Ferill 108. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 108 . mál.


116. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Bryndís Hlöðversdóttir,


Kristinn H. Gunnarsson, Sigurður Hlöðvesson.



1. gr.


    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir kröfur 2. mgr. 5. gr. um úreldingu sambærilegs skips er heimilt að veita allt að 10% stærra skipi en úrelt er veiðileyfi ef nýja skipið er byggt samkvæmt nútímakröfum um fullkomnustu aðstöðu fyrir áhöfn. Ef endurnýjað er í slíku skipi sem ætlað er til veiða á uppsjávarfiskum og búið tækni til kælingar og hágæðameðferðar hráefnis má stærð hins nýja skips vera allt að 25% meiri en þess sem úrelt er. Ráðherra er heimilt að rýmka framangreind mörk í allt að 25% í fyrra tilvikinu og allt að 40% í því síðara ef hið nýja skip er smíðað í innlendri skipasmíðastöð.
    Samhliða þeirri breytingu sem 1. mgr. mælir fyrir um skal ráðherra láta fara fram heildarendurskoðun á þeim reglum sem gilda um úreldingu fiskiskipa og skulu niðurstöður hennar lagðar fyrir Alþingi haustið 1997. Jafnframt falla ákvæði 1. mgr. úr gildi í árslok 1997.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


     Með frumvarpinu er lagt til að í ákvæði til bráðabirgða verði dregið úr hinni stífu úreldingarkröfu sem nú er í gildi. Heimilt verði að hafa fiskiskip almennt allt að 10% stærri en þau sem úrelt eru á móti til að mæta aukinni rýmisþörf vegna bætts aðbúnaðar áhafnar. Þá er lagt til að um enn frekari rýmkun verði að ræða þegar endurnýjun í nótaskipaflotanum á í hlut, enda sé um að ræða kaup eða smíði á skipi sem búi yfir nýjustu tækni til kælingar og hágæðameðferðar hráefnis, svonefndri RSV-kælingu. Ljóst er að gildandi reglur verka mjög hamlandi gegn allri endurnýjun, en hennar er brýn þörf nú í þeim hluta flotans sem veiðir aðallega uppsjávarfiska. Sá hluti flotans er gamall og úr sér genginn þannig að frá rekstrarlegu sjónarmiði, og þó ekki síður hvað öryggi snertir, er það óviðunandi ástand. Þá stendur þetta ástand flotans í vegi fyrir framþróun í gæðamálum og hindrar að það hlutfall úr þessum stofnum sem nýtt er beint til manneldis og í gæðaframleiðslu aukist. Síðast en ekki síst er ástandið þannig að ár eftir ár vantar mikið á að útgefinn kvóti náist, t.d. í loðnu, og verður þjóðarbúið af miklum fjárhæðum af þeim sökum. Það eru því tæplega rök fyrir að framfylgja stífum úreldingarreglum hvað þennan hluta flotans snertir. Í reynd hefur verið í gangi yfirstuðull á endurnýjun slíkra skipa því að óumdeilt er að samfara hinni nýju tækni, þ.e. geymslu hráefnis í einangruðum lestum eða tönkum með kælikerfum og tilheyrandi búnaði, minnkar burðargeta um nálægt 20%. Hér er því ekki lagt til að ganga lengra en jafna þennan mun, auk þess sem mælt er fyrir um að úreldingarmálin verði tekin til heildarendurskoðunar.
    Lagt er til að ráðherra geti rýmkað úreldingarreglur sérstaklega ef endurnýjun fer fram í innlendum skipasmíðastöðvum.



Fylgiskjal.


ERINDI TIL SJÁVARÚTVEGSNEFNDAR VARÐANDI ÚRELDINGARMÁL



Bárður Hafsteinsson skipaverkfræðingur:

Nauðsyn á eðlilegri endurnýjun loðnuskipaflotans.


Gamaldags fjárfestingarhöftum laumað inn í krókabátafrumvarpið.


(5. júní 1995.)


