Ferill 421. máls. Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 421. og 422 . mál.


1114. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og um frv. til l. um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvörpin og fengið á sinn fund Magnús Pétursson, Jón Guðmundsson, Bolla Þór Bollason og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármálaráðuneyti, auk Ásmundar Stefánssonar sem jafnframt var formaður nefndarinnar sem samdi frumvarpið, Skúla Eggert Þórðarson, skattrannsóknarstjóra ríkisins, Snorra Olsen, Steinþór Haraldsson og Friðleif Jóhannsson frá embætti ríkisskattstjóra, Má Guðmundsson og Yngva Örn Kristinsson frá Seðlabanka Íslands, Þórð Friðjónsson, Friðrik Má Baldvinsson og Eyjólf Sverrisson frá Þjóðhagsstofnun, Þórð Skúlason og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gylfa Arnbjörnsson frá ASÍ, Rannveigu Sigurðardóttur frá BSRB, Birgi Björn Sigurjónsson frá BHM, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Sigurð B. Stefánsson frá Samtökum verðbréfafyrirtækja, Stefán Halldórsson frá Verðbréfaþingi Íslands, Finn Sveinbjörnsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Sigurð Hafstein frá Sambandi sparisjóða, Braga Hannesson frá Sambandi lánastofnana, Þorvarð Elíasson og Ernu Bryndísi Halldórsdóttur frá Samtökum fjárfesta og sparifjáreigenda, og Ólaf Nilsson, Árna Tómasson, Tryggva Jónsson og Valdimar Guðnason frá Félagi löggiltra endurskoðenda.
    Þá bárust nefndinni erindi um málið frá ASÍ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi löggiltra endurskoðenda, Samtökum iðnaðarins, Þjóðhagsstofnun, Sambandi íslenskra sparisjóða, Samtökum fjárfesta og sparifjáreigenda, Samtökum íslenskra verðbréfafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, VSÍ, Sambandi lánastofnana, BHM, Verðbréfaþingi Íslands, Blindrafélaginu, BSRB, Sambandi almennra lífeyrissjóða, Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbæ, skattstjóranum í Reykjavík, Akureyrarbæ, Öryrkjabandalagi Íslands og Þjóðhagsstofnun.
    Sú aðgerð, sem frumvörpin mæla fyrir um, er liður í samræmingu skattlagningar á eignir og eignatekjur. Meiri hluti nefndarinnar minnir á yfirlýsingu ráðherra um að þeim tekjuauka, sem fellur til við samþykki frumvarpsins, skuli ráðstafa til lækkunar á öðrum sköttum. Hlýtur þá lækkun eignarskatts að koma sérstaklega til greina enda slíkt í samræmi við tilgang frumvarpsins um samræmingu skattlagningar á eignir og eignatekjur.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvörpin verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstökum þingskjölum og gerð er grein fyrir hér á eftir.

I.          Frumvarp til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, 421. mál.
    Lagðar eru til tvær breytingar á 1. gr. Annars vegar er lögð til breyting á 4. tölul. þess efnis að samráð skuli haft við Seðlabanka Íslands við setningu reglugerðar um ákvörðun gengishagnaðar. Hins vegar er lögð til smávægileg orðalagsbreyting á 5. tölul. til að gera ákvæðið skýrara.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 4. gr. Í a-lið er lagt til að við síðari efnismgr. (er verði 3. mgr. 17. gr. laganna) verði bætt nýjum málslið þess efnis að verði hlutafé lækkað og greitt út til hluthafa skuli litið á það sem sölu hlutafjárins í skilningi laganna. Með þessu er stefnt að því að jafna aðstöðu milli þeirra sem þannig leysa til sín hlutafé sitt og þeirra sem selja hlutaféð eða fá það innleyst við slit félags. Ákvæði þessa efnis hefur þótt skorta í skattalög en er í samræmi við núgildandi framkvæmd. Þá er lagt til að við 4. gr. bætist þrír stafliðir með eftirfarandi breytingum á 17. gr. laganna: Í b- og c-lið er lagt til að sérstök skattfríðindi í 3. mgr. (er verði 4. mgr.) verði afnumin. Samkvæmt gildandi lögum er veitt