Ferill 74. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 74 . mál.


74. Frumvarp til lagaum Löggildingarstofu.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)1. gr.

    Löggildingarstofa er ríkisstofnun með sérstöku reikningshaldi og heyrir hún undir viðskiptaráðherra.

2. gr.

    Löggildingarstofa hefur með höndum faggildingu, löggildingu og eftirlit því tengt eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.
    Löggildingarstofa annast eftirfarandi málaflokka:
    rafmagnsöryggismál, eins og kveðið er á um í lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga;
    lögmælifræði, hagnýta mælifræði og faggildingu, eins og kveðið er á um í lögum um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992;
    öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eins og kveðið er á um í lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995;
    önnur verkefni sem stofnuninni eru falin.

3. gr.


    Ráðherra skipar þrjá menn í stjórn Löggildingarstofu til þriggja ára í senn, þar af einn formann. Stjórnin hefur umsjón með rekstri stofnunarinnar og samþykkir starfsáætlanir hennar, fjárhagsáætlanir og fjárhagsuppgjör, yfirfer gjaldskrá og sér til þess að starfshættir séu á hverjum tíma gagnsæir. Ráðherra staðfestir skipulag stofnunarinnar og skiptingu hennar í deildir.

4. gr.


    Ráðherra skipar forstjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa lokið háskólaprófi á sviði er tengist starfsemi stofnunarinnar. Forstjóri stýrir faglegu starfi stofnunarinnar, hefur umsjón með rekstri hennar og ræður aðra starfsmenn.
    Heimilt er að stofna nefndir sérfróðra manna til að vera stofnuninni til ráðuneytis um starfsemi einstakra fagsviða.

5. gr.


    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara. Hin nýja stofnun skal taka til starfa 1. janúar 1997.

6. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur brott 2. mgr. 14. gr. laga um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992, sbr. lög nr. 147/1995.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Stofnanirnar Löggildingarstofan, sbr. lög nr. 100/1992, og Rafmagnseftirlit ríkisins, sbr. lög nr. 60/1979, eru lagðar niður frá og með 1. janúar 1997 og eru öll störf á þessum stofnunum lögð niður þegar Löggildingarstofa tekur til starfa. Löggildingarstofa tekur á sama tíma við eignum og skuldum Löggildingarstofunnar og Rafmagnseftirlits ríkisins. Í lögum og reglugerðum þar sem fyrir koma heitin Löggildingarstofan og Rafmagnseftirlit ríkisins ber eftir gildistöku þessara laga að líta svo á að átt sé við Löggildingarstofu.
    Strax eftir gildistöku laga þessara skal stjórn Löggildingarstofu skipuð. Staða forstjóra skal auglýst laus til umsóknar með fjögurra vikna fyrirvara svo fljótt sem því verður við komið. Starfsmenn Löggildingarstofunnar og Rafmagnseftirlits ríkisins skulu að öðru jöfnu sitja fyrir um sambærileg störf hjá hinni nýju stofnun. Nýr forstjóri skal ráða í þær stöður.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í þeim tilgangi að ná fram aukinni hagræðingu í ríkisrekstri með því að gera hann einfaldari og skilvirkari og til þess að samræma skylda eftirlitsstarfsemi sem ríkið þarf að sinna.
    Gert er ráð fyrir að ný stofnun, sem beri nafnið Löggildingarstofa, taki við verkefnum sem Rafmagnseftirlit ríkisins og Löggildingarstofan gegna nú. Löggildingarstofan á sér langa sögu sem rekja má til ársins 1917 er sett voru lög um mælitæki og vogaráhöld. Löggildingarstofan hefur alla tíð síðan gætt þeirra grundvallarhagsmuna viðskiptalífsins að rétt sé mælt.
    Hin síðari ár hefur starf Löggildingarstofunnar fengið stóraukna þýðingu fyrir atvinnulífið, einkum í ljósi mikilla framfara sem orðið hafa í mælitækni og nýrra þarfa í nákvæmni í mælingum, t.d. á hitastigi, tíðni, geislun og fleiri atriðum. Auk þess er mælifræðin ein helsta undirstaða gæðakerfa í iðnaði og verslun.
    Löggildingarstofan hefur verið virkur þátttakandi í framkvæmd ákvæða EES-samningsins um gagnkvæma viðurkenningu á niðurstöðum prófana og staðfestingum í samræmi við tækniákvæði sem gilda eiga í öllum aðildarríkjunum um vörur á almennum neytendamarkaði. Mikilvægur þáttur í þessu er faggildingin. Löggildingarstofan veitir prófunar-, skoðunar- og vottunarstofum faggildingu samkvæmt sameiginlegum reglum sem settar eru fram í evrópskum stöðlum og skulu þá vottorð frá faggiltum aðilum njóta gagnkvæmrar viðurkenningar í öllum aðildarríkjunum.
    Þar sem Löggildingarstofan er ein elsta stofnun ríkisins þykir við hæfi að hin nýja stofnun, sem tekur við hlutverki hennar og Rafmagnseftirlits ríkisins, haldi að stofni til hinu rótgróna nafni. Sú breyting er þó gerð að hún er nú kölluð Löggildingarstofa í stað Löggildingarstofan, sbr. t.d. Fiskistofa.
    Hlutverk Rafmagnseftirlits ríkisins er um margt líkt hlutverki Löggildingarstofunnar. Báðar þessar stofnanir fjalla um neytendavernd út frá tæknilegum forsendum. Rafmagnseftirlit ríkisins sér um öryggi raffanga og opinbera markaðsgæslu þeirra og Löggildingarstofan annast á sama hátt öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu fyrir vöruflokka sem ekki falla undir önnur sérlög. Báðar stofnanirnar eru stjórnsýslustofnanir er fjalla um opinbert eftirlit og er eðlilegt að gætt sé ýtrasta samræmis í meðferð þeirra mála. Það á að vera tryggt með sameiningu stofnananna.
    Samræming vöruöryggis og rafmagnsöryggis er ekki óeðlileg og má geta þess að í Noregi hefur starfsemi rafmagnseftirlits verið útvíkkuð og tekur nú til öryggis vöru í stofnun sem nefnist Produkt- og Elektrisitetstilsynet.
    Önnur starfsemi Löggildingarstofunnar fellur einnig vel að þessu þar sem sú stofnun sér um faggildingu og lögmælifræði.
    Rafmagnseftirlit ríkisins og Löggildingarstofan eru litlar stofnanir. Með sameiningu þeirra má ná fram umtalsverðri hagræðingu í rekstri og með samþættingu verkefna fæst betri og markvissari þjónusta.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Löggildingarstofan heyrir nú undir viðskiptaráðherra en Rafmagnseftirlit ríkisins undir iðnaðarráðherra. Skipting þessi á sér sögulegar og eðlilegar ástæður þar sem lögmælifræði tengist fyrst og fremst viðskiptalífinu og hagsmunum neytenda en rafmagnsöryggismál hafa til skamms tíma fyrst og fremst talist vera raforkumál.
    Með tilkomu gæðastjórnunar og innra eftirlits fyrirtækja hin síðari ár hefur hið opinbera haft tækifæri til að breyta hlutverki sínu í tæknilegu eftirliti á raforkusviði. Fyrirtækin hafa þannig orðið virkari þátttakendur í fyrirbyggjandi aðgerðum til varnar hættum og tjóni af völdum rafmagns en áður. Við þetta hefur hið opinbera getað breytt eftirliti sínu í takt við kröfur og þarfir atvinnulífsins. Breytingarnar felast fyrst og fremst í því að fyrirtækin taka sjálf við hluta af fyrra stjórnvaldseftirliti án þess þó að það sé að öllu leyti afnumið. Þannig verður til sívirkt innra eftirlit fyrirtækjanna sjálfra í stað stopulla heimsókna fulltrúa opinberra eftirlitsstofnana.
    Á grundvelli þessa er fyrirséð að opinbert eftirlit muni í framtíðinni að meira eða minna leyti verða viðskipta- og neytendamál en ekki tæknimál. Málaflokkur þessi er því í heild sinni fluttur undir viðskiptaráðherra.

Um 2. gr.


