Ferill 540. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 540 . mál.


1205. Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um eftirlaun alþingismanna, nr. 46/1965, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Fyrra efnisatriði frumvarpsins lýtur að því að færa lífeyrisréttindi forseta þingsins til sama horfs og hjá ráðherrum. Rökin, sem flutningsmenn færa fyrir þessari breytingu, eru að með lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, hafi verið stefnt að því að forseti Alþingis nyti sömu launa- og starfskjara og ráðherra. Vísað er til þess í greinargerð þessa frumvarps að með starfskjörum sé m.a. átt við eftirlaunarétt.
    Þingmenn Þjóðvaka studdu ekki þær breytingar sem gerðar voru á fyrrgreindum lögum í júnímánuði 1995, hvorki það ákvæði sem nú á að breyta né önnur ákvæði laganna, og munu í samræmi við þá afstöðu ekki heldur styðja þá grein frumvarpsins sem lýtur að því að hækka lífeyrisgreiðslur til forseta Alþingis.
    Hitt efnisatriði frumvarpsins fjallar um löngu tímabæra leiðréttingu á ákvæði um makalífeyri varaþingmanna sem felur í sér óeðlilega háar lífeyrisgreiðslur til maka varaþingmanna. Verður að líta svo á að hér hafi verið um mistök að ræða í lagasetningu sem verið er að leiðrétta. Þingmenn Þjóðvaka vilja stuðla að því að svo sjálfsögð lagfæring nái fram að ganga.

Alþingi, 4. júní 1996.Jóhanna Sigurðardóttir.