Ferill 32. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 32 . mál.


32. Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun á launakerfi ríkisins.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa nefnd til að endurskoða launakerfi ríkisins. Hlutverk nefndarinnar verði að einfalda launakerfi ríkisins, auka hlut umsaminna grunnlauna, draga úr eða afnema með öllu yfirborganir og aukagreiðslur af ýmsu tagi og endurskoða röðun í launaflokka. Sérstaklega ber nefndinni að benda á leiðir til að hækka lægstu laun og draga úr launamun kynjanna. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar fjármálaráðuneytisins og samtaka opinberra starfsmanna.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 117., 118. og 120. löggjafarþingi en kom ekki til umræðu.
    Það er löngu orðið tímabært að hefja endurskoðun á launakerfi ríkisins með það markmið í huga að draga úr launamisrétti, hækka lægstu laun, einfalda launakerfið og gera það gagnsærra þannig að ljóst sé hver launakjörin eru í raun og veru. Ýmsar launakannanir hafa sýnt fram á að launamunur kynjanna, jafnt í opinbera geiranum sem og á hinum almenna markaði, er óafsakanlega mikill. Má í þessu sambandi minna á könnun sem gerð var í fjármálaráðuneytinu og skýrt er frá í greinargerð starfshóps fjármálaráðuneytisins um jafnréttismál til fjármálaráðherra í nóvember 1995 (sbr. fylgiskjal I).
    Samkvæmt lögum ber ríkinu að greiða konum sömu laun og körlum, en á því hefur verið mikill misbrestur. Þannig hefur t.d. nefnd Sameinuðu þjóðanna sent íslenskum stjórnvöldum tillögur og tilmæli í sambandi við framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í þeim tillögum segir m.a. að stjórnvöld verði að gera viðeigandi ráðstafanir til að vinna gegn launamisrétti karla og kvenna þar sem slíkt getur skaðað hagsmuni barna, einkum á heimilum einstæðra mæðra. Eins hvetur nefndin íslensk stjórnvöld til að halda áfram skilgreindum aðgerðum sínum varðandi jöfn laun kynjanna fyrir sambærileg störf og að stuðla að launajöfnuði á öllum sviðum atvinnulífsins (sjá fylgiskjal II).
    Eins má benda á að samskipti ríkisins við starfsmenn sína hafa vægast sagt verið með sérkennilegum hætti undanfarin ár. Grunnlaunum hefur markvisst verið haldið niðri þannig að lægstu laun ríkisstarfsmanna eru á sultarmörkum meðan hvers kyns yfirborganir og sérgreiðslur til ákveðinna hópa hafa aukist. Þetta kemur m.a. fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristínar Halldórsdóttur o.fl. á 120. löggjafarþingi (sbr. fylgiskjal III). Bráðabirgðalögum sem ganga þvert á kjarasamninga hefur ítrekað verið beitt. Á undanförnum árum hefur fjöldi mála verið rekinn fyrir dómstólum vegna þessa (sbr. fylgiskjöl IV–VI). Árangur næst ekki í hagræðingu í ríkisrekstri ef það er gert í andstöðu við ríkisstarfsmenn. Það gengur ekki lengur að ríkisvaldið standi í eilífum styrjöldum við starfsmenn sína og beiti lögum og dómstólum gegn þeim ef það kallar ekki sjálft yfir sig málaferli. Besta leiðin til að bæta samskiptin er að ganga í það nauðsynjaverk að stokka upp launakerfi ríkisins í góðri sátt við ríkisstarfsmenn. Kjarasamningar eru lausir um næstu áramót. Áður en til þeirra verður gengið ber að marka stefnu sem felur í sér réttlátara og raunhæfara launakerfi.

Fylgiskjal I.


Úr greinargerð til fjármálaráðherra frá starfshópi


fjármálaráðuneytis um jafnréttismál.


(Nóvember 1995.)




(Repró, 15 bls.)






Fylgiskjal II.


Úr svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur


um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og sáttmála


um afnám alls misréttis gegn konum.


(278. mál 120. löggjafarþings.)



    Ein af tillögum nefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenskra stjórnvalda varðandi framkvæmd Íslendinga á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna:
     Nefndin leggur til að viðeigandi ráðstafanir verði gerðar til að vinna gegn launamisrétti á milli karla og kvenna þar sem slíkt getur skaðað hagsmuni barna, einkum á heimilum sem einstæðar mæður veita forstöðu.

    Ein tillaga nefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenskra stjórnvalda um framkvæmd sáttmála um afnám alls misréttis gegn konum:
    Nefndin hvetur íslensk stjórnvöld til þess að halda áfram skilgreindum aðgerðum sínum varðandi launajöfnuð kynjanna fyrir sambærileg störf og að stuðla að launajöfnuði á öllum sviðum atvinnulífs samkvæmt tilmælum nr. 13. Jafnframt fer nefndin fram á að í skýrslum, sem sendar verða hér eftir, verði upplýsingar um þetta atriði þegar fjallað er um niðurstöður yfirstandandi starfsmats.


Fylgiskjal III.


Úr svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristínar Halldórsdóttur,


Ögmundar Jónassonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar


um heildarlaun tekjuhæstu starfsmanna ríkisins.


(90. mál 120. löggjafarþings.)



