Ferill 48. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 48 . mál.


48. Frumvarp til fjáraukalaga



fyrir árið 1996.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á greiðsluyfirliti A-hluta ríkissjóðs 1996 frá 1. gr. fjárlaga fyrir árið 1996:

Greiðsluyfirlit ríkissjóðs


Þús. kr.

Þús. kr.


Rekstrarreikningur

Tekjur
5 122 000
    Tekjuskattar
3 115 000
    Tryggingagjöld, launaskattar
257 000
    Eignarskattar
70 000
    Skattar á vörur og þjónustu
1 000 000
    Vaxtatekjur
405 000
    Aðrar tekjur
275 000

Gjöld
15 870 400
    Samneysla
1 240 900
         Rekstrargjöld
1 155 900
         Viðhald
85 000
    Neyslu- og rekstrartilfærslur
2 035 500
    Vaxtagjöld
10 850 000
    Fjárfesting
1 744 000
Graphic file Blank.Blank with height 2 p and width 58 p Center aligned

Gjöld umfram tekjur
10 748 400

Lánahreyfingar

    Veitt lán, nettó
2 270 000
Graphic file Blank.Blank with height 2 p and width 58 p Center aligned

Hrein lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs
13 018 400
Graphic file Blank.Blank with height 2 p and width 58 p Center aligned

    Afborganir af teknum lánum
7 590 000
Graphic file Blank.Blank with height 2 p and width 58 p Center aligned

Heildarlánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs
20 608 400
    Lántökur
20 600 000
Graphic file Blank.Blank with height 2 p and width 58 p Center aligned

Greiðslujöfnuður, sjóðsbreyting
-8 400

2. gr.



    Útgjöld ríkissjóðs breytast frá ákvæðum 2. gr. fjárlaga fyrir árið 1996 sem hér segir, sbr. sundurliðun í 3. gr.:

Þús.kr.

Þús.kr.



00 Æðsta stjórn ríkisins     
129 000

01 Forsætisráðuneyti     
174 000

02 Menntamálaráðuneyti     
277 800

03 Utanríkisráðuneyti     
94 000

04 Landbúnaðarráðuneyti     
98 500

05 Sjávarútvegsráðuneyti     
44 500

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti     
95 700

07 Félagsmálaráðuneyti     
160 200

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti     
1 347 200

09 Fjármálaráðuneyti     
13 051 000

10 Samgönguráðuneyti     
364 000

11 Iðnaðarráðuneyti     
19 200

14 Umhverfisráðuneyti     
15 300

Graphic file Blank.Blank with height 2 p and width 58 p Center aligned

Samtals     
15 870 400

3. gr.



    Sundurliðun gjalda skv. 2. gr. á stofnanir og viðfangsefni er þessi:


(Töflur, 20 síður.)




4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.



Inngangur.



     Forsendur fjárlaga. Fjárlög ársins 1996 báru með sér glögg merki um að ríkisfjármálin væru að færast í betra horf. Tveir þættir höfðu þar einna mesta þýðingu. Í fyrsta lagi voru horfur á að efnahagslífið héldi áfram að rétta sig við eftir langvinnt erfiðleikatímabil, sem einkenndist ýmist af samdrætti eða kyrrstöðu allt frá miðjum síðasta áratug fram til ársins 1994. Þannig gerði þjóðhagsáætlun ársins 1996 ráð fyrir að vöxtur landsframleiðslu yrði 3,2% jafnframt því að atvinnuástand færi batnandi og stöðugleiki héldist í verðlagsmálum. Reiknað var með 16,3% aukningu fjárfestingar í einkageiranum, m.a. vegna stækkunar álvers, og að hlutur hennar í hagvexti yrði þar með heldur meiri en vöxtur einkaneyslu, sem áætlaður var 4,2%. Þá var talið að kaupmáttur ráðstöfunartekna mundi aukast um 3,5%. Forsendur launaþróunar, þ.m.t. hjá ríkissjóði, voru álitnar vera fremur traustar þar sem vel flest stéttarfélög í landinu höfðu fyrir setningu fjárlaga gert kjarasamninga sem gilda til loka ársins 1996. Að samanlögðu voru þessar horfur í efnahagsmálum taldar skila ríkissjóði tekjuaukningu sem næmi um 6,5 milljörðum króna miðað við árið 1995.
    Í annan stað báru fjárlög ársins 1996 merki um þá stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að nýta tekjuaukann til þess að draga úr hallarekstri ríkissjóðs og ná jafnvægi í ríkisfjármálum á tveimur árum. Meginmarkmið fjárlaganna var að lækka halla ríkissjóðs í innan við 4 milljarða króna í lok ársins 1996 þannig að hann yrði rúmlega helmingi minni en áætlaður halli ársins 1995. Til þess að ná því markmiði var megináherslan lögð á að sporna gegn aukningu útgjalda umfram óhjákvæmileg áhrif kjarasamninga ársins 1995. Í því skyni var fyrirhugað að draga úr sjálfvirkni í vexti útgjalda á sviði heilbrigðis- og tryggingamála jafnframt því að áfram yrði beitt almennu aðhaldi í rekstrarframlögum ríkisstofnana. Þá voru framlög til stofnkostnaðar lækkuð um rúmlega 2,5 milljarða króna milli ára, m.a. í ljósi fyrirsjáanlegrar aukningar í fjárfestingu fyrirtækja. Að samanlögðu var gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs á árinu 1996 lækkuðu um 2% að raungildi frá áætlun ársins 1995 og yrðu alls 124,8 milljarðar króna.

     Endurskoðaðar afkomuhorfur. Endurmat á áætlun um framvindu ríkisfjármála á árinu bendir til að framangreind áform muni ná fram að ganga í stórum dráttum. Rekstrarhalli ríkissjóðs árið 1996 er nú talinn verða 2,7 milljarðar króna eða um 1,2 milljörðum króna lægri en reiknað var með í fjárlögum. Gangi þetta eftir verður að fara allt aftur til ársins 1984 til að finna betri rekstrarafkomu hjá ríkissjóði.
    Í þessu mati á útkomu ársins eru undanskilin áhrif af sérstakri innköllun sl. sumar á nokkrum stórum flokkum spariskírteina, sem báru afar háa vexti auk verðtryggingar, eins og nánar er greint frá í athugasemdum við 3. grein frumvarpsins. Áætlað er að með þessari aðgerð muni vaxtaútgjöld ríkissjóðs lækka alls um 2 milljarða króna á næstu þremur árum. Fyrir vikið færist hins vegar 10,1 milljarður króna til bókar á greiðslugrunni yfirstandandi árs vegna vaxta og verðbóta af innleystu skírteinunum.
    

Afkoma ríkissjóðs










TAFLA









     Helstu frávik tekna og gjalda. Þótt rekstrarafkoma ríkissjóðs verði betri í ár en gert var ráð fyrir verða engu að síður ýmsar veigamiklar breytingar frá forsendum fjárlaga, bæði tekju- og gjaldamegin.
    Nú er talið að tekjur ársins 1996 verði nærri 126 milljarðar króna, eða um 5,1 milljarði meiri en samkvæmt fjárlögum. Valda þar mestu veltuáhrif af meiri umsvifum í efnahagslífinu en reiknað hafði verið með, einkum aukinn fiskafli, meiri kaupmáttur heimilanna og minna atvinnuleysi. Þannig er nú gert ráð fyrir að hagvöxtur á árinu verði 5,5% í stað 3,2% í fyrri áætlunum og að einkaneysla aukist um 7% í stað 4,2%. Aukin umsvif í þjóðarbúskapnum eru ein og sér talin skila ríkissjóði nálægt 4 milljarða króna tekjuauka á árinu, en þeirra áhrifa gætir einkum í tekjuskatti einstaklinga, tryggingagjaldi og gjöldum af innflutningi bifreiða. Afganginn má að mestu rekja til aukinna tekna af sölu áfengis og tóbaks, sem að stórum hluta skýrast raunar af tilfærslu tekna frá árinu 1995, og til aukinna vaxtatekna.
    Á gjaldahlið stefnir í heldur minna frávik en á tekjuhlið. Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs á árinu 1996 verði um 128,7 milljarðar króna, að undanskildum áhrifum af innlausn spariskírteina, eða 3,9 milljörðum króna hærri en í fjárlögum.
    Aukning útgjaldanna stafar að stærstum hluta af fremur fáum en veigamiklum útgjaldatilefnum, sem flest tengjast sparnaðaráformum sem ekki ganga eftir, ákvörðunum stjórnvalda um ný verkefni og ófyrirséðum eða vanáætluðum útgjöldum. Að frátöldum framangreindum áhrifum af innköllun spariskírteina vega umframgjöld sjúkratrygginga þyngst í útgjaldaaukningunni, en útlit er fyrir að þau verði 830 m.kr. á árinu. Þá er áætlað að vaxtagjöld verði um 750 m.kr. hærri en miðað var við í fjárlögum. Aukin framlög til að mæta rekstrarhalla heilbrigðisstofnana, einkum sjúkrahúsa í Reykjavík, nema um 500 m.kr. Fyrirhugað er að 280 m.kr. aukning í mörkuðum tekjustofnum vegáætlunar renni til vegaframkvæmda. Viðbótarútgjöld vegna aðstoðar við íbúa Súðavíkur og Flateyrar í kjölfar snjóflóða nema 250 m.kr. Gert er ráð fyrir að verja jafn hárri fjárhæð til að bæta stofnunum áhrif kjarasamninga sem ekki voru komin fram við setningu fjárlaga. Þá þarf ríkissjóður að leggja til 240 m.kr. vegna uppgjörs á rekstrarhalla grunnskóla o.fl. í tengslum við flutning skólanna til sveitarfélaga. Flýting viðhaldsframkvæmda við húseignir Alþingis og endurbætur í húsnæðismálum forsetaembættis og forsætisráðuneytis hafa í för með sér um 150 m.kr. viðbótarútgjöld. Loks má nefna 140 m.kr. aukaframlag til Byggðastofnunar vegna erfiðleika í atvinnulífi á sunnanverðum Vestfjörðum og á svæðum þar sem samdráttur í sauðfjárrækt hefur verið hvað mestur. Á móti vegur að reiknað er með að í lok ársins falli niður nærri 300 m.kr. af ónotuðum fjárheimildum. Þar er um að ræða nokkra stóra liði þar sem nýting fjárveitinga er jafnan háð nokkurri óvissu, s.s. útgjöld samkvæmt heimildum í 6. grein fjárlaga.

