Ferill 81. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 81 . mál.


82. Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Össur Skarphéðinsson,


Guðmundur Árni Stefánsson.1. gr.


    5. gr. laganna orðast svo:
    Maki eða sá sem heldur heimili með og annast elli- eða örorkulífeyrisþega og getur af þeim sökum ekki stundað nema takmarkaða vinnu utan heimilis á rétt á umönnunarbótum er nemi allt að 50.212 kr. á mánuði. Bæturnar eru heimildarbætur og því háðar öðrum tekjum bótaþega.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Samkvæmt 5. gr. gildandi laga getur aðeins maki elli- eða örorkulífeyrisþega fengið umönnunarbætur leggi hann niður störf vegna umönnunar á heimili. Foreldrar fatlaðra og alvarlega sjúkra barna geta fengið umönnunarbætur þar til þau verða 16 ára, sbr. 4. gr. gildandi laga. Börnin fá sjálf örorkubætur þegar þau verða 16 ára og umönnunarbætur til foreldra falla niður þótt umönnunar sé áfram þörf.
    Mun fleiri en makar lífeyrisþega vinna umönnunarstörf á heimilum og geta ekki stundað vinnu utan heimilis vegna þess. Nú þegar legurúmum á sjúkrahúsum fækkar og erfiðara er að fá vistun fyrir þá sem þurfa á henni að halda verða heimilismenn og aðrir aðstandendur sjúkra og fatlaðra að taka að sér þessi störf og því er úrelt að miða aðeins við greiðslu til maka þess sem er umönnunar þurfi.
    Fólk annast uppkomin börn sín, foreldra, tengdafólk eða aðra ættingja en á ekki rétt á neinum greiðslum frá hinu opinbera samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Það samræmist ekki anda laganna að fólki sé mismunað eftir tengslum við þann sem það annast.
    Breyttar áherslur í heilbrigðisþjónustu, þar sem lögð er áhersla á að sjúkir geti verið eins lengi heima og unnt er og fái þjónustu þar, eru einnig rök fyrir því að umönnunarbætur greiðist fleirum en maka. Margir sjúkir og fatlaðir sem þurfa umönnun heima eiga ekki maka, en e.t.v. er einhver sem býr með þeim sem vill annast þá. Þessar bætur gera þeim sem eru umönnunar þurfi kleift að vera lengur heima sem sparar hinu opinbera dýra sjúkrahúslegu. Hámarksupphæðin er miðuð við hámarksgreiðslur vegna umönnunar fatlaðra og sjúkra barna.
    Þessi lagabreyting er samhljóða grein í frumvarpi til almannatryggingalaga sem Guðmundur Bjarnason þáverandi heilbrigðisráðherra lagði fram á Alþingi til kynningar vorið 1991 eftir heildarendurskoðun á þeim lögum.
    Einnig lagði fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps fram samhljóða frumvarp á 115. löggjafarþingi árið 1992 og á 120. löggjafarþingi 1996. Það hefur verið sent til umsagnar og voru umsagnir undantekningarlaust í þá veru að þetta væru nauðsynlegar réttarbætur fyrir sjúka og fatlaða, og mikilvægt væri að frumvarp í þessa veru yrði að lögum.