    Í fyrirspurn þeirri er hér ræðir er spurt um heildarlaun 250 tekjuhæstu starfsmanna ríkisins hvers um sig þar sem tilgreind verði starfsheiti og kjör viðkomandi starfsmanna og upphæðir sundurgreindar í laun og starfskostnað.
    Sem svar við fyrirspurninni eru hér birtar upplýsingar um hæstu og lægstu árslaun einstakra hópa, auk upplýsinga um meðallaun og skiptingu hópsins í karla og konur. Þar sem ekki liggur ljóst fyrir við hvað er átt með orðinu starfskostnaður, t.d. hvort um er að ræða launatengd gjöld, er þeim hluta látið ósvarað hér.

Fjöldi

Þar af

Meðal-

Lægstu

Hæstu

Miðgildi


Eðli starfs

starfsmanna

konur

árslaun

árslaun

árslaun

árslauna



Forseti Íslands      1
1
4.011.828
Starfsmenn er heyra undir Alþingi
og stofnanir þess      4
4.615.433 3.970.059 5.995.573
4.248.049
Ráðherrar og fyrrverandi ráðherrar      5
1 4.202.695 3.971.140 4.432.721
4.160.888
Aðrir           5
1 4.100.737 3.913.068 4.432.342
4.013.045
Starfsmenn HÍ, þ.m.t. prófessorar
sem eru jafnframt yfirlæknar      15
1 4.570.014 3.955.492 6.010.123
4.330.417
Flugmálastarfsmenn, þ.m.t.
flugmenn/flugvirkjar      17
4.538.526 3.977.534 5.676.005
4.398.853
Ráðuneytisstjórar og aðrir
starfsmenn Stjórnarráðs      24
2 4.499.590 3.967.759 5.390.405
4.488.656
Forstjórar/forstöðumenn      40
4.414.635 3.921.228 6.268.173
4.200.624
Dómarar/sýslumenn      45
7 4.368.579 3.949.466 5.363.653
4.278.365
Læknar (forstöðulæknar, yfir-
læknar sem ekki eru jafnframt
prófessorar, sérfræðingar)      47
3 4.601.861 3.936.370 5.838.893
4.469.559
Flugumferðarstjórar      47
1 4.504.486 3.909.574 5.565.290
4.440.823
Samtals      250
17




Fylgiskjal IV.


Félagsdómsmál BHMR og aðildarfélaga þess


gegn fjármálaráðherra og öfugt 1987–92.



    BHMR og aðildarfélög þess hafa stefnt fjármálaráðherra átta sinnum fyrir Félagsdóm en fjármálaráðherra hefur stefnt einu sinni. BHMR hefur unnið sjö málanna (þar af tvö ekki alveg að fullu) en tapað tveimur. BHMR hefur fengið sér dæmdar 640.000 kr. í málskostnað en ekki verið dæmt til að greiða fjármálaráðherra neinn málskostnað.
    1. Mál nr. 7/1987: Hið íslenska kennarafélag (HÍK)/BHMR gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.
    Ágreiningsefni: Krafa HÍK að fjármálaráðherra greiði tímakaup í dagvinnu miðað við 5. launaþrep í samræmi við kjarasamning HÍK (og annarra aðildarfélaga BHMR).
    Fordæmismál fyrir öll hlutaðeigandi aðildarfélög BHMR.
    Niðurstaða: Fallist á kröfu HÍK (BHMR).
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði HÍK 50 þús. kr.
    2. Mál nr. 5/1988: Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs gegn Hinu íslenska kennarafélagi (HÍK).
    Ágreiningsefni: Krafa fjármálaráðherra að boðað verkfall HÍK verði dæmt ólögmætt þar sem meiri hluti þeirra sem greiddu atkvæði um verkfall félagsins í allsherjaratkvæðagreiðslu hafi ekki samþykkt verkfallið, sbr. 15. gr. laga nr. 94/1986.
    Niðurstaða: Fallist á kröfu fjármálaráðherra.
    Málskostnaður felldur niður.
    3. Mál nr. 1/1990: BHMR vegna Félags háskólakennara, Félags viðskipta- og hagfræðinga, Félags íslenskra náttúrufræðinga, Læknafélags Íslands, Stéttarfélags lögfræðinga í ríkisþjónustu, Dýralæknafélags Íslands og Stéttarfélags verkfræðinga gegn fjár málaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.
    Ágreiningsefni: Krafa stéttarfélaganna um að fjármálaráðherra felli af listum yfir forstöðumenn sem undanþegnir eru rétti til þátttöku í verkfalli þá einstaklinga sem ekki falla undir skilgreiningu laganna, sbr. 29. gr. laga nr. 38/1954.
    Fordæmismál fyrir öll aðildarfélög BHMR.