Helstu frávik tekna og gjalda frá fjárlögum 1996, m.kr.



Tekjur:



    Tekju- og launaskattar      3.360
    Sala áfengis og tóbaks      700
    Bifreiðagjöld      260
    Vaxtatekjur og arðgreiðslur      680
    Önnur atriði      100
         Heildarfrávik tekna frá fjárlögum     
5.100


Gjöld:


    Heilbrigðismál      1.350
        – Sjúkratryggingar     
830

        – Rekstrarhalli sjúkrahúsa í Reykjavík     
430

        – Önnur heilbrigðismál     
90


    Vaxtagjöld      750

    Stofnkostnaður      660
        – Vegagerð     
280

        – Endurbætur húsnæðis forsetaembættis, Alþingis og forsætisráðuneytis
150
        – Byggðastofnun     
140

        – Flugvél Flugmálastjórnar     
90


    Ný útgjaldatilefni og ákvarðanir ríkisstjórnar og Alþingis      1.390
        – Aðstoð vegna snjóflóða á Súðavík og Flateyri     
250

        – Launabætur til stofnana vegna áhrifa kjarasamninga     
250

        – Uppgjör á grunnskóla vegna flutnings til sveitarfélaga     
240

        – Greiðslur vegna mjólkurframleiðslu     
90

        – Annað     
560


    Ónotaðar fjárheimildir sem falla niður í árslok      -270

    Innköllun spariskírteina      10.100

     Heildarfrávik gjalda frá fjárlögum     
14.000

     Frávik gjalda án áhrifa innköllunar á spariskírteinum     
3.900



     Fjárheimildir og umframgjöld sem flytjast milli ára. Til viðbótar nýjum fjárheimildum fyrir framangreindum útgjaldatilefnum, sem alls nema 4,2 milljörðum króna, er lagt til í frumvarpinu að fjárveitingar gildandi fjárlaga verði hækkaðar sem nemur óhöfnum fjárheimildum í árslok 1995 og lækkaðar sem nemur umframgjöldum á árinu 1995. Nettóhækkun framlaga í frumvarpinu vegna stöðu fjárlagaliða gagnvart eldri heimildum í árslok 1995 er 1,6 milljarðar króna. Þar við bætist fjárheimild á vaxtagjaldalið, 10,1 milljarður króna, vegna sérstakrar innlausnar spariskírteina. Að samanlögðu nema nýjar heimildir ársins 1996 og yfirfærð staða frá árinu 1995 því um 15,9 milljörðum króna í frumvarpi til fjáraukalaga 1996.
    Á sama hátt er gert ráð fyrir að í lok yfirstandandi árs hafi myndast sambærilegar afgangsheimildir og umframgjöld, sem leitað verði staðfestingar á með frumvarpi til fjáraukalaga ársins 1997. Eins og áður getur eru þó horfur á að fjárheimildir sem nema tæplega 300 m.kr. falli niður ónotaðar í árslok. Miðast greiðsluáætlun ársins 1996 því við að greidd útgjöld umfram forsendur fjárlaga verði um 14 milljarðar króna á árinu, þ.e. sem nemur nýjum fjárheimildum að frádregnum niðurfelldum heimildum í árslok.

     Lánahreyfingar. Betri rekstrarafkoma ríkissjóðs en miðað var við í fjárlögum dregur úr lánsfjárþörf sem nemur um 1,2 milljörðum króna. Á hinn bóginn munu lánveitingar aukast um 2,3 milljarða króna þar sem ríkissjóður hefur þurft að hafa milligöngu um lántökur Húsnæðisstofnunar ríkisins til að mæta fjárþörf Byggingasjóðs ríkisins með sölu skuldabréfa á markaði. Þau endurlán hafa þó engin áhrif á heildarlántökur opinberra aðila. Að auki mun ríkisjóður lána Speli ehf. 400 m.kr., sem varið verður til framkvæmda við vegtengingar Hvalfjarðarganga. Að teknu tilliti til þessara breytinga og nokkurrar aukningar í innheimtum afborgunum er áætlað að hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs verði rúmlega 1 milljarði króna umfram forsendur fjárlaga. Þá hafði sérstök innlausn spariskírteina sl. sumar í för með sér að endurfjármagna þurfti með lántökum um 17,3 milljarða króna, eða um 10,1 milljarð króna vegna vaxta og verðbóta og rúmlega 7 milljarða króna vegna fullnaðarafborgunar á höfuðstól. Að meðtaldri þessari endurfjármögnun er reiknað með að heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs á árinu 1996 verði um 19 milljarðar króna umfram fjárlög, eða alls 44 milljarðar króna.


Tekjur.


    Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1996 var áætlað að heildartekjur ríkissjóðs yrðu 120,9 milljarðar króna. Frá því að sú áætlun var gerð í lok ársins 1995 hafa ýmsar forsendur breyst. Kaupmáttur heimila hefur aukist í kjölfar aukinna útflutningstekna, lækkunar tekjuskatts vegna skattfrelsis lífeyrisiðgjalda og meiri umsvifa almennt. Þessi áhrif leiða til aukningar bæði í launasköttum vegna meiri tekjubreytinga og í veltusköttum, einkum af innflutningi, og hækka tekjurnar um liðlega 4 milljarða króna. Þá bendir ýmislegt til þess að aukið framboð á lánsfé eigi einnig hlut að máli. Auknar vaxtatekjur og ýmsir aðrir þættir bæta tekjuhliðina enn frekar um allt að 1 milljarð króna þrátt fyrir neikvæð greiðsluáhrif af breytingum vörugjalds. Allt bendir því til þess að tekjur ríkissjóðs verði 5 milljörðum meiri á árinu 1996 en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum, eða í kringum 126 milljarðar króna.

Breyttar þjóðhagsforsendur árið 1996






TAFLA



    Sem fyrr segir endurspeglast breyttar þjóðhagsforsendur einkum í viðbótartekjum af staðgreiðslu tekjuskatts og betra atvinnuástandi. Þannig má búast við að tekjuskattur einstaklinga skili rúmlega 3 milljörðum króna umfram áætlun fjárlaga. Sömu skýringar liggja að baki tæplega 300 m.kr. hækkun tekna af tryggingagjaldi.
    Þá aukast tekjur af virðisaukaskatti og öðrum veltutengdum sköttum um liðlega 1 milljarð króna. Fyrst ber að nefna auknar tekjur af sölu áfengis og tóbaks, samtals um 700 m.kr. Tveir þriðju hlutar þeirrar aukningar, eða rúmlega 400 m.kr, skýrast af tilfærslu tekna frá árinu 1995. Greiðsluáhrif af breyttri álagningu vörugjalds eru talin skerða tekjurnar um 600 m.kr. á þessu ári en þau eru að mestu vegin upp af auknum bifreiðainnflutningi. Tekjur af virðisaukaskatti hækka nokkru minna en almenn velta. Hér kemur ýmislegt til, svo sem aukin fjárfesting fyrirtækja, sem skapar ákveðna töf í innheimtu, lægri álagning vegna harðnandi samkeppni og auknar endurgreiðslur, svo eitthvað sé nefnt. Einnig bendir flest til þess að innheimta á bifreiðagjöldum, þ.e. bensíngjaldi og þungaskatti, verði verulega meiri á þessu ári en í áætlun fjárlaga. Skýringin liggur einkum í betri skilum þungaskatts, auk gjaldskrárhækkunar, bæði á bensíngjaldi og þungaskatti, sem ekki var reiknað með við gerð fjárlaga. Að lokum verða vaxtatekjur um 400 m.kr. hærri á þessu ári en miðað var við, auk þess sem sala ríkiseigna og arðgreiðslur skila heldur meiri tekjum.

Áætlaðar tekjur ríkissjóðs



TAFLA

    Að undanförnu hefur fjármálaráðuneytið í samvinnu við önnur ráðuneyti farið yfir erindi um auknar fjárveitingar í fjáraukalögum og lagt mat á fjárvöntun einstakra verkefna. Þá hefur áætlun um útgjöld ríkissjóðs á yfirstandandi ári verið endurskoðuð í ljósi þeirra upplýsinga vegna undirbúnings fjárlagafrumvarps fyrir árið 1997. Sú endurskoðun bendir til að útgjöldin verði um 128,7 m.kr. á árinu, eða um 3,9 milljörðum króna hærri en samkvæmt fjárlögum. Að teknu tilliti til áhrifa áðurnefndrar innköllunar á spariskírteinum verða útgjöldin 138,8 milljarðar króna, eða 14 milljörðum króna umfram fjárlög. Er þá miðað við að tæplega 300 m.kr. af heimildum fjárlaga komi ekki til greiðslu á árinu. Til skýringar er rétt að benda á að greiðsluheimildirnar sem sótt er um í frumvarpinu eru um 1,6 milljarði króna hærri vegna ráðstöfunar á afgangsheimildum og umframgjöldum frá liðnu ári.

Áætluð útgjöld ríkissjóðs







TAFLA



















     Rekstrarkostnaður verður 1,2 milljörðum króna hærri á árinu 1996 en gert var ráð fyrir í fjárlögum, ef svo fer fram sem horfir. Á föstu verðlagi mun rekstrarkostnaður ríkisins þó lækka lítillega miðað við útkomu síðasta árs. Viðbótargjöldin skýrast að mestu af þremur stórum útgjaldatilefnum. Þar bera hæst 430 m.kr. útgjöld vegna hallareksturs sjúkrahúsanna í Reykjavík. Gert hefur verið sérstakt samkomulag milli fjármálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og Reykjavíkurborgar í því skyni að ná fram hagræðingu í starfseminni með aukinni verkaskiptingu milli sjúkrahúsanna. Í annan stað er gert ráð fyrir að stofnunum verði lagðar til 250 m.kr. í launabætur vegna áhrifa kjarasamninga og kjaraúrskurða sem ekki voru komin fram fyrir afgreiðslu fjárlaga. Um tveir þriðju hlutar þeirrar fjárhæðar eru vegna úrskurðar um launahækkun lögreglumanna og tollvarða umfram kjarasamninga. Í þriðja lagi er fyrirhugað að gera upp 240 m.kr. rekstrarhalla grunnskóla frá þessu ári og því síðasta vegna yfirfærslu skólanna til sveitarfélaga á árinu. Önnur útgjaldatilefni eru minni og snúa í flestum tilvikum annað hvort að ákvörðunum stjórnvalda um ný verkefni eða að skuldbindingum sem leiða af lagasetningu Alþingis, eins og nánar er greint frá í athugasemdum um einstakar tillögur í 3. grein frumvarpsins.

