Ferill 73. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 73 . mál.


73. Frumvarp til laga


um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)


I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

    Tilgangur laga þessara er að draga sem mest úr hættu og tjóni af raforkuvirkjum, neysluveitum og rafföngum og truflunum af völdum starfrækslu þeirra.

2. gr.

    Ákvæði laga þessara ná til virkja í landi og á skipum en ekki til virkja annarra farartækja, svo sem flugvéla og bifreiða.
    Ef ágreiningur verður um það hvort tiltekin virki falli undir lög þessi sker ráðherra úr.

3. gr.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér segir:
     Ábyrgðarmaður: Eigandi, umráðamaður eða annar sá sem tilnefndur hefur verið til að annast uppsetningu eða rekstur raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga og ber ábyrgð á lögmætu ástandi þeirra.
     Innra eftirlit: Skilgreint eftirlitskerfi til að tryggja að kröfum um gæði vinnu og öryggi búnaðar, sem gerðar eru í samræmi við lög og reglugerðir, sé fullnægt.
     Innra eftirlitskerfi: Kerfisbundnar ráðstafanir sem tryggja að starfsemi sé samkvæmt kröfum laga og reglugerða og sönnur eru færðar á með skráningu.
     Löggiltur rafverktaki: Sá sem hlotið hefur löggildingu Löggildingarstofu til rafvirkjunarstarfa.
     Neysluveita: Raflögn og raflagnabúnaður innan við stofnkassa (eða búnað sem gegnir hlutverki stofnkassa).
     Raffang: Hvers konar hlutur sem kemur að gagni við nýtingu rafmagns.
     Raforkuvirki: Mannvirki til vinnslu og dreifingar rafmagns.
     Rafskoðunarstofa: Faggiltur óháður aðili sem hefur starfsleyfi frá Löggildingarstofu til að annast skoðanir á raftæknisviði.
     Rafveita: Fyrirtæki sem framleiðir, flytur, dreifir og/eða selur rafmagn.
     Skoðun: Faglegt mat á hönnun raforkuvirkja, frágangi þeirra og samsetningu eða þjónustu við þau til að ákvarða samræmi þeirra við kröfur gildandi laga, reglugerða og annarra lögmætra fyrirmæla.
     Virki: Samheiti fyrir raforkuvirki, neysluveitur og rafföng.
     Yfireftirlit: Eftirlit með að ákvæðum þessara laga sé fylgt í framkvæmd með fullnægjandi hætti í samræmi við lögin og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra.

II. KAFLI

Öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

4. gr.

    Raforkuvirki, neysluveitur og rafföng skulu vera þannig úr garði gerð, notuð, þeim haldið við og eftir þeim litið að hætta af þeim fyrir heilsu og öryggi manna og dýra, svo og hætta á umhverfisspjöllum, verði svo lítil sem við verði komið.
    Virki þessi mega ekki hafa í för með sér hættu á tjóni á eignum manna eða hættu á truflunum á starfrækslu virkja sem fyrir eru. Sé unnt að afstýra því með öryggisráðstöfunum skulu þær gerðar á kostnað eigenda hinna nýju virkja. Þó má skylda eiganda hinna eldri virkja til að bera nokkurn hluta kostnaðarins ef framkvæmd öryggisráðstafana er til verulegra hagsbóta fyrir starfrækslu þeirra framvegis. Svo má og ákveða að eigandi eldri virkja skuli kosta að nokkru eða öllu leyti öryggisráðstafanir sem framvegis verða hluti af hans virkjum og hans eign, ef þær eru nauðsynlegar sökum þess að hin eldri virki hafa verið ófullkomnari eða miður trygg en venja er til eða krafist er um ný virki á þeim tíma þegar ráðstafanir koma til framkvæmda.
    Rafföng, neysluveitur og raforkuvirki má því aðeins setja á markað og taka í notkun að hönnun þeirra, gerð og frágangur stofni ekki öryggi manna og dýra, umhverfi eða eignum í hættu þegar þau eru rétt upp sett, þeim við haldið og þau notuð með þeim hætti sem til er ætlast.

5. gr.

    Ábyrgðarmenn raforkuvirkja og neysluveitna bera ábyrgð á að þau séu í lögmætu ástandi. Á sama hátt skulu framleiðendur, innflytjendur og seljendur raffanga bera ábyrgð á lögmætu ástandi við sölu þeirra.
    Í því skyni að tryggja öryggi raforkuvirkja og rekstur þeirra sem frekast er unnt skulu ábyrgðarmenn raforkuvirkja rafveitna og stóriðjuvera, samkvæmt ákvörðun ráðherra, koma upp innra eftirlitskerfi með virkjum sem að mati Löggildingarstofu uppfyllir skilyrði laga þessara. Einnig skulu rafverktakar koma upp innra eftirliti með eigin starfsemi sem að mati Löggildingarstofu uppfyllir skilyrði laga þessara. Ráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um innri eftirlitskerfi og viðurkenningu Löggildingarstofu á þeim, svo og um skyldur ábyrgðarmanna.

III. KAFLI

Rafmagnseftirlit.

6. gr.

    Yfireftirlit með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga samkvæmt lögum þessum skal vera í höndum Löggildingarstofu.
    Hlutverk Löggildingarstofu á sviði rafmagnsöryggis skal m.a. vera eftirfarandi:
    vera ráðherra til ráðuneytis um rafmagnsöryggismál;
    hafa faglega umsjón með framkvæmd rafmagnsöryggismála;
    annast löggildingu rafverktaka, veita skoðunarstofum og ábyrgðarmönnum rafveitna starfsleyfi, ákveða viðurlög og beita sviptingum ef skilyrði leyfis eru ekki uppfyllt eða lögboðnar skyldur eru vanræktar;

    skera úr ágreiningi um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, svo og skera úr um til hvaða öryggisráðstafana skuli grípa til að afstýra hættu og hver beri ábyrgð á og kostnað af framkvæmd úrbóta.

7. gr.

    Með reglubundum hætti skal fara fram skoðun á því hvort raforkuvirki, neysluveitur og rafföng og starfsemi þeirra er hlotið hafa löggildingu eða starfsleyfi Löggildingarstofu uppfylli ákvæði þessara laga. Í reglugerð skal setja nánari ákvæði um tíðni, umfang og framkvæmd skoðana sem skulu vera í samræmi við þá hættu sem stafar af viðkomandi gerð virkja.

8. gr.

    Einstaklingar og lögaðilar sem stofna vilja til reksturs rafskoðunarstofu skulu sækja um starfsleyfi til Löggildingarstofu. Til að öðlast slík leyfi skal skoðunarstofa vera faggilt í samræmi við lög um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992.
    Starfsleyfi skulu ná til landsins alls og vera veitt til fimm ára í senn. Löggildingarstofa getur að undangenginni áminningu svipt rafskoðunarstofu starfsleyfi ef hún fullnægir ekki lengur skilyrðum leyfisins eða vanrækir skyldur sínar.

9. gr.