    Niðurstaða: Fallist á kröfur BHMR um túlkanir á því hverjir teljist forstöðumenn og listum breytt eftir því, þó þannig að kröfu vegna eins einstaklings var vísað frá þar sem hann var ekki í þeim félögum sem stefndu.
    Málskostnaður felldur niður.
    4. Mál nr. 4/1990: Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN)/BHMR gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.
    Ágreiningsefni: Krafa FÍN að fjármálaráðherra greiði einn og hálfan launaflokk 1. júlí 1990 skv. 5. gr. kjarasamnings FÍN (og annarra aðildarfélaga BHMR).
    Fordæmismál fyrir öll hlutaðeigandi aðildarfélög BHMR.
    Niðurstaða: Fallist á kröfu FÍN/BHMR.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði FÍN 200 þús. kr.
    5. Mál nr. 1/1991: Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN)/BHMR gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, samtökum stundakennara við Háskóla Íslands og Félagi háskólakennara.
    Ágreiningsefni: Krafa FÍN um að samningsréttur gagnvart fjármálaráðherra vegna þeirra félagsmanna sem kenna í stundakennslu við Háskóla Íslands verði viðurkenndur.
    Fordæmismál fyrir öll aðildarfélög BHMR.
    Niðurstaða: Ekki fallist á kröfu FÍN/BHMR.
    Málskostnaður felldur niður.
    6. Mál nr. 3/1992: BHMR vegna Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga, Félags íslenskra náttúrufræðinga, Kjarafélags viðskipta- og hagfræðinga, Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa, Meinatæknafélags Íslands, Útgarðs — félags háskólamanna, Röntgentæknafélags Íslands og Hjúkrunarfélags Íslands gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.
    Ágreiningsefni: Krafa stéttarfélaganna um að fjármálaráðherra felli af listum yfir þá sem undanþegnir eru rétti til þátttöku í verkfalli vegna nauðsynlegustu heilbrigðis- og öryggisþjónustu þá einstaklinga sem ekki falla undir skilgreiningu laganna, sbr. 19. gr. laga nr. 94/1986.
    Fordæmismál fyrir öll aðildarfélög BHMR.
    Niðurstaða: Fallist á kröfur félaganna/BHMR og listum breytt eftir því en fjármálaráðherra féllst undir málssókn á nokkrar af kröfum félaganna.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði BHMR 120 þús. kr.
    7. Mál nr. 4/1992: BHMR vegna Félags íslenskra náttúrufræðinga, Stéttarfélags lögfræðinga í ríkisþjónustu og Kjarafélags viðskipta- og hagfræðinga gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.
    Ágreiningsefni: Krafa stéttarfélaganna um að fjármálaráðherra felli af listum yfir forstöðumenn sem undanþegnir eru rétti til þátttöku í verkfalli þá einstaklinga sem ekki falla undir skilgreiningu laganna, sbr. 29. gr. laga nr. 38/1954.
    Fordæmismál fyrir öll aðildarfélög BHMR.
    Niðurstaða: Fallist á kröfur BHMR um túlkanir á því hverjir teljist forstöðumenn og listum breytt eftir því.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði BHMR 120 þús. kr.
    8. Mál nr. 7/1992: Hið íslenska kennarafélag (HÍK)/BHMR gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.
    Ágreiningsefni: Krafa HÍK að fjármálaráðherra greiði kennurum við Fjölbrautaskólann í Breiðholti sem starfa við sumarskóla FB laun í samræmi við kjarasamning HÍK ásamt viðaukum og bókunum við hann.
    Niðurstaða: Fallist á kröfu HÍK/BHMR.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði HÍK 125 þús. kr.
    9. Mál nr. 9/1992: Félag íslenskra náttúrufræðinga/BHMR gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóð.
    Ágreiningsefni: Krafa FÍN/BHMR að fjármálaherra haldi fundi í samstarfsnefnd með félaginu í samræmi við 11. kafla kjarasamnings HÍK ásamt samningi um starfshætti samstarfsnefnda.
    Fordæmismál fyrir öll aðildarfélög BHMR.
    Niðurstaða: Fallist á kröfu HÍK/BHMR.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði HÍK 125 þús. kr.


