Ferill 141. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 141 . mál.


156. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 28/1985, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Arnbjörg Sveinsdóttir, Sighvatur Björgvinsson,


Kristín Ástgeirsdóttir, Stefán Guðmundsson.



1. gr.


    12. gr. laganna orðast svo:
    Fella skal niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og virðisaukaskatt af efni og tækjum sem framleidd eru innan lands eða flutt sérstaklega til landsins til varna gegn ofanflóðum.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í ljós hefur komið að gildandi lagaákvæði mismuna innlendri og erlendri framleiðslu, efni og tækjum, til ofanflóðavarna. Í 12. gr. laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum er ákvæði um að fella skuli niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og sölugjald af efni og tækjum sem flutt eru sérstaklega til landsins til varna gegn ofanflóðum. Þetta er túlkað svo, sbr. meðfylgjandi bréf fjármálaráðuneytis til Veðurstofu Íslands, að ekki sé heimilt að innlend vara, efni eða tæki, fái sömu meðferð. Þar sem bersýnilega er ósanngjarnt að ívilna þannig innflutningi umfram innlenda framleiðslu er frumvarp þetta flutt.


Fylgiskjal.


Bréf fjármálaráðuneytis til Veðurstofu Íslands.


(11. október 1996.)



    Vísað er til erindis Veðurstofunnar, dags. 1. október 1996. Í erindinu kemur fram að stofnunin sé að kaupa mælitæki til mælinga á togálagi í stoðvirkjum á upptakasvæði snjóflóða á Siglufirði. Vakin er athygli á því að ef tækið er keypt erlendis frá falli aðflutningsgjöld og virðisaukaskattur niður, en sé tækið keypt hér á landi þurfi að greiða virðisaukaskatt. Stofnunin hafi hug á að kaupa togskráningartæki sem framleitt sé af íslensku fyrirtæki, Hugrúnu hf. Það fyrirtæki flytji hluta af framleiðslu sinni úr landi og hafi umboðsaðila í mörgum löndum og sé því unnt að panta tækið erlendis frá. Þess er óskað að ráðuneytið staðfesti að virðisaukaskattur leggist á mælitæki sem keypt eru hér á landi en ekki á tæki sem keypt eru erlendis frá. Jafnframt er óskað svars við því hvort eitthvað sé athugavert við að kaupa tækið af erlendum umboðsaðila íslensks fyrirtækis og þá jafnframt hvort nægilegt sé að reikningur vegna þeirra viðskipta sé tollafgreiddur.
    Ráðuneytið vill til svars við erindinu taka fram að skv. 12. gr. laga nr. 28/1985, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, skal fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og virðisaukaskatt af efni og tækjum sem flutt eru sérstaklega til landsins til varna gegn ofanflóðum. Heimild ákvæðisins til niðurfellingar virðisaukaskatts er því bundin við innflutt efni og tæki og nær samkvæmt því ekki til efnis og tækja sem framleidd eru hér á landi. Hvað varðar þá spurningu hvort nægilegt sé að reikningur vegna viðskiptanna sé tollafgreiddur þá mun þar vera átt við að tækið verði afhent beint frá hinum íslenska framleiðanda til Veðurstofunnar þrátt fyrir að varan sé keypt af erlendum umboðsaðila. Ráðuneytið vill í því sambandi benda á að skv. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er sala á vöru úr landi undanþegin skattskyldri veltu. Að mati ráðuneytisins getur vara ekki talist hafa verið seld úr landi nema hún hafi verið tollafgreidd til útflutnings. Samkvæmt því ber að skila virðisaukaskatti vegna sölu á vöru sem seld hefur verið til innlendra aðila í gegnum erlendan umboðsaðila hafi varan ekki verið tollafgreidd vegna útflutnings.
    Ráðuneytið telur því, með vísan til framansagðs, að ekki sé heimilt að fella niður virðisaukaskatt vegna kaupa á umræddu tæki, nema tækið hafi áður verið tollafgreitt úr landi og flutt inn á ný. Ráðuneytið mun hins vegar vekja athygli umhverfisráðuneytisins á því misræmi sem er í 12. gr. laga nr. 28/1985 hvað varðar heimild til niðurfellingar gjalda af innfluttum vörum annars vegar og innlendum vörum hins vegar og fara þess á leit að það ráðuneyti hafi frumkvæði að því að umræddu lagaákvæði verði breytt að þessu leyti.

F.h.r.



Guðrún Ásta Sigurðardóttir.


Bergþór Magnússon.