    Hlutverk rafskoðunarstofa í eftirliti með vörnum gegn hættu og tjóni af raforkuvirkjum, neysluveitum og rafföngum skal vera sem hér greinir:
    að skoða ný og eldri raforkuvirki, og neysluveitur;
    að skoða innra eftirlitskerfi rafveitna og framkvæmd þess;
    að skoða aðstöðu og búnað rafverktaka;
    að skoða innra eftirlitskerfi rafverktaka og framkvæmd þess;
    að hafa eftirlit með rafföngum og raforkuvirkjum á markaði.
    Í þeim tilvikum sem ekki er fyrir hendi faggilt rafskoðunarstofa til þess að annast skoðanir á tilteknu sviði skal Löggildingarstofa annast þær og sú starfsemi vera faggilt.

10. gr.

    Starfsmenn Löggildingarstofu og starfsmenn rafskoðunarstofa sem hafa starfsleyfi á rafmagnsöryggissviði skv. 8. gr. skulu ætíð hafa óhindraðan aðgang að raforkuvirkjum, neysluveitum, starfsstöðum rafverktaka og rafföngum sem til skoðunar eru hverju sinni og rétt til að taka sýni og gera þær athuganir og rannsóknir sem nauðsynlegar eru taldar í því skyni að varna hættu á tjóni af völdum rafmagns. Ábyrgðarmenn raforkuvirkja og neysluveitna og rafverktakar, svo og framleiðendur og innflytjendur raffanga, skulu veita þá aðstoð og upplýsingar er þörf krefur og óskað er eftir.

11. gr.

    Telji starfsmenn rafveitna, rafskoðunarstofa eða rafverktaki að tiltekin neysluveita, rafföng eða hvers konar hlutar raforkuvirkja séu varhugaverðir eða uppfylli ekki skilyrði laga þessara skal án tafar senda tilkynningu þess efnis til Löggildingarstofu. Tilkynning skal einnig send til Löggildingarstofu ef skoðunarstofa telur að tiltekinn rafverktaki, starfsmaður rafveitu eða ábyrgðarmaður rafveitu uppfylli ekki ákvæði laga þessara.
    Berist Löggildingarstofu tilkynning skv. 1. mgr. þessarar greinar eða verði hún að öðru leyti þess áskynja að hætta kunni að stafa af tilteknum virkjum, skal stofnunin tafarlaust grípa til þeirra úrræða sem grein þessi mælir fyrir um.
    Leiki rökstuddur grunur á því að tiltekin virki uppfylli ekki skilyrði laga þessara eða reglugerða á grundvelli þeirra getur Löggildingarstofa tímabundið bannað sölu eða notkun á meðan rannsókn fer fram í málinu.
    Leiði rannsókn Löggildingarstofu í ljós að tiltekin virki uppfylli ekki skilyrði laga þessara eða reglugerða á grundvelli þeirra getur Löggildingarstofa bannað sölu þeirra, stöðvað notkun, bannað uppsetningu og krafist niðurtöku og innköllunar.
    Telji Löggildingarstofa að einstaklingur eða lögaðili sem starfar samkvæmt leyfi eða löggildingu hennar hafi brotið ákvæði leyfisins eða löggildingarinnar skal stofnunin, áður en gripið er til leyfissviptingar, senda viðkomandi fyrirmæli þar sem tilgreina skal ávirðingar, benda á leiðir til úrbóta og tilgreina fyrir hvaða tíma framkvæma skuli úrbætur.
    Ákvörðunum og fyrirmælum Löggildingarstofu má skjóta til úrskurðar ráðherra en málskot frestar ekki framkvæmd ákvörðunar.

12. gr.

    Starfsmenn Löggildingarstofu og rafskoðunarstofa eru bundnir þagnarskyldu um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu og atvinnuleynd hvílir yfir. Það skal þó ekki vera því til fyrirstöðu að Löggildingarstofa birti opinberlega upplýsingar um hættuleg raforkuvirki, neysluveitur og rafföng ef brýna nauðsyn ber til sökum þess að af hlutum þessum stafar hætta.

13. gr.

    Ráðherra setur í reglugerð um raforkuvirki ákvæði til varnar hættu og tjóni af rafmagni og til varnar truflunum á starfrækslu raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga sem fyrir eru eða síðar kunna að koma.
    Í reglugerð skal setja ákvæði um:
    gerð, tilhögun, setningu, starfrækslu og eftirlit með raforkuvirkjum og neysluveitum, svo og öðrum mannvirkjum sem sett eru eða notuð svo nálægt raforkuvirkjum og neysluveitum að tjón, hætta eða tilfinnanleg truflun geti stafað af;
    framkvæmd og tilhögun yfireftirlits Löggildingarstofu;
    ábyrgð ábyrgðarmanna á ástandi virkja og meðferð þeirra;
    takmörkun á eða bann við innflutningi, sölu, smíði innan lands og notkun raffanga og einstakra hluta raforkuvirkja eða neysluveitna sem fullnægja ekki settum skilyrðum;
    skyldur ábyrgðarmanna til þess að tilkynna, gefa skýrslu um og halda skrá yfir raforkuvirki og neysluveitur sem fyrir hendi eru, um ný virki og aukningu og endurbætur eldri virkja;
    heimild til handa Löggildingarstofu til að láta stöðva um stundarsakir starfrækslu raforkuvirkja eða neysluveitna og rjúfa rafstraum hjá einstökum notendum og fyrirtækjum sem hlíta ekki ákvæðum laga þessara og reglugerða á grundvelli þeirra, svo og svipta þá löggildingu eða starfsleyfi sem gerst hafa brotlegir við lög þessi eða reglugerðir á grundvelli þeirra;
    eftirlit með raforkuvirkjum, neysluveitum og rafföngum, innfluttum eða smíðuðum innan lands;
    starfsleyfi tilnefndra ábyrgðarmanna rafveitna, starfsleyfi rafskoðunarstofa, löggildingu rafverktaka og um skilyrði sem fullnægja þarf;
    fræðslu og upplýsingar til almennings um hættu af rafmagni og leiðir til að verjast henni;
    birtingu niðurstaðna skoðana, upplýsinga um slys og tjón og annarra upplýsinga um rafmagnsöryggismál;
    heimildir Löggildingarstofu til að setja nánari reglur um gerð, tilhögun, eftirlit og starfrækslu raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, svo og um starfsemi og skoðunaraðferðir rafskoðunarstofa og starfsemi rafveitna og rafverktaka.
    Í reglugerð er ráðherra m.a. heimilt að setja ákvæði um:
    að í viðskiptum með íbúðarhúsnæði skuli seljandi leggja fram skýrslu rafskoðunarstofu eða rafverktaka um ástand neysluveitunnar. Um ástandsskoðanir þessar skulu settar sérstakar reglur;
    raforkuvirki eða rafföng sem falla ekki undir ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, þar með taldar bókanir hans og viðauka.

IV. KAFLI

Gjaldtaka.

14. gr.

