Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 17:28:41 (4294)

1997-03-11 17:28:41# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[17:28]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Þetta eru allt svo stór mál að þau er ekki hægt að ræða í andsvörum. Hv. þm. nefndi færri og stærri einingar. Hér er ekkert um færri eða stærri einingar að ræða. Það verða alveg jafnmargir bankar og áður og engin breyting hvað það varðar. Hins vegar kann vel að vera að það hafi verið mat nefndarinnar að bankarnir yrðu knúnir til einhverrar hagræðingar og að það sem þingmaðurinn átti við hafi verið að útibúum yrði fækkað eða eitthvað slíkt. En bankarnir sem stofnanir eru eftir sem áður jafnmargir þannig að það breytir varla miklu. Ég endurtek þær efasemdir mínar þangað til ég sé rök og útreikninga að það verði bæði bönkunum, og þá er náttúrlega verið að tala um bankakerfið sem heild, og fólkinu í landinu til góðs að þessar breytingar eigi sér stað. Það er þá mikið að í bankakerfinu núna ef svo er.