     Neyslu- og rekstrartilfærslur eru áætlaðar um 1,2 milljörðum króna hærri en í fjárlögum. Að stærstum hluta er þar um að ræða 800-900 m.kr. umframgjöld sjúkratrygginga vegna ýmissa frávika frá áformum og forsendum fjárlaga. Þá falla til 250 m.kr. vegna ákvarðana stjórnvalda um aðstoð við sveitarfélögin á Súðavík og Flateyri í kjölfar náttúruhamfaranna sem þar urðu á síðasta ári. Þá má nefna að hækkun á grundvallarverði og greiðslumarki mjólkur samkvæmt ákvæðum búvörusamnings leiðir til 90 m.kr. hækkunar á beingreiðslum.

     Vextir eru taldir verða 750 m.kr. umfram viðmiðun fjárlaga, en þar af eru 500 m.kr. vegna erlendra langtímalána og 250 m.kr. vegna innlendrar skammtímafjáröflunar. Þar við bætist að 10,1 milljarður króna bókfærist sem vaxtagreiðslur í greiðslugrunni þessa árs vegna sérstakar innköllunar á spariskírteinum, eins og nánar er vikið að annars staðar í greinargerð frumvarpsins.

     Viðhald og stofnkostnaður stefna í að verða tæplega 700 m.kr. umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlögum. Þar vegur þyngst 280 m.kr. aukning markaðra tekna vegáætlunar. Þá renna 140 m.kr. til Byggðastofnunar til að mæta aðsteðjandi vanda í atvinnulífi annars vegar á Vestfjörðum og hins vegar á sauðfjárræktarsvæðum. Um 150 m.kr. af útgjaldaaukanum skýrast af framkvæmdum við endurbætur í húsnæðismálum Alþingis, forsetaembættis og forsætisráðuneytis.

     Óhafnar fjárveitingar og umframgjöld frá árinu 1995. Líkt og undanfarin ár er gert ráð fyrir að með frumvarpinu verði gerðar breytingar á fjárveitingum í fjárlögum þessa árs með tilliti til greiðslustöðu fjárlagaliða gagnvart fjárheimildum í lok síðasta árs. Meginatriðin í fyrirkomulagi þessara fjárráðstafana eru rakin hér á eftir.
    Í frumvarpi til síðari fjáraukalaga ársins 1995, eftir að endanlegt greiðsluuppgjör hafði farið fram, var leitað eftir fjárheimildum vegna allra umframgreiðslna ráðuneyta á því ári. Í fylgiskjali með frumvarpinu voru jafnframt kynntar tillögur um fyrirhugaðar hækkanir og lækkanir á fjárveitingum yfirstandandi árs með tilliti til óhafinna fjárveitinga og umframgjalda í lok liðins árs. Á því stigi voru tillögurnar einungis lagðar fram til kynningar og voru ekki hluti af heimildarákvæðum frumvarpsins. Þar sem fjárveitingar fjárlaga ársins 1995 gilda aðeins fyrir það ár eru þær tillögur nú fluttar óbreyttar í 2. gr. þessa frumvarps og koma þannig til ákvörðunar á Alþingi á sama hátt og aðrar heimildir frumvarpsins. Tillögurnar byggja á viðmiðunarreglum þar sem einkum er horft til þess hvort útgjöld eru bundin, t.d. af lagaákvæðum, eða eru fremur á ábyrgð tiltekins stjórnsýsluaðila. Meginreglan er að umframgjöldum og óhöfnum fjárheimildum í rekstri er ráðstafað til næsta árs. Sama gildir um afgangsheimildir til fjárfestingar þegar viðkomandi framkvæmdum er ólokið. Á tilfærsluliðum er hins vegar almennt lagt til að umframgjöld og ónotaðar fjárveitingar falli niður, enda eru þær greiðslur í flestum tilvikum lög- eða samningsbundnar. Í reynd eru fjárheimildir því ekki yfirfærðar eða fluttar sjálfkrafa milli ára, heldur ákvarðar Alþingi breytingar á gildandi fjárlögum með hliðsjón af greiðslustöðu liða í lok liðins árs og að fengnum tillögum fjármálaráðherra. Hefur þetta fyrirkomulag, líkt og í mörgum öðrum löndum, aukið ráðdeild í ríkisrekstrinum og stuðlað að agaðri fjármálastjórn ráðuneyta og stofnana.
    Skipting tillagna um hækkanir og lækkanir á fjárveitingum yfirstandandi árs eftir ráðuneytum og hagrænni flokkun kemur fram í meðfylgjandi yfirliti. Þar hefur verið tekið tillit til breytinga á framsetningu fjárlagaliða innan og milli ráðuneyta í fjárlögum 1996, sem í nokkrum tilvikum hefur áhrif á heildarfjárhæðir ráðuneyta.

Breytingar framlaga 1996 vegna óhafinna fjárveitinga og umframgjalda 1995













TAFLA













    Í frumvarpinu er lagt til að framlög til rekstrar samkvæmt fjárlögum ársins 1996 verði aukin um 811 m.kr. vegna afgangsheimilda liðins árs, en að rekstrarfjárveitingar skerðist á móti um 814 m.kr. vegna umframgjalda sama árs. Afgangur á tilfærsluframlögum síðasta árs sem gert er ráð fyrir að komi með sama hætti til viðbótar við gildandi fjárlög nemur 604 m.kr. Þá nema óhafnar fjárveitingar ársins 1995 til viðhalds og stofnkostnaðar 1.023 m.kr. Sótt er um þessar breytingar á fjárveitingum í einu lagi undir liðnum 09-989 Launa- og verðlagsmál í frumvarpinu, en í fylgiskjali 1 er sýnd sundurliðun eftir málefnaflokkum og einstökum fjárlagaliðum. Nánari umfjöllun um ráðstöfun á afgangsheimildum og umframgjöldum einstakra fjárlagaliða milli áranna 1995 og 1996 er að finna í frumvarpi til síðari fjáraukalaga ársins 1995.

Lánahreyfingar.


    Hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs var áætluð 4,1 milljarður króna í fjárlögum ársins 1996. Eins og nú horfir er hins vegar gert ráð fyrir að hrein lánsfjárþörf verði 11,1 milljarði króna hærrri en í fjárlögum, eða alls 15,2 milljarðar króna. Af þeirri viðbót skýrist 10,1 milljarður króna af vöxtum og verðbótum sem bókfærast í greiðslugrunn þessa árs í kjölfar ákvörðunar stjórnvalda sl. sumar um að segja upp þremur eldri flokkum spariskírteina með óhagstæðum vaxtakjörum, samtals að fjárhæð 17,3 milljarðar króna. Þá er reiknað með að lánveitingar aukist um 3,7 milljarða króna frá fjárlögum. Þar af eru 2,3 milljarðar króna vegna samnings sem fjármálaráðuneytið gerði við Húsnæðisstofnun ríkisins um að ríkissjóður afli Byggingarsjóði ríkisins lánsfjár á árinu 1996. Þá eru 400 m.kr. af viðbótarlánveitingunum vegna láns til Spalar ehf., sem varið verður til vegtenginga við Hvalfjarðargöng. Á móti þessum hreyfingum vegur að útlit er fyrir að innheimtar afborganir hækki um 1,2 milljarða króna frá fjárlögum og að nettóaukning lánveitinga verði því um 2,5 milljarðar króna. Einnig verða stofnfjárframlög 200 m.kr. lægri en í fjárlögum. Betri rekstrarafkoma ríkissjóðs en gert var ráð fyrir dregur síðan úr hreinni lánsfjárþörf sem nemur 1,2 milljörðum króna.
    Afborganir af eldri lánum voru áætlaðar 21,2 milljarðar króna í fjárlögum en nú stefnir í að þær verði um 7,6 milljörðum hærri og eykst heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs sem því nemur. Aukningin stafar nær öll af endurgreiðslu höfuðstóls vegna sérstakrar innköllunar spariskírteina á árinu.

Lánahreyfingar og lánsfjárþörf ríkissjóðs





TAFLA

Athugasemdir við einstaka fjárlagaliði, sbr. 3. gr.




00 Æðsta stjórn ríkisins



    Lagt er til að fjárheimild æðstu stjórnar ríkisins verði aukin um 129 m.kr.

101    Embætti forseta Íslands. Sótt er um auknar fjárveitingar sem samtals nema 79 m.kr. Þar er í fyrsta lagi um að ræða heimild fyrir 74 m.kr. útgjöldum vegna flutnings skrifstofu forsetaembættisins úr Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg að Sóleyjargötu 1 í Reykjavík. Annars vegar eru 36 m.kr. til kaupa á sjálfri húseigninni. Hins vegar eru 38 m.kr. til lagfæringa á húsnæðinu. Framkvæmdar voru gagngerar endurbætur á innréttingum, auk þess sem kaupa þurfti ýmsan tækjabúnað, svo sem öryggiskerfi. Í annan stað er gerð tillaga um 5 m.kr. viðbótarframlag til þess að jafna rekstrarhalla á fyrri árshelmingi áður en nýkjörinn forseti tók við embættinu.

201    Alþingi. Fyrr á þessu ári ákvað forsætisnefnd Alþingis að ljúka í einum áfanga framkvæmdum við endurbyggingu Kirkjustrætis 8b og 10 og smíði tengibyggingar milli húsanna, í stað þess að skipta verkinu í tvo áfanga, eins og gert hafði verið ráð fyrir við setningu fjárlaga. Framkvæmdakostnaður í ár er áætlaður 94 m.kr., en þar af eru 10 m.kr. vegna skrifstofubúnaðar, húsgagna og flutninga. Framlag í fjárlögum er 44 m.kr. Farið er fram á viðbótarfjárveitingu til þess að gera upp allan kostnaðinn í ár, eða 50 m.kr. Til framkvæmdanna hafa þegar verið veittar 84 m.kr., þar af 20 m.kr. í fjáraukalögum ársins 1995, og verður heildarframlagið þannig orðið 134 m.kr. Fjárveiting til verkefnisins í gildandi fjárlögum fellur því niður í fjárlagafrumvarpi ársins 1997.