    Til reksturs rafmagnsöryggismála sem Löggildingarstofu eru falin samkvæmt lögum þessum skal aflað fjár á eftirfarandi hátt:
    Vegna yfireftirlits Löggildingarstofu með rafveitum skulu rafveitur árlega greiða til stofnunarinnar gjald sem nemur allt að 0,2% af heildartekjum þeirra af raforkusölu og leigu mælitækja, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti. Ef eigandi raforkuvers notar sjálfur alla orku sem þar er unnin eða verulegan hluta hennar og hún er ekki mæld eða verðlögð eða ekki er vitað um tekjur af raforkusölu skal hann greiða gjald af áætlaðri notkun. Undanþegin ákvæðum þessa töluliðar er raforkusala til Íslenska álfélagsins hf. og Íslenska járnblendifélagsins hf.
    Vegna úrtaksskoðana sem Löggildingarstofa lætur framkvæma á búnaði rafveitna og skoðana á innra eftirliti þeirra skulu rafveitur greiða skoðunarkostnað samkvæmt gjaldskrá sem Löggildingarstofa gefur út og ráðherra staðfestir.
    Vegna yfireftirlits Löggildingarstofu og úrtaksskoðana sem stofnunin lætur framkvæma á búnaði stóriðjuvera sem kaupa eða framleiða raforku sem undanskilin er gjaldtöku skv. 1. tölul. skulu eigendur þeirra greiða skoðunarkostnað samkvæmt gjaldskrá sem Löggildingarstofa gefur út og ráðherra staðfestir.
                  Undir gjaldtöku samkvæmt tölulið þessum má fella kostnað við yfireftirlit og skoðanir á einkarafstöðvum og virkjum skipa.
    Vegna yfireftirlits Löggildingarstofu og þeirra úrtaksskoðana, sem stofnunin lætur framkvæma á nýjum neysluveitum og neysluveitum í rekstri, skulu rafveitur árlega greiða til stofnunarinnar gjald sem nemur allt að 0,6% af heildartekjum þeirra af raforkusölu og leigu mælitækja, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti.
                  Undanþegin ákvæðum þessa töluliðar er raforkusala til Íslenska álfélagsins hf. og Íslenska járnblendifélagsins hf.
    Vegna yfireftirlits Löggildingarstofu og eftirlits með rafföngum á markaði sem stofnunin lætur framkvæma skulu innflytjendur og innlendir framleiðendur greiða til stofnunarinnar eftirlitsgjald af eftirlitsskyldum rafföngum sem má vera allt að 0,15% af tollverði innfluttrar vöru eða af sambærilegum gjaldstofni innlendrar vöru.
                  Undanþegin þessari gjaldtöku eru rafföng sem seld eru úr landi.
    Vegna yfireftirlits Löggildingarstofu og þeirra úrtaksskoðana sem stofnunin lætur framkvæma á aðstöðu, búnaði og innra eftirliti rafverktaka skulu rafverktakar greiða skoðunarkostnað samkvæmt gjaldskrá sem Löggildingarstofa gefur út og ráðherra staðfestir.
    Löggildingarstofu er heimilt að láta prófa rafföng innlendra framleiðenda sem sett eru á markað í fyrsta sinn. Framleiðendur raffanga greiða Löggildingarstofu fyrir slíkar prófanir samkvæmt gjaldskrá sem stofnunin gefur út og ráðherra staðfestir.
    Löggildingarstofu er heimilt að láta framkvæma aukaskoðanir eða auka tíðni úrtaksskoðana hjá aðilum sem ítrekað hafa orðið uppvísir að því að uppfylla ekki skilyrði laga þessara eða reglugerða á grundvelli þeirra. Þeir sem slíkar aukaskoðanir beinast að skulu greiða kostnað sem af þeim hlýst samkvæmt gjaldskrá sem Löggildingarstofa gefur út og ráðherra staðfestir.
    Ráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um gjöld þessi. Í reglugerð getur ráðherra heimilað rafveitum, eigendum neysluveitna og rafverktökum að semja beint við rafskoðunarstofur um skoðanir skv. 2., 3. og 6. tölul. þessarar greinar.

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

15. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna í reglugerð.

16. gr.

    Ef ekki er farið að ákvörðunum eða fyrirmælum Löggildingarstofu samkvæmt lögum þessum getur stofnunin ákveðið að sá eða þeir sem ákvörðunin beinist gegn greiði dagsektir þar til farið verður að þeim. Dagsektir geta numið frá 10 til 500 þús. kr. á dag. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.
    Ákvarðanir skv. 1. mgr. um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar, svo og sakarkostnaður. Við aðför samkvæmt ákvörðunum um dagsektir skal kveðja gerðarþola fyrir héraðsdóm og um málsmeðferð skal fara skv. 13. kafla aðfararlaga.
    Öll gjöld og dagsektir samkvæmt lögum þessum má taka lögtaki á kostnað gjaldanda.

17. gr.

    Með dómi er heimilt að gera upptæk raforkuvirki og rafföng sem framleidd eru, seld, afhent eða notuð andstætt öryggisfyrirmælum Löggildingarstofu.

18. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum. Með mál út af brotum á lögum þessum og reglugerðum á grundvelli þeirra skal farið að hætti opinberra mála.

19. gr.

    Rafveitur geta óskað eftir allt að tólf mánaða aðlögunartíma frá gildistöku laga þessara til að hverfa frá eftirliti með rafmagnslögnum og tækjum sem notuð eru í sambandi við veitur þeirra. Rafveitur skulu hafa samráð við Löggildingarstofu um þá aðlögun. Á aðlögunartíma skal skoðun rafveitna fylgja reglum Löggildingarstofu sem eru þær sömu fyrir landið allt. Grein þessi frestar ekki gildistöku ákvæða 14. gr. laga þessara.

20. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 60 31. maí 1979, um Rafmagnseftirlit ríkisins.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er flutt til að laga lagaákvæði um rafmagnsöryggismál að breyttum tímum og lögfesta tiltekin ákvæði um framkvæmd þeirra. Fyrst og fremst er hér um að ræða tvö atriði, annars vegar aðskilnað stjórnsýsluþáttar rafmagnsöryggismála frá framkvæmd eftirlits og hins vegar eflingu gæðastjórnunar og innra eftirlits þeirra sem rafmagnsöryggismál snerta, í þeim tilgangi að auka ábyrgð eigenda og umráðamanna svo að unnt sé að minnka eftirlit hins opinbera. Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að Rafmagnseftirlit ríkisins og Löggildingarstofan verði sameinaðar í nýja stofnun, Löggildingarstofu, er taki við hlutverkum þeirra og verkefnum.
    Frumvarp þetta byggist á niðurstöðum nefndar sem iðnaðarráðherra skipaði 19. júní 1995 til að endurskoða lög um Rafmagnseftirlit ríkisins, nr. 60/1979. Í nefndina voru skipaðir: Ásgeir Einarsson, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Bergur Jónsson, Rafmagnseftirliti ríkisins, Gísli Þór Gíslason, Landssambandi íslenskra rafverktaka, Gunnar Ingi Gunnarsson, Félagi ráðgjafarverkfræðinga, Ófeigur S. Sigurðsson rafmagnstæknifræðingur, Steinar Friðgeirsson, Sambandi íslenskra rafveitna, Sveinn Þorgrímsson, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, formaður, og Þorleifur Finnsson, Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Með nefndinni starfaði Eiríkur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra rafveitna.
    Eitt helsta verkefni nefndarinnar var að endurskoða lög um Rafmagnseftirlit ríkisins í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af framkvæmd rafmagnsöryggismála eftir gildistöku reglugerðar nr. 543/1993, um breytingu á reglugerð nr. 264/1971, um raforkuvirki, með áorðnum breytingum. Reglugerð þessi fjallar um verksvið og tilhögun rafmagnseftirlits og hafa komið fram ýmsar ábendingar um breytingar á henni í þeim tilgangi að gera framkvæmdina markvissari og skilvirkari og ábyrgðarsvið þeirra sem að rafmagnsöryggismálum koma ótvíræðara.
    Núverandi lögum um Rafmagnseftirlit ríkisins þarf að breyta til þess að unnt sé að færa framkvæmd rafmagnsöryggismála hér á landi til nútímalegri hátta. Æskilegt er að yfirstjórn rafmagnsöryggismála verði efld og hún gerð eins óháð framkvæmd rafmagnseftirlits og unnt er. Mikilvægt er að aðskilja stjórnsýslu og framkvæmd eftirlits þannig að stjórnvaldið sé óháð þeim aðilum sem annast framkvæmdina, geti óháð fylgst með störfum þeirra og fellt hlutlausa úrskurði í þeim álitamálum sem upp kunna að koma. Jafnframt er nauðsynlegt að gera sambærilegar kröfur til stjórnvaldsins og þeirra sem starfa með leyfi þess. Hér er m.a. átt við kröfur um hlutleysi og skilgreint skipulag er nái til allrar starfsemi stjórnvaldsins.
    Samkvæmt gildandi lögum gegnir Rafmagnseftirlit ríkisins margþættu hlutverki. Stofnunin setur reglur, annast framkvæmd eftirlits, túlkar niðurstöður prófana, túlkar vafaatriði, sker úr um álitamál, ákvarðar viðurlög og annast fullnustu þeirra. Hið samfléttaða eftirlits- og stjórnsýsluhlutverk stofnunarinnar hefur sætt gagnrýni og bent hefur verið á að það sé andstætt nútímasjónarmiðum um góða stjórnsýsluhætti sem kalla á hlutleysi, jafnræði og réttaröryggi.
    Forsenda þess að unnt sé að fela einkaaðilum framkvæmd eftirlits sem hið opinbera hefur haft með höndum er að þeir séu óháðir öllum þeim sem eftirlitið beinist að eða öðrum þeim sem gætu haft hagsmuni af niðurstöðum þeirra.
    Starf eftirlitsaðila getur verið umfangsmikið og fólgið í því að meta verk annarra, meta hvort starfað sé eftir settum reglum, sjá um athugun á vinnuferlum, meta tæknilegan frágang, framkvæma nauðsynlegar mælingar og annast sýnatöku. Þessi starfsemi krefst mjög strangra og ákveðinna hæfniskrafna til þess að almenningur og stjórnvöld geti borið fullt traust til þeirra sem eftirlitinu sinna. Slíkt traust getur aðeins skapast ef allir þættir starfseminnar eru einsleitir og trúverðugir og starfsemin gagnsæ. Einsleitni fæst ef gerðar eru sömu kröfur til allra sem eftirlitinu sinna og ef skilningur þeirra og framkvæmd er eins. Trúverðugleiki fæst ef allir sem eftirlitið beinist að geta verið vissir um að þeir sem eftirlitinu sinna vinni samkvæmt sömu fyrir fram ákveðnu reglum. Gagnsæi tryggir að allir geti fylgst með því hvort starfsemi eftirlitsaðila sé í samræmi við settar reglur og að allir sem eftirlitið beinist að njóti jafnræðis.
    Faggilding er sú aðferð sem valin hefur verið til að tryggja að þeir sem falið hefur verið öryggiseftirlit á rafmagnssviði uppfylli framangreindar forsendur. Faggilding grundvallast á evrópskum stöðlum og faggildingaraðili sér til þess að þeir sem faggiltir hafa verið starfi eftir og uppfylli að öllu leyti þær kröfur sem gerðar eru í viðkomandi staðli. Með faggildingu á að vera fullvissa fyrir því að tiltekin starfsemi uppfylli ákveðnar kröfur um starfsemina, þar með talið að unnið sé eftir fastmótuðum verklagsreglum og starfsemin lúti aðferðum gæðastjórnunar þannig að fullt traust megi bera til þeirra sem faggildingu hljóta. Faggilding er almennt notuð innan ESB til að tryggja hæfni óháðra prófunar- og vottunarstofa sem gefa út vottorð vegna frjálsra vöruviðskipta og ákvæða um gagnkvæma viðurkenningu á vottunum og prófunum. Faggilding hefur átt auknu fylgi að fagna enda byggist hún á ýmsum grundvallarmarkmiðum neytendaverndar.
    Dómsmálaráðuneytið reið á vaðið með kröfu um faggildingu með því að gera faggildingu að skilyrði fyrir leyfi til að stunda bifreiðaskoðun hér á landi, sbr. reglugerð um starfshætti þeirra er annast almenna skoðun ökutækja, nr. 558/1993. Þetta var m.a. með hliðsjón af ákvörðunum Svía um bifreiðaskoðun og er ekki annað að sjá en að í Svíþjóð verði faggildingar krafist á þeim sviðum eftirlits sem flytjast munu frá hinu opinbera til einkaaðila.
    Í Finnlandi mun vera unnið að undirbúningi lagasetningar um rafmagnseftirlit sem gengur í svipaða átt og hér. Auk þess er sú almenna krafa gerð í aðildarríkjum ESB að prófunarstofur sem jafnframt eru tilnefndir aðilar á sviði raffangaprófunar skuli vera faggiltar.
    Þær auknu kröfur sem gerðar eru til rafveitna og rafverktaka um innleiðingu gæðastjórnunar í starfsemi sína eru í grundvallaratriðum þær sömu og almennt er beitt í atvinnulífinu við framleiðslu og þjónustustarfsemi. Í þessu felst m.a. að ábyrgð eigenda, umráðamanna eða sérstakra ábyrgðarmanna raforkuvirkja og neysluveitna á lögmætu ástandi þeirra er gerð ótvíræð. Þeim ber að koma upp skilgreindu innra eftirlitskerfi til að tryggja öryggi raforkuvirkja sinna og fullnægjandi stjórn á rekstri stöðva og veituvirkja.
    Innra gæðaeftirlit fyrirtækja er talið árangursríkasta leiðin til að tryggja öryggi og til að bæta starfsemina yfirleitt. Þetta næst m.a. með því að eigendur og umráðamenn virkja, og starfsmenn allir í tengslum við þau, verði meðvitaðri um öryggismál og virkari þátttakendur í fyrirbyggjandi aðgerðum. Tekið er upp skipulag þar sem unnið verður eftir skilgreindum verklagsreglum og ótvírætt skilgreint hver beri ábyrgð á að lágmarksöryggiskröfum sé fullnægt og á hvern hátt að því er staðið.
    Með innra eftirlitskerfi hjá rafveitum og rafverktökum er unnt að breyta og draga úr ytra stjórnvaldseftirliti og um leið minnka kostnað þeirra sem eftirlitið beinist að.
    Um leið og ábyrgð er alfarið lögð á herðar eigenda og umráðamanna virkja eru rafveitur leystar undan þeirri skyldu að hafa eftirlit með því að rafmagnslagnir og tæki sem notuð eru í sambandi við rafveitur þeirra brjóti ekki í bága við ákvæði laga og reglugerða. Með þessu breytist starfssvið rafveitna nokkuð og verða þær fyrst og fremst framleiðendur, flytjendur, dreifendur og seljendur rafmagns en þær losaðar undan ábyrgð á raforkuvirkjum, neysluveitum og rafföngum annarra en þeirra sjálfra.
    Miklar breytingar hafa orðið hér á landi í stjórnsýsluháttum og viðskiptalífi allra seinustu ár. Sé tekið mið af nýlegum sjórnsýslulögum, sem fjalla m.a. um vanhæfi aðila máls, og samkeppnislögum, þar sem horfið er frá verðlagseftirliti en samkeppni og markaðsbúskapur festur í sessi, má segja að mörkuð hafi verið braut að nýskipan eftirlitsstarfsemi hér á landi. Þessi nýskipan tekur fyrst og fremst til almennrar neytendaverndar en endurskoðun á eftirlitsstarfseminni er einnig þáttur í þeirri viðleitni stjórnvalda að hagræða í ríkisrekstri og endurmeta hvaða verkefni er eðlilegt að ríkið annist. Í þessu sambandi er einnig mikilvægt að leita leiða til að samræma eða sameina skilda eftirlitsstarfsemi þannig að ekki verði gerðar andstæðar kröfur til fyrirtækja af öðrum eftirlitsaðilanum.
    Sameining starfsemi Rafmagnseftirlits ríkisins og Löggildingarstofunnar stuðlar að því að gera ríkisreksturinn einfaldari en um leið skilvirkari. Stofnanir þessar fjalla báðar um viðskipta- og neytendamál á tæknilegum forsendum. Með tilkomu nýrrar stofnunar sem annast þessa tvo málaflokka næst umtalsverð hagræðing og beinn sparnaður án þess að faglegum þáttum í starfsemi þeirra sé fórnað. Líta verður svo á að með ráðstöfunum þessum sé aðeins stigið fyrsta skrefið í þá átt að endurskoða alla eftirlitsstarfsemi ríkisins. Heppilegast hefði verið að fella fleiri skylda eftirlitsþætti undir þessa nýju stofnun og ná þannig fram enn tryggari grunni að samhæfingu opinberrar eftirlitsstarfsemi og enn frekari hagræðingu í opinberum rekstri en hér er gert.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.

