Meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 14:02:23 (3488)

1997-02-13 14:02:23# 121. lþ. 70.96 fundur 189#B meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna# (umræður utan dagskrár), KHG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[14:02]

Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir þessi orð forseta. Það hefur í engu verið farið að öðrum reglum en þeim sem eru í þingsköpum við stjórn þessarar utandagskrárumræðu. Hitt er að sönnu rétt að niðurlag hennar hefur verið með öðrum hætti en tíðkast hefur undanfarin ár. Þar hefur hæstv. dómsmrh. rétt fyrir sér. En það eru engin brot á þingsköpum að hafa framkvæmd umræðna á annan veg en hefur tíðkast. Það er vani en ekki lög. Það segja mér þingreyndir menn, sem hafa setið lengur en ég á þingi, að fyrir nokkrum árum þegar sá háttur var upp tekinn að ráðherra lyki ævinlega umræðunni en ekki fyrirspyrjandi, að það hefði verið breyting frá því sem áður hefði tíðkast í mörg ár þar á undan. Það hefði ævinlega verið þannig að sá sem hóf umræðuna, hann lauk henni. Enda er það eðlilegur gangur að sá sem hefji mál ljúki því. En fyrir nokkrum árum var gerð á þessu sú breyting að þessu var snúið við þannig að ráðherrann lauk umræðunni og upphafsmaður umræðunnar var næstsíðastur. Það finnst mér ekki endilega eðlileg skipan mála. Ég vakti athygli á því sjónarmiði í umræðum um þingsköp fyrir nokkrum árum og ég hygg að fleiri þingmenn hafi gert það.

Ég hygg að rétt væri af hálfu forsn. að setjast niður og ræða þetta mál, hvort menn geti náð samkomulagi um fyrirkomulag utandagskrárumræðu af þessu tagi. Það er auðvitað betra að sátt ríki um framkvæmd mála en ósátt. Ég vil koma því á framfæri, virðulegi forseti, að ég tel að forseti hafi staðið rétt að máli. Ég hefði talið að hann hefði gert rangt ef hann hefði neitað þingmanni um að fá að taka til máls þar sem tíminn var ekki úti sem til umræðunnar var ætlaður.