skattfrelsi fyrir söluhagnað upp að vissu hámarki ef hann myndast af sölu þeirra hlutabréfa sem við kaup skapa kaupanda rétt til skattafrádráttar. Í ljósi þeirrar breyttu skattameðferðar sem frumvarpið gerir ráð fyrir varðandi söluhagnað hlutabréfa almennt þykir eðlilegt að afnema þessi skattfríðindi, þó þannig að þeir sem þegar hafa fest kaup á hlutabréfum við gildistöku laganna halda rétti sínum. Í d-lið er lagt til að sá hluti hagnaðar af sölu hlutafjár, sem ekki er skattlagður með 10% skatti, verði meðhöndlaður sérstaklega. Fer um heimildir manna til að fresta honum og ráðstafa til kaupa á öðru hlutafé á sama hátt og um hagnað af sölu íbúðarhúsnæðis. Þegar hin nýju hlutabréf verða seld kemur fram hækkun söluhagnaðar sem samsvarar fjárhæð hins yfirfærða hagnaðar. Þetta ætti að stuðla að auknum viðskiptum með hlutabréf og skapa svigrúm til að sveigja skattlagningu að einstaklingsbundnum aðstæðum. Reglur þessar eiga eingöngu við um söluhagnað sem myndast utan atvinnurekstrar.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 5. gr. Núgildandi frádráttarregla vegna kaupa á hlutafé í staðfestum félögum heldur sér. Í b-lið er lagt til að frádráttarfjárhæðin færist á móti launum og hagnaði af rekstri en ekki á móti fjármagnstekjum. Vægi frádráttarins verður því óbreytt. Breytingartillögur c-liðar eru í raun þríþættar. Vegna samhengisins þykir þurfa að aðgreina í sérstökum málsgreinum frádráttarheimildir vegna fjármagnstekna. Í fyrsta lagi er kveðið á um frestun á tekjufærslu þeirra fjármagnstekna sem greiðslufall verður á. Í öðru lagi er heimild til sérstaks mótreiknings vegna taps á kröfu ef tekjur hafa áður verið færðar til skattstofns. Í þriðja lagi er tekin sú afstaða að láta reglur 2. mgr. um beinan útlagðan kostnað ekki taka til fjármagnstekna. Í d-lið er lagt til að beinn kostnaður við öflun tekna verði ekki metinn til lækkunar á stofni til fjármagnstekjuskatts. Sú breyting er nauðsynleg þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir brúttóskattlagningu fjármagnstekna. Tillaga e-liðar felur einungis í sér leiðréttingu á tilvísun þar sem í c-lið 5. gr. frv. er vísað til stafliðar í stað greinar.
    Lagt er til að hlutfall arðs til frádráttar hjá hlutafélögum skv. 6. gr. lækki úr 10% í 7%. Jafnframt er lagt til að framreikningur nafnverðs skv. 26. gr. laga nr. 75/1981 verði tekinn út úr greininni, svo og viðmiðun hans við raunverulegt verðmæti eignar. Þá er lagt til að gerð verði sú breyting að tekið verði beinlínis fram að ákvæði um að vissar tegundir eigna skerði arðsfrádráttarrétt hlutafélaga eigi ekki við ef eðlilegur og venjulegur rekstrartilgangur býr að baki eignarhaldi í þeim. Loks er lagt til að heimilað verði að flytja arðsfrádrátt á milli ára þannig að reglur um þetta verði gerðar sveigjanlegri en verið hefur. Félag hafi val um hvenær það nýtir sér arðsfrádráttinn. Þannig geti hlutafélag sem ákveður að greiða ekki út arð eitthvert ár, enda þótt það uppfylli skilyrði til útborgunar, flutt frádráttarréttinn sem ekki var nýttur yfir á næstu ár.
    Við 7. gr. Með þeirri breytingu, sem lögð er til í a-lið 5. tölul., er leitast við að draga úr óheppilegum áhrifum mikilla viðskipta með hlutabréf í kjölfar gildistöku laganna á hlutabréfamarkað o.fl. Í þessu skyni er sett hámark á skattstofn hvers einstaklings sem fellur undir 10% fjármagnstekjuskatt ef stofninn myndast af söluhagnaði af sölu hlutabréfa, þar með talin innlausn bréfanna við lækkun hlutafjár, slit félags og þess háttar. Fari söluhagnaður fram úr þeim hámörkum sem hér greinir skattleggst umframfjárhæðin í almennu skatthlutfalli, en skv. 1. mgr. 63. gr. nemur það 33,15%. Jafnframt legðist útsvar, 8,4%-9,2%, á þessar tekjur. Um breytingartillögu b-liðar vísast í skýringu við breytingu á 9. gr.
