Ferill 7. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 7 . mál.


7. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Hjörleifur Guttormsson,


Kristinn H. Gunnarsson, Ragnar Arnalds, Sigríður Jóhannesdóttir,


Steingrímur J. Sigfússon, Svavar Gestsson, Ögmundur Jónasson.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
    Í stað 1.–3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                  Námslán skal greiða út mánaðarlega meðan námsmaður stundar nám.
                  Námslán skal þó ekki greitt út fyrr en námsmaður hefur lokið einu missiri af námi sínu með tilskildum árangri. Þegar námsmaður hefur lokið einu missiri með tilskildum árangri fær hann lán fyrir það missiri og svo áfram mánaðarlega meðan hann stundar nám.
    7. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Í stað 3. mgr. 8. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Viðbótargreiðslan miðast við ákveðinn hundraðshluta af útsvarsstofni ársins á undan endurgreiðsluári. Hundraðshluti þessi er 4,5%. Frá viðbótargreiðslunni samkvæmt þessari málsgrein dregst fasta greiðslan skv. 2. mgr.

3. gr.

    2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Árlegur rekstrarkostnaður sjóðsins greiðist af ráðstöfunarfé sjóðsins.

4. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fyrir 1. september 1997 skal lokið heildarendurskoðun á lögum þessum. Menntamálaráðherra skipar nefnd með fulltrúum þingflokka og samtaka námsmanna sem geri tillögur um breytingar á lögum og reglum um námslán. Í þeirri endurskoðun skal sérstaklega tekið á eftirfarandi þáttum:
    reglum um námsframvindukröfur,
    ákvæðum um endurgreiðslubyrði,
    kröfum um ábyrgðarmenn,
    úthlutunarreglum og framsetningu þeirra.
    Menntamálaráðherra leggi fram tillögur til breytinga á lögunum, sem byggist á endurskoðun þessari, eigi síðar en þegar þing kemur saman að hausti árið 1997.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp svipaðs efnis var flutt á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga.
    Það er ekki ofsagt að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins hafi þrengt allhraustlega að námsmönnum þegar samþykkt voru lög nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Hin nýja löggjöf fól í sér grundvallarbreytingar á námsaðstoð á Íslandi. Tvær breytingar hafa reynst námsmönnum hvað afdrifaríkastar, hinar svokölluðu eftirágreiðslur lánanna og hækkun endurgreiðsluhlutfallsins.
    Þrjú höfuðatriði eiga að einkenna Lánasjóð íslenskra námsmanna. Lánasjóðurinn á að vera:
—    félagslegur jöfnunarsjóður sem stuðlar að jafnrétti til náms óháð búsetu og efnahag,
—    fjárfestingarsjóður; ein besta leið ríkisins til að fjárfesta í menntun þegnanna,
—    framfærslusjóður sem gerir ungu fólki kleift að nota framtíðartekjur til neyslu á námstíma.
    Ísland greiðir nú eitt ríkja Norðurlandanna út námslán eftirá. Það liggur í hlutarins eðli að slíkt kerfi er í andstöðu við það hlutverk LÍN að vera framfærslusjóður. Nám er vinna og það er jafnóskynsamlegt og óásættanlegt fyrir námsmenn að fá námslán greidd út tvisvar á ári og það væri fyrir einstaklinga að fá launin sín með þeim hætti. Afleiðingar núverandi fyrirkomulags leiðir flestar beint af því að námsmönnum er gert að fjármagna framfærslu sína með yfirdráttarlánum í bönkum þangað til útkoma úr prófum liggur fyrir og LÍN afgreiðir lánin. Þetta leiðir til eftirfarandi:
—    Óeðlilegs fjármagnskostnaðar á námstíma sem leggst ofan á námslán í formi vaxtabótaláns frá LÍN.