01 Forsætisráðuneyti



    Lagt er til að fjárheimild forsætisráðuneytis verði aukin um 174 m.kr.

101    Forsætisráðuneyti, aðalskrifstofa. Fyrirhugað er að hefja endurbætur á Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg í kjölfar flutnings skrifstofu forseta Íslands í annað húsnæði. Gerð er tillaga um 25 m.kr. fjárveitingu til þessa verkefnis.

190    Ýmis verkefni. Leitað er eftir 9 m.kr. viðbótarframlagi vegna aukinnar áherslu á útboðs- og einkavæðingarverkefni á þessu ári. Framlagið er ætlað til að standa straum af úttektum verðbréfafyrirtækja, aðkeyptri sérfræðiþjónustu og kynningarátaki um verklagsreglur einkavæðingar.

221    Byggðastofnun. Lagt er til að veitt verði 140 m.kr. aukaframlag til stofnunarinnar af tveimur tilefnum. Í fyrsta lagi er um að ræða 60 m.kr. viðbót við 300 m.kr. framlag sem veitt var með fjáraukalögum ársins 1994, í samræmi við lög nr. 96/1994, til þess að gera Byggðastofnun kleift með víkjandi lánum að stuðla að samruna fyrirtækja á Vestfjörðum. Framlagið nú er ætlað til sambærilegra aðgerða vegna erfiðleika í atvinnulífi á sunnanverðum Vestfjörðum, enda uppfylli viðkomandi fyrirtæki sömu skilyrði og sett voru fyrir fyrri lánveitingum á grundvelli áðurnefndra laga. Í öðru lagi er gert ráð fyrir 80 m.kr. framlagi sem renni til afskriftasjóðs Byggðastofnunar til að uppfylla bókanir í viðauka II við fyrri búvörusamning frá árinu 1991. Er þeim fjármunum ætlað að standa straum af stuðningi stofnunarinnar við atvinnuuppbyggingu á svæðum þar sem samdráttur í sauðfjárframleiðslu hefur verið mestur undanfarin ár.


02 Menntamálaráðuneyti



    Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 277,8 m.kr.

221    Kennaraháskóli Íslands. Farið er fram á 10 m.kr. aukafjárveitingu. Með kaupum á eignum og rekstri Íslenska menntanetsins ehf., sbr. skýringar við næsta fjárlagalið, var Kennaraháskóla Íslands falið að taka við þeim rekstri tölvunetsins fyrir skólakerfið sem fyrirtækið hafði með höndum áður, að undanskildri þjónustu við einkaaðila sem felld var niður. Leggja þurfti í kostnað við yfirtökuna vegna breytinga á húsnæði, sérfræðiaðstoðar, tölvukaupa og undirbúningsvinnu. Sá kostnaður féll til í eitt skipti en rekstrinum er að öðru leyti ætlað að standa undir sér með þjónustutekjum frá skólum.

318    Framhaldsskólar, viðhald og stofnkostnaður. Fyrirtækið Íslenska menntanetið ehf. vann að því undanfarin ár að tengja skóla landsins saman í eitt tölvunet, sem nú þjónar þeim m.a. til fjarkennslu, samstarfs innbyrðis og samskipta við sambærileg tölvunet erlendra skóla. Fjárhagsstaða fyrirtækisins var hins vegar orðin afar erfið og blasti við að ef rekstur þess hefði komist í þrot hefði þessi netþjónusta skólanna stöðvast, þ.m.t. fjarnám um 300 nemenda. Í samræmi við niðurstöður skýrslu um stöðu fyrirtækisins og framtíðarhorfur tölvunetsins, og í samráði við ríkisstjórnina, ákvað menntamálaráðuneytið sl. sumar að ganga til kaupa á eignum og rekstri Íslenska menntanetsins. Kennaraháskóla Íslands hefur verið falið að annast starfsemina eftirleiðis. Sótt er um viðbótarheimild sem nemur kaupverðinu, 21 m.kr.

720    Grunnskólar, almennt. Leitað er heimildar á þessum lið fyrir auknum framlögum að fjárhæð 239 m.kr. í tengslum við flutning grunnskólans til sveitarfélaga. Fjárþörfin skýrist í fyrsta lagi af 175 m.kr. uppsöfnuðum rekstrarhalla grunnskólans á síðasta ári og á þessu ári. Í öðru lagi er gert ráð fyrir 34 m.kr. útgjöldum vegna biðlauna til starfsmanna sem ekki verða endurráðnir hjá sveitarfélögunum. Í þriðja lagi er 10 m.kr. fjárvöntun vegna hækkunar tryggingargjalds árið 1996 sem ríkið mun bæta sveitarfélögum með sérstöku framlagi. Í fjórða lagi er sótt um 15 m.kr. fjárheimild sem er ætluð til að mæta kostnaðarauka sveitarfélaga fram til 1. ágúst nk. vegna undirbúnings þeirra á yfirfærslu grunnskólans. Er það í samræmi við ákvæði samkomulags milli ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því í mars sl. um flutning grunnskólans milli stjórnsýslustiganna. Loks samþykkti ríkisstjórnin fyrr á árinu að leita eftir heimild í fjáraukalögum til þess að treysta fjárhagsstöðu einkaskóla áður en rekstur grunnskólans færðist til sveitarfélaga.

972    Íslenski dansflokkurinn. Farið er fram á 8 m.kr. aukafjárveitingu til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla. Hallinn var orðinn um 15 m.kr. í lok síðasta árs þrátt fyrir auknar fjárveitingar til dansflokksins á undanförnum árum, bæði í fjárlögum og fjáraukalögum. Rekstrarvandi flokksins stafar af því að haldið hefur verið uppi umfangsmeiri starfsemi en fjárheimildir hafa gefið tilefni til, sérstaklega með tilliti til fjölda uppsettra verka og sýninga. Skipuð hefur verið ný stjórn yfir dansflokkinn og hefur hún gert ráðstafanir til að koma böndum á reksturinn. Þá leysist hluti rekstrarvandans með því að 3,9 m.kr. fjárheimild er flutt frá Listdansskólanum í ár vegna uppgjörs á sameiginlegum kostnaði þeirra síðustu árin, auk þess sem flokkurinn fær um 1 m.kr. í launabætur umfram forsendur fjárlaga. Tillaga um viðbótarfjárveitingu er háð því að fyrir afgreiðslu frumvarpsins verði gerður þjónustusamningur um starfsemina við stjórn dansflokksins, enda verður fjárveitingin ekki greidd út að öðrum kosti.

982    Listir, framlög. Gerð er tillaga um 18,5 m.kr. hækkun á fjárheimild liðarins. Í fyrsta lagi er sótt um 15 m.kr. aukaframlag til stuðnings við Leikfélag Reykjavíkur í tilefni af 100 ára afmæli félagsins á næsta ári. Í frumvarpi til fjárlaga ársins 1997 er gert ráð fyrir 10 m.kr. framlagi til félagsins af sama tilefni. Í annan stað er óskað eftir viðbótarframlagi að fjárhæð 3,5 m.kr. vegna halla sem varð á Listahátíð í Reykjavík á árinu 1996. Reykjavíkurborg mun leggja fram jafn hátt mótframlag á þessu ári.

985    Alþjóðleg samskipti. Lagt er til að fjárheimild liðarins lækki um 18,7 m.kr. Allar greiðslur vegna aðildargjalda rammaáætlana Evrópusambandsins í ár hafa þegar verið inntar af hendi og reyndist fjárveiting hafa verið ofáætluð. Skýrist það að mestu af lækkaðri hlutdeild Íslands í heildarframlagi EFTA-ríkjanna. Gert hafði verið ráð fyrir að Ísland greiddi 5,4% af framlaginu en raunin varð að hlutfallið lækkaði í 4,93% vegna breytinga á landsframleiðslu ríkjanna.


03 Utanríkisráðuneyti



    Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytis verði aukin um 94 m.kr.

101    Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa. Gerð er tillaga um 21,5 m.kr. aukafjárveitingu vegna nokkurra útgjaldatilefna sem utanríkisráðuneytið gerði ekki ráð fyrir í fjárlagagerð sinni fyrir árið 1996. Í fyrsta lagi er sótt um aukið framlag vegna ráðherrafundar EFTA á Íslandi í júní sl., 5,2 m.kr., og ferðakostnaðar í tengslum við formennsku Íslands í samtökunum á þessu ári, 2,6 m.kr. Tillagan miðast við að hluti útgjaldanna verði greiddur af sérstöku framlagi sem veitt var í ár til aðalskrifstofu forsætisráðuneytisins í tengslum við formennsku Íslands í EFTA. Í öðru lagi er óskað eftir 6 m.kr. aukafjárveitingu til þess að mæta auknum ferðakostnaði, einkum vegna EES samstarfsins og þátttöku í Eystrasaltsráðinu, Barentshafsráðinu og Norðurskautsráðinu. Í þriðja lagi er leitað eftir 5,8 m.kr. fjárheimild vegna þátttöku Íslands í Habitat ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um búsetu og byggðaþróun, sem haldin var í Istanbúl sl. sumar. Útgjöldin skiptast annars vegar í laun starfsmanns, 2,8 m.kr., og hins vegar í ferðakostnað, 3 m.kr. Í fjórða lagi er farið fram á 1,9 m.kr. vegna prentkostnaðar í tengslum við fríverslunarsamninga, en hann stafar að mestu af endurgreiðslum til Stjórnartíðinda Alþingis. Í fjáraukalögum undanfarinna ára hafa verið veittar alls 25 m.kr. til aðalskrifstofunnar af því tilefni.

190    Ýmis verkefni. Sótt er um aukna heimild að fjárhæð 12 m.kr. til að mæta áætluðum útgjöldum vegna forræðismáls Sophiu Hansen í Tyrklandi á þessu ári. Um er að ræða ferðakostnað, styrk til samtakanna Börnin heim, auk greiðslna til ræðismanns Íslands í Istanbúl.

