátanna með því að setja alla báta á aflahámark og mætti þá gjarnan skoða bann við framsali milli flokka ef vilji er til að viðhalda því útgerðarmunstri sem er nú við lýði.
    Samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans við frumvarpið er gert ráð fyrir að þær skorður, sem verið hafa við breytingum á leyfilegum heildarafla þorsks eftir 15. apríl, falli brott og er það skynsamleg tillaga.
    Önnur breytingartillaga meiri hlutans, um afnám línutvöföldunar, er hins vegar gagnrýniverð. Með afnámi línutvöföldunar og úthlutun viðbótaraflahlutdeildar á grundvelli reynslu síðustu þriggja fiskveiðiára, þannig að auk þess aflamarks sem viðkomandi skip hefur fái það 60% af þeim afla sem það hefur veitt á grundvelli ákvæða um línutvöföldunar, sbr. 6. mgr. 10. gr. gildandi laga, er verið að auka hlutdeild viðkomandi skipa umtalsvert. Þannig má ætla að stór hópur skipa eða útgerða fái veiðiheimildir upp á tugi milljóna króna; veiðiheimildir sem þá fylgja engar kvaðir, hvorki um veiðitíma né veiðarfæri. Þeim skipum er sérstaklega umbunað sem gátu notfært sér ákvæði laganna um línutvöföldunina, og ekki með tonnatölu heldur með rausnarlegri úthlutun aflamarks sem þýðir sívaxandi þorskafla á næstu árum ef svo fer fram sem horfir.
    Kílóið af varanlegum þorskkvóta er nú um 500 króna virði. Viðbótarhlutdeild sem gefur 50 tonn er því 25 millj. kr. virði á kvótamarkaðnum ef hlutdeildin sem þeir fá yrði seld daginn eftir.
    Fyrsti minni hluti styður hvorki frumvarpið í heild né þær breytingartillögur sem meiri hlutinn ber fram en mun greiða einstökum greinum frumvarpsins sem teljast til bóta atkvæði.

Alþingi, 29. maí 1996.



Svanfríður Jónasdóttir.






Fylgiskjal.









(Súlurit, 2 síður myndaðar.)