    Ákvæði laga og reglugerða um rafmagnsöryggismál hafa fram til þessa einungis tekið til raforkuvirkja og neysluveitna í landi. Rafkerfi skipa eru með fáum undantekningum með sama spennukerfi og dreifikerfi í landi, þ.e. 400/230V. Enginn grundvallarmismunur er á rafkerfum skipa og t.d. rafstöðva í landi. Auk þess eru rafkerfi skipa í auknum mæli tengd við dreifikerfi í landi og þurfa að lúta sömu öryggisfyrirmælum og þær veitur sem þau eru tengd við og lagður er grunnur að í lögum þessum. Sömu fagmenn vinna við raflagnir í skipum og í landi og eru gerðar sömu kröfur til þeirra. Tilgangur þess að fella rafkerfi skipa hér undir er því að tryggja að rafmagnsöryggi í skipum sé engu lakara en almenn krafa er gerð um, þar með talið að raflagnir skipa lúti sambærilegu eftirliti.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.

    Grein þessi fjallar um almennar öryggiskröfur og öryggisráðstafanir til að afstýra hættu eða truflunum frá raforkuvirkjum, neysluveitum og rafföngum og skyldur eigenda til að bera kostnað af öryggisráðstöfunum sem nauðsynlegar kunna að vera til að afstýra hættu og truflunum.

Um 5. gr.

    Kveðið er á um hverjir beri ábyrgð á lögmætu ástandi raforkuvirkja og innra eftirliti til að tryggja öryggi virkja og rekstur þeirra sem frekast er unnt. Sú skylda fellur í fyrsta lagi á eiganda raforkuvirkis. Mikilvægt er þó að hin raunverulega ábyrgð liggi sem næst því virki sem öryggisráðstafanirnar ná til. Því er ábyrgð þessi í öðru lagi lögð á umráðamenn virkjanna, ef þeir eru aðrir en eigendur, og í þriðja lagi á sérstaka ábyrgðarmenn raforkuvirkja og neysluveitna sem tilnefndir hafa verið til að annast uppsetningu eða rekstur þeirra.
    Einnig er kveðið á um ábyrgð framleiðenda eða innflytjenda á lögmætu ástandi raffanga við sölu og að rafverktakar komi upp innra eftirliti með starfsemi sinni.
    Með innra eftirliti er átt við að á kerfisbundinn hátt verði með fyrirbyggjandi ráðstöfunum tryggt að kröfum um gæði vinnu og öryggi búnaðar sé á öllum tímum fullnægt. Nánari ákvæði um innra eftirlit verða sett í reglugerð.

Um 6. gr.

    Hlutverk Löggildingarstofu í framkvæmd rafmagnsöryggismála verður að því leyti annað en verið hefur hjá Rafmagnseftirliti ríkisins að hið samfléttaða eftirlits- og stjórnsýsluhlutverk verður skilið í sundur. Stjórnsýsluþátturinn verður efldur og gerður trúverðugri við það að hagsmunir sem áður sköruðust eru aðskildir. Framkvæmd eftirlitsins færist til sjálfstæðra óháðra skoðunarstofa. Starfsemi stjórnvaldsins og eftirlitsins tekur auk þess nokkrum breytingum til samræmis við aukið innra eftirlit fyrirtækjanna.

Um 7. gr.

    Mikilvægt er að eftirlit með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga sé í samræmi við þá hættu sem af þeim kann að stafa. Við það að rafveitur og rafverktakar taka upp innra eftirlit með starfsemi sinni mun öryggi batna og unnt verður að hverfa frá 100% skoðunum í öllum tilvikum eins og gert er ráð fyrir í eldri lögum. Almennt verður beitt svonefndri úrtaksskoðun þar sem í upphafi er gert ráð fyrir að með tiltölulega fáum skoðunum megi ganga úr skugga um að öllum öryggiskröfum sé fullnægt, enda á innra eftirlit viðkomandi að hafa tryggt að svo sé. Komi við slíka úrtaksskoðun í ljós að öryggi sé ábótavant verður skoðunum fjölgað sem getur leitt til þess að öll virki viðkomandi fari í skoðun. Í þeim tilvikum þegar umfang skoðunar verður óvenjumikið þarf að leita ástæðna þess í innra eftirliti viðkomandi þar sem rætur vandans liggja. Innra eftirlitið þarf því að koma til gagngerrar endurskoðunar og gera þarf á því nauðsynlegar lagfæringar til að tryggja öruggari framkvæmd til frambúðar.
    Nánari ákvæði um tíðni, umfang og framkvæmd skoðana verða sett í reglugerð.

Um 8. gr.

    Löggildingarstofa veitir faggiltum rafskoðunarstofum starfsleyfi og sviptir þær því leyfi ef skilyrðum þess er ekki uppfyllt.

Um 9. gr.