320    Sendiráð, almennt. Lagt er til að veitt verði 14,5 m.kr. viðbótarframlag vegna umframgjalda í rekstri sendiráða og fastanefnda. Utanríkisráðuneytið gerði í upphafi ársins áætlun um að jafnvægi yrði milli útgjalda og fjárveitinga á árinu, enda var veitt 69,3 m.kr. framlag í fjáraukalögum 1995 til að jafna uppsafnaðan rekstrarhalla. Síðan hefur komið fram kostnaður sem þær áætlanir gerðu ekki ráð fyrir, einkum hjá sendiráði Íslands í Brussel, París og Washington. Útgjaldaaukningin stafar að mestu af hækkunarákvæðum í húsaleigusamningum, breyttri samsetningu starfsmanna og fjölgunar starfsmanna frá öðrum fagráðuneytum. Gerð hefur verið sambærileg hækkun á framlögum til þessarar starfsemi í frumvarpi til fjárlaga ársins 1997.

391    Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi. Ríkisstjórnin samþykkti fyrr á árinu að veita framlag til endurreisnarstarfs í Bosníu-Herzegóvníu sem nemi alls 100 m.kr. á árunum 1996 til 1999, eða 25 m.kr. árlega. Því til viðbótar ákvað ríkisstjórnin að afla heimildar fyrir 10 m.kr. í fjáraukalögum sem skyldi ráðstafað í samvinnu við Alþjóðabankann. Þá hefur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkt ályktun um að aðildarríkin veiti Flóttamannastofnun samtakanna sérstakt framlag vegna flóttamannavandans á svæðinu og kemur í hlut Íslands að greiða 4,4 m.kr. vegna þessa. Loks er lagt til að veittar verði 3,4 m.kr. til fjárstuðnings vegna framkvæmdar kosninga í Bosníu. Alls er því leitað eftir 42,8 m.kr. fjárveitingu til endurreisnarstarfsins.

401    Alþjóðastofnanir. Gerð er tillaga um viðbótarheimild að fjárhæð 3,2 m.kr. vegna ákvarðana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um aukna friðargæslu annars vegar í Mósambik, 1,1 m.kr., og hins vegar í Angóla, 2,1 m.kr.


04 Landbúnaðarráðuneyti



    Lagt er til að fjárheimild landbúnaðarráðuneytis verði aukin um 98,5 m.kr.

190    Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um 6,5 m.kr. hækkun fjárheimildar á þessum lið af þremur tilefnum. Í fyrsta lagi var með breytingum á búvörulögum á haustþingi 1995, í tengslum við samþykkt GATT-samkomulagsins, komið á fót ráðgefandi nefnd til að fjalla um inn- og útflutning landbúnaðarvara samkvæmt ákvæðum laganna, einkum úthlutun tollkvóta, ákvörðun verðjöfnunargjalda og beitingu viðbótartolla. Leitað er eftir 4 m.kr. viðbótarframlagi til að standa straum af kostnaði við störf nefndarinnar á árinu 1996. Í frumvarpi til fjárlaga ársins 1997 hefur verið gert ráð fyrir samsvarandi fjárveitingu. Í öðru lagi samþykkti ríkisstjórnin fyrr á árinu að leita eftir heimild í fjáraukalögum til að greiða hluta kostnaðar við að halda á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna 8. fund vinnuhóps um hlutverk kvenna og fjölskyldna til sveita í atvinnuuppbyggingu dreifðra byggða í Evrópu. Um 50 erlendir ráðstefnugestir sóttu ráðstefnuna, einkum frá löndum Austur-Evrópu. Tillagan miðast við að 1 m.kr. af útgjöldum vegna ráðstefnunnar verði greidd af ráðstöfunarfé landbúnaðarráðherra. Loks er sótt um 1 m.kr. vegna aðildargjalds til Norður-Atlantshafslaxveiðinefndarinnar, NASCO. Samkvæmt gildandi samningi við NASCO ber Íslandi að greiða 3,7 m.kr. til samtakanna í ár. Við setningu fjárlaga 1996 var hins vegar gert ráð fyrir að aðildargjaldið yrði 2,7 m.kr. Landbúnaðarráðuneytið hefur talið viðmiðun árgjaldsins vera óeðlilega þar sem greitt hefur verið sama gjald fyrir hafbeitarlax og stangveiddan lax, en því fyrirkomulagi hefur ekki fengist breytt. Af þeirri ástæðu er ekki gert ráð fyrir framlagi til samtakanna í frumvarpi til fjárlaga ársins 1997. Leitað verður eftir nýju samkomulagi um greiðsluþátttöku Íslands með því móti að hagsmunaaðilar greiði aðildarframlagið.

801    Greiðslur vegna mjólkurframleiðslu. Farið er fram á að fjárheimild liðarins verði aukin sem nemi 90 m.kr. Í fyrsta lagi hækkaði grundvallarverð mjólkur um 4,71% 1. febrúar sl. samkvæmt ákvæðum búvörulaga vegna hækkunar á rekstrarkostnaði framleiðenda. Í annan stað var greiðslumark mjólkur aukið um 1 milljón lítra 1. september sl. í samræmi við gildandi búvörusamning. Loks hafa framangreindar breytingar í för með sér nokkra hækkun á framlagi ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs bænda.

841    Fiskeldisrannsóknir. Framlag ríkisins til þessa verkefnis er sett fram sem rekstrartilfærsla í fjárlögum en er að stærstum hluta varið til launagreiðslna. Við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1996 féll af tæknilegum orsökum niður útreikningur á launabótum til liðarins vegna kjarasamninga ársins 1995. Farið er fram á 2 m.kr. viðbótarheimild til að leiðrétta framlagið vegna þessa. Að öðru leyti munu framlög liðarins fara eftir ákvæðum þjónustusamnings sem landbúnaðarráðuneytið gerði við Stofnfisk hf. fyrr á árinu.

05 Sjávarútvegsráðuneyti



    Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegsráðuneytis verði aukin um 44,5 m.kr.

204    Fiskistofa. Á aðalfundi Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar, NAFO, haustið 1995 skuldbundu Íslendingar sig til þess að hafa eftirlitsmenn um borð í íslenskum skipum að veiðum á Flæmingjagrunni. Samkvæmt þágildandi lögum var ekki unnt að endurheimta eftirlitskostnaðinn hjá útgerðum viðkomandi skipa, líkt og gert er vegna veiða innan landhelgi Íslands. Þetta var hins vegar gert kleift með lögum nr. 99/1996, sem sett voru á síðasta vorþingi og tóku gildi 25. júní 1996. Farið er fram á 44,5 m.kr. aukafjárveitingu til þess að mæta útgjöldum við eftirlitið fram að gildistöku laganna.


06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti



    Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði aukin um 95,7 m.kr.

101    Dóms- og kirkjumálaráðuneyti, aðalskrifstofa. Farið er fram á aukna fjárheimild að fjárhæð 4 m.kr. til að greiða laun tveggja nýrra starfsmanna sem munu annast verkefni ráðuneytisins í tengslum við Schengen-samstarfið um landamæraeftirlit. Annar starfsmaðurinn verður staðsettur í sendiráði Íslands í Brussel og er ætlað að taka þar þátt í nefndastörfum og fundahöldum vegna samstarfsins. Hinn starfsmaðurinn mun sjá um uppsetningu á íslenskum hluta Schengen-upplýsingakerfisins ásamt tengingum þess við kerfi erlendra og innlendra eftirlitsaðila.

111    Kosningar. Lagt er til að fjárheimild liðarins verði hækkuð um 3,5 m.kr. þar sem útgjöld vegna forsetakosninga sl. sumar reyndust vera umfram það sem gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga.

232    Opinber réttaraðstoð. Með lögum sem sett voru á síðasta vorþingi er einstaklingum frá og með 1. júlí þessa árs veittur réttur á fjárhagsstuðningi sem getur numið allt að 250 þús. kr. í því skyni að afla sér réttaraðstoðar við gerð nauðasamninga. Farið er fram á 2,5 m.kr. viðbótarfjárveitingu til að mæta áætluðum útgjöldum við fjárhagsaðstoðina seinni hluta þessa árs. Þá er óskað eftir 20 m.kr. hækkun á fjárheimild liðarins vegna aukins kostnaðar við gjafsóknir en fjöldi mála hefur aukist verulega umfram forsendur gildandi fjárlaga. Í frumvarpi til fjárlaga ársins 1997 er gert ráð fyrir að fjárveiting liðarins hækki úr 9,4 m.kr. í 15,2 m.kr.

290    Dómsmál, ýmis kostnaður. Greiðslur vegna meðdómsmanna hafa orðið mun meiri á árinu en reiknað var með í fjárlögum. Óskað er eftir að fjárheimild liðarins verði hækkuð um 11 m.kr. vegna þessara lögboðnu útgjalda.
325    Neyðarsímsvörun. Leitað er eftir 14 m.kr. framlagi til að mæta fjárvöntun vegna samnings um starfrækslu neyðarsímsvörunar. Eftir að tillögur um fjárveitingar til verkefnisins höfðu verið settar fram í fjárlagafrumvarpi ársins 1996 breyttust forsendur samningsins um 15 m.kr. árlegt rekstrarframlag. Í samningnum sem dómsmálaráðuneytið gerði við Neyðarlínuna hf. síðla árs 1995 bættist við 7 m.kr. stofnkostnaður og aðrar 7 m.kr. til kynningarmála árin 1995 og 1996. Í frumvarpi til fjárlaga ársins 1997 hefur verið gert ráð fyrir sambærilegri hækkun framlags til þessarar starfsemi.

