Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 11:44:58 (892)

1996-11-07 11:44:58# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[11:44]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Að því er varðar það sem fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns um að ég hefði skautað létt í gegnum skýrslu Ríkisendurskoðunar þá er það nú einfaldlega málið að það er skýrsla Byggðastofnunar sem er hér til umræðu. Mér finnst að það væri eðlilegur kostur að hv. þm. kynnti sér þingsköp í þeim efnum og ég taldi mér auðvitað vera frekast skylt að ræða byggðamál. Mér þykir ekki eins þægilegt að velja mér þann kost að baða mig sífellt í fortíðinni eins og gjarnan er háttur síðasta hv. ræðumanns.

En að því er varðar þessar fyrirspurnir, þá skal ég koma að þeim í síðari ræðu minni. En ég vil geta þess alveg sérstaklega þegar spurt er um afstöðu mína til skýrslu Ríkisendurskoðunar að þá sagði ég reyndar frá því, hv. þm., að það væri margt afar gagnlegt í henni og hún væri góð leiðsögn. Það vill nú svo til að stjórn Byggðastofnunar hefur ekki lokið umræðu um skýrsluna. Hún hefur farið yfir hana á tveimur fundum, ekki reyndar nema hluta fundartímans í síðara sinnið og það verður auðvitað að bíða þess tíma að fá niðurstöðu við viðbrögðum gagnvart skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég endurtek það sem ég sagði í fyrri ræðu minni, og ég held að allir hafi heyrt hér, að ég teldi margt jákvætt í þeirri skýrslu og hún væri góð leiðsögn.