Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 445 . mál.


1097. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



Inngangur.
    Frumvarpið á sér þá forsögu að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, gerði athugasemd við álagningu vörugjalds hér á landi. Stofnunin taldi að lög um vörugjald samræmdust ekki að öllu leyti ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Frumvarpið ásamt frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt er svar stjórnvalda hérlendis við kröfum ESA þannig að ekki verði um frekari athugasemdir að ræða af þeirra hálfu.
    Frumvarpið felur í fyrsta lagi í sér breytingar á álagningu vörugjalds þannig að magngjald verði lagt á tiltekna vöruflokka í stað verðgjalds sem nú er lagt á. Í öðru lagi er vörugjald fellt niður af nokkrum vöruflokkum. Í þriðja lagi verður vörugjald samræmt og gjaldflokkum fækkað. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að frestur til greiðslu á vörugjaldi verði samræmdur bæði gagnvart innflutningi og innlendri framleiðslu.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir tekjutapi ríkissjóðs sem nemur 450 millj. kr. og frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, 444. mál, fjallar um tekjuöflun í því sambandi.
    Minni hluti nefndarinnar gerir alvarlegar athugasemdir við þessar fyrirætlanir stjórnvalda. Í fyrsta lagi er bent á að upptaka magngjalds í stað verðgjalds hefur þau áhrif að „hagstæð innkaup“ koma neytendum ekki eins til góða. Ýmsir umsagnaraðilar benda á að slík skattlagning leiði til hærra vöruverðs. Í öðru lagi hefði vafalítið mátt breyta vörugjaldinu minna en gert er í frumvarpinu til að uppfylla kröfur ESA. Ríkisstjórnin gengur lengra í að lækka og breyta vörugjaldi en nauðsynlegt hefði verið til að mæta kröfum ESA. Þegar athugasemdir ESA lágu fyrir í mars 1994 hófu stjórnvöld að undirbúa tillögur til lausnar þessu vandamáli. Ljóst er að það verður að afgreiða einhvers konar útfærslu á þessu máli nú á vorþingi til að komast hjá því að málið verði dómtekið af hálfu Eftirlitsstofnunarinnar.

Stórgölluð fjármögnunarleið.
    Ríkisstjórnin setti nefnd á laggirnar til að móta tillögur um þetta efni, en nefndin var auk embættismanna skipuð fulltrúum helstu hagsmunaaðila. Meginniðurstaða þeirrar nefndar var að leggja til breytingar á vörugjaldinu í nokkuð annarri mynd en gert er í frumvarpinu og að fjármögnun yrði þannig háttað að virðisaukaskattur yrði hækkaður um hálft prósentustig.
    Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að fara ekki þessa fjármögnunarleið til að bæta ríkissjóði tekjutapið heldur leggja fram frumvarp um breytingu á virðisaukaskatti, 444. mál, þar sem gert er ráð fyrir að endurgreiðsla á virðisaukaskatti til byggjenda íbúðarhúsnæðis af vinnu manna á byggingarstað verði lækkuð í 60% af greiddum virðisaukaskatti. Í núgildandi lögum er kveðið á um að allur virðisaukaskattur sé endurgreiddur til húsbyggjenda.

