Málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 19:48:15 (2129)

1996-12-12 19:48:15# 121. lþ. 42.3 fundur 228. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirtaka sveitarfélaga o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[19:48]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að veita andsvar við því sem fram kom hjá ræðumanni um byggðasamlög og þriðja stjórnsýslustigið. Reynslan af byggðasamlögum sveitarfélaga er ekki góð. Þetta er flókið, óskilvirkt og ólýðræðislegt fyrirkomulag sem nýtur ekki mikils stuðnings í röðum sveitarstjórnarmanna. Það geta allir kynnt sér sem gefa sér tíma þannig að byggðasamlög eru ekki svarið. Það er ekki hægt að segja við sveitarfélög: ,,Jafnvel þó þið ráðið ekki við þau verkefni sem ykkur eru falin, þá leysið þið bara úr því með því að búa til byggðasamlag um verkefnið.`` Reynslan dæmir því þetta svar úr leik. Þeir sem neita að horfast í augu við staðreyndir, þ.e. að það þurfi að búa til stjórnsýslustig sem nái yfir nægjanlega stórt svæði að á bak við það séu svo margir að það beri þau verkefni sem því eru falin, eru einfaldlega að segja að þeir vilji hafa sterkt miðstjórnarvald, vilji hafa sterkt ríkisvald og veikt heimavald, veika heimstjórnun. Sú skoðun sem hér var sett fram af hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur er því að mínu mati skoðun þingmanns sem vill öflugt miðstýrt ríkisvald og veikt vald úti í héruðum landsins. Ég er einfaldlega annarrar skoðunar. Ég tel að það eigi að styrkja landsbyggðina með því að færa valdið til hennar þannig að hún geti sjálf, af eigin rammleik, leyst úr mörgum málum sem menn þurfa í dag að sækja hingað suður með betlistaf í hendi til að fá úrlausn sinna mála.