Ferill 83. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 83 . mál.


84. Tillaga til þingsályktunar



um aðlögun að lífrænum landbúnaði.

Flm.: Þuríður Backman, Egill Jónsson, Gísli S. Einarsson,


Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristín Ástgeirsdóttir.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að undirbúa viðeigandi breytingar á landbúnaðarlöggjöfinni til þess að unnt sé að styðja bændur sem aðlaga búskap sinn viðurkenndum lífrænum búskaparháttum í samræmi við lög nr. 162/1994 og reglugerð nr. 219/1995, um lífræna landbúnaðarframleiðslu.

Greinargerð.


    Búvöruframleiðsla sem byggist á lífrænni ræktun er í örum vexti í mörgum löndum. Víðast hvar er skortur á lífrænt vottuðum vörum enda markaðseftirspurn vaxandi. Á Norðurlöndum og víðar er efling lífræns búskapar liður í landbúnaðarstefnunni, t.d. að 10–20% búvöruframleiðslunnar verði vottuð lífræn fyrir aldamót. Slíkt er í anda þeirrar stefnu að efla beri sjálfbæra þróun enda mun meiri kröfur gerðar til umhverfis- og búfjárverndar í lífrænum búskap en í þeim hefðbundna. Bændur, sem vilja taka upp viðurkennda lífræna búskaparhætti, geta fengið sérstaka aðlögunarstyrki í Danmörku, Noregi, Finnlandi, Svíþjóð, Bretlandi, Austurríki, Þýskalandi, Sviss og víðar. Verið er hverfa frá framleiðslutengdum stuðningi til umhverfistengds stuðnings við landbúnað og er aðlögunarstyrkur við lífrænan búskap veigamikill liður í þeirri þróun. Þar með er viðurkennt að bændur sem stunda lífrænan búskap séu að taka á sig mun stærri hluta umhverfiskostnaðar en þeir sem stunda efna- og lyfjavæddan búskap er veldur sums staðar mengun og öðrum vandamálum. Bóndi, sem fer út í lífræna ræktun, þarf að kosta töluverðu til endurræktunar, breyta gripahúsum, aðlaga vélakost og standa straum af eftirlits- og vottunarkostnaði, en vottun er neytendum trygging fyrir því að varan sé framleidd og unnin samkvæmt reglum og stöðlum fyrir lífrænan landbúnað.
    Nú er unnið að gerð skýrslu í samræmi við ályktun frá búnaðarþingi 1996 (mál nr. 42, þingskjal nr. 81) þar sem lagðar verða fram tillögur um stuðning við aðlögun að lífrænum búskap. Í lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, er ekki heimild til að veita slíkan stuðning og ljóst er að lög nr. 27/1995, um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistrænna og lífrænna afurða, varða ekki beinan stuðning til einstakra bænda sem hyggjast framleiða lífrænar afurðir með búháttabreytingu sem felur í sér verulega aðlögun samkvæmt lögum nr. 162/1994. Því þarf að marka aðlögunarstuðningi við lífrænan búskap ákveðinn bás í landbúnaðarlöggjöfinni og mætti í því sambandi einnig nefna lög um búfjárrækt, nr. 84/1989, og jarðræktarlög, nr. 56/1987, en þau eru nú í endurskoðun. Þess ber að geta að í aðlögun að lífrænum búskap gæti falist stuðning-


Prentað upp.

ur við landgræðslu og skógrækt og þá sérstaklega skjólbeltarækt sem verður að teljast nauðsynlegur liður lífrænnar ræktunar víða um land. Þá má tengja aðlögunarstyrkjum ákveðin skilyrði um náttúruvernd, svo sem verndun votlendis og viðhald erfðafjölbreytni dýra og plantna.



Fylgiskjal.


Dr. Ólafur R. Dýrmundsson:

Hvers vegna lífrænn landbúnaður?


(Grein í Bændablaðinu, 13. tbl., 2. árg. 1996.)



