Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 69 . mál.


69. Tillaga til þingsályktunar



um stuðning við konur í Afganistan.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Kristín Halldórsdóttir.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér á alþjóðavettvangi til stuðnings konum í Afganistan sem nú hafa verið sviptar nánast öllum mannréttindum. Þá skorar Alþingi á ríkisstjórnina að hvetja þjóðir heims til nauðsynlegra aðgerða gegn stjórnvöldum í Afganistan sem dugi til þess að þau sjái að sér og virði alþjóðasáttmála um almenn mannréttindi og réttindi kvenna.

Greinargerð.


    Um áratuga skeið hefur geysað borgarastyrjöld í því fjarlæga fjallalandi Afganistan. Fyrir nokkrum vikum komst þar til valda skæruliðahreyfing Talebana sem fylgir strangtrúarstefnu múslima, en hún hefur það m.a. í för með sér að mjög er þrengt að konum í daglegu lífi. Þeim hefur verið bannað að vera utan dyra nema í fylgd karlmanns úr fjölskyldunni, þeim ber að hylja andlit sitt með öllu, þær mega ekki lengur ganga í skóla og ekki vinna fyrir sér. Afleiðingar þessarar stefnu eru að heilbrigðiskerfi landsins er lamað. Margar konur hafa læknismenntun, eins og reyndar tíðkast í ríkjum múslima þar sem karlar mega ekki koma nálægt sér óskyldum konum, en kvenlæknar mega ekki lengur starfa. Þá gefur auga leið að eftir svo langvarandi styrjaldarástand er fjöldi ekkna og munaðarleysingja í landinu þannig að vandséð er hvernig hægt er að banna konum að vera einum utan dyra og að vinna fyrir sér.
    Alvarlegast er þó að með aðgerðum sínum þverbrjóta hin nýju stjórnvöld þau mannréttindi sem konum eru tryggð í alþjóðlegum sáttmálum og voru þau þó ekki beysin fyrir. Það er nöturlegt að horfa upp á afturhvarf til lifnaðarhátta sem svipta konur réttindum og möguleikum til að sjá sér og sínum farborða. Þjóðir heims eiga ekki að líða mannréttindabrot, hvorki í Afganistan né annars staðar.
    Megintilgangur þessarar tillögu er að hvetja íslensk stjórnvöld til að beita sér hvar sem því verður við komið í þágu kvenna í Afganistan. Fram undan er umræða á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna og mannréttindi almennt og þar geta íslensk stjórnvöld beitt sér af krafti. Þá geta þjóðir heims gripið til aðgerða gegn stjórnvöldum í Afganistan, svo sem vopnasölu- og viðskiptabanni og stórhertu landamæraeftirliti, en sem kunnugt er fjármagna skæruliðahreyfingarnar baráttu sína með sölu á eiturlyfjum. Íslenskum stjórnvöldum ber að standa vörð um mannréttindi og því skora flutningsmenn á ríkisstjórnina að grípa þegar í stað til sinna ráða.