Ferill 76. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 76 . mál.


1134. Nefndarálit



um till. til þál. um rannsóknir í ferðaþjónustu.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Magnús Oddsson ferðamálastjóra og Ármann Kr. Ólafsson, aðstoðarmann samgönguráðherra.
    Nefndin fékk sendar umsagnir um tillöguna frá Sambandi veitinga- og gistihúsa, Ferðamálasamtökum Vestfjarða, Ferðamálasamtökum Suðurlands, umhverfisráðuneyti, Félagi íslenskra ferðaskrifstofa, Ferðamálaráði Íslands, Bændasamtökum Íslands, Háskólanum á Akureyri og Ferðamálasamtökum höfuðborgarsvæðisins.
    Meginefni þessarar tillögu er að stuðla að eflingu rannsókna í ferðaþjónustu, tryggja grundvöll stefnumótunar og langtímaáætlana í atvinnugreininni og stuðla að jafnvægi í fjárfestingu og að gripið verði til ráðstafana í þessu sambandi. Bent hefur verið á að íslensk ferðaþjónusta hefur ekki notið sömu stöðu til rannsókna, þróunarstarfa og stefnumótunar og aðrar mikilvægar atvinnugreinar. Greinin styðst ekki við rannsóknastofnanir sem hafa sérhæfðu hlutverki að gegna á þessu sviði.
    Í nýútkominni skýrslu samgönguráðuneytisins um stefnumótun í ferðaþjónustu er m.a. fjallað um menntun og rannsóknir. Þar er talið að bjóða eigi upp á menntun í ferðaþjónustu á háskólastigi og að menntun og starfsþjálfun í ferðaþjónustu verði einnig í boði á öðrum skólastigum. Þá er samkvæmt skýrslunni stefnt að því að rannsóknastarfsemi á sviði ferðamála verði efld þannig að hún verði í fullu samræmi við þarfir atvinnugreinarinnar og styðji við stefnumótun, markaðsstarf, vöruþróun og gæðaeftirlit í atvinnugreininni.
    Í tillögunni er lagt til að gagnamiðstöð verði stofnuð við skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri og að rannsóknarfulltrúi starfi þar. Skrifstofan á Akureyri sér í dag um upplýsingaöflun og útgáfu, umhverfismál, markaðsráðgjöf innan lands og öll samskipti við innlenda ferðaþjónustuaðila. Í gagnagrunni skrifstofunnar er m.a. að finna upplýsingar um alla ferðaþjónustu á Íslandi. Þá hefur Háskólinn á Akureyri lýst áhuga á að setja á stofn rannsóknadeild ferðamála innan Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri. Þá er lagt til að stofnaður verði sérstakur rannsóknasjóður við Ferðamálaráð Íslands. Nefndin telur ekki þörf á að koma á sérstökum rannsóknasjóði og telur eðlilegt að rannsóknir verði fjármagnaðar með öðrum hætti. Nefndin leggur því til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    2. tölul. falli brott.

Alþingi, 31. maí 1996.



Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Kristján Pálsson.


form., frsm.



Stefán Guðmundsson.

Egill Jónsson.

Árni Johnsen.



Gísli S. Einarsson.

Ragnar Arnalds.

Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.