    Við 9. gr. Barnabótaauki og vaxtabætur taka mið af tekjuskattsstofni. Vaxtatekjur fá þó sérstaka meðferð í þessu sambandi. Þær breytingar, sem hér eru lagðar til á ákvæðum 69. gr., lúta að því að gera hina nýju skattlagningu á vexti hlutlausa við útreikning barnabótaaukans. Að auki er lagt til að vaxtatekjur skerði barnabótagrunn með sama hætti og launatekjur og aðrar tekjur, þ.e. að 6% af vaxtatekjum komi til frádráttar vaxtabótagrunni. Sú leið var valin í frumvarpinu að heimila að endurgreiða þann fjármagnstekjuskatt sem á vexti lagðist í þeim tilvikum þegar sömu vextir skertu vaxtabótagrunn. Þetta er ekki auðvelt í framkvæmd og gæti jafnvel í sumum tilvikum virkað á annan hátt en því var ætlað eins og reglan var sett fram í frumvarpinu. Að gefnu tilefni skal tekið fram að með tilvísun til 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna er verið að vísa í ákvæði um frádrátt vegna iðgjalda til lífeyrissjóða.
    Við 10. gr. Lögð er til sú efnisbreyting að aðilar, sem ekki hafa verið háðir almennri skattskyldu, greiði fjármagnstekjuskatt einungis af vöxtum, arði og söluhagnaði af hlutabréfum. Reynst gæti viðurhlutamikið og erfitt í framkvæmd að skattleggja leigutekjur og hagnað af almennri eignasölu hjá þorra þeirra aðila sem hér um ræðir. Hér er t.d. átt við sveitarfélög sem hafa sem lið í sinni félagslegu þjónustu að leigja út íbúðarhúsnæði, stéttar- og starfsmannafélög sem leigja út orlofshús og orlofsíbúðir, ýmis samtök, svo sem Blindrafélagið, Öryrkjabandalagið og Sjálfsbjörg, sem hafa með höndum útleigu til félagsmanna sinna o.s.frv. Þessir aðilar gætu jafnframt haft hagnað af eignasölu sem erfitt er að réttlæta skattlagningu á. Að öllum atriðum virtum varð það niðurstaðan að skattleggja hjá þessum aðilum einungis vaxtatekjur, arð og hagnað af sölu á hlutabréfum. Þá er lagt til að undanþáguaðilum verði skipað í tvo töluliði. Þeir sem greinir í síðari töluliðnum greiða skatt af fjármagnstekjum á sama hátt og af öðrum tekjum að tekjuári liðnu.
    Lagt er til að við bætist ný grein, er verður 11. gr., þar sem kveðið verði nánar á um meðferð staðgreiðslufjár hjá rekstraraðilum og tengsl staðgreiðslu við almenn skattskil.
    Lagt er til að við 12. gr, er verði 13. gr., bætist ný málsgrein sem kveði á um að hagnaður af sölu hlutabréfa einstaklinga utan rekstrar verði skattlagður með 10% hlutfalli þegar frá síðustu áramótum. Ljóst er að ef gildistaka hinna nýju reglna um skattlagningu söluhagnaðar miðaðist við ársbyrjun 1997 virkaði það sem verulegar hömlur á sölu hlutabréfa það sem eftir lifði ársins 1996. Til að hlutabréfamarkaður haldist í eðlilegu horfi og til að hin jákvæðu áhrif aukinnar umsýslu með hlutabréf fari strax að hafa áhrif er sett fram tillaga um að flýta gildistöku hins lægra skatthlutfalls að þessu leyti.
    Við ákvæði til bráðabirgða II. Lagðar eru til nokkrar breytingar á ákvæði til bráðabirgða II með það að markmiði að gera það markvissara og framsetninguna skýrari.
