Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 22:53:38 (5570)

1997-04-21 22:53:38# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., ÓÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[22:53]

Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti vænt um að það upplýstist hér í ræðustól að sá sem hækkaði gengið og veitti Íslandsbanka þar með eitt þyngsta höggið og fékk mjög harðan dóm hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni fyrir það tiltæki var Jón Þorláksson. Eins og allir vita sameinaðist Íhaldsflokkurinn öðrum flokk, mig minnir að það hafi verið Frjálslyndi flokkurinn (EOK: Það er rétt hjá þér.) og allir voru sammála um að það yrði að leggja niður nafnið Íhaldsflokkur þótt það héldi enn velli í Bretlandi. 3/4 samþykktu að leggja yrði nafnið niður. Það er nú upplýst hverjum skeytin voru send um að það hefðu verið slæmir stjórnmálamenn á Íslandi sem urðu banamenn bankans.

En ég get alveg tekið undir að Íslendingar sýndu ekki að öllu leyti skilning gagnvart Íslandsbanka frekar en þeir hafa að öllu leyti sýnt skilning að staðaldri gagnvart þeim sem hafa staðið að útflutningsframleiðslu þessa lands í gegnum tíðina.