Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 15:55:38 (2643)

1996-12-20 15:55:38# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[15:55]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þessara orða hæstv. menntmrh. vil ég nefna það sem ég nefndi ekki í minni ræðu sem eru framlögin til ritakaupasjóðsins hjá Landsbókasafninu -- Háskólabókasafninu. Ég held að afar mikilvægt sé að stofnun eins og Landsbókasafnið, sem ég veit að t.d. hv. formaður heilbr.- og trn. þekkir bærilega, fái góða starfsaðstöðu og ég vil minna á það, sem ég veit að ég þarf ekki að segja hæstv. menntmrh., að hún tengist auðvitað Háskóla Íslands með mikilvægum hætti og auðvitað öðrum mennta- og menningarstofnunum í landinu. Það er mjög mikilvægt að vel takist til um skipulag og rekstur þessarar nýju glæsilegu stofnunar sem stendur á gamla Melavellinum.

Ég efast um að það séu margar íslenskar stofnanir sem hafa betri aðstöðu til að sinna því mikla hlutverki sem Landsbókasafnið á að sinna. Ég vil vekja athygli á þessu og taka undir það sem hæstv. menntmrh. sagði um þau efni.

Einnig vil ég taka undir það sem hæstv. menntmrh. nefndi um framlag til Kvikmyndasjóðs. Ég vil reyndar segja að það hefur vakið nokkra furðu mína, svo mikil umræða sem hefur verið á undanförnum árum um Kvikmyndasjóð í tengslum við fjárlagagerðina, að þegar framlagið er hækkað um 25 millj. þá er það ekki frétt en það var frétt í fyrra þegar menn héldu að framlagið yrði ekki hækkað, sem reyndar var gert. En nú hefur ekki heyrst eitt einasta orð. Það er kannski merki um að þjóðin sé sammála niðurstöðu meiri hluta fjárln.