390    Ýmis löggæslukostnaður. Farið er fram á 16,2 m.kr. aukafjárveitingu á þessum lið af tveimur tilefnum. Hið fyrra tengist því að dómsmálaráðuneytið setti á árinu 1995 reglugerð um akstur og hvíldartíma ökumanna o.fl. vegna skuldbindinga í tengslum við EES-samninginn. Ráðuneytið gerði á þessu ári sérstakt samkomulag við Vegagerðina um að hafa umsjón með framkvæmd reglugerðarinnar, þar á meðal að skipuleggja og annast eftirlitskerfi með ökuritum í flutningabifreiðum samhliða eftirliti með þungaskattsmælum. Samningurinn felur í sér breytta tilhögun að því leyti að laun fjögurra lögreglumanna sem starfa með Vegagerðinni að eftirlitinu verða ekki lengur greidd af stofnuninni, heldur færast þau nú til dómsmálaráðuneytis. Óskað er eftir 9 m.kr. viðbótarframlagi til að mæta þeim kostnaði hluta ársins 1996. Gert hefur verið ráð fyrir samsvarandi fjárveitingu vegna málsins í frumvarpi til fjárlaga ársins 1997. Samkvæmt samkomulaginu við Vegagerðina fær stofnunin jafnframt greiddan stofnkostnað við verkefnið vegna tækjakaupa og smíði hugbúnaðar og er sótt um 5 m.kr. framlag af þeirri ástæðu. Síðara útgjaldatilefnið sem tengist þessum lið er að á árinu 1984 ákvað þáverandi fjármálaráðherra að taka upp þá tilhögun að ríkið greiddi helming af frjálsri hópslysatryggingu fyrir lögreglumenn. Dómsmálaráðuneytið hefur litið svo á að sú ákvörðun hafi til þessa verið bindandi sem hluti af heildarkjörum lögreglumanna samkvæmt kjarasamningum. Við flutning tryggingarinnar milli tryggingafélaga um síðustu áramót hækkuðu iðgjöldin um 60%. Þar sem um samningsbundin kjör er að ræða er leitað eftir 2,2 m.kr. viðbótarfjárveitingu til að standa undir hlutdeild ríkisins í þeirri hækkun. Fyrirhugað er að efna til útboðs á tryggingunum vegna næsta árs.

395    Landhelgisgæsla Íslands. Ríkisstjórnin ákvað fyrr á árinu að leita eftir heimild að fjárhæð 20 m.kr. í frumvarpi að fjáraukalögum vegna kostnaðar við að senda varðskip til að veita aðstoð og læknisþjónustu við fiskiskip að veiðum í Barentshafi. Síðla sumars voru yfir fimmtíu íslensk skip á svæðinu og var fjöldi sjómanna að störfum um borð í þeim á annað þúsund.

397    Schengen-samstarf. Ísland hefur haft áheyrnaraðild að Schengen-samstarfinu frá 1. maí 1996. Í því felst m.a. að leggja þarf til framlag vegna reksturs sameiginlegrar skrifstofu samstarfsaðilanna. Óskað er eftir 4,5 m.kr. fjárheimild til að greiða árgjald Íslands fyrir árið 1996.

07 Félagsmálaráðuneyti



    Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði aukin um 160,2 m.kr.

700    Málefni fatlaðra. Farið er fram á 10,2 m.kr. viðbótarfjárveitingu til viðfangsefnis sem ætlað er til að standa straum af launaútgjöldum vegna veikinda- og barnsburðarleyfa starfsfólks hjá stofnunum fatlaðra. Fjárvöntun hefur verið á liðnum undanfarin ár og hefur verið gert ráð fyrir sambærilegri hækkun í frumvarpi til fjárlaga ársins 1997.

795    Framkvæmdasjóður fatlaðra. Markaðar tekjur sjóðsins af erfðafjárskatti á árinu 1995 námu 398 m.kr. Framlag í fjárlögum ársins 1995 var hins vegar 330 m.kr. Þar af voru 20 m.kr. sérstök fjárveiting úr ríkissjóði til byggingar sambýla fyrir geðfatlaða. Leitað er eftir 88 m.kr. viðbótarheimild til að greiða til sjóðsins það sem vantar upp á innheimtar tekjur.

801    Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Sjóðurinn hefur fengið 1,4% af skatttekjum ríkisins á ári hverju í sinn hlut, auk 0,227% hlutdeildar í útsvarsstofni liðins árs. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun um ríkistekjur árið 1996 verða markaðar tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 62 m.kr. hærri en áætlað var við setningu fjárlaga. Lagt er til að fjárveiting til sjóðsins verði leiðrétt sem því nemur á sama hátt og í fjáraukalögum síðustu ára.


08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti



    Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 1.347,2 m.kr.

201    Tryggingastofnun ríkisins. Verulegur rekstrarhalli hefur myndast í starfseminni á árinu og áætlar stofnunin að hann verði orðinn 62,5 m.kr. í lok ársins. Um helmingur umframgjaldanna skýrist af hraðari uppbyggingu tölvukerfa en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum, einkum við smíði lyfjaeftirlitskerfis, lyfjaverðskrárkerfis og sérstaks kerfis fyrir læknadeild stofnunarinnar. Þá stafa um 20 m.kr. af hallanum af auknum launakostnaði, bæði vegna breytinga á launaflokkaröðun starfsmanna og vegna nýráðninga til að styrkja eftirlit með útgreiðslum stofnunarinnar. Loks er talið að um 10 m.kr. skorti á öflun sértekna miðað við forsendur fjárlaga. Gripið hefur verið til ráðstafana til að draga úr umframgjöldunum í rekstrinum, m.a. með fækkun starfsfólks. Þá er gert ráð fyrir að leysa úr 30 m.kr. af fjárvöntuninni með framlagi af rekstrarhagræðingarfé heilbrigðisráðuneytisins. Samsvarar það kostnaði við fjárfestingu í tölvukerfum á árinu, enda er talið að þau muni efla eftirlit stofnunarinnar með útgreiðslum og leiða til vinnusparnaðar. Í frumvarpi þessu er lagt til að veitt verði viðbótarframlag til að mæta afganginum af hallanum, eða sem nemur 32,5 m.kr. Þá hefur heilbrigðisráðuneytið gert ráð fyrir að fjárveiting til Tryggingarstofnunar hækki um 15,3 m.kr. í frumvarpi til fjárlaga ársins 1997. Þannig verði mætt þeim útgjaldaauka sem verður varanlegur og þar með verði rekstrarumfangi stofnunarinnar haldið innan markaðrar fjárveitingar í fjárlögum.

206    Sjúkratryggingar. Farið er fram á 830 m.kr. aukafjárveitingu til sjúkratrygginga vegna ýmissa frávika frá áformum og forsendum fjárlaga. Áætlun um lyfjakostnað bendir til að hann verði um 250 m.kr. hærri en stefnt var að í fjárlögum. Þá eru horfur á 165 m.kr. umframgjöldum vegna læknismeðferða erlendis miðað við fjárlög, en um 50 m.kr. af þeirri fjárhæð eru vegna ársins 1995. Einnig er áætlað að lækniskostnaður verði 150 m.kr. umfram heimildir fjárlaga. Þar af eru 100 m.kr. vegna gerðardóms um notkun á nýju segulómtæki hjá Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. og 50 m.kr. vegna áforma um aukna greiðsluþátttöku almennings í sérfræðikostnaði sem munu ekki ná fram að ganga að fullu. Þá er talið að útgjöld vegna rannsókna, röntgenmyndatöku og slysastofuaðgerða verði 90 m.kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Úgjöld vegna tannlækninga stefna í 70 m.kr. halla og munar þar mest um greiðslur vegna tannréttinga. Kostnaður við útvegun hjálpartækja leiðir til 45 m.kr. umframgjalda og virðist sem árangur af útboðum verði ekki sem skyldi. Loks er halli á þjálfunarkostnaði áætlaður 30 m.kr. Ýmsir aðrir liðir valda einnig um 30 m.kr. viðbótarútgjöldum.

371    Ríkisspítalar. Endurskoðuð rekstraráætlun spítalanna bendir til að halli yfirstandandi árs verði á bilinu 150 til 200 m.kr. Er þá gert ráð fyrir að hagræðingaraðgerðir sem ákveðnar voru í upphafi ársins gangi eftir. Þá nam halli síðasta árs 158 m.kr. Fjármálaráðuneytið og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið komu á fót sameiginlegum starfshópi sl. sumar til að fara yfir rekstrarvanda sjúkrahúsanna í Reykjavík og gera tillögur um hagræðingaraðgerðir. Á grundvelli þeirra tillagna hafa ráðuneytin nú ákveðið hvernig brugðist verði við vandanum. Í því skyni var gengið frá sérstöku samkomulagi við Reykjavíkurborg um aðgerðir í rekstri Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítala.
             Samkomulagið miðar að því að auka samvinnu sjúkrahúsanna og breyta verkaskiptingu milli þeirra á ýmsum sviðum. Öldrunarlækningadeildir verða áfram á báðum sjúkrahúsunum en sameiginleg þjónusta verður á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Endurhæfing verður starfrækt á Grensásdeild sameiginlega fyrir bæði sjúkrahúsin. Augndeild færist frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur til Landspítala. Skurðstofur og dagdeildir sem verið hafa á Landakoti flytjast til Borgarspítala, auk þess sem gerðar verða breytingar á verkaskiptingu og starfsskipulagi skurðstofa. Rekstur þvottahúsa sjúkrahúsanna verður sameinaður. Þá munu sjúkrahúsin hætta rekstri leikskóla í áföngum á árunum 1996 til 1999. Loks er stefnt að hagræðingu í myndgreiningu og starfsemi rannsóknarstofa sjúkrahúsanna. Áætlað er að þessar aðgerðir skili um 370 m.kr. sparnaði í rekstri sjúkrahúsanna miðað við heilt ár.
             Samkomulagið gerir ráð fyrir að veitt verði 200 m.kr. viðbótarframlag til Ríkisspítala á árinu og er leitað eftir heimild fyrir greiðslunni undir þessum lið í frumvarpinu. Framlagið miðast við að Ríkisspítalar vinni að öðru leyti á uppsöfnuðum rekstrarhalla sínum. Þá er það einnig forsenda samkomulagsins að rekstrarumfanginu á næsta ári verði haldið innan marka fjárveitingar í fjárlögum yfirstandandi árs.