Fylgiskjal V.


Mál BHMR og aðildarfélaga þess gegn fjármálaráðherra


fyrir héraðsdómi og Hæstarétti 1985–92.



    BHMR og aðildarfélög þess hafa stefnt fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sjö sinnum fyrir héraðsdóm Reykjavíkur vegna mála einstakra félagsmanna. Af þessum málum hafa félögin unnið fimm og eitt gegn Akraneskaupstað (sem stefnt var með ráðherra). Unninn málskostnaður nemur 467.000 kr. Einu máli, sem BHMR vann (1), var ekki áfrýjað og annað mál (7) er enn fyrir Hæstarétti. BHMR hefur unnið hin málin fimm fyrir Hæstarétti, ýmist á aðalkröfu eða varakröfu, og nemur unninn málskostnaður fyrir Hæstarétti 1.130.000 kr. Málin eru þessi:
    1. Kári Einarsson gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Stefnandi var félagsmaður í Kjarafélagi tæknifræðinga/BHMR. Málið var rekið af BHMR.
    Ágreiningsefni: Aðalkrafa um skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar en varakrafa um biðlaun að meðtaldri fastri yfirvinnu og orlofsfé af fastri yfirvinnu.
     Héraðsdómur 13. maí 1985: Fallist á varakröfu stefnanda.
    Málinu var ekki áfrýjað.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 90 þús. kr.
    2. Björn Jónsson gegn fjármálaráðherra og Akraneskaupstað. Stefnandi var félagsmaður í Hinu íslenska kennarafélagi/BHMR og Prestafélagi Íslands/BHMR. Málið var rekið af BHMR.
    Ágreiningsefni: Krafa um bætur vegna ólögmætrar uppsagnar úr stundakennslu við grunnskóla, sbr. lög um grunnskóla.
     Héraðsdómur 28. október 1986: Fjármálaráðherra sýknaður af kröfunni en Akraneskaupstaður bótaskyldur.
    Málskostnaður: Akraneskaupstaður greiði stefnanda 25 þús. kr.
     Hæstiréttur 7. nóvember 1988: Akraneskaupstaður sýknaður. Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða skaðabætur.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 90 þús. kr.
    3. Gunnar Johnsen gegn fjármálaráðherra. Stefnandi var félagsmaður í Stéttarfélagi verkfræðinga. Málið var rekið af BHMR samhliða málum 4 og 5.
    Ágreiningsefni: Réttur til biðlauna með fastri yfirvinnu og uppgjörs á orlofi samkvæmt kjarasamningi vegna þess að starf var lagt niður.
     Héraðsdómur 11. október 1989: Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða stefnanda biðlaun með fastri yfirvinnu og orlofsfé af yfirvinnu. Kröfu um fasta yfirvinnu í óútteknu orlofi hafnað.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 80 þús. kr.
     Hæstiréttur 31. mars 1992: Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða stefnanda fasta yfirvinnu með orlofsfé á biðlaunatíma og óúttekið orlof með yfirvinnu.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 100 þús. kr.
    4. Snorri Páll Snorrason gegn fjármálaráðherra. Stefnandi var félagsmaður í Félagi íslenskra náttúrufræðinga/BHMR. Málið var rekið af Félagi íslenskra náttúrufræðinga/ BHMR.
    Ágreiningsefni: Aðalkrafa um rétt til biðlauna í sex mánuði með fastri yfirvinnu og uppgjörs á orlofi samkvæmt kjarasamningi vegna þess að starf var lagt niður. En varakrafa um bætur í tvo mánuði, þ.e. út ráðningartíma.
     Héraðsdómur 28. september 1989: Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða stefnanda að mestu samkvæmt varakröfu.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 62 þús. kr.
     Hæstiréttur 31. mars 1992: Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða stefnanda fasta yfirvinnu með orlofsfé á biðlaunatíma og óúttekið orlof með yfirvinnu.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 80 þús. kr.
    5. Ómar Bjarki Smárason gegn fjármálaráðherra. Stefnandi var félagsmaður í Félagi íslenskra náttúrufræðinga/BHMR. Málið var rekið af BHMR.
    Ágreiningsefni: Aðalkrafa um rétt til biðlauna í sex mánuði með fastri yfirvinnu og uppgjörs á orlofi samkvæmt kjarasamningi vegna þess að starf var lagt niður. En varakrafa um orlofsuppgjör samkvæmt kjarasamningi.
     Héraðsdómur 28. september 1989: Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða stefnanda samkvæmt varakröfu.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 40 þús. kr.
     Hæstiréttur 31. mars 1992: Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða stefnanda yfirvinnukaup í óteknu orlofi.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 60 þús. kr.
    6. Bjarnheiður Guðmundsdóttir gegn fjármálaráðherra og menntamálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Stefnandi var félagsmaður í Félagi íslenskra náttúrufræðinga/BHMR. Málið var rekið af BHMR.
    Ágreiningsefni: Krafa um rétt til launa, þ.e. einn og hálfan launaflokk samkvæmt ákvæðum kjarasamnings frá 18. maí 1989 ásamt vöxtum. Málið snerist um það hvort bráðabirgðalög nr. 89/1990 og síðar lög nr. 4/1991, um launamál, stæðust stjórnarskrá Íslands. Þetta mál fjallaði í reynd um sama efni og félagsdómsmál nr. 4/1990, þ.e. efni 5. gr. samninga frá 1989.
     Héraðsdómur 13. mars 1991: Fjármálaráðherra sýknaður.
    Málskostnaður felldur niður.
     Hæstiréttur 3. desember 1992: Fjármálaráðherra talinn hafa brotið jafnræðisákvæði Stjórnarskrár Íslands og dæmdur til að greiða stefnanda einn og hálfan launaflokk samkvæmt ákvæðum kjarasamnings tímabilið september–desember 1990 og janúar 1991 (uppsagnarfrest) með vöxtum en að frádregnum öðrum launahækkunum á tímabilinu.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 800 þús. kr.
    7. Jóhannes Ágústsson gegn fjármálaráðherra og menntamálaráðherra. Stefnandi var félagsmaður í Hinu íslenska kennarafélagi/BHMR. Málið var rekið af BHMR.
    Ágreiningsefni: Réttur til bóta vegna afturköllunar menntamálaráðuneytis á setningarbréfi.
     Héraðsdómur 11. mars 1992: Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 170 þús. kr.
    Fjármálaráðherra hefur áfrýjað héraðsdómi.


Fylgiskjal VI.


Dómsmál á vegum BHMR 1994–96.



I. Félagsdómsmál.

Mál Meinatæknafélags Íslands (MTÍ) gegn Reykjavíkurborg: Gildi og efni undanþágulista vegna verkfalla (FD 3/1994), sbr. LN-94-7.
    Bandalagið tók að sér í mars 1994 að reka mál MTÍ gegn Reykjavíkurborg varðandi auglýsingu á lista yfir þá meinatækna sem óheimilt er að taka þátt í verkfalli en félagið hafði boðað verkfall í byrjun apríl.
    Dómsátt 8. apríl 1994. Fallist á allar kröfur stefnanda. MTÍ greiddi stefnda 50 þús. kr. í málskostnað.

