Ferill 75. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 75 . mál.


75. Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 48/1994, um brunatryggingar, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)1. gr.


    4. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Húseigendur skulu árlega greiða umsýslugjald af brunabótamati húseignar er nema skal 0,025‰ (prómillum) af brunabótamatinu og skal gjald þetta renna til Fasteignamats ríkisins. Gjaldið skal notað til þess að standa undir kostnaði stofnunarinnar við að halda skrá yfir brunabótamat húseigna í landinu. Vátryggingafélag skal innheimta gjaldið samhliða innheimtu brunatryggingariðgjalda og skila til stofnunarinnar eigi síðar en 45 dögum eftir gjalddaga þess. Ekki greiðist þóknun vegna innheimtunnar.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í lokamálsgrein 6. gr. og í ákvæði til bráðabirgða í reglugerð nr. 484/1994, um lögboðna brunatryggingu húseigna, er kveðið á um greiðslu húseigenda á svokölluðu umsýslugjaldi er renna skal til Fasteignamats ríkisins. Er ákvæði þessi voru samin var talið að þau ættu sér stoð í 5. gr. laganna, um heimild ráðherra til þess að setja reglugerð um nánari framkvæmd þeirra. Athugasemdir voru gerðar við tilhögun þessa og var því ákveðið að skjóta styrkari stoðum undir heimild ráðherra til þess að ákveða með reglugerð álagningu gjaldsins. Var talið að það hefði verið gert með lögum nr. 150/1994, um breyting á lögum um brunatryggingar, er kváðu á um að með reglugerð væri heimilt að ákveða að húseigendur greiddu gjaldið.
    Umboðsmaður Alþingis hefur vakið athygli viðskiptaráðherra á því að hann telji umsýslugjald samkvæmt lögum um brunatryggingar skatt í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt að hann telji núgildandi lagagrundvöll umsýslugjalds ekki viðhlítandi í ljósi þeirra krafna sem nú eru gerðar til skattlagningarheimilda skv. 2. málsl. 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 15. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.
    Af framangreindum ástæðum hefur frumvarp þetta verið samið í viðskiptaráðuneytinu. Er í því tekinn af allur vafi um að með lögum sé ákveðið að lagt skuli á umsýslugjald og hver upphæð gjaldsins skuli vera.
    Í 1. gr. er kveðið á um skyldu húseigenda til greiðslu umsýslugjalds og hvernig gjaldið skuli reiknað. Í núgildandi lögum segir að heimilt sé að ákveða að gjaldið megi vera allt að 0,03‰ (prómill). Í lokamálsgrein 6. gr. reglugerðar nr. 484/1994 segir: „húseigendur greiða árlega umsýslugjald 0,025‰ (prómill) af brunabótamati húseignar til Fasteignamats ríkisins“, þannig að ekki hefur verið nýtt heimild til hámarksálagningar. Frumvarpið gerir ráð fyrir óbreyttu gjaldi eins og kveðið hefur verið á um í reglugerðinni.
    Nýtt er að nú er kveðið á um þann tímafrest er innheimtuaðilar hafa til þess að standa skil á innheimtunni til Fasteignamats ríkisins. Þykir ekki ósanngjarnt að miða við að þeir hafi 45 daga frá gjalddaga brunatryggingar til þess að standa skil á því.
    Til þess að taka af allan vafa er einnig tekið fram að innheimta umsýslugjaldsins skuli vera Fasteignamatinu að kostnaðarlausu. Innheimta gjaldsins á sér enda stað samhliða annarri innheimtu vátryggingafélags og má ætla að óverulegur kostnaðarauki fylgi henni fyrir innheimtuaðila.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 48/1994,
um brunatryggingar, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er verið að gera skýrari heimild til álagningar umsýslugjalds af brunabótamati húseignar er renni til Fasteignamats ríkisins. Gjaldið er nú þegar lagt á og á því er engin breyting. Því hefur samþykkt þessa frumvarps ekki áhrif á tekjur eða útgjöld ríkissjóðs.