Umsagnir.
    Í umsögnum sem nefndinni hafa borist um málið leggjast hagsmunaaðilar eindregið gegn þessari útfærslu ríkisstjórnarinnar. Mikil andstaða kemur fram við fjármögnunarleiðina, þ.e. breytinguna á virðisaukaskatti, og bárust nefndinni harðorð mótmæli þess efnis, m.a. frá Vinnuveitendasambandinu, Alþýðusambandinu, Neytendasamtökunum, BSRB, Verslunarráði, Samtökum iðnaðarins og Búseta.
    Í umsögn Félags íslenskra stórkaupmanna, en þau samtök kærðu álagningu vörugjalds upphaflega til Eftirlitsstofnunar EFTA, kemur fram andstaða þeirra við frumvörpin um vörugjald og virðisaukaskatt, m.a. vegna þess að samtökin telja þau ekki á neinn hátt koma til móts við athugasemdir ESA. Þau telja að frumvarpið um vörugjald gangi lengra en áður í að mismuna atvinnugreinum og að innlendir framleiðendur séu verndaðir fyrir eðlilegri samkeppni, enn fremur að margs konar ójöfnuður í álagningu vörugjalda milli innlendra og erlendra aðila muni verða afleiðing samþykktar þess.
    Í umsögn samtakanna Íslenskrar verslunar, en að þeim samtökum standa Bílgreinasambandið, Kaupmannasamtök Íslands og Félag íslenskra stórkaupmanna, kemur fram andstaða við álagningu vörugjalds og telja þau að hún samræmist ekki alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að. Vinnuveitendasamband Íslands mælir gegn því að frumvörpin nái fram að ganga í óbreyttri mynd.
    Bandalag starfsmanna ríkis og bæja leggst gegn þessum frumvörpum, m.a. vegna þess að samþykkt þeirra mundi hækka launakostnað við byggingu íbúðarhúsnæðis sem leiddi til meira en 3% hækkunar byggingarvísitölu. Hækkun byggingarvísitölu hefði í för með sér hækkun vísitölu neysluverðs og gerði íbúðarhúsnæði dýrara til lengri tíma. Jafnframt bendir BSRB á að skattsvik mundu líklega aukast þar sem lægra endurgreiðsluhlutfall hefði í för með sér að síður yrði unnið eftir reikningi við byggingu íbúðarhúsnæðis.
    Í umsögn Alþýðusambandsins kemur einnig fram andstaða við þessi tvö frumvörp og er fullyrt að þau séu algerlega óásættanleg og í engu samræmi við athugasemdir sem ESA hefur gert. Miðstjórn Alþýðusambandsins telur einnig að lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts muni leiða til stóraukinnar svartrar atvinnustarfsemi og skattsvika. ASÍ mælir gegn samþykkt frumvarpanna og sama gerir Bílgreinasambandið. Bílgreinasambandið bendir hins vegar á að sérstaklega hefði þurft að kanna sérstaka lækkun á vörugjöldum á öryggisbúnað og varahluti og aðra hluti sem tengjast öryggisbúnaði og öryggi bifreiða. Þetta er mjög brýn og réttmæt ábending frá Bílgreinasambandinu, en hún er að engu höfð í frumvarpinu og í breytingartillögum meiri hlutans.
    Neytendasamtökin leggjast gegn frumvörpunum og telja að margra þrepa vörugjald, eins og mælt er fyrir í frumvarpinu, kalli á mikið eftirlit, dýra innheimtu og aukinn kostnað. Verslunarráðið telur að frumvarpið feli ekki í sér fullnægjandi lausn á þeim vandamálum sem því er ætlað að leysa og mælir með að farið verði að tillögum starfshópsins, þ.e. að vörugjaldið verði lækkað enn frekar og gjaldtaka flutt yfir í virðisaukaskattskerfið.
    Samtök iðnaðarins leggjast harkalega gegn frumvörpunum og vitna til starfshópsins sem vann að undirbúningi málsins, en eins og áður hefur komið fram er ekkert gert með tillögur hans. Þau telja algerlega óviðunandi að lækka endurgreiðslurnar en halda áfram að skattleggja byggingarefni sem munaðarvöru. Jafnframt benda samtökin á að slík skattheimta sé óþekkt í nágrannalöndunum og gera athugasemdir varðandi einstaka gjaldflokka. Samtök iðnaðarins vísa til þess að fyrir lá samkomulag milli hagsmunaaðila og fjármálaráðuneytis en síðan var kúvent frá þeim tillögum.
    Breytingartillögur meiri hlutans við vörugjaldsfrumvarpið eru ekki efnismiklar. Þær eru flestar tæknilegs eðlis og varða m.a. samræmingu á uppgjörstíma og möguleikar smærri flutningafyrirtækja til að vinna innan kerfisins eru bættir.
    Nefndin fékk á fund til sín fulltrúa hagsmunaaðila og ræddi frumvörpin í heild og breytingartillögur sem meiri hlutinn var þá með í undirbúningi. Hjá fulltrúunum kom fram fullkomin andstaða við þessi frumvörp. Þeir voru ekki ánægðir með útfærslu vörugjaldsins og lýstu hatrammri andstöðu við fjármögnunarleiðina.

