Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 422 . mál.


1116. Breytingartillögur



við frv. til l. um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (VE, PHB, GMS, SP, EOK, JónK).



    Við 1. gr.
         
    
    Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðist svo: Staðgreiðsla samkvæmt þessum lögum er bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts nema annað sé tekið fram.
         
    
    Í stað orðanna „líta til þess“ í 3. mgr. 1. gr. komi: fylgjast með.
    Við 2. gr.
         
    
    1. mgr. orðist svo:
                            Skyldir til að greiða skatt skv. 1. gr. og sæta innheimtu í staðgreiðslu hans eru allir þeir sem fá vaxtatekjur og arðstekjur, sbr. þó 3. mgr.
         
    
    Orðin „að því er vexti varðar“ í 3. mgr. falli brott.
         
    
    Framan við upptalningu 3. mgr. bætist: Forseti Íslands og maki hans, erlend ríki og alþjóðastofnanir.
    Við 5. gr. Við síðari málslið 2. tölul. bætist: enda sundurgreini sjóðurinn skattgreiðslur á yfirlitum til eigenda.
    Við 8. gr. 3. mgr. falli brott.
    Við 9. gr. 5. mgr. falli brott.
    Við 13. gr. Fyrirsögn greinarinnar verði: Kærur.
    Við 14. gr.
         
    
    Við bætist ný málsgrein er orðist svo:
                            Sömu heimildir hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins varðandi rannsóknir á greiðslu- og skattskilum samkvæmt lögum þessum.
         
    
    Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: Ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri ríkisins.
    Á eftir 14. gr. komi tvær nýjar greinar, ásamt fyrirsögnum, og orðist svo:
         
    
    (15. gr.)

Upplýsingaskylda, heimildir til skatteftirlits og skattrannsókna.


                            Öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, er skylt að láta skattyfirvöldum í té, ókeypis og í því formi sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um og varða greiðslu- og skilaskyldu þeirra aðila. Með skattyfirvöldum í þessari grein er átt við skattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra.
                            Vegna skatteftirlits samkvæmt lögum þessum geta skattstjóri og ríkisskattstjóri krafist þess að framtals- og skilaskyldir aðilar leggi fram til könnunar bókhald sitt og bókhaldsgögn, svo og önnur gögn er varða reksturinn, þar með talin bréf og samninga. Enn fremur hafa þessir aðilar aðgang að framangreindum gögnum og aðgang að starfsstöðvum framtalsskyldra aðila og heimild til að taka skýrslur af hverjum þeim sem ætla má að geti gefið upplýsingar er máli skipta. Sömu heimildir hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins vegna rannsókna skv. 16. gr.
                            Skattyfirvöld hafa enn fremur heimildir þær, er um getur í 2. mgr., gagnvart þeim aðilum sem ekki eru framtalsskyldir.
                            Nú verður ágreiningur um skyldu aðila samkvæmt þessari grein og getur ríkisskattstjóri eða skattrannsóknarstjóri ríkisins þá leitað um hann úrskurðar héraðsdóms. Gegni einhver ekki upplýsingaskyldu sinni má vísa máli til opinberrar rannsóknar.
         
    
    (16. gr.)

Skatteftirlit, skattrannsóknir.


                            Skattstjórar annast skatteftirlit hver í sínu umdæmi. Ríkisskattstjóri skal fylgjast með eftirlitsstörfum skattstjóra og afla upplýsinga um þau, leiðbeina skattstjórum um eftirlitsaðgerðir og önnur atriði sem þýðingu hafa við skatteftirlit. Telji skattstjóri að skattsvik, eða önnur refsiverð brot á lögum þessum, hafi verið framin skal hann tilkynna það skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tekur ákvörðun um framhald máls. Sama tilkynningarskylda hvílir á ríkisskattstjóra.
                            Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur hafið rannsókn á hverju því atriði er varðar greiðslu- og skilaskyldu samkvæmt lögum þessum. Hann skal annast rannsóknir í málum sem skattstjóri eða ríkisskattstjóri vísa til hans, skv. 1. mgr. svo og 5. mgr. 96. gr. og 4. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
                            Þegar aðgerðir skattrannsóknarstjóra ríkisins gefa tilefni til breytinga á greiðslu- og skilaskyldu samkvæmt lögum þessum skal ríkisskattstjóri annast framkvæmd hennar nema hann feli hana skattstjóra, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
    Við 15. gr. er verði 17. gr. Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: Álag og dráttarvextir.
    Við 16. gr. er verði 18. gr.
         
    
    Við bætist ný málsgrein er orðist svo:
                            Innheimtumaður ríkissjóðs getur látið lögreglu stöðva atvinnurekstur skilaskylds aðila sem ekki gerir fullnægjandi skil á skilafé eða álagi skv. 17. gr. innan 15 daga talið frá eindaga eða frá úrskurði skattyfirvalda um vanskil og álag, með því m.a. að setja starfsstöðvar, skrifstofur, útibú, tæki og vörur undir innsigli þar til full skil hafa verið gerð.
         