Mál Hins íslenska kennarafélags (HÍK) gegn fjármálaráðherra: Réttur til að breyta stundaskrá kennara við Stýrimannaskólann eftir upphaf skóla (FD ../1994), sjá LN 93-9.
    Kennarar við Stýrimannaskólann fengu stundatöflu fyrir upphaf kennslu á haustönn 1992 eins og mælt er fyrir í kjarasamningi HÍK og fjármálaráðherra. Er litið svo á af hálfu kennara og HÍK að með stundatöflum sé gert bindandi samkomulag á milli skólans og kennara um vinnumagn kennaranna við skólann. Nokkru eftir að kennsla hófst, eða 14. september 1992, breytti skólameistari einhliða stundatöflum og fækkaði kennslustundum miðað við áður umsamið kennslumagn.
    HÍK vísaði málinu til laganefndar með fyrirspurn um lögmæti ákvörðunar skólameistara. Laganefnd taldi að Stýrimannaskólinn hafi með upphaflegri framlagningu stundatöflu áður en kennsla hófst gert eins og ber samkvæmt kjarasamningi bindandi samning við hlutaðeigandi kennara um skipulag vinnunnar og yfirvinnu á kennsluárinu og beri þess vegna að greiða kennurum umsamda yfirvinnu. Laganefnd mælti með málssókn fyrir félagsdómi.
    Bandalagið stefndi málinu f.h. HÍK fyrir félagsdóm í september 1994 þar sem krafist var viðurkenningar á því að skólameistara hafi verið óheimilt að breyta samkomulagi við kennara um kennsluskyldu þeirra.
    Dómsátt 29. nóvember 1994. Fjármálaráðherra féllst á allar kröfur félagsins og greiddi 100 þús. kr. vegna málskostnaðar stefnanda.

Mál Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félags íslenskra náttúrufræðinga, Meinatæknafélags Íslands, Röntgentæknafélags Íslands og Stéttarfélag sjúkraþjálfara gegn fjármálaráðherra: Gildi og efni undanþágulista vegna verkfalla (FD 9/1995).
    Bandalagið tók að sér í mars 1995 að reka mál aðildarfélaganna gegn fjármálaráðherra varðandi auglýsingu á lista yfir þá ríkisstarfsmenn sem óheimilt er að taka þátt í verkfalli.
    Dómur 21. júní 1995 um frávísunarkröfur stefnda varðandi þá einstaklinga sem ekki eru félagsmenn í aðildarfélögum stefnanda. Niðurstaða: Fallist á frávísunarkröfur stefnda nema að því er varðar meina- og röntgentækna við sjúkrahúsið á Blönduósi.
    Dómur 15. mars 1996. Fallist á meginkröfur félaganna með vísan til þess að stefndi hafi ekki virt lögmæltar samráðsskyldur við aðildarfélögin og dæmdur til að greiða 100 þús. kr. í málskostnað.

Mál Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Félags íslenskra náttúrufræðinga gegn St. Jósefsspítala: Gildi og efni undanþágulista vegna verkfalla (FD 8/1995).
    Bandalagið tók að sér í mars 1995 að reka mál FÍH og FÍN gegn St. Jósefsspítala varðandi auglýsingu á lista yfir þá starfsmenn sem óheimilt er að taka þátt í verkfalli.
    Dómur 26. maí 1995. Niðurstaða: Fallist á meginkröfur félaganna og stefndi dæmdur til að greiða 100 þús. kr. í málskostnað.

Mál Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga gegn Reykjavíkurborg: Gildi og efni undanþágulista vegna verkfalla (FD 5/1995).
    Bandalagið tók að sér í mars 1995 að reka mál FÍH gegn Reykjavíkurborg varðandi auglýsingu á lista yfir þá starfsmenn sem óheimilt er að taka þátt í verkfalli.
    Dómsátt 30. mars 1995. Fallist á allar kröfur stefnanda og málskostnaður felldur niður.

Mál Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga gegn Skjóli: Gildi og efni undanþágulista vegna verkfalla (FD 6/1995).
    Bandalagið tók að sér í mars 1995 að reka mál FÍH gegn Skjóli varðandi auglýsingu á lista yfir þá starfsmenn sem óheimilt er að taka þátt í verkfalli.
    Dómsátt 30. mars 1995. Fallist á allar kröfur stefnanda og málskostnaður felldur niður.

Mál Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga gegn Sunnuhlíð: Gildi og efni undanþágulista vegna verkfalla (FD 7/1995).
    Bandalagið tók að sér í mars 1994 að reka mál FÍH gegn Sunnuhlíð varðandi auglýsingu á lista yfir þá starfsmenn sem óheimilt er að taka þátt í verkfalli.
    Dómsátt 30. mars 1995. Fallist á allar kröfur stefnanda og málskostnaður felldur niður.

Mál Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) gegn Reykjavíkurborg og Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar: Réttur Eddu Hjaltested til aðildar að Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga (FD 16/1995), sjá LN 94-24.
    Bandalagið tók að sér í mars 1995 að reka mál FÍH gegn Reykjavíkurborg og Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar varðandi rétt hjúkrunarfræðings sem er forstöðumaður til að vera í fagstéttarfélagi hjúkrunarfræðinga.
    Edda Hjaltested var ráðinn forstöðumaður við félags- og þjónustuíbúðir aldraðra við Lindargötu (borgarstofnun). Í auglýsingu var tekið fram að æskileg menntun væri á sviði félags- eða heilbrigðisþjónustu og að starfsmaður fengi greitt samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar eða hlutaðeigandi stéttarfélags. Edda, sem er hjúkrunarfræðingur, var í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og í Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna. Edda óskaði við ráðningu eftir að fá að vera áfram í félagi sínu og lífeyrissjóði og var fallist á það. Óumdeilt er að menntun Eddu nýtist í starfi forstöðumanns.
    Dómur 30. mars 1995. Fallist á kröfu stefnanda að Edda Hjaltested fái að vera í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Málskostnaður var felldur niður.