    Við það að Löggildingarstofan og Rafmagnseftirlit ríkisins eru sameinuð í eina stofnun mun hún jafnframt yfirtaka málaflokka þeirra.
    Hér er um að ræða rafmagnsöryggismál samkvæmt lögum um Rafmagnseftirlit ríkisins, nr. 60/1979, sem gert er ráð fyrir að falli úr gildi verði frumvarp til laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, sem nú liggur fyrir þinginu, að lögum.
    Löggildingarstofan fer nú með málaflokka sem nefnast lögmælifræði og hagnýt mælifræði og m.a. tengjast elstu verkefnum stofnunarinnar um vog og mál. Þá annast Löggildingarstofan einnig faggildingar hér á landi. Um þessa málaflokka er fjallað í lögum um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992. Auk þessa annast Löggildingarstofan um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, sbr. lög nr. 134/1995, sem taka til þeirra vöruflokka er ekki falla undir önnur lög.

Um 3. og 4. gr.


    Í þeim tilgangi að tryggja farsæla framkvæmd allra verkefna hinnar nýju stofnunar er henni sett stjórn sem ráðherra skipar. Stjórninni er falið nokkuð umfangsmeira hlutverk en tíðkast um stjórnir margra ríkisstofnana. Ástæða þess er einkum mikilvægi þess að starfshættir stofnunar sem fer með stjórnsýslu eftirlits er beinist að atvinnulífinu og neytendum séu skýrir og trúverðugir í hvívetna. Með þessu og tímabundinni ráðningu forstjóra er reynt að tryggja að starfsemin verði sem virkust á öllum sviðum í samræmi við ákvæði laga sem stofnunin lýtur og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra.

Um 5. gr.


    Fyrirsjáanlegt er að starfsemi sem fjallar um opinbert eftirlit þarf stöðugt að geta lagað sig að breytilegum þörfum atvinnulífsins, sem m.a. endurspeglast í reglugerðum sem starfað er eftir hverju sinni. Jafnframt þarf að vera hægt að taka upp tæknilegar reglugerðir til samræmis við ákvæði EES-samningsins.
    Þrátt fyrir að ráðherra hafi heimild til að setja reglugerðir á grundvelli þeirra laga, sem Löggildingarstofa mun starfa eftir, er litið svo á að nauðsyn beri til að ráðherra hafi jafnframt heimild samkvæmt lögum þessum til að setja reglugerðir með stoð í þeim. Þetta er ekki hvað síst mikilvægt þegar um er að ræða ákvæði sem fjalla um samræmda framkvæmd er tekur til fleiri en eins málaflokks.
    Ekki er talin þörf fyrir langan aðdraganda að starfsemi hinnar nýju stofnunar og er talið eðlilegt að miða við áramót, t.d. vegna reikningsskila.

Um 6. gr.


    Við gildistöku laga þessara fellur brott 2. mgr. 14. gr. laga um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992, sbr. lög nr. 147/1992, enda hefur ákvæði hennar verið fellt inn í þessi lög.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæði til bráðabirgða lýsir reglum um stofnun Löggildingarstofu.
Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Löggildingarstofu.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir sameiningu tveggja ríkisstofnana, Löggildingarstofunnar og Rafmagnseftirlits ríkisins, undir nafninu Löggildingarstofa. Hún heyri undir viðskiptaráðuneytið og taki yfir verkefni fyrrnefndra stofnana.Tilgangurinn er að ná fram aukinni hagræðingu í rekstrinum og gera hann einfaldari og skilvirkari. Einkum má gera ráð fyrir hagræðingu í yfirstjórninni sem kemur fram í fækkun starfsliðs, betri nýtingu skrifstofuhúsnæðis o.s.frv. Í 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að ráðherra skipi þrjá menn í stjórn stofnunarinnar til þriggja ára í senn. Þetta ákvæði er í 2. gr. laga nr. 147/1995, og hefur stjórnin þegar verið skipuð. Má gera ráð fyrir að stjórnarlaun nemi um 250 þús. kr. á ári og er þá tekið mið af stjórnarlaunum í hliðstæðum stofnunum. Þá er í 3. gr. frumvarpsins heimild til að setja á laggirnar nefndir sérfróðra manna til að vera stofnuninni til ráðuneytis um starfsemi einstakra fagsviða. Kostnaður af hliðstæðum ráðgjafanefndum er nokkuð hærri, um 500–700 þús. kr. á ári. Kostnaður við hina formlegu sameiningu stofnananna er talinn óverulegur þar eð þær starfa í sama húsi. Sé gert ráð fyrir að tvö og hálft starf sparist í yfirstjórninni má reikna þann sparnað sem hlýst af lagabreytingunni um 5 m.kr. Er þá ekki reiknað með biðlaunum vegna starfa sem kunna að verða lögð niður.