Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 16:58:16 (352)

1996-10-15 16:58:16# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:58]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það var ekki sá sem hér stendur sem varaði við því að Sjálfstfl. léti taka sig á taugum, heldur ein af skynsamari frammámönnum Sjálfstfl., Markús Möller, á flokksþingi flokksins. Það eina sem ég leyfði mér að benda á var það að þau viðvörunarorð væru ekki ástæðulaus, enda hefði það komið strax fram í upphafi flokksþingsins að svo hefði gerst.

Það er hins vegar full ástæða til þess, herra forseti, að lýsa mikilli ánægju með það hvernig hæstv. forsrh. er nú að skerpa andstæðurnar í íslenskum stjórnmálum þannig að ekki sé lengur neinn vafi á því hvernig þeir eigi að greiða atkvæði og hverja þeir eigi að styðja sem eru andvígir óbreyttu fyrirkomulagi í fiskveiðistjórnun og neitun við hugmyndum um veiðileyfagjald. Þeir eiga ekki að kjósa Sjálfstfl. Það liggur nú alveg ljóst fyrir, þökk sé hæstv. forsrh., þökk sé honum frá sjónarmiði okkar jafnaðarmanna og margra annarra stjórnarandstæðinga. Hann hefur nú skerpt línurnar í íslenskri pólitík þó hann hafi farið á taugum.