Ferill 104. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 104 . mál.


109. Tillaga til þingsályktunar



um olíuleit við Ísland.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón Guðmundsson, Árni R. Árnason,


Einar K. Guðfinnsson, Hjálmar Jónsson, Tómas Ingi Olrich.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stuðla að því að nú þegar verði hafnar markvissar rannsóknir á því hvort olía eða gas finnst á landgrunni Íslands. Horft verði til þeirra svæða á landgrunninu sem fyrri rannsóknir benda til að séu líklegust til að geyma slíkar auðlindir og leitað samstarfs við erlenda aðila um rannsóknirnar.

Greinargerð.


    Eftir því sem næst verður komist mun fyrsta fyrirspurn um leyfi til leitar að olíu og gasi hér við land frá erlendum aðila hafa borist til íslenskra stjórnvalda í mars 1970. Frá þessum tíma til ársloka 1974 bárust íslenskum stjórnvöldum sams konar óskir frá 25 erlendum aðilum. Íslenskum stjórnvöldum fannst fyrirspurnirnar ekki þess eðlis að rétt væri að veita þeim jákvæða afgreiðslu, með einni undantekingu þó. 1. desember 1970 lagði Shell International í Haag fram umsókn um vísindalega leit að olíu og gasi á hafsbotninum umhverfis Ísland. Með bréfi iðnaðarráðuneytis 10. febrúar 1971 var fyrirtækinu heimilað að framkvæma jarðeðlisfræðilegar mælingar á landgrunni Íslands. Aðrar rannsóknir voru ekki leyfðar né heldur vinnsla. Það skilyrði var sett, að niðurstöður rannsókna yrðu sendar íslenskum stjórnvöldum og fulltrúi tilnefndur af iðnaðarráðuneytinu yrði um borð í rannsóknarskipinu. Sérstaklega var tekið fram að rannsóknarheimildin takmarkaðist ekki við hafsvæðið út að 200 m dýptarlínu heldur giltu íslenskar reglur á öllu nýtanlegu svæði. Rannsóknir Shell fóru fram 6.–8. september 1971. Voru mælingar framkvæmdar eftir 350 km langri línu sem Shell ákvað vestur af landinu. Dr. Guðmundur Pálmason var fulltrúi Íslands um borð í rannsóknarskipinu. Niðurstaða rannsóknanna varð sú að jarðlög þarna væru svipuð og undir landinu sjálfu og ekki talið líklegt að um olíulindir væri þar að ræða. Í umræðum um málið á Alþingi kom m.a. fram hjá þáverandi forsætisráðherra, Geir Hallgrímssyni, að áhugi þessara aðila benti til þess að þeir teldu ekki tilgangslaust með öllu að leita fyrir sér á yfirráðasvæði okkar. Hann sagði jafnframt: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að heildarrannsókn fari fram á landgrunni Íslands, svo að gengið sé úr skugga um það með þeirri tækni, sem menn ráða nú yfir, hvaða auðlindir kunna þar að finnast og hvort þar er að finna olíu eða gas. Tækniframfarir við olíuvinnslu eru örar. Sá tími kann að koma fyrr en varir að mikið hafdýpi útiloki ekki lengur vinnslu á þeim svæðum þar sem mestar líkur kunna að vera á, að olía finnist við Ísland. Hins vegar er rétt að vara við allri bjartsýni og leggja áherslu á að varlega sé farið í þessar sakir, um leið og áhersla er enn fremur lögð á það að rannsóknum sé haldið áfram.“
    17. ágúst 1978 heimilaði þáverandi iðnaðarráðherra, Gunnar Thoroddsen, rannsóknarfyrirtækinu Western Geophysical Co. að framkvæma rannsóknir og olíuleit á landgrunni Íslands, þ.e. á svæði út af Eyjafirði og Skjálfandaflóa. Niðurstöður lofuðu mjög góðu um tilvist auðlinda á þessu svæði. Það voru að vísu frummælingar sem þarna voru gerðar, en í ljós kom að út af Eyjafirði og Skjálfandaflóa mátti finna allt upp í 4 km þykk setlög, en setlög eru algjör forsenda fyrir því að um olíu eða gaslindir geti verið að ræða. Almennt er talin ástæða til að halda áfram rannsóknum ef setlögin ná 1 km að þykkt. Á þessu svæði voru þau frá 2 og upp í 4 km þykk og því má segja að ástæða hafi verið til að halda áfram þessum rannsóknum. Árið 1981 fóru fram frekari rannsóknir og þá rannsóknaboranir í Flatey á Skjálfanda að tilstuðlan nefndar sem með þessi mál fór. Þá fól þáverandi iðnaðarráðherra, Hjörleifur Guttormsson, Orkustofnun að framkvæma þar sérstaka rannsóknaborun sumarið 1982. Niðurstöðurnar voru staðfesting á tilvist setlaga þar. Borholan var hins vegar aðeins 554 m djúp en til að ganga úr skugga um tilvist kolvetna í setlögum þar nyrðra þarf að bora niður á yfir 2000 m dýpi.
    Í október 1981 var gerður samningur milli Íslands og Noregs sem tók gildi 2. júní 1982 um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen. Í þeim samningi var ákveðið að Ísland og Noregur mundu sameiginlega láta fara fram rannsóknir á ákveðnum svæðum og settar yrðu reglur um hvernig hátta skyldi olíuleit á þeim ef til kæmi. Norðmenn áttu að kosta forrannsóknir á hafsbotninum, en skipulag að vera í höndum beggja aðila sameiginlega. Lítið hefur farið fyrir þessu samstarfi frændríkjanna, en sjálfsagt og eðlilegt er að endurvekja það og halda því áfram.
    Rannsóknir á landgrunni Íslands, svo víðáttumikið sem það er, eru tímafrekar og ekki á færi Íslendinga einna. Því er eðlilegt að beina rannsóknum að ákveðnum svæðum og einbeita sér þá helst að svæðinu út af Eyjafirði og Skjálfandaflóa þar sem talin er nokkur von um auðlindir. Verði einskis látið ófreistað til að ná samningum við erlenda aðila um frekari rannsóknir þar sem fyllstu aðgæslu verði gætt með tilliti til náttúruverndar. Nái þessi þingsályktunartillaga fram að ganga væri ekki óeðlilegt að ríkisstjórnin skipaði starfshóp vísindamanna er ynni að framgangi málsins og fylgdist með störfum erlendra rannsóknaraðila.