Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 11:49:35 (894)

1996-11-07 11:49:35# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[11:49]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað á valdi hvers og eins þingmanns hvað hann talar hér úr þessum ræðustól. Ég tók það sérstaklega fram að mér þætti ekki neitt óeðlilegt við það þó að það væri gamli afturhaldstónninn sem þessi hv. þm. ber jafnan með sér í ræðustól sem yrði viðhafður af henni.

Ég var hins vegar að segja það að mér væri skyldara að ræða um Byggðastofnun og áform hennar vegna þess að það væri dagskrármál. Það er svo alveg á valdi hvers og eins hvort hann óskar eftir utandagskrárumræðu og það er auðvitað gott út af fyrir sig að hv. þm. er að þreifa sig áfram með það að finna eðlilega rás fyrir sínar skoðanir.

Eins og ég sagði áðan voru málefnalegar spurningar hv. þm. einkum í sambandi við lánamálin. Ég tók það fram áðan og ég skal endurtaka það að ég skal lýsa hér skoðunum mínum í þeim efnum.