    Skömmu eftir myndun núverandi ríkisstjórnar var lögð fram svonefnd „Verkefnaskrá sjávarútvegsráðuneytisins“, en þar segir m.a. eftirfarandi:
    „Reglur um endurnýjun fiskiskipa verði endurskoðaðar þannig að tryggt verði að afkastageta fiskiskipaflotans aukist ekki.“

Nýtt lagafrumvarp.
    Síðan hefur sjávarútvegsráðherra lagt fram frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, þar sem nánar er tekið á þessum málum. Í frumvarpinu eru ákvæði um að óheimilt sé að gera breytingar á fiskiskipum, nema annað skip eða önnur skip láti veiðileyfi á móti. Skip eldri en af árgerð 1986 þurfa einnig að sæta sömu skilyrðum nema bindandi samningur um breytingar á þeim sé gerður fyrir gildistöku laganna og þau skip fái haffærisskírteini fyrir árslok.
    Fiskiskip landsmanna eru atvinnutæki mikilvægustu atvinnugreinar þjóðarinnar og koma til með að verða það næstu áratugina. Það er því mjög mikilvægt að eðlileg og óþvinguð endurnýjun geti átt sér stað á þeim.
    Ef frumvarpið verður að lögum er verið að hindra að útgerðarmenn ráðist í endurbætur á skipum sínum til að koma með betra hráefni að landi og þar með stuðla að auknum þjóðartekjum.
    Svo sem kunnugt er þá er nú svo komið að svo til allur sjávarafli landsmanna innan fiskveiðimarkanna er kominn í aflamarkskerfið. Þetta er stjórnkerfi sem að mínu mati er komið til að vera næstu áratugina, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Þetta er það kerfi sem takmarkar best heildarveiði úr einstökum fiskstofnum.
    Á síðustu árum hefur mikið verið rætt um hagræðingu í atvinnulífinu, fyrirtæki sameinuð, fyrirtæki gerð sérhæfðari, kostnaður skorinn niður o.fl. Í útgerð hefur skipum verið fækkað, aflakvóti fluttur á færri skip o.s.frv.
    Þegar kemur að því að útgerðarmaður þarf að hagræða og endurnýja aðalatvinnutæki sitt, fiskiskipið, eru nú í gildi gamaldags fjárfestingarhöft sem þekktust hér á landi fyrir 40–45 árum síðan og útlit fyrir enn meiri höft ef umrætt frumvarp verður að lögum.


Aldur loðnuskipanna.
    Fiskiskipafloti okkar er orðinn gamall, meðalaldur alls flotans er um 17 ár.
    Meðalaldur loðnuveiðiskipanna er yfir 26 ár. Tvö loðnuveiðiskip eru yngri en 17 ára og það elsta 38 ára. Loðnuskipin eru að meginuppistöðu yngstu síldarbátarnir sem smíðaðir voru 1965–67. Að vísu er búið að lengja þessi skip og byggja yfir þau og endurnýja vélar þeirra, en verulegur hluti skipanna er upphaflega smíðin. Tæknilega séð er eðlilegur „notkunartími“ (lífslengd) fiskiskipa 20–25 ár.
    Skrokkar þessara gömlu loðnuskipa eru komnir á tíma, hleðsla skipanna nú er langt umfram upphaflegar hönnunarforsendur hvað styrkleika og stöðugleika varðar. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkur hennar.
    Þegar tæknimenn sjá myndir af þessum gömlu loðnuskipum fullhlöðnum á siglingu að vetrarlagi fer hrollur um þá því að þeir vita hvaða hættur geta verið á ferðinni. Það er einstök heppni og mildi og hæfum skipstjórnarmönnum að þakka að ekki hafa orðið stórslys á loðnuveiðiskipunum á undanförnum árum, en hættan eykst verulega með hverju árinu sem þessi gömlu skip eru í rekstri.
    Í reglum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO, Torremolinos-samþykktinni um öryggi fiskiskipa frá 1977, er krafa um ákveðna bóghæð yfir sjólínu á nýjum skipum. Þessar reglur mun Evrópusambandið og EES taka í gildi sem sínar innan skamms. Nokkrar nágrannaþjóðir okkar hafa sett hliðstæðar reglur um fríborð fiskiskipa til að auka öryggi þeirra. Þessar reglur krefjast um það bil 1,5 m fríborðs miðskips fyrir 45–50 m langt skip. Ekkert af okkar gömlu loðnuskipum kemst nálægt því að uppfylla þessar reglur. Þær eru ekki samdar að ástæðulausu heldur að mjög athuguðu máli færustu sérfræðinga á sviði öryggis fiskiskipa.

