Ferill 76. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 76 . mál.


76. Frumvarp til lagaum breytingu á iðnaðarlögum, nr. 42 18. maí 1978, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 2. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, 2.–3. mgr., er orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði laga þessara hafa ríkisborgarar eða lögaðilar aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið rétt til að reka hér iðnað og starfa sjálfstætt eða sem launþegar í iðnaði á grundvelli skuldbindinga Íslands um viðurkenningu á starfi og starfsþjálfun í iðnaði í öðru EES-ríki, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið og önnur lög er máli skipta. Ráðherra getur kveðið nánar á um þennan rétt í reglugerð.
    Lögreglustjórar skulu staðfesta réttmæti gagna um starf og starfsþjálfun eftir að viðkomandi félagi iðnaðarmanna, m.a. landssamtökum meistara og sveina, hefur verið gefinn kostur á að segja álit sitt. Lögreglustjórar hafa eftirlit með framkvæmd þessara ákvæða. Ágreining um rétt má bera undir ráðherra og enn fremur leita úrskurðar dómstóla.     

2. gr.

    Við 1. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr töluliður, 6. tölul., svohljóðandi:
6.    Ef ríkisborgari aðildarríkis að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið starfar hér án þess að staðfesting skv. 3. mgr. 2. gr. liggi fyrir.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var flutt á síðasta þingi en er nú endurflutt efnislega óbreytt að undanskildu því að umsagnaraðili í 2. efnismgr. 1. gr. er ekki „iðnaðarmannafélag“ heldur „félag iðnaðarmanna, m.a. landssamtök meistara og sveina“.
    Að áliti eftirlitsstofnunar EFTA hafa ákvæði fimm gerða, sem voru hluti af EES-samningnum í upphaflegri mynd, ekki verið tekin til fulls upp í landsrétt hér. Að meginstefnu til veita gerðir þessar ríkisborgurum EES-ríkja rétt til starfa í iðnaði í öðrum aðildarríkjum á grundvelli starfsreynslu nánar tiltekinn tíma. Álitið hafði verið og eftirlitsstofnuninni tilkynnt að ákvæðin hefðu m.a. verið tekin upp í landsrétt í lögum nr. 83/1993 um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum. Þau fjalla hins vegar ekki um þessar gerðir heldur aðrar gerðir sem tengjast starfsmenntun.
    Eftirlitsstofnun EFTA tók fram að ríkisborgarar EES-ríkja nytu ekki hér á landi réttar til að taka upp þau störf í iðnaði sem ákvæði tilskipananna veittu þeim þótt þeir hefðu þá starfsreynslu sem greint væri frá í tilskipununum. Ákvæði iðnaðarlaganna kæmu í veg fyrir slíkt. Þá mundu Íslendingar með starfsreynslu í öðrum EES-ríkjum njóta réttar samkvæmt gerðunum hér á landi. Leiðir þetta af dómi Evrópudómstólsins nr. 115/1978, sbr. 6. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið um túlkun ákvæða EES-samningsins í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta.
    Tekið skal fram hér að ákvæði gerðanna eru ekki einungis til hagsbóta fyrir ríkisborgara annarra EES-ríkja hér á landi heldur einnig fyrir íslenska ríkisborgara í öðrum EES-ríkjum.
    Samkvæmt EES-samningnum hefði átt að taka ákvæði gerðanna upp í landsrétt hér við gildistöku EES-samningsins 1. janúar 1994.
    Frumvarp þetta er samið í iðnaðarráðuneytinu.
    Þær fimm EES-gerðir, sem að framan greinir, eru:
    Tilskipun ráðsins 64/427/EBE frá 7. júlí 1964 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga á sviði framleiðslu- og vinnsluiðnaðar sem fellur undir ISIC yfirflokka 23–40 (Iðnaður og handverk) (sjá texta 31. tölul. VII. viðauka við EES-samninginn um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi í Stjórnartíðindum 1993, deild C 3, bls. 1244, m.a. um breytingu á gerðinni með tilskipun ráðsins 69/77/EBE frá 4. mars 1969, en texti gerðarinnar er birtur í sérriti S34 í EES-gerðum sem tengjast Stjórnartíðindum);
    tilskipun ráðsins 64/429/EBE frá 7. júlí 1964 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til að veita þjónustu á sviði framleiðslu- og vinnsluiðnaðar er heyrir undir ISIC yfirflokka 23–40 (Iðnaður og handverk) (sjá 32. tölul. VII. viðauka við EES-samninginn í framangreindu hefti Stjórnartíðinda og textann í framangreindu sérriti);
    tilskipun ráðsins 68/365/EBE frá 15. október 1968 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til að veita þjónustu á sviði matvæla- og drykkjarvöruframleiðslu (ISIC yfirflokkar 20 og 21) (sjá 35. tölul. VII. viðauka við EES-samninginn í framangreindu hefti Stjórnartíðinda og textann í framangreindu sérriti);
    tilskipun ráðsins 68/366/EBE frá 15. október 1968 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga á sviði matvæla- og drykkjarvöruframleiðslu (ISIC yfirflokkar 20 og 21) (sjá 36. tölul. VII. viðauka við EES-samninginn í framangreindu hefti Stjórnartíðinda og textann í framangreindu sérriti);
    tilskipun ráðsins 82/489/EBE frá 19. júlí 1982 um ráðstafanir til að auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt í háriðn (sjá 47. tölul. VII. viðauka við EES-samninginn í framangreindu hefti Stjórnartíðinda og textann í framangreindu sérriti).
