Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 21:39:36 (143)

1996-10-08 21:39:36# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[21:39]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti alveg von á því að hv. þm. legðist í vörn fyrir Háskóla Íslands og við gætum vafalaust tekið nokkrar umræður um það. Það er skiljanlegt að hann vilji ekki viðurkenna það þó hann sé að gagnrýna að rannsóknir séu of litlar á vegum íslenska ríkisins, að rannsóknir séu ekki stundaðar nægjanlega og við leggjum ekki nægilega mikla fjármuni til þeirra, en segi samt sem áður að allt sé gott í háskólanum þar sem rannsóknirnar eiga helst að vera stundaðar og forustan á að vera fyrir rannsóknastarfseminni. Þetta eru hin venjulegu viðbrögð manna sem vilja verja sitt. Það er bara þannig.

Ég vil hins vegar biðja hv. þm. um það að skoða nú rækilega, fara í huganum um deildir háskólans og velta fyrir sér með hvaða hætti rannsóknirnar eru stundaðar þar, hvernig þær eru skipulagðar og hvernig framlag einstakra prófessora til rannsókna nýtist. Ég veit að við getum ekki hér í andsvörum lokið þessari umræðu, en ég hef miklar efasemdir um stjórnun Háskóla Íslands. Ég tel að þar þurfi að verða á bragarbót og tel að það sé afar mikilvægt fyrir okkur vegna þess að Háskóli Íslands er geysilega mikilvæg stofnun og við verðum að treysta að þar sé vel að verki staðið. Það varðar mjög miklu fyrir okkar litla þjóðfélag. Því miður get ég ekki rætt þetta nánar í andsvörum, en vonandi gefst tækifæri til þess, e.t.v. við 2. umr. fjárlaga.