Endurnýjun.
    En hver er þá ástæðan fyrir því að útgerðarmenn endurnýja ekki skip sín með reglulegu millibili? Jú, svarið er einfalt. Til að þetta sé hægt þarf að vera rekstrargrundvöllur fyrir nýju skipi. Eitt þeirra atriða sem stuðlar að óhagstæðum rekstrargrundvelli eru þær gamaldags fjárfestingarhömlur, sem ég vil kalla svo, sem eru til staðar enn þann dag í dag þrátt fyrir að kvóti sé á svo til öllum fisktegundum.
    Núna eru í gildi reglur sem segja að sé nýtt skip tekið í notkun þurfi að úrelda jafnstórt skip á móti mælt í rúmmetrum (lengd x breidd x dýpt). Ný skip eru í dag mun stærri samanborið við „sambærileg“ skip smíðuð fyrir 30 árum. Það er allt annar aðbúnaður áhafnar, meðferð afla krefst mun meira rýmis o.fl. Þar af leiðandi þarf útgerðarmaður sem ætlar að endurnýja 30 ára gamalt loðnuskip nú að kaupa tvö önnur í viðbót til að fleygja, aðeins til að uppfylla þessar kröfur úreltrar reglugerðar. Þessi kaup á tveimur skipum geta kostað hann allt að 100–120 millj. kr., með öðrum orðum er hér um að ræða 20% toll á nýtt skip.
    Annað hættulegt atriði sem reglurnar stuðla að er að með þessu áframhaldi getur skipunum fækkað of mikið þannig að erfitt verði að veiða þann kvóta sem úthlutað er. Það er þekkt lögmál hvort sem mönnum líkar betur eða verr að það getur orðið mjög afdrifaríkt að fækka fiskiskipunum almennt of mikið. Ef þeim fækkar þannig að meira fiskast en hæfilegt er á hvert skip kemur það niður á meðhöndlun aflans um borð. Útkoman er alltaf minni gæði og lægra afurðaverð. Með hæfilega stórum flota fæst besta nýtingin á því sem um borð kemur.

Afleiðingar laganna.
    Afleiðingar ákvæða frumvarpsins verða þær að loðnuskipaflotinn heldur áfram að koma með lélegt hráefni að landi fyrir mjölverksmiðjurnar, en þær hafa einmitt fjárfest fyrir mörg hundruð milljónir króna á síðustu missirum til að geta framleitt hágæðamjöl. Skilyrði þess að hægt sé að framleiða hágæðamjöl er einmitt að skipin komi með hráefnið kælt að landi. Ekkert verður af þessu og fjárfesting mjölverksmiðjanna er til lítils.
    Norsk-íslenski síldarstofninn nálgast lögsögu okkar. Frumskilyrði þess að nýta hann til manneldis er að koma með aflann að landi kældan í sjó eða ís/sjó-blöndu. Eitt skip íslenska flotans getur komið með aflann í sjókælitönkum að landi nú og annað gamalt skip er í breytingum sem lýkur í haust. Það er mér óskiljanlegt hvernig mönnum dettur í hug að gera loðnuskipaútgerðum erfiðara um vik en ella að gera nauðsynlegar endurbætur á skipum sínum þannig að meðferð aflans verði betri og öryggið meira fyrir skip og áhöfn þess.
    Þetta lagafrumvarp setur u.þ.b. 60 millj. kr. toll ofan á u.þ.b. 150 millj. kr. fjárfestingu í nauðsynlegum breytingum á skip.
    Þar sem mönnum er gert mjög erfitt fyrir að smíða ný skip með núgildandi lögum um úreldingu skipa á móti nýsmíði er nú einnig verið að setja hömlur á að menn endurbæti skip sín til að mæta kröfu tímans. Þar sem kvóti er á öllum afla þessara skipa er þetta með öllu óskiljanlegt á Íslandi árið 1995.