    Tekið skal fram hér að í gerðunum er sums staðar vikið að rétti til að staðfesta sig hér á landi, þ.e. atvinnurekstrarrétti eða stofnsetningarrétti. Á þeim málum er almennt tekið í lögum nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sbr. breytingar á þeim lögum með lögum nr. 23/1991, 121/1993 og 46/1993. Þá geta gerðir þessar snert réttindi launþega til starfa í iðnaði og hefur verið tekið á því í lögum nr. 47/1993 um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum. Þá kann að reynast visst hald í jafnréttisákvæði EES-samningsins o.fl. sem hefur verið lögfest með lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.
    Þegar litið er á framangreindar gerðir sést að ákvæði gerða 64/427/EBE og 64/429/ EBE tengjast, svo og ákvæði gerða 68/365/EBE og 68/366/EBE en gerð 82/489/EBE stendur sjálfstætt. Í stuttu máli gilda þó þær reglur um réttindi viðkomandi iðnaðarmanna að starf og eftir atvikum þjálfun um alllangt skeið í einu EES-ríki nægir til starfsréttinda í öðru EES-ríki, 6–8 ár almennt fyrir ýmsar iðngreinar, 6–8 ár fyrir tilteknar iðngreinar á sviði matvæla- og drykkjarvöruframleiðslu og 6–8 ár í háriðn. Ákvæði iðnaðarlaga um íslensk meistarabréf og sveinsbréf halda gildi sínu. Þær breytingar verða, ef frumvarpið verður samþykkt, að ríkisborgarar EES-ríkja geta öðlast rétt til starfa í iðngreinum á grundvelli starfsreynslu og starfsþjálfunar. Viðkomandi geta þó ekki titlað sig sveina eða meistara. Meginreglan er með öðrum orðum gagnkvæm viðurkenning á starfsréttindum en einstakar þjóðir geta gert strangari kröfur fyrir þá borgara sína sem öðlast starfsréttindi í iðnaði heima fyrir, t.d. krafist sveinsbréfs eða meistarabréfs.
    Bæta má við um efni framangreindra gerða að í tilskipun 64/427/EBE felst að aðili, sem hefur lagt stund á viðkomandi starfsemi í EES-ríki ákveðinn tíma, uppfyllir skilyrði til að stunda þá starfsemi í öðrum EES-ríkjum. Starfstíminn í upphaflega ríkinu þarf að vera 6–8 ár eftir því hve lengi viðkomandi hefur starfað sjálfstætt og hvort eða hve langa starfsþjálfun hann hefur hlotið að öðru leyti. Ríkið, þar sem starfsemin var stunduð, verður að gefa út skilríki er staðfesti að viðkomandi aðili hafi lagt stund á starfsemina. Ef ekkert skilyrði er um starfsþjálfun í upphaflega ríkinu verður sá aðili, er vill fá starfstímann metinn í öðru EES-ríki, að sýna fram á að ekki hafi meira en 10 ár liðið frá því að hann lagði stund á viðkomandi starfsemi.
    Í viðauka við tilskipun 64/429/EBE sést að samkvæmt alþjóðlegum staðli um iðngreinaskiptingu (ISIC), sem stuðst var við á sínum tíma, falla flestar iðngreinar þar undir. Undanþegnar þessari tilskipun eru framleiðsla lyfja, skipasmíðar og skipaviðgerðir o.fl.
    Í tilskipun 68/365/EBE er fjallað um þrengra svið iðngreina en í tilskipunum tveimur frá árinu 1964. Þessi tilskipun á fyrst og fremst við um framleiðsluiðnað en vissar löggiltar iðngreinar geta fallið þar undir, svo sem bakaraiðn og kjötiðn.
    Í tilskipun 68/366/EBE, sem snertir einnig matvæla- og drykkjarvöruiðnað, segir að viðurkenna skuli vottorð um 6–8 ára starf og starfsþjálfun.
    Í tilskipun 82/489/EBE, sem snertir háriðn, er miðað við 6–8 ára starf og þjálfun.
    Áður hefur verið minnst á lög nr. 83/1993 um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum sem menntamálaráðherra lagði fram frumvarp um. Þá má nefna fleiri lög sem snerta upptöku gerða samkvæmt VII. viðauka við EES-samninginn, um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi, í íslenskan rétt. Nefna má lög nr. 116/1993 um breytingar á lagaákvæðum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna aðildar að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, sbr. reglugerð nr. 244/1994 á grundvelli laganna en EES-gerðirnar á þessu sviði eru um sumt líkar framangreindum iðnaðargerðum. Þá má nefna lög nr. 62/1993 um breytingar á lagaákvæðum er varða samgöngumál vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu og heimild í þeim lögum til setningar reglugerða á grundvelli ýmissa laga, t.d. laga nr. 79/1985 um skipulag ferðamála, sbr. reglugerð nr. 571/1993 um þau mál. Eru ákvæði EES-gerða á sviði ferðamála t.d. mjög lík framangreindum iðnaðargerðum og er stefnt að upptöku iðnaðargerðanna í íslenskan rétt með svipuðum hætti.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Um ákvæði fyrstu efnismálsgreinar vísast til almennra athugasemda hér að framan, sbr. einkum tilvísun í skuldbindingar samkvæmt VII. viðauka við EES-samninginn og það sem segir um fjárfestingarlögin og atvinnu- og búseturéttarlögin. Stefnt er að því að ákvæði framangreindra iðnaðargerða öðlist reglugerðargildi hér á landi. Yrði þannig tryggt til fulls að ákvæði EES-gerða á sviði iðnaðar yrðu virk hér á landi. Ekki er gert ráð fyrir að veittur sé meiri réttur en í gerðunum felst.
    Ákvæði 2. efnismgr. byggja á því kerfi sem er við lýði í iðnaðarlögum en þar kemur m.a. fram að lögreglustjórar láti af hendi meistarabréf og iðnaðarleyfi. Bætt er við ákvæði um álit frá félagi iðnaðarmanna, m.a. landssamtökum meistara og sveina.
    Það skal ítrekað hér að af hálfu EES-ríkjanna er um að ræða gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi. Íslenskir iðnaðarmenn munu því njóta réttar samkvæmt gerðum þessum hyggi þeir á störf í öðrum EES-ríkjum.