    Mikilvægt er að hlutverk rafskoðunarstofa sé ótvírætt. Hefðbundið eftirlit á vettvangi er flutt frá hinu opinbera og rafveitum til óháðra skoðunarstofa. Í þessu eftirliti felst ekkert stjórnsýsluvald. Komi í ljós við skoðun að vanefndir eru á framkvæmd öryggiskrafna eða leiki grunur á að svo sé mun Löggildingarstofa skera úr um vafaatriði og ákveða úrbætur eða viðurlög eins og við á. Skoðunarstofurnar skulu skoða í samræmi við verklagsreglur og verklýsingar sem Löggildingarstofa hefur gert eða samþykkt. Verklagsreglurnar byggja á öryggiskröfum laga þessara eða reglugerða á grundvelli þeirra.
    Hlutverki rafskoðunarstofa er skipt í fimm þætti sem þó eru allir skyldir. Skoðun nýrra og eldri raforkuvirkja og neysluveitna skv. 1. tölul. er hið hefðbundna skoðunarsvið sem Rafmagnseftirlit ríkisins og rafveitur hafa annast á undangengnum árum. Eðli skoðana þessara mun þó í grundvallaratriðum breytast þar sem úrtaksskoðanir virkja munu í auknum mæli tengjast skoðun á innra eftirlitskerfi rafveitna og rafverktaka og því beinast að verklagi og gæðum vinnunnar almennt.
    Þau nýmæli eru í 2. og 4. tölul. greinarinnar að nú skal innra eftirlitskerfi rafveitna og rafverktaka skoðað reglulega og framkvæmd innra eftirlits metin til að tryggja viðvarandi gæði þess. Þar verður m.a. gætt að skráningum og verkfyrirkomulagi, skilgreindum innri úttektum og öðrum fyrirbyggjandi aðgerðum rafveitna og rafverktaka sem nauðsynlegar eru til að tryggja lágmarkskröfu um öryggisstig. Ein forsenda þess að bæta megi árangur í rafmagnsöryggismálum er að þeir sem hlut eiga að máli bæti gæði vinnu sinnar og séu meðvitaðir um eigin ábyrgð. Tilgangslítið er að gera endurteknar athugasemdir eftir skoðun ef gæðakerfi viðkomandi er ekki í lagi. Reglubundin skoðun á innra eftirliti er því eitt af grundvallaratriðum bætts öryggis.
    Skoðun á aðstöðu og búnaði rafverktaka, sbr. 3. tölul., er gerð í þeim tilgangi að ganga úr skugga um að þeir uppfylli kröfur er lúta að löggildingu þeirra.
    Eftirlit með rafföngum og raforkuvirkjum á markaði, sbr. 5. tölul., er óbreytt frá því sem nú er en markaðseftirlit var tekið upp hér á landi í kjölfar EES-samingsins á grundvelli gagnkvæmra viðurkenninga á vottunum og prófunum vöru á innri markaði EES.
    Fari svo ólíklega að ekki séu faggiltar skoðunarstofur til að annast eftirlit þetta skal Löggildingarstofa taka það að sér. Vegna mikilvægis þeirrar neytenda- og réttarverndar, sem felst í aðskilnaði stjórnsýslu og eftirlits, þykir rétt að sömu kröfur um hlutleysi og trúverðugleika gildi um slíkt opinbert eftirlit og gerðar eru til óháðra rafskoðunarstofa.

Um 10. gr.

    Grein þessi fjallar um aðgengi þeirra sem við skoðanir vinna að þeim búnaði og stöðum sem til skoðunar eru og rétt þeirra til að taka sýni og gera þær athuganir sem nauðsynlegar eru. Heimild þessi þarf að vera ótvíræð þótt ólíklegt sé að henni þurfi að beita nema í undantekningartilvikum.

Um 11. gr.

    Mikilvægt er að sú skylda sé lögð á herðar starfsmanna rafveitna, rafskoðunarstofa og rafverktaka að þeir tilkynni Löggildingarstofu um öll tæki eða starfsemi sem hætta kann að stafa af eða af öðrum ástæðum uppfylla ekki ákvæði laganna.
    Einnig þykir ástæða til að lögfesta skyldur stofnunarinnar um meginatriði málsmeðferðar sem getur falist í banni við sölu eða notkun, banni við uppsetningu, kröfu um niðurtöku eða innköllun. Sömuleiðis er stofnuninni veitt heimild til leyfissviptingar séu skilyrði leyfis ekki uppfyllt. Með beitingu íþyngjandi ákvarðana er lögð áhersla á að þær leiði fyrst og fremst til bættra vinnubragða og auki almenna hæfni þeirra sem að rafmagnsöryggismálum koma. Leiði úrtaksskoðun í ljós vanefndir eða galla verður skoðunum fjölgað og ástæður vanefnda og galla greindar og bent á leiðir til úrbóta, jafnframt því sem gefinn er frestur til úrbóta. Með þessu er stuðlað að endurbótum á innra eftirliti viðkomandi sem leiðir til betri vinnubragða til frambúðar.
    Öllum framangreindum aðgerðum Löggildingarstofu má skjóta til úrskurðar ráðherra.

Um 12. gr.

    Í núgildandi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, eru almenn ákvæði um þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Þar sem lög þessi ná að auki til annarra starfsmanna þykir rétt að sambærileg ákvæði nái til allra sem eftir lögum þessum starfa.
    Þótt almennt hvíli ekki mikil leynd yfir þeim virkjum sem eftirlitsákvæði laga þessara ná til getur svo verið í vissum tilvikum. Einkum á það við um ýmis viðskiptamál sem nauðsynlegt er að farið verði með sem trúnaðarmál til að tryggja eðlilega samkeppni, t.d. milli þeirra sem skoðanir stunda. Einnig er líklegt að með aukinni samkeppni í raforkuframleiðslu, -flutningi og -dreifingu aukist mikilvægi ákvæðis þessa. Þrátt fyrir þetta er mikilvægt að stjórnvaldið geti birt opinberlega upplýsingar um hættuleg tæki, greint frá tjónum og slysum og ástæðum þeirra, en birting upplýsinga af þessu tagi telst hluti af nauðsynlegum forvarnaraðgerðum.

Um 13. gr.