II. Héraðsdómsmál.

Mál Bryndísar Þorvaldsdóttur (FÍH) gegn fjármálaráðherra: Réttur til barnsburðarleyfis.
    Bryndís Þorvaldsdóttir (FÍH) hjúkrunarfræðingur hóf barnsburðarleyfi 28. apríl 1990 og nýtti sér heimild 5. gr. reglugerðar að taka leyfið á tólf mánuðum á hálfum launum. Hún hóf starf að nýju 2. maí 1991. Hinn 14. júní 1991 hóf hún nýtt barnsburðarleyfi. Var henni tjáð að hún uppfyllti ekki kröfur reglugerðar um sex mánaða samfellt starf fyrir töku barnsburðarleyfis og fengi því ekki laun og leyfi samkvæmt reglugerð heldur samkvæmt lögum um fæðingarorlof.
    Málinu var stefnt fyrir héraðsdóm og tók bandalagið að sér sókn í málinu. Aðalkrafan var að BÞ fengi viðurkenndan rétt sinn til launa og leyfis samkvæmt reglugerð um barnsburðarleyfi og að viðmið vegna yfirvinnu og vakta miðuðu við tólf mánaða tímabil áður en hún hóf töku fyrra barnsburðarleyfis en varakrafan miðaðist við að yfirvinnu og vaktir tólf mánuði fyrir seinna barnsburðarleyfið. Héraðsdómur féllst á þessa kröfu með dómi 25. nóvember 1994 og var stefndi dæmdur til að greiða 190 þús. kr. í málskostnað.
    Fjármálaráðherra áfrýjaði ekki málinu.

Mál LÍN gegn Jarþrúði Þórhallsdóttur: Endurgreiðslur á námslánum hjóna.
    Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) stefndi Jarþrúði Þórhallsdóttur (SSR) fyrir að greiða ekki fulla endurgreiðslu námslána. JÞ, sem er gift lántakanda hjá LÍN, tók lán á árunum 1976–82. Samkvæmt skuldabréfi JÞ og lögum um LÍN á þessu tímabili giltu þau ákvæði að „séu hjón bæði lánþegar skulu þau greiða árlega helming fastrar afborgunar af láni hvors um sig. Aukaafborgun skiptist til helminga til afborgunar af láni hvors um sig“. Þar sem um fordæmismál var að ræða samþykkti miðstjórn að reka málsvörn fyrir héraðsdómi f.h. JÞ.
    Héraðsdómur úrskurðaði 18. nóvember 1994 að JÞ hafi ekki átt rétt á því að helminga endurgreiðslurnar þar sem maki hennar hafi tekið lán eftir 1982 og að þá hafi gilt önnur lög án sambærilegra ákvæða.
    Bandalagið hefur f.h. stefnda áfrýjað þessum dómi.

Mál Hallveigar Thordarson (HÍK) gegn fjármálaráðherra: Uppsögn trúnaðarmanns og réttur til biðlauna.
    Hallveig Thordarson (HÍK) var ráðin með ótímabundnum ráðningarsamningi við Menntaskólann í Kópavogi í júlí 1991. HT var kjörin trúnaðarmaður HÍK í október 1992. Í apríl 1993 var HT tilkynnt skriflega um uppsögn á ráðningarsamningi. Af hálfu HÍK voru gerðar ítarlegar tilraunir til að fá skólameistara til að draga uppsögnina til baka, bæði á þeim rökum að næg vinna væri í raun fyrir HT og ekki síður með vísan til þess að hún var trúnaðarmaður og átti sem slík að njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum. HT naut hvorki forgangs til vinnu gagnvart leiðbeinendum né gagnvart yfirvinnu annarra kennara.
    Samningatilraunir báru ekki árangur og bandalagið stefndi málinu fyrir héraðsdóm 3. maí 1994. Aðalkrafan var launakrafa miðað við laun í tíu ár vegna órökstuddrar riftunar ótímabundinni ráðningu. Til vara var krafist sex mánaða biðlauna vegna niðurlagningar á stöðu HT. Héraðsdómur féllst ekki á kröfur HT 29. desember 1994 á þeirri forsendu að hinn ótímabundni ráðningarsamningur HT hafi raunverulega verið tímabundinn. Málskostnaður var felldur niður.
    Bandalagið hefur (23. febrúar 1995) áfrýjað þessum dómi f.h. stefnanda. Höfuðkröfur bandalagisns eru að viðurkennt verði að HT hafi í raun haft ótímabundinn ráðningarsamning og að hún hafi átt rétt á að njóta sérstakrar verndar gagnvart uppsögn vegna stöðu sinnar sem trúnaðarmaður. Til vara er þess krafist að henni verði dæmd biðlaun enda hafi staða hennar verið lögð niður.

Mál Sigurðar Ingasonar (FÍN) gegn fjármálaráðherra: Réttur til biðlauna.
    Sigurður Ingason (FÍN) gengdi tímabundnum störfum við Rannsóknastofnun landbúnaðarins (RALA) frá október 1989 til apríl 1991 er hann var ráðinn ótímabundinni ráðningu. 20. desember 1991 var SI sagt upp og skyldu starfslok miðast við 31. mars 1992. Enginn var ráðinn í stað SI og SI fékk ekki aðra vinnu næstu sex mánuðina. Gerðar voru árangurslausar tilraunir til að fá RALA til að greiða SI biðlaun.
    Bandalagið stefndi máli SI fyrir héraðsdóm og gerði kröfu um biðlaun í sex mánuði fyrir 1. apríl 1992 til 30. september 1992. Héraðsdómur úrskurðaði 29. desember 1994 að SI ætti ekki rétt á biðlaunum þar sem SI hafi ekki verið ráðinn í framtíðarstöðu að sögn forstjóra heldur í tímabundið samstarfsverkefni og vegna ákvæða kjarasamnings og því bæri ekki að líta á uppsögn hans sem niðurlagningu á stöðu. Málskostnaður var felldur niður.
    Bandalagið hefur f.h. stefnanda áfrýjað þessum dómi.