    
    Fyrirsögn greinarinnar verði: Innheimta vanskilafjár o.fl.
    Við 17. gr. Greinin ásamt fyrirsögn falli brott.
    Á eftir 16. gr., er verði 18. gr., komi þrjár nýjar greinar, ásamt fyrirsögnum, og orðist svo:
         
    
    (19. gr.)

Refsingar.


                            Skýri skattskyldur eða greiðsluskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um staðgreiðsluskil hans skal hann greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð, sem vanrækt var greiðsla á og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
                            Hver sá skilaskyldur aðili, sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skýrir rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um staðgreiðsluskil sín, hefur ekki haldið eftir staðgreiðslu af vaxtatekjum og arði samkvæmt lögum þessum eins og honum bar, hefur ekki afhent skilagreinar á lögmæltum tíma eða hefur ekki innt af hendi þá staðgreiðslu af vaxtatekjum og arði samkvæmt lögum þessum sem hann hefur haldið eftir eða honum bar að halda eftir, skal greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem hann vanrækti að halda eftir eða standa skil á og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni nema þyngri refsing liggi við brotinu eftir 247. gr. almennra hegningarlaga. Álag skv. 17. gr. dregst frá sektarfjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
                            Hafi skilaskyldur aðili af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækt að halda bókhald skv. 10. gr. varðar það brot við refsiákvæði laga um bókhald en við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga sé um meiri háttar brot að ræða.
                            Ef maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækir tilkynningarskyldu sína skv. 11. gr., upplýsingaskyldu skv. 15. gr., vanrækir að veita upplýsingar eða láta í té aðstoð, skilagreinar, skýrslur eða gögn, svo sem ákveðið er í lögum þessum, skal hann sæta sektum eða varðhaldi.
                            Skýri skilaskyldur aðili af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju er varðar skilaskyldu hans má gera honum sekt þótt upplýsingarnar geti ekki haft áhrif á skilaskyldu hans eða greiðsluskil. Sömu refsingu varðar það skattskyldan aðila (rétthafa) sem lætur greiða sér vaxtatekjur eða arð samkvæmt lögum þessum, vitandi um að skilaskyldur aðili hefur eigi haldið eftir staðgreiðslu af þessum tekjum sem skylt er samkvæmt lögum þessum, eða skýrir rangt eða villandi frá einhverju er varðar skilaskyldu eða greiðsluskyldu vegna hans þótt upplýsingarnar geti ekki haft áhrif á þessi skil.
                            Verði brot á 1. eða 2. mgr. ákvæðisins uppvíst við skipti dánarbús skal greiða úr búinu fésekt, allt að fjórfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á og aldrei lægri fésekt en nemur skattfjárhæðinni að viðbættum helmingi hennar. Álag skv. 17. gr. dregst frá sektarfjárhæð. Sé svo ástatt sem segir í 5. mgr. má gera búinu sekt.
                            Hver sá sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi lætur skattyfirvöldum í té rangar eða villandi upplýsingar eða gögn varðandi skilaskyldu annarra aðila eða aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til skattyfirvalda skal sæta þeirri refsingu er segir í 1. eða 2. mgr. þessarar greinar.
                            Tilraun til brota eða hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga og varðar fésektum allt að hámarki því sem ákveðið er í öðrum ákvæðum þessarar greinar.
                            Gera má lögaðila fésekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður hans eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má auk refsingar, sem hann sætir, gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.
         
    
    (20. gr.)

Málsmeðferð og fyrningarreglur.


                            Sektir skv. 19. gr. skulu úrskurðaðar af yfirskattanefnd nema máli sé vísað til opinberrar rannsóknar og dómsmeðferðar skv. 2. mgr. Skattrannsóknarstjóri ríkisins sendir yfirskattanefnd mál til úrskurðar. Við meðferð mála hjá yfirskattanefnd skal veita sakborningi færi á að halda uppi vörnum. Úrskurðir yfirskattanefndar eru fullnaðarúrskurðir og fylgir þeim ekki vararefsing.
                            Rannsóknarlögregla ríkisins fer með frumrannsókn opinberra mála vegna brota á lögum þessum. Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur vísað máli til opinberrar rannsóknar af sjálfsdáðun, svo og eftir ósk sakbornings ef hann vill ekki hlíta því að mál hans verði afgreitt af yfirskattanefnd skv. 1. mgr.
                            Mál vegna brota á lögum þessum sæta meðferð opinberra mála. Greiðslukröfu má hafa uppi og dæma í slíkum málum.
                            Sektir fyrir brot gegn lögum þessum renna í ríkissjóð. Um innheimtu sekta, er yfirskattanefnd úrskurðar, gilda sömu reglur og um innheimtu vanskilafjár og álags eftir lögum þessum. Einnig má beita ákvæðum 4. mgr. 18. gr. eftir því sem við á.
                            Sök skv. 19. gr. fyrnist á sex árum miðað við upphaf rannsóknar á vegum skattrannsóknarstjóra ríkisins eða Rannsóknarlögreglu ríkisins, enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar.
         
    
    (21. gr.)

Uppgjör staðgreiðslu.


                            Ákvæði VIII. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, um ákvörðun skatts af vöxtum og arði, uppgjör staðgreiðslu af þeim tekjum og innheimtu þeirra skulu gilda eftir því sem við á.