Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 14:59:13 (2926)

1997-01-30 14:59:13# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[14:59]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er þannig í dag að veðhafar geta leyst til sín fyrirtæki sem hafa útvarpsréttindi. Þessi lög breyta engu þar um og það hélt ég að hv. þm. vissi. En ég held að það hljóti að spyrjast með mjög sérstökum hætti út um byggðir landsins að hv. 4. þm. Vestf., formaður Alþfl., skuli koma hér upp og lýsa andstöðu við frv. sem er að takmarka framsal á aflahlutdeild, sérstaklega með þeim rökum að það geti veitt litlum lánveitendum, lífeyrissjóðum heima í byggðunum og bæjarfélögum, rétt til þess að takmarka framsalsrétt útvegsmannanna. Andstaða hv. þm. var rökstudd sérstaklega með því að þessir aðilar heima í byggðarlögunum gætu takmarkað framsalsréttinn. Það var ekki formaður LÍÚ sem var að flytja þessa ræðu. Það var ekki formaður LÍÚ sem var lýsa andstöðu við þessa takmörkun á framsalinu. Nei, það var hv. 4. þm. Vestf., formaður Alþfl., sem var að lýsa því að andstaða hans byggðist sérstaklega á því að litlir lánveitendur heima í byggðarlögunum gætu komið í veg fyrir framsal aflaheimildanna. Það eru þau tíðindi sem munu spyrjast út um landið frá þessari umræðu hér í dag. Það eru auðvitað merk tíðindi. Auðvitað eru það pólitískt merk tíðindi og fróðleg og ég fagna því að hv. þm. skuli hafa upplýst þetta, en ég hygg að það hafi komið fleirum á óvart en mér að þetta skuli vera höfuðröksemd hv. þm. gegn þessu frv.