Mál Alfreðs Schiöth (DÍ) gegn Akureyrarbæ og Lífeyrissjóði starfsmanna Akureyrarbæjar: Réttur til aðildar að lífeyrissjóði án tillits til stéttarfélagsaðildar.
    Alfreð Schiöth, sem er dýralæknir, var í ágúst 1990 ráðinn starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Eyjafjarðar með ráðningarsamningi dags. 13. september 1990. Lífeyrissjóður starfsmanna Akureyrarbæjar samþykkti aðild AS að sjóðnum og byggðist hún á samkomulagi milli svæðisnefndar Eyjafjarðarsveitar og Akureyrarbæjar varðandi aðild starfsmanna fyrrnefnda að lífeyrissjóðnum. Launagreiðandinn innheimti stéttarfélagsgjald fyrir STAK, Starfsmannafélag Akureyrabæjar. Í nóvember 1993 var ráðningarsamningurinn endurskoðaður og í stað STAK var Dýralæknafélag Íslands skilgreint sem stéttarfélag AS. Voru það einu breytingarnar á ráðningarsamningnum. Fyrir atbeina starfsmannastjóra Akureyrarbæjar kynnti svæðisnefndin ráðningarsamninginn svo breyttan fyrir lífeyrissjóðnum og óskaði eftir áframhaldandi aðild að honum. Þeirri ósk var hafnað af sjóðstjórn.
    AS kærði ákvörðun sjóðstjórnar til fjármálaráðherra með vísan til laga nr. 55/1980. Fjármálaráðherra úrskurðaði 26. júlí 1994 að AS ætti ekki rétt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna Akureyrarbæjar.
    AS kærði ákvörðun sjóðstjórnar til félagsmálaráðherra með vísan til ákvæða stjórnarskrár um félagafrelsi og með vísan til alþjóðlegra sáttmála um sama efni og taldi stjórn lífeyrissjóðsins með atferli hafa reynt að hafa áhrif á stéttarfélagsaðild hans með ákvörðun sinni. Félagsmálaráðherra taldi ekkert sannað af gögnum málsins.
    Bandalagið hefur stefnt málinu fyrir héraðsdóm Norðurlands eystra og mun dóms að vænta fyrir sumarið.

Í undirbúningi:

Mál Gunnars Magnússonar (HÍK) gegn fjármálaráðherra: Fyrning launakröfu, sjá LN 93-14.
    Gunnar Magnússon fékk nýtt námsmat á árinu 1993 vegna viðbótarmenntunar sem hann hafði aflað sér. Kom þá í ljós að menntamálaráðuneytið hafði vanmetið nám hans allt frá árinu 1984. Óskaði menntamálaráðuneytið eftir því með bréfi til fjármálaráðuneytis að laun GM yrðu leiðrétt afturvirkt í samræmi við rétt námsmat. GM var tilkynnt um þessa málsmeðferð. Þar sem GM fékk enga leiðréttingu, fór málið til samstarfsnefndar HÍK og fjármálaráðuneytis. Fjármálaráðuneytið féllst þar á leiðréttingu, en aðeins vaxtalaus fjögur ár aftur í tímann með vísun til þess að launakröfur fyrnist samkvæmt lögum á fjórum árum.
    HÍK vísaði málinu til laganefndar BHMR. Nefndin taldi 22. nóvember 1993 GM eiga rétt á afturvirkri leiðréttingu launa frá 1984 með vöxtum þar sem GM hvorki gat né mátti vita að launagreiðandi greiddi honum of lág laun vegna villu í námsmati. Laganefnd mælti með málssókn.
    GM sendi mál sitt til umboðsmanns alþingis með aðstoð BHMR. Umboðsmaður taldi málið 3. nóvember 1994 heyra undir félagsdóm þar sem um túlkun á kjarasamningi væri að ræða. Hinn 3. desember 1994 sendi BHMR umboðsmanni bréf af þessu tilefni þar sem áhersla var lögð á að málið snérist hvorki um námsmat né túlkun á kjarasamningi (og heyrði þess vegna ekki undir félagsdóm) heldur væri það kröfuréttarlegs eðlis. Umboðsmaður svaraði bréfi BHMR 20. desember 1994, ítrekaði fyrri afstöðu og kvað afskiptum sínum af málinu lokið.
    HÍK hefur óskað eftir að BHMR reki málið fyrir dómstólum. Fyrir liggur að laganefnd hefur ítrekað þá skoðun sína að reka beri málið fyrir dómstólum þar sem aðalkrafa væri um fulla afturvirka leiðréttingu með vöxtum en til vara krafa um vexti á leiðréttingu fjögur ár aftur í tímann. Málið er í athugun hjá lögmanni samtakanna.

Mál Herdísar Sigurbjörnsdóttur (FÍH) gegn fjármálaráðherra: Veikindaréttur og starfslok, sbr. LN 95-6: Heimild vinnuveitanda til að veita lausn vegna veikinda, sjá LN 95-24.

Mál Öddu Tryggvadóttir (FÍH) gegn fjármálaráðherra: Réttur skipaðs starfsmanns til óskertra fastra launa, sbr. LN 94-28: Uppsögn á yfirborgun.