375    Sjúkrahús Reykjavíkur. Áætlað er að rekstrarhalli sjúkrahússins verði um 250 m.kr. á árinu miðað við að hagræðingaraðgerðir sem ákveðnar voru snemma á árinu skili tilætluðum árangri. Því til viðbótar var uppsafnaður greiðsluhalli síðustu ára um 85 m.kr. Fjármálaráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og Reykjavíkurborg hafa gert með sér samkomulag til að leysa úr rekstrarvandanum með auknu samstarfi og hagræðingu hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Ríkisspítölum. Efnisatriðum samkomulagsins er gerð nánari skil í athugasemdum við 08-371 Ríkisspítalar.
             Í samræmi við það samkomulag er leitað eftir 230 m.kr. aukafjárveitingu. Þar af eru 48 m.kr. til greiðslu uppbóta á lífeyri fyrrverandi starfsmanna sjúkrahússins vegna áranna 1995 og 1996. Samkomulagið miðast við að sjúkrahúsið geri ráðstafanir í rekstrinum til þess að ekki þurfi frekari framlög vegna þessa árs eða fyrri ára. Þá er það einnig forsenda samkomulagsins að rekstrarumfanginu á næsta ári verði haldið innan marka fjárveitingar í fjárlögum yfirstandandi árs.
             Í samkomulaginu er jafnframt miðað við að leggja þurfi í 184 m.kr. stofnkostnað við að hrinda hagræðingaraðgerðum í framkvæmd, t.d. með breytingum á húsnæði. Þar af falla 135 m.kr. til á árinu 1996 og 49 m.kr. á árinu 1997. Þessari fjárþörf verður að mestu mætt með heimildum sem þegar eru fyrir hendi á nokkrum liðum fjárlaga, þ.e. á 08-385 Framkvæmdasjóði aldraðra, 09-481 Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum og 08-370 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Einnig er miðað við að 15 m.kr. verði aflað með sölu eigna. Hins vegar er gert er ráð fyrir að sölutekjurnar skili sér ekki fyrr en síðar og er því farið fram á viðbótarheimild til að leysa úr þeirri fjárvöntun í ár.
             Loks er sótt um 14,3 m.kr. aukafjárveitingu vegna skaðabóta sem sjúkrahúsið hefur verið dæmt til að greiða sjúklingi. Reykjavíkurborg, sem ber ábyrgð á starfseminni, hefur nú keypt tryggingar vegna mistaka sem kunna að verða í sjúkrameðferð.

399    Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Í fjárlögum ársins 1996 voru veittar 8,9 m.kr. til tóbaksvarnastarfs. Framlagið var miðað við ákvæði í lögum nr. 74/1984, um tóbaksvarnir, þar sem tilgreint var að 0,2% af brúttósölu tóbaks skyldi varið með þessum hætti. Á sl. vorþingi samþykkti Alþingi hins vegar lög nr. 101/1996, um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, þar sem m.a. er kveðið á um að hlutfallið hækki í 0,7% frá og með 1. júlí 1996. Óskað er eftir 11 m.kr. fjárheimild til að greiða út hækkun framlagsins eftir gildistöku þessa lagaákvæðis.

584    Heilsugæslustöðin Kópavogi. Tekist hefur samkomulag milli ríkisins og Kópavogskaupstaðar um fullnaðaruppgjör á kostnaði vegna kaupa, innréttinga og framkvæmda við heilsugæslustöð að Fannborg 7-9, Kópavogi, sem hófust á árinu 1978. Leitað er eftir 14,4 m.kr. viðbótarheimild til að greiða hlut ríkissjóðs í uppgjörinu.

09 Fjármálaráðuneyti



    Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 11.427 m.kr.

201    Ríkisskattstjóri. Sótt er um 10 m.kr. á þessum lið. Annars vegar var, í kjölfar nýlegrar lagasetningar um ársreikninga fyrirtækja og bókhald, ákveðið að fela ríkisskattstjóra að hafa með höndum móttöku og úrvinnslu ársreikninga, sem fyrirtækjum verður skylt að afhenda frá og með árinu 1996. Farið er fram á 5 m.kr. aukafjárveitingu í frumvarpinu vegna útgjalda við þetta verkefni, þar sem ekki var gert ráð fyrir þeim í gildandi fjárlögum. Hins vegar var í tengslum við lagabreytingar varðandi gjald af áfengi í lok síðasta árs ákveðið að flytja eftirlit með framleiðslu áfengis frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins til ríkisskattstjóra. Leitað er eftir heimild fyrir 5 m.kr. viðbótarframlagi til að mæta þessum auknu útgjöldum hjá embættinu. Samsvarandi hækkun er að finna í frumvarpi að fjárlögum ársins 1997.

381    Uppbætur á lífeyri. Óskað er eftir 70 m.kr. hækkun fjárheimildar af tveimur tilefnum. Í fyrsta lagi eykst fjárþörf á þessum lið vegna endurmats sem gert hefur verið á eftirlaunum fyrrverandi bankastjóra og aðstoðarbankastjóra Útvegsbanka Íslands. Lagt er til að fjárheimild verði hækkuð um 25 m.kr. til þess að gera upp vangreidd eftirlaun þeirra á tímabilinu frá desember 1993 til ágúst 1996. Áætlað er að árlegur kostnaðarauki vegna þessa verði eftirleiðis um 7 m.kr. og hefur verið gert ráð fyrir þeirri hækkun í frumvarpi að fjárlögum ársins 1997. Í annan stað bendir endurskoðuð áætlun til þess að uppbætur lífeyrisþega í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins hafi verið vanmetnar sem nemur 45 m.kr. og er farið fram á aukna heimild sem því nemur.

801    Ýmis lán ríkissjóðs, vextir. Farið er fram á hækkun heimildar á þessum lið sem nemur 10.850 m.kr. til að mæta aukinni fjárþörf frá áætlun fjárlaga. Í fyrsta lagi hækka vaxtagreiðslur af erlendum langtímalánum um 500 m.kr. Skýrist það einkum af því að þegar á þessu ári þarf að greiða vexti af nýju láni sem tekið var í ársbyrjun, en vanalega er fyrsta vaxtagreiðsla ári eftir lántöku, auk þess sem vaxtagreiðslur af lánum teknum á síðasta ári voru vanmetnar í áætlun fjárlaga. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að skammtímavextir og lántökukostnaður aukist um 250 m.kr. í tengslum við skammtímalántöku vegna sérstakrar innlausnar spariskírteina fyrr á árinu.
             Á miðju þessu ári var ákveðið að ráðast í endurfjármögnun á þremur flokkum spariskírteina ríkissjóðs sem gefin voru út á árinu 1986. Skírteinin báru 8-9% vexti auk verðtryggingar og áttu að endurgreiðast í síðasta lagi árið 2000, en heimilt var að segja þeim upp sl. sumar þannig að þau bæru ekki vexti eða verðbætur eftir það. Heildarandvirði innlausnarinnar nam um 17,3 milljörðum króna. Eigendum skírteinanna var boðið að skipta á þeim og nýjum ríkisverðbréfum í sérstöku skiptiútboði og tókst að afla 12,3 milljörðum króna með þeim hætti. Afgangurinn var fjármagnaður með skammtímalántöku. Áætlað er að með þessari aðgerð verði vaxtaútgjöld ríkissjóðs rúmlega 2 milljörðum króna lægri alls næstu þrjú árin en ella hefði orðið. Á rekstrargrunni munu útgjöld ríkissjóðs því lækka vegna minni vaxtakostnaðar. Við uppgjör á greiðslugrunni þessa árs munu uppsafnaðir vextir og verðbætur innleystu skírteinanna á hinn bóginn færast til bókar í einu lagi sem útgjöld, eða alls 10,1 milljarður króna, umfram það sem ætlað var við setningu fjárlaga. Leitað er eftir fjárheimild sem því nemur í frumvarpinu.