                  Lagt er til að seljendur hlutabréfa í félögum sem skráð voru fyrir gildistöku laga þessara hafi val um viðmiðun þegar þau eru seld. Geti þeir við útreikning á söluhagnaði annaðhvort miðað við jöfnunarverðmæti bréfanna eða kaupverð þeirra að viðbættri þeirri verðleiðréttingu sem á það væri fallin. Lögð er til sú breyting að heimilt verði að gefa út jöfnunarhlutabréf sem aftur hefði áhrif á heimild til frádráttar arðs hjá félögum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir útreikningi á jöfnunarverðmæti sem notað yrði sem viðmiðunargrunnur. Á það við um arðsfrádrátt, svo og slit á félagi, og sölu og lækkun á hlutafé. Með þeirri breytingu sem hér lögð er til verður nafnverð notað sem viðmiðunargrunnur vegna útreiknings á arðsfrádrætti, enda hafi verið gefin út jöfnunarhlutbréf. Hér þarf að sjálfsögðu að gæta hlutafélagalaga, þ.e. allra formskilyrða, með sama hætti og núgildandi reglur um slíka útgáfu mæla fyrir um, svo sem um skráningu, tilkynningu til hlutafélagaskrár o.s.frv. Kveðið er á um að nægjanlegt sé að tilkynna nýtt nafnverð til hlutafélagaskrár. Þessi regla á einungis við um einkahlutafélög enda ekki um eiginleg hlutabréf að ræða í þeim. Hjá hlutafélögum gildir sú regla að gefa ber út jöfnunarhlutabréf með formlegum hætti sem mynda á þann hátt nýtt nafnverð til viðmiðunar við arðsfrádrátt.
                  Í 4. gr. frumvarpsins, sem breyta á 17. gr. laganna, er fjallað um söluhagnað hlutabréfa. Eins og þar kemur fram er söluhagnaður mismunur á kaup- og söluverði. Þetta á við um hlutabréf í félögum sem til er stofnað eftir gildistöku laganna. Einnig á þetta við hlutabréf í hlutafélögum sem voru til fyrir gildistöku laganna ef á þeim hafa orðið eigandaskipti eftir gildistökuna.
                  Lagt er til að skattstjóri staðfesti útreikning jöfnunarverðmætis í stað ríkisskattstjóra eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Hlutverk ríkisskattstjóra verði aftur á móti það að gefa út reglur og láta útbúa eyðublöð í þessu sambandi. Með þessu er vinnuálaginu í kjölfar gildistöku laganna dreift á fleiri stofnanir.
    Við ákvæði til bráðabirgða III. Lagt er til að sett verði fimm ára tímamörk varðandi þær bætur sem koma til greina og sömuleiðis þykir rétt að taka af allan vafa um að einungis sé átt við útborgaðar bætur.

II.     Frumvarp til laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.
    Við 1. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að nýr málsliður bætist við 1. mgr. þar sem skýrlega komi fram að staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts sé einungis bráðabirgðagreiðsla. Í öðru lagi er lagt til að skipt verði út orðunum „líta til þess“ með „fylgjast með“. Hér er ekki um teljandi efnisbreytingu að ræða frá fyrirliggjandi frumvarpi heldur felur hinn nýi texti í sér meiri ákveðni, og notað er orðalag sem tíðkanlegt er um störf skattstjóra.
    Við 2. gr. Ekki þótti nægilega skýrt hvaða tekjutegundir væri verið að fjalla um í 1. og 3. mgr. Er því lagt til í a- og b-lið að bæði séu nefndar „vaxtatekjur“ og „arðstekjur“ og þá einnig lagt til að orðin „að því er vexti varðar“ í 3. mgr. falli brott, enda tekur það ákvæði bæði til arðs og vaxta. Jafnframt er í c-lið lagt til að forseti Íslands og maki hans verði undanþegin skattskyldu samkvæmt frumvarpinu, sem og erlend ríki og alþjóðastofnanir. Þetta er í samræmi við ríkjandi lagareglur um skattskyldu forseta Íslands og viðkomandi stofnana.
    Við 5. gr. Talið er nauðsynlegt að yfirlit sé gert í árslok er sundurgreini skattgreiðslur til eigenda hlutdeildarskírteina í hlutdeildarsjóðum. Er það vegna uppgjörs á framtali, m.a. vegna persónuafsláttar. Því er lögð til breyting þar um.
    Við 8. gr. Ákvæði það sem lagt er til að falli brott úr 8. gr. frumvarpsins fjallar um þau tilvik þar sem staðgreiðsla hefur verið ofreiknuð og skilaskyldum aðila gert skylt að endurgreiða hina ofreiknuðu fjárhæð. Ekki er talin þörf á slíku ákvæði enda liggi það í augum uppi að þeir, sem gert hafa slík mistök við afdrátt skatts, skuli skila honum aftur. Ekki þykja vera efnislegar forsendur til þess að leggja það á þann sem ranglega tekur af skatt að skila honum með dráttarvöxtum né heldur gagnvart ríkissjóði fyrir þann tíma sem staðgreiðsla er í hans vörslu, enda hafi ríkissjóður ekkert haft um það að segja að slíkir fjármunir hafi borist honum.