    Undanfarin þrjú ár hefur umræða um lífræna ræktun og lífræna búskaparhætti aukist mjög hér á landi. Við erum að vísu um áratug á eftir nágrannalöndunum en gætum dregið mjög á þau ef átak er gert til að efla þessa búskaparhætti. Eitt er víst að markaður fyrir lífrænt vottaðar landbúnaðarafurðir fer vaxandi og í flestum tilvikum er greitt hærra verð fyrir þessar vörur en þær hefðbundnu enda er framleiðslukostnaðurinn hærri.
    Lífræn ræktun, sem byggist á uppbyggingu langtímafrjósemi jarðvegs með hvers konar lífrænum áburði, er undirstaðan. Hér á landi hafa verið settar skýrar reglur lögum samkvæmt um þessa búskaparhætti, verið er að efla leiðbeiningar og fræðslu og tvær vottunarstofur, Tún í Mýrdal og Vistfræðistofan í Reykjavík, hafa fengið starfsleyfi til að annast eftirlit og vottun samkvæmt lögum og reglugerð um lífræna landbúnaðarframleiðslu. Þá er unnið að markaðsöflun erlendis.
    Ljóst er að hér á landi eru skilyrði til lífræns búskapar ákjósanleg að mörgu leyti. Þar sem minna er um sjúkdóma í búfé og nytjajurtum hér en víðast hvar erlendis er lyfja- og efnanotkun minni. Einnig eru búskaparhættir hér að mörgu leyti í betri sátt við náttúruna en gerist erlendis þar sem mengun vegna áburðar og ýmissa eiturefna er víða stórfellt vandamál. Þó er ljóst að flestir íslenskir bændur eru mjög háðir notkun tilbúins áburðar á ræktað land og er það tvímælalaust helsti þröskuldurinn sem þarf að yfirstíga ef fara á út í aðlögun að lífrænni ræktun í stórum stíl. Þeir bændur sem rutt hafa brautina sýna að á mörgum búum í landinu væri hægt að taka upp viðurkennda lífræna búskaparhætti í ýmsum búgreinum, þótt í smáum stíl væri til að byrja með.
    Ég fæ ekki betur séð en að það sé hagur okkar allra, jafnt bænda sem neytenda, að efla lífrænan landbúnað, því að öll viljum við vernda umhverfið, og helst bæta það, og framleiða um leið hollustu matvæli sem völ er á á byggðu bóli. Ekki skaðar að lífrænn búskapur er atvinnuskapandi og gæti stuðlað að viðhaldi og vernd byggðar í landinu. Þetta getur verið liður í nýsköpun og aukinni fjölbreytni. Þótt mest sé rætt um möguleika á útflutningi þarf einnig að sinna heimamarkaði. Verið er að flytja inn lífrænt vottaðar vörur sem sumar hverjar væri hægt að framleiða hér, t.d. grænmeti, og við skulum ekki gleyma þeim erlendu ferðamönnum sem í heimalöndum sínum eru fastir kaupendur lífrænna vara og tengja neyslu þeirra eftirsóknarverðum lifnaðarháttum og umhverfisvernd. Athygli vakti hvað poppstjarnan David Bowie vildi hafa á matseðlinum þegar hann heimsótti Ísland fyrr í sumar. Lífrænt og aftur lífrænt.
    Í könnun, sem gerð var í vor, kom í ljós töluverður áhugi meðal sauðfjárbænda á að framleiða lífrænt vottað dilkakjöt til útflutnings. Nú er það orðið deginum ljósara að eigi að stunda útflutning á dilkakjöti þarf að koma til gæðavottun í æ ríkari mæli. Þar mundi lífræn vottun vega þyngst vegna þess að ímynd lífrænna búvara er mjög sterk á markaðnum. Í vetur var gerð úttekt á útbreiðslu kúariðu á lífrænt vottuðum búum í Bretlandi og kom þá í ljós að engin riðutilfelli voru þekkt á slíkum búum nema á þeim sem höfðu keypt að kálfa frá hefðbundnum búum. Með öðrum orðum, lífrænu búin í Bretlandi hafa öðlast ákveðið traust neytenda vegna þeirra búskaparhátta sem þar eru stundaðir.
    Á sama tíma og verksmiðjubúskapurinn sætir vaxandi gagnrýni og hefðbundinn landbúnaður er í kreppu víða um lönd blása nú ferskir vindar um lífræna búskaparhætti. Við megum ekki láta þá jákvæðu strauma fram hjá okkur fara. Eftir hverju er verið að bíða?