    Rafmagnsöryggismál spanna umfangsmikinn málaflokk og er óhjákvæmilegt að í lögum verði ráðherra gert að setja nánari reglur um framkvæmd einstakra ákvæða þeirra. Meiri hluti þeirra reglugerðarákvæða, sem grein þessi tekur til, er efnislega óbreyttur frá núverandi lögum um Rafmagnseftirlit ríkisins. Þetta á við 1., 3.–7. og 9. tölul. 2. mgr. Í 8. tölul. 2. mgr. hefur verið bætt við starfsleyfi tilnefndra ábyrgðarmanna rafveitna og starfsleyfi skoðunarstofa.
    Ný ákvæði eru:
    2. tölul. 2. mgr. Í reglugerð skal setja nánari ákvæði um framkvæmd og tilhögun yfireftirlits Löggildingarstofu. Um hlutverk stofnunarinnar er fjallað í 6. gr. laga þessara og þarf m.a. að skilgreina nánar í reglugerð helstu markmið starfseminnar og leiðir að þeim, þar með talið innra skipulag og gæðastýringu. Einnig þarf að skilgreina faglega umsjón með framkvæmd rafmagnsöryggismála en í því felst m.a. að ganga úr skugga um fagmennsku rafskoðunarstofa og virkni gæðakerfa þeirra og að framkvæmd verklagsreglna sem stofnunin setur þeim sem eftir lögum þessum starfa sé fullnægjandi.
    10. tölul. 2. mgr. Í reglugerð skal setja ákvæði um birtingu niðurstaðna skoðana í þeim tilgangi m.a. að unnt sé að meta öryggisstig raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga á hverjum tíma og þróun þeirra mála. Einnig er mikilvægt að gerð sé grein fyrir slysum og tjónum sem orsakast af rafmagni svo að unnt sé að bregðast við þeim með fyrirbyggjandi hætti.
    11. tölul. 2. mgr. Þrátt fyrir að birta eigi öll öryggisákvæði í reglugerð breytast þau nokkuð hratt, t.d. vegna nýrra staðla og viðmiðunarkrafna, m.a. fyrir áhrif ákvæða EES-samningsins um upptöku samræmdra öryggiskrafna. Einnig þarf stofnunin að hafa lögmæta heimild til að gefa út verklagsreglur og verklýsingar sem eru nánari leiðbeiningar eða fyrirmæli til þeirra sem eftir lögum þessum starfa. Rafmagnseftirlit ríkisins hefur gefið út svokallaðar orðsendingar til þeirra sem unnið hafa eftir reglugerð um raforkuvirki en fram hafa komið efasemdir um lögmæti þeirra á grundvelli núgildandi laga.
    Heimildarákvæði 1. tölul. 3. mgr. tekur mið af þróun neytendaverndar í viðskiptum með notaða vöru, sbr. ákvæði og heimildir um ástandsvottorð í lögum um sölu notaðra ökutækja, nr. 69/1994. Fyrir almenna neytendur er ekki síður erfitt að meta ástand neysluveitu en t.d. ástand ökutækis og fjárhagslegir hagsmunir geta verið mun meiri. Því þykir rétt að ráðherra fái heimild með lögum þessum til að setja í reglugerð ákvæði um að í fasteignaviðskiptum liggi fyrir vottorð ábyrgs aðila um ástand veitunnar.
    Heimildarákvæði 2. tölul. 3. mgr. er til að unnt verði að setja í reglugerð öryggisákvæði um raforkuvirki eða rafföng sem notuð eru hér á landi og falla ekki undir samræmda staðla eða önnur ákvæði EES-samningsins.

Um 14. gr.

    Með gjaldtökuákvæðum þessarar greinar er þeirri meginstefnu fylgt að gjaldtaka er færð nær þeim sem þjónustunnar nýtur en nú er. Jafnframt er með þessum ákvæðum tryggt að jöfnuður haldist milli einstakra landshluta hvað varðar greiðslu kostnaðar af skoðunum neysluveitna og raffanga.
    Í núgildandi lögum um Rafmagnseftirlit ríkisins er tekna til að standa straum af opinberu eftirliti með nýjum og eldri raforkuvirkjum aflað með prósentuálagi á virðisauka raforkusölu eða -framleiðslu. Gjald þetta getur numið allt að 1,2%, en er nú samkvæmt reglugerð 0,7%. Auk þessa er í núgildandi lögum ákvæði um að Rafmagnseftirlitinu skuli greiddur kostnaður af eftirliti með uppsetningu nýrra raforkuvirkja.
    Gjaldtaka þessi byggist því á föstu afgjaldi, er fer eftir raforkusölu rafveitnanna, til að standa straum af reglubundnu opinberu eftirliti og sérstakri greiðslu fyrir eftirlit með uppsetningu nýrra virkja.
    Kostnaður rafveitna af rafmagnseftirliti er talsvert meiri því að í núgildandi lögum er sú skylda lögð á rafveitur að þær hafi eftirlit með því að nýjar og eldri neysluveitur, rafmagnslagnir og tæki sem notuð eru í sambandi við rafveitur þeirra uppfylli sett öryggisákvæði. Með frumvarpi þessu eru rafveitur leystar undan ábyrgð á og kostnaði af öðrum raforkuvirkjum og neysluveitum en þeirra eigin.
    Í frumvarpinu er rafveitum gert að greiða kostnað af rafmagnseftirliti með tvennum hætti, skv. 1. og 2. tölul. þessarar greinar.
    Í 1. tölul. er fylgt sömu meginreglu og gert er í núgildandi lögum, að því marki að kostnaður Löggildingarstofu af yfireftirliti með rafveitum greiðist með ákveðnu prósentugjaldi af virðisauka raforkusölu þeirra eða raforkuframleiðslu. Undanskilin frá þessu er raforkusala til Íslenska álfélagsins hf. og Íslenska járnblendifélagsins hf., sbr. sérlög um þessi fyrirtæki.
    Til viðbótar gjaldtöku skv. 1. tölul. greiða rafveitur skv. 2. tölul. allan kostnað sem hlýst af beinum skoðunum á raforkuvirkjum þeirra til að fullnægja kröfum laga þessara og reglugerða um rafmagnsöryggi.
    Í 3. tölul. er kveðið á um kostnað við eftirlit hjá stóriðjuverum sem undanskilin eru í 1. tölul. Fyrirtæki þessi greiða kostnað við skoðanir á búnaði sínum eftir gjaldskrá og er það óbreytt frá því sem nú er. Heimild er til gjaldtöku fyrir skoðanir á einkarafstöðvum og virkjum skipa samkvæmt þessum tölulið, enda mun það í flestum tilvikum vera einfaldari leið en að áætla orkuframleiðslu þeirra skv. 1. tölul.
    Í 4. tölul. er fjallað um skoðanir á nýjum neysluveitum og neysluveitum í rekstri. Kostnaður við skoðanir á nýjum neysluveitum fellur aðeins einu sinni á eigendur þeirra, þ.e. þegar veitan er tekin í notkun. Neysluveitur í rekstri eru skoðaðar á nokkurra ára fresti eftir stærð þeirra og áraun. Eftirlit þetta hefur verið á ábyrgð rafveitna sem hafa sinnt því með eigin mannskap og innheimt kostnað fyrir það. Við það að rafveitur eru leystar undan þessari ábyrgð eykst kostnaður ríkisins af eftirliti með neysluveitum til samræmis. Kostnaður vegna þessa hefur verið borinn af eigendum neysluveitnanna og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Í þeim tilgangi að hafa gjaldtökuna einfalda er notaður sami gjaldstofn fyrir neysluveitueftirlit og gert er í 1. tölul.
    Í 5. tölul. er fjallað um markaðseftirlit með rafföngum. Í núgildandi lögum er ákvæði um gjaldtöku af eftirlitsskyldum rafföngum sem er efnislega sambærilegt við þennan tölulið. Gjald þetta er til að standa straum af kostnaði af eftirliti með rafföngum á almennum neytendamarkaði.
    Í 6. tölul. er fjallað um skoðanir á búnaði, aðstöðu og innra eftirliti rafverktaka sem framkvæma þarf til að ganga úr skugga um að þeir uppfylli skilyrði löggildingarinnar.
    Í 7. tölul. er fjallað um prófanir nýrra raffanga sem gerðar eru til að sannreyna að þau uppfylli samræmd öryggisákvæði sem gilda á innri markaði EES en slíkt er forsenda fyrir heimild til markaðssetningar þeirra. Gert er ráð fyrir að Löggildingarstofa geti veitt innlendum framleiðendum aðstoð við að láta framkvæma slíkar prófanir, t.d. með samningi við viðurkenndar (faggiltar) erlendar prófunarstofur. Þjónusta þessi yrði veitt samkvæmt gjaldskrá.
    Í 8. tölul. er fjallað um aukaskoðanir. Meginhluti kostnaðar við skoðanir samkvæmt þessari grein endurspeglar umfang skoðunar. Það þýðir að ef grípa þarf til fleiri eða ítarlegri skoðana að mati Löggildingarstofu fellur sá kostnaður beint á þann sem uppvís hefur orðið að vanrækslunni.
    Kostnaður við skoðanir á neysluveitum skv. 4. tölul. og vegna eftirlits með rafföngum á markaði skv. 5. tölul. er aftur á móti bundinn föstum gjaldstofni. Fastur gjaldstofn hefur þann ókost að ekki er hægt að beita íþyngjandi aðgerðum vegna kostnaðarauka sem hlýst af aukaskoðunum hjá þeim sem vanrækt hafa lagalegar skyldur sínar um rafmagnsöryggi. Ákvæði 8. tölul. beinist því fyrst og fremst að aukaskoðunum er tengjast 4. og 5. tölul. þessarar greinar en er jafnframt lögfesting á þeirri nauðsynlegu heimild að geta beitt aukaskoðunum hjá þeim sem uppvísir verða að vanefndum samkvæmt lögum þessum.
    Þær tölur fyrir gjaldstofna, sem fram eru settar í þessari grein, eru hámarkstölur.
    Gert er ráð fyrir að ráðherra geti í reglugerð heimilað rafveitum, eigendum stóriðjuvera og rafverktökum að semja beint við rafskoðunarstofur um tilteknar skoðanir. Þá gæti kostnaður, t.d. vegna úrtaksskoðana á búnaði rafveitna skv. 2. tölul., orðið með þeim hætti að rafveita gerði samning beint við rafskoðunarstofu um skoðun á framkvæmd innra eftirlits rafveitunnar og úrtaksskoðanir því tengdu. Rafveita greiðir þá kostnað beint til rafskoðunarstofu samkvæmt samningi í stað þess að samningur væri milli rafskoðunarstofu og Löggildingarstofu um þá vinnu. Möguleiki rafveitu og rafverktaka til að skipta beint við rafskoðunarstofu er mikilvæg forsenda þess að ná niður kostnaði við skoðanir en mun ekki koma niður á gæðum skoðana, enda er það eitt af verkefnum Löggildingarstofu að tryggja viðvarandi gæði þeirra.