—    Ef námsmaður fellur á prófi þarf hann að endurgreiða bankanum lánið þegar í stað, ef ekki eiga að hlaðast upp vextir.
—    Slík endurgreiðsla getur riðlað frekara námi enda eru námsmenn oftar en ekki óviðbúnir falli. Upphæð endurgreiðslunnar til bankans er yfirleitt á bilinu 50–400 þús. kr.
—    Sýna þarf 100% námsárangur á hverju missiri ef skuld við bankann á ekki að myndast og LÍN veitir því ekkert svigrúm til að flytja námsálag milli missira.
—    Ekki geta allir fengið yfirdráttarlán því að mörgum reynist erfitt að fá ábyrgðarmenn á lán sem fellur í gjalddaga ef ónógur árangur næst á prófum.
    Helstu kostir samtímagreiðslna felast í því að þegar námslán eru borguð út mánaðarlega þurfa námsmenn ekki að fjármagna framfærslu sína með dýrum yfirdráttarlánum í bönkum. Námsmaður sem fellur á prófi á kost á að bjarga sér í upptökuprófum án þess að lánið falli í gjalddaga. Í stað bankaskulda vegna yfirdráttarláns verður til árangursskuld við LÍN sem greiða má með námsárangri og þar með neyðist námsmaður síður til að hætta námi til að vinna fyrir skuldum ef honum hlekkist einu sinni á.
    Þegar lögunum um Lánasjóð íslenskra námsmanna var breytt árið 1992 var endurgreiðsluhlutfallið hækkað verulega. Tekjutengda afborgunin hækkaði úr 3,75% í 5% fyrstu fimm árin og er síðan 7% af tekjum þar til lánið er að fullu greitt. Margt ungt fólk þarf nú að velja á milli náms eða húsnæðis. Þeir sem þurfa á námslánum að halda í námi sínu standa mjög höllum fæti gagnvart greiðslumati og möguleikum til húsnæðiskaupa að námi loknu sökum þess hve endurgreiðslubyrði námslána er þung. Til að standast greiðslumat Húsnæðisstofnunar vegna íbúðarkaupa þurfa þeir sem eru með hámarksendurgreiðslu, 7% af tekjum samkvæmt lögum nr. 21/1992, að hafa 30% hærri tekjur en hefði þurft samkvæmt eldri lögum um LÍN, en þar var tekjutengda afborgunin 3,75%. Ef greiðslubyrði vegna námslána meðalmanns með meðallaun og meðallán er reiknuð út kemur í ljós að hún er yfir 10% af ráðstöfunartekjum.
    Þingmeirihluti var fyrir þessum breytingum á sínum tíma. Alþýðuflokkurinn hefur hefur hins vegar skipt um skoðun eftir að hann lenti í stjórnarandstöðu og allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa því lýst sig fylgjandi því að samtímagreiðslur verði teknar upp og endurgreiðslubyrði námslána lækkuð. Framsóknarflokkurinn lofaði hvoru tveggja í síðustu kosningum og barðist hart gegn setningu laganna árið 1992 og þeim breytingum sem þau höfðu í för með sér.
     Í frumvarpinu er lagt til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða um heildarendurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem sérstaklega verði tekið á reglum um námsframvindukröfur og um endurgreiðslubyrði.
    Þá er nauðsynlegt að endurskoða reglur um ábyrgðarmenn, en samkvæmt núgildandi lögum er þess krafist að fasteignareigandi ábyrgist með sjálfskuldarábyrgð endurgreiðslu lánsins. Ljóst er að slíkar kröfur útiloka marga frá því að taka lán úr sjóðnum. Hugsanlegt væri að veita ríkisábyrgð fyrir lánum úr sjóðnum á þeirri forsendu að sjóðurinn sé fjárfestingarsjóður í menntun námsmanna.
    Einnig er í bráðabirgðaákvæðinu lagt til að úthlutunarreglur og framsetning þeirra séu teknar til skoðunar. Samkvæmt núgildandi reglum mótar stjórn sjóðsins úthlutunarreglurnar og framsetningu þeirra. Reglurnar eru óskýrar og þyrfti að kveða mun skýrar á um þær í lögum og reglugerð en nú er.