III. Hæstaréttarmál.

Mál Jóhannesar Ágústssonar (HÍK): Réttur til bóta er setningarbréf var dregið til baka.
    JÁ var settur kennari við Fjölbrautarskólann í Breiðholti. Stuttu síðar var setningarbréf hans dregið til baka. Var honum boðin önnur kennarastaða úti á landsbyggðinni, sem JÁ taldi ekki sambærilega stöðu.
    HÍK vísaði máli JÁ til laganefndar BHMR sem taldi JÁ eiga rétt á föstum launum allt setningartímabilið. Máli JÁ var stefnt fyrir héraðsdóm og krafist fastra launa út setningartímabilið. Í dómi héraðsdóms 1. maí 1989 var fallist á aðalkröfu JÁ. Dóm héraðsdóms var áfrýjað af stefnda. Í dómi Hæstaréttar 16. febrúar 1995 var staðfest að JÁ hafi ekki verið boðin sambærileg staða og að afturköllun setningarbréfs hans hafi verið ólögmæt. Var dómur héraðsdóms staðfestur í öllum aðalatriðum.

Mál Sumarskólans í Breiðholti (HÍK): Bótagreiðslur vegna lögbannsaðgerðar.
    Að vori 1990 var fyrst rekinn svonefndur Sumarskóli við Fjölbrautarskólann í Breiðholti til að gefa nemendum á framhaldsskólastigi kost á að taka nám í áföngum framhaldsskóla sem þau luku ekki á reglulegum skólatíma. Var þessi starfsemi rekin af FB og með leyfi menntamálaráðuneytis. Kennsla við Sumarskólann var aðallega á hendi fastra kennara við skólann. Með dómi félagsdóms nr. 7/1992 í máli HÍK gegn fjármálaráðherra var staðfest að kennurum skyldu greidd laun samkvæmt kjarasamningi HÍK og fjármálaráðherra en ekki samkvæmt kjörum stundakennara. Sumarskóli var einnig rekinn vorið 1991 og 1992.
    Að vori 1993 tóku tveir starfsmenn FB að sögn á leigu húsnæði FB til einkareksturs Sumarskóla. Ekki lá fyrir af hálfu stjórnvalda hvort um matshæft nám á milli skóla væri að ræða. Heiti skólans og auglýsingar á honum gáfu hins vegar í skyn að um sams konar skóla væri að ræða og áður hafði verið rekinn af FB með viðurkenndum matshæfum áföngum. Þessi atriði kynnti HÍK opinberlega og þá skoðun félagsins að áformaður rekstur Sumarskólans kynni að brjóta í bága við ýmis lagaákvæði. Ýmsir skólameistarar kunngerðu nemendum að nám við Sumarskólann yrði ekki metið. HÍK ákvað að láta reyna á afstöðu sína með því að óska eftir lögbanni á starfsemi Sumarskólans áður en hún hófst. Sýslumaður í Reykjavík hafnaði beiðni félagsins. Úrskurður Sýslumanns var staðfestur í áfrýjunarmáli fyrir héraðsdómi 30. júní 1994 og HÍK gert að greiða Sumarskólanum 250 þús. kr. í málskostnað.
    Annar eigandi Sumarskólans, Ólafur H. Johnson, stefndi HÍK fyrir héraðsdóm með kröfu um rúmlega 3 millj. kr. í bætur auk málskostnaðar. Bandalagið tók að sér málsvörn HÍK samkvæmt samþykkt miðstjórnar. Héraðsdómur féllst með dómi 12. apríl 1994 á hluta af kröfum ÓHJ og skyldi HÍK greiða honum 750 þús. kr. vegna (1) eigin vinnu við málsvörn í lögbannsmáli til viðbótar áður dæmdum málskostnaði, (2) spjalla á viðskiptahagsmunum, (3) fækkunar nemenda við Sumarskólann fyrir tilstilli aðgerða HÍK og vegna (4) miskabóta fyrir utan fjárhagslegt tjón.
    Bandalagið f.h. HÍK áfrýjaði dómi héraðsdóms með vísan til þess að skaðabætur hafi ekki verið byggðar á sönnuðu fjárhagslegu tjóni og að miskabætur hafi verið of hátt metnar. Öðrum kröfuliðum er alfarið hafnað. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms 1. febrúar 1996 í öllum aðalatriðum.

Mál Hins íslenska kennarafélags (HÍK): Réttur starfsmanna (kennara) ríkis í verkfalli til að njóta launa og leyfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar um veikindaforföll.
    Áður en verkfall kennarafélaganna hófst í febrúar 1995 kom í ljós að ágreiningur var á milli fjármálaráðuneytis og BHMR um efni réttinda félagsmanna sem eru veikir. BHMR taldi að reglugerðin um veikindaforföll starfsmanna ríkisins undanskildi ekki þá sem tækju þátt í lögmætri vinnustöðvun og lagði að auki fram bréf fjármálaráðherra dags. 6. apríl 1989 sem staðfesti sama skilning.
    Bandalagið stefndi málinu fyrir héraðsdóm fyrir hönd HÍK til að fá viðurkenningardóm á réttindum félagsmanna. Héraðsdómur úrskurðaði 15. mars 1995 að samkvæmt almennum vinnurétti bæri að líta svo á að skylda launagreiðanda til launagreiðslna félli niður gagnvart félagsmönnum þegar félagið er í verkfalli og gilti það einnig um þá sem njóta greiðslna í forföllum vegna veikinda og breytti ívilnandi bréf ráðherra engu um þessi réttindi og skyldur. Málskostnaður var felldur niður.
    Bandalagið áfrýjaði dómi héraðsdóms. Dómur Hæstaréttar staðfesti 1. júní 1995 úrskurð undirréttar. Málskostnaður var felldur niður.