Um 15.–18. gr.

    Greinar þessar þarfnast ekki skýringa.

Um 19. gr.

    Nýskipan rafmagnsöryggismála þarf að hafa rúman aðlögunartíma er gefur rafveitum svigrúm til þess að kynna sér sem best nýtt fyrirkomulag og laga starfsemi sína að því. Þrátt fyrir að allnokkur aðdragandi hafi nú þegar orðið að breyttri skipan rafmagnsöryggismála er talið nauðsynlegt að rafveitur geti fengið allt að tólf mánaða aðlögunartíma eftir gildistöku laga þessara til að hverfa frá eftirliti með virkjum á veitusvæði sínu.
    Í þeim tilgangi að ekki skapist tómarúm í framkvæmd rafmagnsöryggismála á aðlögunartímanum þurfa rafveitur að hafa náið samráð við Löggildingarstofu um yfirfærslu þessa eftirlits.

Um 20. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um öryggi

raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

    Eins og kemur fram í 1. gr. frumvarpsins er tilgangur þess að draga úr hættu og tjóni af raforkuvirkjum, neysluveitum og rafföngum og truflunum af völdum starfrækslu þeirra. Verði það að lögum leysa þau af hólmi lög nr. 60/1979, um Rafmagnseftirlit ríkisins, en eftirlitið flyst frá iðnaðarráðuneyti til viðskiptaráðuneytis og verður yfirstjórnin sameinuð Löggildingarstofunni í nýrri stofnun sem nefnist Löggildingarstofa. Um það er nánar fjallað í umsögn um frumvarp til laga um Löggildingarstofu.
    Frumvarpið er flutt til að laga rafmagnsöryggismál að breyttum aðstæðum og lögfesta tiltekin ákvæði um framkvæmd þeirra. Er þar einkum átt við aðskilnað stjórnsýsluþáttar rafmagnsöryggismála frá framkvæmd eftirlits og eflingu gæðastjórnunar og innra eftirlits þeirra sem rafmagnsöryggismál snerta í þeim tilgangi að auka ábyrgð eigenda og umráðamanna svo að unnt sé að minnka eftirlit hins opinbera.
    Í umsögn um frumvarp til laga um Löggildingarstofu kemur fram að við sameiningu Löggildingarstofunnar og Rafmagnseftirlits ríkisins megi áætla sparnað á yfirstjórn þessarar nýju stofnunar 6–7 m.kr. á ári. Að því er tekur til breytingar á kostnaði við þennan þátt í rekstri nýju stofnunarinnar má ætla nokkra breytingu á útgjöldum ríkissjóðs. Í núgildandi lögum nr. 60/1979, um Rafmagnseftirlit ríkisins (9. gr), er gert ráð fyrir öflun sértekna, rafmagnseftirlitsgjalds, til að standa undir kostnaði við rekstur eftirlitsins. Í fjárlögum fyrir árið 1996 er áætlað að rafmagnseftirlitsgjald skili í ríkissjóð 100 m.kr. Þar af munu um 10 m.kr. vera markaðseftirlitsgjald með rafföngum þannig að sjálft eftirlitsgjaldið nemur 90 m.kr. Fjárveiting til Rafmagnseftirlits ríkisins er 60,5 m.kr. í fjárlögum 1996, þannig að 29,5 m.kr. af rafmagnseftirlitsgjaldinu er ætlað að renna í ríkissjóð sem skattur. Ný áætlun frá Rafmagnseftirliti ríkisins gerir ráð fyrir að gjaldið sé ofmetið í fjárlögum um 23 m.kr. og megi áætla að það muni nema um 67 m.kr. og lækkar því afgangur ríkisins af gjaldinu um þá fjárhæð. Í 14. gr. frumvarpsins eru ákvæði um gjald-töku og hvernig fjár skuli aflað til að standa undir öllum rekstrarkostnaði við eftirlitið. Er fjárins aflað með gjaldtöku samkvæmt gjaldskrá og álagningu 0,2% rafveitueftirlitsgjalds sem leggst á heildartekjur rafveitna af orkusölu og leigu mælitækja að frátöldu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti. Gert er ráð fyrir að þessi gjaldtaka nægi til að fjármagna rekstur stofnunarinnar og rafmagnseftirlitsgjald í núverandi mynd verði fellt niður og mun ríkissjóður þá verða af áætluðum afgangi af rafmagnseftirlitsgjaldi sem fyrr er lýst og er hér talinn um 6,5 m.kr.