    Við 9. gr. Lagt er til að ákvæði 5. mgr. falli brott. Ekki er talin þörf á þessu ákvæði í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er af framkvæmd staðgreiðslu opinberra gjalda.
    Við 13. gr. Lagt er til að fyrirsögn greinarinnar verði „Kærur“. Er það í samræmi við efni hennar.
    Við 14. gr. Við samningu frumvarpsins hefur láðst að geta um málsmeðferðarheimildir skattrannsóknarstjóra ríkisins. Lagt er til að úr því verði bætt og kveðið á um að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi sömu heimildir varðandi rannsóknir til að afla ýmissa upplýsinga og ríkisskattstjóri hefur varðandi ýmis framkvæmdaratriði.
    Við 15. gr. Lögð er til leiðrétting á fyrirsögn. Hugtakið viðurlög tekur yfir fleiri atriði og er víðtækara en það sem ákvæðið felur í sér.
    Við 17. gr. Ákvæðið er fellt brott en í staðinn tekin inn ný ákvæði í nýrri 15. gr. Um skýringar að öðru leyti vísast í næstu töluliði.
    Lagt er til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði sem verður 15. gr. og fjallar það um upplýsingaskyldu, heimildir til skattstjóra og ríkisskattstjóra til skatteftirlits og skattrannsóknarstjóra til skattrannsókna. Frumvarp þetta er svo til samhljóða 25. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Með þessu ákvæði er ekki verið að breyta núverandi tilhögun á upplýsingagjöf fjármálastofnana.
    Lagt er til að við frumvarpið bætist ný grein er verði 16. gr. Um er að ræða nýtt ákvæði sem fjallar um skatteftirlit og skattrannsóknir. Ákvæði þetta er svo til samhljóða núgildandi ákvæðum í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tekjuskatt og eignarskatt og lögum um virðisaukaskatt. Ákvæði er sniðið að 26. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, en örlítið stytt hvað varðar verkefni ríkisskattstjóra.
    Við 16. gr. (verður 18. gr.) Lagt er til að við ákvæðið verði bætt nýrri málsgrein, 4. mgr., sem fjalli um heimildir innheimtumanns ríkissjóðs til að láta lögreglu stöðva atvinnurekstur skilaskyldra aðila sem ekki gera fullnægjandi skil á skilafé og álagi. Sambærilegt ákvæði er í 29. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þá er jafnframt lagt til að fyrirsögn greinarinnar verði „Innheimta vanskilafjár o.fl.“. Er það í samræmi við efni hennar.
    Lagt er til að bætt verði við frumvarpið nýju ákvæði, er verði 19. gr., um refsingar. Ákvæðið er svo til samhljóða 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.
    Lagt er til að við frumvarpið verði bætt nýju ákvæði, er verði 20. gr., um málsmeðferð og fyrningarreglur þær sem gildandi eru. Ákvæði þetta er svo til samhljóða 31. gr. laga nr. 45/1987 og fjallar um hvernig standa skuli að opinberri rannsókn, málsmeðferð fyrir skattyfirvöldum og hvaða reglur gilda um sakarfyrningu.
    Lagt er til að við frumvarpið verði bætt nýju ákvæði, er verði 21. gr., um uppgjör staðgreiðslu. Þar er kveðið á um að ákvæði VIII. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, skuli gilda um uppgjör staðgreiðslu af vöxtum og arði og innheimtu þeirra eftir því sem við á. Ákvæði 34.–37. gr. laga nr. 45/1987 eru hins vegar nokkru ítarlegri en þetta, en ekki er talin ástæða til að taka þau óbreytt upp.
    Ljóst er að hér er um mjög viðamikla lagasetningu að ræða og því sérstök ástæða til að fylgjast vel með hvernig til tekst með framkvæmdina. Nefndin beinir því þeim tilmælum til fjármálaráðherra að hann láti taka saman og leggja fyrir Alþingi skýrslu um þá reynslu er fást mun af lögunum eigi síðar en að þremur árum liðnum frá gildistöku þeirra.

Alþingi, 30. maí 1996.



Vilhjálmur Egilsson,

Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Pétur H. Blöndal.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Einar Oddur Kristjánsson.

Jón Kristjánsson.