Lokaorð.
    Skapa þarf útgerðinni í landinu nútímarekstrarumhverfi þar sem flutningur kvóta á milli skipa er frjáls og fjárfestingar í skipum algerlega á ábyrgð útgerðarinnar og lánardrottna hennar án afskipta ríkisvaldsins af því hvernig eigi að sækja aflann og með hvers konar skipum. Afnema þarf allar hömlur á breytingum og endurnýjun skipa sem eru á aflamarki. Ríkisvaldið úthlutar kvótanum, útgerðin í landinu sér um að koma honum á land án aðstoðar embættismanna.


Erindi frá Húnaröst hf.


(6. júní 1995.)


    Það kom sem reiðarslag yfir okkur eigendur Húnarastar RE-550 þegar okkur var bent á breytingar á frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða. Þar kemur berlega í ljós sá vilji að gera nótaflotanum ókleift að endurbæta skip sín. Þykir okkur þetta mjög miður og mikil skammsýni að ætla að setja nótaflotann undir sama hatt og aðra í þessu máli, sérstaða hans er slík.
    Flest skip í nótaflotanum eru 20–30 ára gömul. Þar með væri hægt að segja: Af hverju endurnýja menn ekki allt skipið? Afkoma loðnuflotans er slík að fæstir hafa einfaldlega bolmagn til þess að kaupa ný skip á 600–800 milljónir kr. þegar meðaltalsaflaverðmæti ársins er í kringum 150 milljónir kr. Hér væri verið að hrinda mönnum í framkvæmdir sem þeir hreinlega réðu ekki við og gjaldþrot fyrirtækja er eitthvað sem enginn vill og enginn græðir á.
    Kröfur um ferskleika eru að verða mjög miklar samkvæmt EES-stöðlum. Kaupendur hráefnis gera æ meiri kröfur til ferskleika og síðan komum við að einum mikilvægasta þættinum í þessu sem varðar hráefni til manneldis, því ferskara sem það kemur að landi, því meiri verðmæti og því fleiri hendur sem vinna verkið.
    Loðnukvótinn hefur ekki náðst undanfarin ár þannig að aðaltilgangur frumvarpsins nær ekki yfir nótaflotann. Síldveiðin úr norsk-íslenska stofninum ýtir enn frekar á að skipin séu stærri og að hinni nýju kælitækni (RSV) sé komið í skipin.
    Alþjóðareglur um hleðslumark skipa sem mundu gera það að verkum að burðargeta flotans gæti minnkað um 30%.
    Það sem við og útgerðir um 40% skipa í flotanum erum einfaldlega að fara fram á er að geta sett RSV-kælitanka í skip okkar og með þeirri framkvæmd þarf rýmkun til þess að breytingin sé hagkvæm. Við ætlum ekki að fara út í tæknilega hluti en erum boðnir og búnir að sýna mönnum teikningar af breytingum sem við höfum þegar hafið vinnu á. Þetta eru breytingar sem kosta 120–250 milljónir kr. eftir stærð skipa og umfangi verksins.
    Það eru gífurlegir hagsmunir fyrir þjóðfélagið í heild sinni að þarna verði ekki lokað á okkur því þetta mun í framtíðinni geta aukið tekjur ríkisins. Við eigendur Húnarastarinnar erum komnir af stað, en fresturinn sem gefinn er í athugasemdum við 5. gr. er of stuttur fyrir okkur. Við höfum nú þegar lagt í þetta milljónir króna í undirbúningsvinnu og svo á við um fleiri og margir eru komnir af stað. Frestinn um haffærisskírteini þyrfti einfaldlega að framlengja um eitt ár til þess að þeir sem komnir eru af stað geti klárað verkið. Það tekur einfaldlega þann tíma.
    Frumvarpið sem liggur fyrir Alþingi er góðra gjalda vert en það á einfaldlega ekki við allan flotann. Hlutirnir eru bara ekki það einfaldir. Það er von um vaxtarbrodd í nótaflotanum með norsk-íslensku síldinni og það væri þjóðfélaginu í heild skaði ef þetta frumvarp fer óbreytt gegnum þingið.