Um 2. gr.


    Vegna breytingarinnar í frumvarpi þessu er bætt við refsiákvæði í anda annarra refsiákvæða laga þessara.
    

Um 3. gr.


    Í þessari grein er gildistökuákvæði og þarfnast hún ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á iðnaðarlögum,
nr. 42/1978, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta var flutt á síðasta þingi og er nú endurflutt efnislega óbreytt. Í frumvarpinu felast viðbætur við 2. og 15. gr. iðnaðarlaga vegna ákvæða í EES-samningi. Í 2. gr. iðnaðarlaga segir að enginn megi reka iðnað í atvinnuskyni á Íslandi eða í íslenskri landhelgi, nema hann hafi fengið til þess leyfi samkvæmt þessum lögum. Áformuð breyting laganna miðar að því að þrátt fyrir þetta ákvæði hafi ríkisborgarar eða lögaðilar aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið rétt til að reka hér iðnað og starfa sjálfstætt eða sem launþegar í iðnaði á grundvelli skuldbindinga um viðurkenningu á starfi og starfsþjálfun í iðnaði í öðru EES-ríki. Í 15. gr. iðnaðarlaga eru ákvæði um að sektum skuli beitt ef vissum skilyrðum er ekki fullnægt og gerir þetta frumvarp ráð fyrir einu til viðbótar er varðar erlenda ríkisborgara og er afleiðing af breytingu á 2. gr.
    Samþykkt þessa frumvarps mun hafa í för með sér að álag á störf kunna að aukast hjá embættum lögreglustjóra við rannsóknir á umsóknum áður en til leyfisveitinga kemur. Á móti koma gjöld sem greidd eru í ríkissjóð fyrir staðfestingu lögreglustjóra á starfsréttindum samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Því verður ekki séð að samþykkt frumvarpsins hafi aukinn kostnað fyrir ríkissjóð í för með sér.