Ferill 66. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 66 . mál.


1112. Nefndarálit



um till. til þál. um stefnumótun í ferðamálum með áherslu á „græna ferðamennsku“.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Magnús Oddsson ferðamálastjóra og Ármann Kr. Ólafsson, aðstoðarmann samgönguráðherra.
    Nefndin fékk sendar umsagnir um tillöguna frá Ferðamálasamtökum Suðurlands, Ferðamálasamtökum Vestfjarða, Sambandi veitinga- og gistihúsa, Háskólanum á Akureyri, umhverfisráðuneytinu, Náttúruverndarráði, Félagi íslenskra ferðaskrifstofa, Ferðamálaráði Íslands, Ferðamálasamtökum höfuðborgarsvæðisins, Ingiveigu Guðmundsdóttur ferðamálaráðgjafa, Bændasamtökum Íslands og Félagi háskólamenntaðra ferðamálafræðinga.
    Tillagan miðar að því að skipuð verði nefnd sem hafi það að markmiði að fella hugmyndir um „græna ferðamennsku“ inn í stefnumótun í ferðamálum hér á landi. Í nýútkominni skýrslu samgönguráðuneytisins um stefnumótun í ferðaþjónustu er sérstaklega fjallað um stefnumótun í sjálfbærri eða „grænni“ ferðamennsku og umhverfisvernd. Þar er lagt til að ferðaþjónusta í anda sjálfbærrar þróunar verði efld þannig að hér verði rekin ferðamennska í sátt við land og þjóð. Jafnframt er lögð áhersla á að Ísland gegni forustuhlutverki á sviði umhverfisverndar. Ljóst er, með hliðsjón af þeirri stefnumörkun sem nú liggur fyrir, að halda þarf áfram vinnu og undirbúningi til þess að sjálfbær ferðaþjónusta verði efld, m.a. í anda tillögu þessarar.
    Nefndin leggur til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 29. maí 1996.

Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Kristján Pálsson.


form., frsm.



Stefán Guðmundsson.

Egill Jónsson.

Árni Johnsen.



Ásta R. Jóhannesdóttir.

Ragnar Arnalds.

Gísli S. Einarsson.