989    Launa- og verðlagsmál. Alls er leitað eftir 247 m.kr. viðbótarframlagi til greiðslu launabóta af þessum lið á árinu 1996. Fyrst skal nefnt að í forsendum fjárlaga 1996 var lagt mat á launabætur til lögregluembætta dómsmálaráðuneytisins vegna kjarasamninga sem gerðir voru á árinu 1995. Í matinu láðist að reikna með 1,4% hækkun á kjörum lögreglumanna sem tók gildi í maí 1995. Sú hækkun var gerð í samræmi við samkomulag í tengslum við kjarasamning lögreglumanna, þar sem kveðið er á um að laun þeirra skuli borin saman við umsamin kjör stéttarfélaga annarra ríkisstarfsmanna tvisvar á ári og hækkuð til jafns við þá samninga þegar tilefni er til. Auka þarf fjárheimildir um 45 m.kr. til að bæta embættunum þessar launahækkanir. Þar af eru 20 m.kr. vegna ársins 1995 og 25 vegna ársins 1996. Undir lok síðasta árs leiddi sama samanburðarákvæði til þess að lögreglumönnum var ákvörðuð 6,1% launahækkun og tollvörðum 7% hækkun, sem ekki var heldur gert ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Fjárþörf vegna þessara launabóta nemur 120 m.kr.
             Í öðru lagi er fjárvöntun á liðnum sem nemur 50 m.kr. vegna launabóta til heilbrigðisstofnana þar sem við afgreiðslu fjárlaga lá ekki fyrir að hjúkrunarfræðingar mundu fá 3% hækkun í ársbyrjun 1996 til viðbótar við gildandi kjarasamning sinn. Launabætur að fjárhæð 64 m.kr. vegna hjúkrunarfræðinga sem starfa á sjúkrahúsunum í Reykjavík eru undanskildar hér því þær eru innifaldar í framlögum sem sótt er um undir þeim fjárlagaliðum í frumvarpinu.
             Í þriðja lagi er leitað eftir 25 m.kr. viðbótarheimild til að mæta auknum launakostnaði hjá stofnunum fatlaðra í kjölfar launaflokkahækkana vegna námskeiða samkvæmt kjarasamningum ársins 1995. Hækkanirnar höfðu ekki verið metnar inn í launaforsendur við setningu fjárlaga 1996. Í frumvarpi til fjárlaga 1997 hefur hins vegar verið gerð sambærileg hækkun á launalið stofnananna.
             Í fjórða lagi er lagt til að fjárheimild liðarins verði aukin um 7 m.kr. til að hækka launabætur til presta. Kjaranefnd birti nýjan úrskurð um laun presta skömmu eftir setningu fjárlaga og fól hann í sér heldur meiri hækkun en gert hafði verið ráð fyrir.
             Loks er á þessum lið sótt um heimild í einu lagi til breytinga á fjárveitingum fjárlaga yfirstandandi árs með tilliti til greiðslustöðu fjárlagaliða í lok síðasta árs, þ.e. miðað við óhafnar fjárveitingar og umframgjöld ársins 1995. Þær tillögur voru kynntar og skýrðar nánar í greinargerð með frumvarpi til síðari fjáraukalaga ársins 1995. Þessar heimildir nema alls 1.624 m.kr. Þar af eru 3 m.kr. til lækkunar á rekstrarheimildum stofnana, 604 m.kr. til hækkunar á tilfærsluheimildum og 1.023 m.kr. heimildir til hækkunar á viðhaldi og stofnkostnaði. Sundurliðun tillagna um óhafnar fjárveitingar og umframgjöld ráðuneyta og einstakra fjárlagaliða kemur fram í fylgiskjali 1. 999    Ýmislegt. Lagt er til að fjárheimild liðarins verði hækkuð alls um 250 m.kr. vegna náttúruhamfaranna á Súðavík og Flateyri. Ríkisstjórnin ákvað fyrr á árinu að leita eftir viðbótarframlagi í frumvarpi til fjáraukalaga til að styrkja gatnagerðarframkvæmdir sveitarfélagsins á Súðavík í kjölfar snjóflóðsins sem þar féll á síðasta ári. Heildarkostnaður framkvæmdanna er áætlaður 175 m.kr. Þar af hefur Bjargráðasjóður greitt tæplega 9 m.kr. en ríkissjóður fjármagnar afganginn, enda verða engin gatnagerðargjöld lögð á vegna nýrrar byggðar í Súðavík. Ríkissjóður mun einnig greiða sölutap á sumarhúsum sem nýtt voru sem bráðabirgðahúsnæði en hafa nú að hluta verið rýmd og seld. Þá hefur ríkissjóður á þessu og síðasta ári greitt um 43 m.kr. af ýmsum útgjöldum, s.s. við björgunarstörf og hreinsun, eða um 13 m.kr. umfram 30 m.kr. framlag sem veitt var í fjáraukalögum ársins 1995. Alls er því farið fram á 183 m.kr. viðbótarfjárveitingu vegna veittrar aðstoðar í kjölfar snjóflóðsins á Súðavík. Í annan stað hefur ríkissjóður á síðasta ári og þessu ári greitt 102 m.kr. vegna ýmiss kostnaðar sem hlaust af snjóflóðinu á Flateyri á liðnu ári. Þar er einkum um að ræða kostnað við björgunarstörf og hreinsun svæðisins en einnig voru keypt 8 sumarhús fyrir 28 m.kr. sem nýtt hafa verið sem bráðabirgðahúsnæði. Í fjáraukalögum ársins 1995 voru veittar 35 m.kr. til þessarar aðstoðar. Í frumvarpinu er sótt um viðbótarheimild fyrir þeim útgjöldum sem fallið hafa til umfram það framlag, eða 67 m.kr.


10 Samgönguráðuneyti



    Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði aukin um 364 m.kr.

211    Vegagerðin. Farið er fram á viðbótarframlag að fjárhæð 277 m.kr. Annars vegar er um að ræða breytingar á mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar sem ákvarðaðar voru í þingsályktun um vegáætlun eftir setningu fjárlaga. Af því tilefni er í fyrsta lagi lagt til að 100 m.kr. tekjuaukning af bensíngjaldi renni til stofnunarinnar. Í öðru lagi fái stofnunin 34 m.kr. vegna aukinna tekna í kjölfar hækkunar á þungaskatti, sem gerð var til að mæta lækkun tekna af bensíngjaldi þegar sölu blýbensíns var hætt. Í þriðja lagi er sótt um 50 m.kr. sem fyrirhugað var að afla með sérstöku innheimtuátaki í þungaskatti samkvæmt vegáætlun. Hins vegar er gert ráð fyrir 93 m.kr. hækkun fjárheimildar til viðbótar þessu vegna bættrar innheimtu þungaskatts um 75 m.kr., auk 18 m.kr. til að vega upp tekjutap vegna tímabundinnar lækkunar á bensíngjaldi sem ákveðin var fyrr á árinu til að jafna sveiflur í bensínverði. Gert er ráð fyrir að þessar 93 m.kr. sem er óráðstafað samkvæmt vegáætlun gangi til að mæta hluta af umframgjöldum við gerð jarðganga á Vestfjörðum.

471    Flugmálastjórn. Farið er fram á 87 m.kr. fjárheimild vegna endurnýjunar á flugvél stofnunarinnar. Flugvélin er 22 ára gömul og leiðsögutæki hennar orðin úr sér gengin. Gert er ráð fyrir að sú vél gangi upp í kaupverð nýrri flugvélar og að skiptiverðið nemi 107 m.kr. Stofnunin mun sjálf leggja 20 m.kr. til kaupanna á þessu ári. Þær 87 m.kr. sem þá skortir og sótt er um í frumvarpinu eru skilyrtar því að þær verði endurgreiddar með lækkun á rekstrarframlagi ríkissjóðs til Flugmálastjórnar í fjárlögum næstu tíu ára. Stofnunin mun mæta því með auknum tekjum af rekstri flugvélarinnar. Áður hafði verið fyrirhugað að stofnunin tæki lán til kaupanna og var gert ráð fyrir því með ákvæði í lánsfjárlögum. Fallið hefur verið frá þeirri tilhögun.

472    Flugvellir. Útlit er fyrir að markaðir tekjustofnar flugmálaáætlunar, þ.e. flugvallargjald og eldsneytisgjald, skili 80 m.kr. umfram það sem reiknað var með við setningu fjárlaga. Í frumvarpinu er lagt til að sértekjur hækki sem þessu nemur og jafnframt að tekjuaukanum verði varið til flugvallarframkvæmda. Heildarfjárveiting liðarins verður eftir sem áður sú sama og í fjárlögum.


11 Iðnaðarráðuneyti



    Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði aukin um 19,2 m.kr.

299    Iðja og iðnaður, framlög. Óskað er eftir aukinni fjárheimild að fjárhæð 1,7 m.kr. til að mæta útgjöldum Staðlaráðs Íslands vegna aðildar að Alþjóðastaðlasamtökunum, ISO, sem leiðir af skuldbindingum í samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO.

399    Ýmis orkumál. Leitað er eftir 17,5 m.kr. viðbótarframlagi til Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar vegna undirbúningsathugana og viðræðna um stóriðjuframkvæmdir. Erlend fyrirtækjasamsteypa hefur í samvinnu við íslenska aðila unnið að hagkvæmniathugun á rekstri magnesíumverksmiðju hér á landi. Niðurstöður úr fyrri hluta athugunarinnar voru jákvæðar og hefur þegar verið samið um að hanna verksmiðjuna. Gert er ráð fyrir að markaðsskrifstofan styrki verkefnið um 10 m.kr. Á móti þessu framlagi ríkisins kemur jafn hátt framlag frá Landsvirkjun. Þá hefur kostnaður við könnunarviðræður um álverksmiðjur orðið 7,5 m.kr. hærri en ætlað var við setningu fjárlaga vegna vaxandis áhuga erlendra aðila á fjárfestingartækifærum hér á landi. Þar er einkum um að ræða Atlantsáls-hópinn, kínverska aðila, Hydro Aluminum og Columbia-fyrirtækið.


14 Umhverfisráðuneyti



    Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði aukin um 15,3 m.kr.

221    Hollustuvernd ríkisins. Farið er fram á 5,3 m.kr. aukafjárveitingu af tveimur tilefnum. Í fyrsta lagi hefur stofnunin um nokkurt skeið átt við uppsafnaðan fjárhagsvanda að etja. Sérstakri starfsnefnd var falið að taka málið til athugunar og í framhaldi af því hafa fjármálaráðuneyti og umhverfisráðuneyti gert með sér samkomulag um málefni stofnunarinnar. Það gerir ráð fyrir að með lagafrumvarpi verði gerðar breytingar á stjórnskipulagi stofnunarinnar sem taki gildi í ársbyrjun 1997 og miði að því að fækka starfssviðum. Þá verði sértekjuöflun aukin og verkefni boðin út í ríkari mæli. Samkomulagið miðast við að leitað verði eftir 3,5 m.kr. aukaframlagi í frumvarpi til fjáraukalaga 1996 vegna rekstrarhalla frá árinu 1995. Einnig er gert ráð fyrir að í fjárlagafrumvarpi ársins 1997 hækki fjárveiting til stofnunarinnar varanlega um 7 m.kr. og tímabundið um 8 m.kr. Í öðru lagi samþykkti Alþingi á sl. vorþingi lög um erfðabreyttar lífverur til þess að standa við skuldbindingar sem felast í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Hollustuvernd ríkisins mun hafa yfirumsjón með framkvæmd laganna og hefur verið ráðinn starfsmaður til að annast það eftirlit. Sótt er um 1,8 m.kr. aukafjárveitingu til að mæta kostnaði sem fellur til á þessu ári umfram gjaldtöku fyrir meðferð líftækniumsókna.

410    Veðurstofa Íslands. Ríkisstjórnin samþykkti sl. sumar að leita eftir heimild í frumvarpi til fjáraukalaga 1996 fyrir 10 m.kr. viðbótarframlagi til endurbóta á húsnæði Veðurstofunnar. Stofnunin flutti í núverandi húsnæði að Bústaðavegi 9 árið 1973 en það er samtals um 2.000 m 2 að flatarmáli. Starfsmenn stofnunarinnar í Reykjavík voru þá 25-30 manns. Þeim hefur hins vegar fjölgað í um 65 og eru húsnæðisþrengsli farin að standa starfseminni fyrir þrifum. Til þess að leysa þennan vanda er fyrirhugað að breyta fyrrum fjarskiptasal í skrifstofur og að stækka efstu hæð hússins. Framkvæmdirnar verða að hluta til fjármagnaðar með 5 m.kr. viðhaldsframlagi í fjárlögum yfirstandandi árs, auk þess sem sú fjárhæð hækkar í 10,4 m.kr. í fjárlagafrumvarpi næsta árs.





Fylgiskjal I.




TAFLA , 8 bls.