Meginsjónarmið minni hlutans.
    Minni hlutinn tekur undir sjónarmið hagsmunaaðila varðandi málið og bendir sérstaklega á eftirfarandi þætti:
    Kanna þyrfti vandlega hvort ekki hefði mátt taka styttra skref í breytingu á vörugjaldi til að mæta kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Breytingum á vörugjaldsflokkum, sem lagðar eru til með frumvarpinu, er að mörgu leyti ábótavant og hefði betur verið stuðst við vinnu starfshópsins sem lagði fram skýrslu um málið.
    Fjármögnun breytinga á vörugjaldi, þ.e. lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts hjá íbúðarbyggjendum sem mælt er fyrir um í fylgifrumvarpi, er að mati minni hlutans meginástæða þess að leggjast ætti gegn þessum frumvörpum. Sú aðferð að láta húsbyggjendur greiða fyrir lækkun vörugjalds með þessum hætti eins og hér er lagt til er ótæk.
    Þá kallar lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts á aukna svarta atvinnustarfsemi og undanskot frá skatti. Því er mikil hætta á að sú breyting skili ekki þeim fjármunum í ríkissjóð sem áætlað er. Minni hlutinn telur ófært að Alþingi afgreiði lög sem talið er líklegt að auki undanskot frá skatti.
    Íhuga hefði átt í útfærslu á vörugjaldi að lækka vörugjald á öryggistækjum í bifreiðar og koma þannig til móts við þá þróun sem orðið hefur alls staðar í heiminum að álögum hefur verið létt af þessum mikilvægu þáttum, enda sparast á móti margvíslegur kostnaður innan heilbrigðisþjónustunnar.
    Þegar þessar röksemdir eru skoðaðar í heild er það niðurstaða minni hlutans að leggjast skuli gegn þessum frumvörpum. Minni hlutinn gerir sér hins vegar ljóst að afgreiða þarf málið gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA.
    Í nefndarstarfinu var ekki hlustað á ábendingar minni hlutans um aðrar fjármögnunarleiðir en þær sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Ekki var heldur tekið tillit til athugasemda minni hlutans og umsagnaraðila um aðra uppbyggingu á vöruflokkum né var athugað hvort hægt væri að hafa umfang þessara aðgerða minna en raun ber vitni.
    Vitaskuld gat ríkisstjórnin séð fyrir tekjulækkun við breytingar á vörugjaldi þegar við afgreiðslu síðustu fjárlaga, en þá lá fjárhagslegt umfang málsins ljóst fyrir. Því er ámælisvert að ríkisstjórnin skuli á síðustu dögum þingsins knýja fram frumvarp um breytingar á lögum um vörugjald með vafasamri fjármögnunarleið sem íþyngir sérstaklega húsbyggjendum í landinu. Nær hefði verið að ríkisstjórnin hefði gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna fyrirhugaðrar breytingar á vörugjaldi strax í fjárlögum og þá hefði málið verið auðveldara viðfangs nú á vordögum.

Lokaorð.
    Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans í þessu máli eru ekki góð. Minni hlutinn mun því sitja hjá við afgreiðslu málsins, enda er það algerlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 29. maí 1996.



Ágúst Einarsson,

Steingrímur J. Sigfússon.


frsm.